Þórarinn Magnússon
Þórarinn Magnússon byggingaverkfræðingur er stjórnarformaður Steinshúss ses og frumkvöðull þess að ráðist var í framkvæmdir að Nauteyri við Ísafjarðardjúp við uppbyggingu gamla samkomuhússins sem nú er orðið að safni tileinkað Steini Steinarr.
Það er vissulega erfitt að gera upp á milli þess mikla fjölda frábærra ljóða sem Steinn Steinarr hefur samið. En ég held ég velji ljóð Steins Barn (Ég var lítið barn og ég lék mér við ströndina…)
Fyrir mér er þetta undurfögur ævilýsing sem kallar fram hughrif sem erfitt gæti reynst að ná fram í löngum ljóðabálki. Og að hlusta á Ragnar Bjarnason syngja þetta frábæra ljóð og lag magnar áhrifin og gerir ljóðið ógleymanlegt.
Barn
Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tveir dökkklæddir menn
gengu fram hjá
og heilsuðu:
Góðan dag, litla barn,
góðan dag!
Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tvær ljóshærðar stúlkur
gengu fram hjá
og hvísluðu:
Komdu með, ungi maður,
komdu með!
Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tvö hlæjandi börn
gengu fram hjá
og kölluðu:
Gott kvöld, gamli maður,
gott kvöld!