Tveir karlar í síðum frökkum
Kristín Þórarinsdóttir skrifar um fyrstu og síðustu minningar sínar af Steini sem barn
Fyrsta minning mín af Steini er líklega frá því ég var um fjögurra ára gömul. Þá áttum við heima á Selfossi og hann kom í heimsókn með Jóhannesi úr Kötlum. Ég var úti að leika mér þegar ég sá tvo karla í síðum frökkum koma gangandi frá sýslumannshúsinu. Þegar þeir komu nær sá ég að annar var Steinn. Ég minnist þeirra sitjandi í stofusófanum og það var hlegið óskaplega mikið.
Seinna spurði ég föður minn um þessa heimsókn þeirra sem sat svo sterkt í barnsminni mínu. Þá sagði hann að þeir hefðu verið eitthvað við skál og höfðu verið viðstaddir yfirheyrslur hjá sýslumanni. Einhver, sem var þeim líklega kunnugur, hafði tekið sokkbol ófrjálsri hendi á nafngreindum bæ í Flóanum og þeir óttuðst allan tímann að yfirheyrslurnar snerust í höndum sýslumanns þannig að hann yrði sjálfur dæmdur í stað þjófsins. Þarna hafa frásagnarhæfileikar Steins notið sín og kaldhæðnin vafalaust ráðið för.
Bragginn og tíkin Tuska
Önnur minning frá því ég var barn er úr bragganum sem Ásthildur og Steinn bjuggu í um tíma í Kamp Knox. Ég man reyndar ekki sérstaklega eftir Steini, miklu frekar hve undarlegt hús mér fannst þetta vera. Veggirnir náðu ekki til lofts og allt var svo ólíkt því sem ég hafði áður séð. Best man ég þó eftir húsi þeirra í Fossvoginum við Sléttuveg. Þangað kom ég oft og þangað var gott að koma. Hins vegar man ég ekkert sérstaklega eftir heimsóknum Ásthildar og Steins til okkar nema þegar eitthvað sérstakt var um að vera eins og þegar þau komu með tíkina Tusku sem löngu er orðin fræg vegna skrifa þeirra til borgarstjórans í Reykjavík til að fá að halda hund í Reykjavík. Þeim var þó neitað um það og Ásthildur kom niðurbrotin með hundinn í fóstur til mömmu. Tíkin var hjá okkur upp frá því.
Venjulegur hlýlegur karl
Steinn var mjög barngóður og minning mín um hann er aðeins góð. Ég þekkti aldrei þá mynd af honum sem gjarnan hefur verið haldið á lofti. Fyrir mér var hann bara venjulegur, hlýlegur karl. Hann spjallaði við mann og sagði manni sögur af dýrunum þeirra. Frá því ég man eftir mér var Steinn metinn að verðleikum í minni fjölskyldu. Tvö barna minna, Aðalsteinn og Ásthildur Kristín eru skírð í höfuðið á þeim hjónunum. Mamma og Steinn voru góðir vinir og ég man eftir bréfi frá Steini sem hann hafði skrifað henni líklega þegar hann var við vinnu á Sólbakka vestur á Flateyri. Bréfið byrjaði á þessum orðum: „Ó guð minn góður hvað það er gaman að þú skulir vera til“. Ég fékk reyndar aldrei að lesa bréfið til enda.
Sameiginlegt skjól
Frá því ég komst til vits og ára vissi ég að erfiðleikar höfðu verið í sambandi Steins og Ásthildar um tíma. Þau kynntust 1937–38. Þá var Ásthildur nýlega komin til Reykjavíkur eftir að hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Hún var yngst fjögurra systkina sem barnung misstu móður sína norður á Bergsstöðum í Svartárdal þar sem faðir þeirra var prestur. Ingibjörg móðir mín og Þorbjörg systir hennar voru komnar áður til Reykjavíkur og eftir að Ásthildur bættist í hópinn bjuggu þær allar saman að Lækjargötu 6. Þar söfnuðust gjarnan saman vinir þeirra og skólabræður og kölluðu þeir íbúð þeirra „Skjólið“. Flestir þeirra voru skólabræður Ásthildar úr Menntaskólanum á Akureyri. Í Skjólinu kynntust Ásthildur og Steinn þegar vinur hans kom eitt sinn með hann þangað.
Ást og aðskilnaður
Á þeim tíma sem Steinn og Ásthildur fóru að vera saman var Steinn bláfátækur og lífsstíll hans kannski ekki sá ákjósanlegasti fyrir tvítuga stúlku sem var að byrja lífið nýkomin úr skóla. Faðir Ásthildar og fleiri ættingjar höfðu áhyggjur af þessu ráðslagi og ráðlögðu henni að slíta sambandinu um 1940. Seinna veit ég að afi og Steinn urðu góðir vinir og Steinn mat hann mikils. Steinn og Ásthildur voru þó ekki aðskilin lengi og tóku saman aftur áður en langt leið. Ásthildur elskaði Stein út yfir gröf og dauða alla tíð en ég held að hann hafi verið lengi að fyrirgefa henni þetta. Árið 1943 varð Ásthildur ófrísk eftir Stein en hann var þá ekki tilbúinn að takast á við slíka ábyrgð og rofnaði samband þeirra aftur. Ásthildi leystist höfn er hún var talsvert langt gengin með og næstu ár urðu þeim báðum erfið.
Lítil laun fyrir skáldskap
Fljótlega eftir að Steinn kom heim frá Svíþjóð og Danmörku árið 1946 fóru þau Ásthildur að búa saman að Lækjargötu 6, þar sem móðir mín var þá gift, flutt austur fyrir Fjall og Þorbjörg farin til London. Eftir það vann Ásthildur fyrir þeim báðum því Steinn fékk lítið í aðra hönd fyrir skáldskap sinn. Um þetta leyti er Steinn að yrkja Tímann og vatnið. Auðséð er af ýmsum gögnum úr þeirra eigu að Ásthildur hefur aðstoðað Stein mikið við að vélrita ljóðin og skrifa upp fyrir hann hugmyndir að ljóðaheitum og fleira þess háttar.
Bókin sem aldrei var skrifað í
Ég man vel er ég sá Stein í hinsta sinn. Það var sumarið 1957 er ég var ásamt frænku minni Sólveigu Eggerz í Reykjavík í nokkra daga. Hún hafði búið alla tíð erlendis og við fórum því í heimsóknir til ættingja til að sýna okkur og sjá aðra. Við vorum með svona bækur, sem stelpur gjarnan áttu á þeim árum, þar sem fólk var látið skrifa nafn sitt og fæðingardag og einnig vísur sem þóttu hæfa manni. Mamma ráðlagði okkur að fara til Steins og láta hann yrkja fyrir okkur í bækurnar. Hann tók okkur mjög vel en var þá sjálfsagt farinn að finna fyrir þeim veikindum sem drógu hann til dauða. Hann sagðist ekki geta ort til okkar núna en hann skyldi gera það seinna. Sú stund kom þó aldrei því hann dó vorið eftir.
Kristín Þórarinsdóttir
Kristín Þórarinsdóttir er systurdóttir Ásthildar K. Björnsdóttur, eiginkonu Steins Steinarr. Hún lauk BA námi í íslensku frá Háskóla Íslands vorið 2005 með ritgerð um Tímann og vatnið. Kristín starfaði sem fjármálastjóri Fjölbrautaskóla Suðurlands í tæpan aldarfjórðung, en hætti störfum þar vorið 2011.