Steinn Steinarr
Minningarorð við kistu hans í Fossvogskapellu 2. júni 1958 — eftir Sigurbjörn Einarsson
Rétta menn ekki út höndina, þegar allt hrynur? Eða hrópa menn ekki á hjálp, þegar þeir eru að farast? Eða grét ég ekki yfir þeim, sem átti illa daga, og hryggðist ekki sála mín vegna fátæklingsins? (Job 30, 24).
Svo mælti Job á sinni tíð, eins og segir í bók hans. Mundi það ekki vera eitt sem sker úr um það, hver maður þú ert, þetta, hversu djúpt þú getur fundið til?
Jobsbók glímir við vandamálið um dýpri rök þeirra atvika og örlaga, sem erfiðast er að skilja. Og hún bendir til sömu áttar um iausn og þessi spurning vísar til. Var það ekki svo um alla þá, sem eitthvað gáfu verulegt, að þeir urðu að heimta það úr djúpum, fæða það með þraut, vinna það úr tífstrega? Guldu þeir ekki þann unað, sem þeir veittu öðrum, við mikilli, oft hulinni raun? Voru ekki leiftrin, sem frá verkum þeirra stafar, að jafnaði sótt langt inn í myrkur? Þeir einir fundu perlur, sem köfuðu til botns.
En þeir, sem gengust undir þessa stóru kosti og mörkuðu spor í þann sand, sem hin mikla lest kynslóðanna fetar, þeir lifðu — og voru þó margir skammlífir, lifðu eitthvað satt, heilt og ósvikið, eitthvað, sem er svo miklu stærra en þau rúmhelgu viðbrögð, sem vér flestir hversdagsmenn þekkjum. Og það gaf þeim sjálfum í aðra hönd, það sem gerði þeim fært að standa undir því, sem á þeim hvíldi, og skila því, sem þeir voru krafðir um.
Skáldið er í þessum hópi, að köllun sinni til. Það, sem skáldið skilur eftir, lífið, sem varir í þessum heimi, þegar skáldið hnígur, ljóðið, listin, er eitthvað, sem greri upp af undum þess, frjóvgaðist við tár þess, þótt enginn sæi þau. Og allt hið verðmæta, sem mannkyn hefur eignazt, er sama ætternis.
Rétta menn ekki út hönd sína, þegar allt hrynur? Þeir voru margir, fyrr og síðar, sem sáu allt hrynja. En það vora fáir útvaldir, sem seildust út yfir hrun og tóm hins sýnilega og stundlega og komu með fyrirheit í hönd sinni, von í augum, trú. Það voru þeir, sem sáu í gegnum fallvelti þess, sem grunnfærnin byggir á, tál fánýtra muna, hégómleik hillinga, fals og feluleik manneskjunnar. Það voru fáir útvaldir, sem skynjuðu hjálparleysi mannsins á þann veg, að kynslóðir hlutu hjálp af þeirri skynjun. Og það voru fáir útvaldir, sem grétu yfir þeim, sem áttu illa daga, og hryggðust vegna fátæklingsins á þann veg, að það vakti samvizku mannkyns. Það, sem vér eigum af lifandi, hræsnislausri samkennd með böli og jákvæðum, undirhyggjulausum hjálparvilja, er vaxið af slíku tári og slíkri hryggð. Og þeir eru fáir, sem líða falslaust með samtíð sinni í ráðaleysi hennar, lifa vandkvæði hennar, þjást með vonlausum, kúguðum, ofsóttum, blindum. En framtíðin á von sína fólgna í þeim. Það eru þeir, sem eru ekki sáttir við hrun og tóm og traðk, meiningarleysi, auvirðileik og viðbjóð, sjá það grímulaust og svipta bað grímu.
Þeir, sem spyrja:
Hví ertu að efast
um þau einföldu sannindi,
að heimskan,
hungraðir verkamenn
og viðbjóðslegt göturykið
sé veruleikinn,
eilífur og óumbreytanlegur?
Þeir, sem geta sagt af nokkrum innri heilindum:
Allar heimsins sorgir eiga sér bústað
í brjóstum vorum.
Allur þungi mannlegra þjáninga
hvílir á herðum vorum.
En augu vor stara sem brennandi blys
gegnum myrkrið og auðnina,
langt, langt
inn í fegurð hins frelsaða heims,
langt, langt
inn í bjarmann af báli hins ófædda lífs.
Allt það, sem unnizt hefur á ferli mannsandans, og allt, sem unnið verður, var og er ábati af fórn. Og það veit Biblían betur en allar aðrar bækur samanlagt. Allt hennar fjölþætta líf hverfist um einn kjarna, þann konung hennar sem nefndur er „harmkvælamaður og kunnugur þjáningum“, „hinn líðandi þjónn allra“ og þess vegna einmitt sá, sem er frelsarinn. Kristin trú fæddist af kvöl, ljós hennar var slegið í myrkrið af klöppinni á Golgata, kirkjan lýtur krossfestum Drottni. Hans hróp út í myrkrið varð hjálp mannkyns.
Það er margur, sem hrópar á sama veg og hann: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig. Fleiri en vita eða við kannast. Má vera, að það sé hinn djúpi sári tónn í vitund vorrar samtíðar. Oft er meira af Guði í slíku hrópi, jafnvel orðvana og ógreinanlegu, en í mörgu háu hósíanna.
En það var einn, sem sagði þetta svo, að það gleymist aldrei, sagði það í skapandi fórn. Það var skapandi þraut guðdómsins sjálfs í því hrópi. Á þeirri stundu í þessum eina, var Guð að berjast til úrslita fyrir því að missa ekki manninn, gefast manninum, eignast manninn. Og þess vegna erum vér hér í dag, í bjarma af báli þess lífs, sem fæddist þá, í nánd hans, sem lifði og leið merkingu inn í meiningarlausa grimmd krossins og dauðans, í bjarma ljóss, sem er handan alls myrkurs, alls dauða. Því að um hvern kristin helgidóm og alla kristna boðun og þjónustu leikur endurskin af fegurð þess heims, sem kærleikur Guðs í Jesú Kristi hefur opinberað og frelsað oss til.
II
Steinn Steinarr er ekki lengur vor á meðal.
Að lokum eftir langan, þungan dag
er leið þín öll
sagði hann forðum, og nú er það orðið.
En hann sagði líka: Ég var aðeins til í mínu ljóði. Og þar er hann. Í ljóði hans er líf, sem ekki deyr með honum, þar lifir Steinn Steinarr meðan íslenzk tunga lifir.
Vér getum að vísu ekki dæmt um það á þessari stundu til neinnar hlítar, hver hann verður, skáldið, að mati þeirra, sem á eftir koma. Bylting tímans birtir ekki allt, og vér vitum aldrei fyrirfram, hverjum hún finnur upp á að bæta hundraðfalt. Og aldrei hefur hann sjálfur spurt: Hvað verður um mig sagt liðinn, hvernig dæmir framtíðin um það verk, sem ég læt eftir? Hann var það, sem hann var, og gat ekki annað verið — það var köllun hans, sem hann laut í sinni hetjulegu auðmýkt, sinni hóglátlegu óbilgirni. Hann hafði engan spurt, hvorki alinn né óborinn, hver hann var eða ætti að vera.
Ég hef séð haft eftir Goethe, að hann hafi sagt, aldraður og mettur af lofi og vegtyllum: „Ég spurði mig aldrei: Hvað vill fjöldinn? Ég spurði hins eins: Hvað vill röddin, sem knýr mig og markar mér braut?“ Mikið skilur þessa tvo, hofmanninn í Weimar og Daladrenginn, einfarann Stein. En þetta hefði hann getað sagt af eins þegnlegum heilindum við gyðju sína og hinn frægi skáldbróðir, þótt hann hefði vissulega sagt það með öðrum hreimi, sínum persónulega blæ og broddi.
Og hvernig sem hann kann að tala til framtíðarinnar, þá var hann meðal samtíðarmanna sinna sá, sem náði furðulegu lífi úr streng sínum, nýjum, óvæntum tóni, sem vakti djúpan enduróm. Og þeirri kynslóð, sem lifði Stein Steinarr, er erfitt að horfast í augu við það, að strengur hans sé brostinn. Hann kom og kvaddi sér hljóðs með ókennilegu háttalagi. Og eftir nokkurt hvim og hik hafði samtíðin áttað sig á því, að hann fól og tjáði í undarlegum brag sínum eitthvað, sem bjó dýpst í sefa hennar sjálfrar, eitthvað, sem var fólgið innst í leit hennar og þrá, hann orðaði þá gátu, sem hún var sjálfri sér, á sannlegri og nærfærnari hátt en aðrir, hann túlkaði ugg hennar og tvíræða útsýn, hann hjálpaði henni til þess að skynja eigin æðaslög, opinberaði nokkuð af sálu hennar í þeirri nekt og örbirgð sem að nokkru leyti er auðlegð hennar, eða gæti orðið það.
III
Og ég var aðeins til í mínu ljóði.
Var hann þar allur?
Það er enginn allur í sínu ljóði, hversu miklu af sjálfum sér, sem hann miðlar, hversu miklu, sem hann skilar um farvegi hendinga sinna. Steinn ekki heldur og ef til vill mörgum síður. Hann tjáði sig aldrei allan, engum. Og það er meira í einum manni en nokkurt ljóð fær tjáð. Hið sannasta kvæði er aldrei annað en hálfkveðin vísa, miðað við allt, sem inni fyrir býr, einn tónn af mörgum. Hann getur verið hinn ómríkasti, tærasti, fyllsti, og hann getur túlkað það frábærlega vel, sem vill brjótast fram á stundu sköpunarinnar, en hann nær því sjaldan til fulls. Það er löngum eitthvað handan orðanna, handan formsins, sem andann grunar, en nær ekki tökum á, eitthvað, sem hugur skynjar, en fær ekki túlkað. Og stundum dyljast menn í orðum sínum en opinbera ekki.
Steinn Steinarr var dulur. Um annað mikið skáld var sagt: „Hann var bæði of sterkur í sjálfstæðiskennd sinni til þess að gangast nokkru sinni undir nein merki, og of viðkvæmur og dulur um leyndardóma síns innra lífs til þess að opna sig í neinum meira eða minna opinskáum játningum“.
Ég hygg, að þetta væri líka satt um Stein.
Það var andlit mín sjálfs,
en þið sáuð það aldrei,
því ég málaði yfir það,
sagði hann. Enginn var fjær því að vilja sýnast en hann. Og einmitt þess vegna var það, að hann málaði yfir, stundum með hrjúflegu handbragði. Og mig grunar, að hann hafi gert það líka í ljóðum sínum. Þau voru sönn allt um það og líf af hans innsta lífi. Honum fannst hann ekki geta með öðru móti verið sannur gagnvart mönnunum né sjálfum sér trúr.
Maðurinn er eitt, verkið annað, hversu mikið, sem í því felst af sæld og þraut og sál höfundar síns. En í játningu Steins um það, hvernig líf hans var fólgið í ljóðinu, kemur fram meðvitund hans um það pund sem honum var fengið, og sú lotning, sem hann bar fyrir skáldköllun sinni. Í þjónustu hennar gekkst hann undir miskunnarlausa sjálfsögun og laut hörðu, ósveigjanlegu sjálfdæmi. Í list sinni mátti hann engu una, sem var litlu goldið, auðsótt, nærtækt, áreynslulítið. Það eitt var gilt, sem var ferskt í framrás sinni skírt úr deiglunni og þannig tjáð, að það hafði ekki verið áður sagt.
Þannig lifði hann merkingu tilveru sinnar. Og þegar hann að lokum stóð einn við hinar luktu dyr og hvarf um þær úr augsýn, hafði hans visni armur og viðkvæma lund auðgað þjóðina að nokkrum fágætum, djúpsóttum og þrautslípuðum eðalsteinum og í töfrum þeirra lifir Steinn Steinarr með þjóð sinni. Og það er ekkert „aðeins“ — þar lifir hann miklu lífi, óyfirsjáanlega miklu, sakir áhrifa sinna á næstu skáldakynslóð. Hann markaði spor brautryðjandans, tímamótamannsins, spor, sem ekki hverfur í sandinum.
IV
En hann var ekki aðeins til í ljóði sínu. Samtímamenn geyma mynd af óvenjulega lifandi og sérstæðum persónuleika, sem er einn hinn minnisstæðasti, sem uppi var um vora daga. Og á þessari kveðjustundu hér er það ekki fyrst og fremst skáldið Steinn Steinarr, sem vér hugsum til, hann eigum vér áfram allir jafnt, svo í framtíð sem nútíð. Vér hugsum um manninn, sem er horfinn. Skáldið, sem í ljóðinu óf líf anda síns inn í líf þessarar þjóðar, hann var einnig til sem barn móður sinnar, vinur vina sinna. Hann var einnig til sem sá Steinn, sem vér mættum til og frá á förnum vegum og hneyksluðumst á honum og dáðum hann, smáðum hann og elskuðum hann, veikbyggður maður að sjá og hrösull í spori, en flestum hugaðri, flestum geiglausari, alltaf hreinskiptinn, alltaf sjálfum sér samkvæmur, alltaf „ekta“. Hann var einnig til sem ástvinur þeirrar góðu heilladísar, sem gerðist eiginkona hans, gaf honum líf sitt og átti þar allan fjársjóð hjarta síns, sem hann var. Og hann var til sem það karlmenni, sem í langri og þungri sjúkdómsraun lét aldrei á sjá, lét aldrei kjark sinn né fölskvaði heiða blikið í sínum skæru, bláu augum.
Vér kveðjum þennan Stein og söknum hans og vér þökkum það, sem hann var og ekki aðeins það, sem hann vann.
Strengur er brostinn í hörpu ljóðalandsins, en ómur hans deyr ekki út meðan íslenzk eyru heyra. En andinn, sem knúði þann streng, maðurinn minnistæði, hinn sérstæði einstaklingur, hvað um hann nú?
Hann var ekki aðeins til í sínu ljóði og ekki aðeins í hugum þeirra manna, sem minnast hans og trega hann. Maðurinn er meiri en verk hans, andinn meiri en það, sem hann skapar, lífið meira en ljóðið. Vegna hvers? Vegna þess, að það er hugur á bak við hvert hverfult líf, eilíf vitund, eilíf baktrygging að baki hins „einskisverða manns“. Væri það ekki satt, þá væri ekkert til í raun og veru, nema dauðinn, allt annað tálsvipir einir á grafarbarmi, öll hin svonefnda tilvera ein fáránleg feilnóta upp úr dauðu gapi eilífs tóms.
Lífssögu er lokið. En
Það stendur af sér allra veðra gný
í annarlegri þrjózku, veilt og hálft,
með ólán sitt og afglöp forn og ný,
hinn einskisverði maður: Lífið sjálft.
Þetta er satt, en þó aðeins að því tilskildu, að ljóð lífsins eigi höfund, eilífa hugsun að baki sér. Og sú annarlega þrjózka, sem er ekki aðeins blint viðnám við ómótstæðilegri sókn dauðans og fyrirsjáanlegum, endanlegum sigri hans yfir öllu dufti og öllum anda líka, heldur vitandi sókn, sigrandi, guðdómlegt lífsafl, heitir trú, líf, andi og sannleikur Jesú Krists, hið himneska, eilífa „þrátt fyrir allt“. Hún er augað, sem eitt sér gegnum myrkrið og auðnina.
Ég kveð þig, bróðir, við blik þeirrar trúar, fel þig honum, sem hjartað skóp og skilur og engum bregzt. Í Jesú nafni, amen.
Birtist í Lesbók Morgunblaðsins — 20. tbl. 15.06.1958
Sigurbjörn Einarsson
Sr. Sigurbjörn Einarsson (F.30. júní 1911. D. 28. ágúst 2008) var biskup Íslands frá 1959 til 1981. Sigurbjörn lauk stúdentsprófi frá MR árið 1931 og nam almenn trúarbragðavísindi, klassísk fornfræði og sögu við Uppsalaháskóla. Hann lauk þaðan prófi í grísku, fornfræðum og sögu árið 1936 og hlaut cand. fil. gráðu frá heimspekideild Stokkhólmsháskóla árið 1937. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1938. Sigurbjörn stundaði framhaldsnám í nýja-testamentisfræðum við Uppsalaháskóla 1939, í trúfræði við Háskólann í Cambridge sumarið 1945 og framhaldsnám veturinn 1947–48, meðal annars í Basel. Sigurbjörn samdi og þýddi mörg ritverk. Þar má nefna Trúarbrögð mannkyns, Opinberun Jóhannesar – skýringar, ævisögu Alberts Schweitzer og kennslurit um trúarbragðasögu og trúarlífssálfræði. Hann gaf einnig út fjölda bóka með greinum, predikunum og hugvekjum og samdi og þýddi fjölda sálma í Sálmabók kirkjunnar.