Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt

Líf og listsköpun Steins Steinarr á tilurðarárum Tímans og vatnsins – eftir Kristínu Þórarinsdóttur

Á árinu 2008 verða margvísleg tímamót er varða lífshlaup Steins Steinarr. Þann 13. október eru liðin hundrað ár frá fæðingu hans 0g 25. maí er hálf öld liðin frá dánardægri hans. Um næstu áramót eru sextíu ár liðin frá útkomu fyrri gerðar Tímans og vatnsins. Þá má einnig nefna að í sumar eru tíu ár liðin frá andláti ekkju hans, Ásthildar K. Björnsdóttur, en við lát hennar bárust mér í hendur margvísleg gögn úr búi þeirra. Þar á meðal voru ýmis hand- og vélrit að ljóðum Steins, bækur úr eigu hans, örfá bréf og ýmsir persónulegir munir. Markverðast þessara gagna er vélritað kvæðasafn í fallegu bandi með 10 ljóðum eftir Stein, myndskreytt af Þorvaldi Skúlasyni. Bókin ber heitið Dvalið hjá djúpu vatni og hefur verið talin frumgerð Tímans og vatnsins. Hún hefur þó aldrei verið gefin út svo að þetta er eina eintakið, sjálf frumgögnin innbundin og árituð til Ásthildar frá Ragnari í Smára á greftrunardegi Steins. Þá kom skemmtilega á óvart lítil vasabók eða almanak frá árinu 1946 þar sem Steinn hefur hripað með blýanti þrjú erindi úr síðasta ljóði Tímans og vatnsins. Bæði orðavali og röð ljóðlína hefur verið breytt í endanlegri gerð.

Þetta kveikti mér löngun til skoða ljóðin í Tímanum og vatninu í ljósi þess sem ég varð vísari og horfa um leið til lífs Steins á þessum tíma. Á þeim árum, sem verkið var í mótun, gekk Steinn í gegnum stormasamt tímabil í lífi sínu. Þau ljóð, ásamt öðrum ljóðum birtum og óbirtum sem Steinn orti á þessu sama tímabili, vitna um mikil innri átök.

Tíminn og vatnið er til í tveimur gerðum og fyrri gerðin, alls þrettán ljóð, kom út nálægt áramótum 1948–1949 í kjölfar nokkurra ára lægðar á skáldskaparferli Steins. Sjö árum síðar voru ljóðin orðin tuttugu og eitt og birtust í ljóðasafninu Ferð án fyrirheits 1956. Formgerðin breytist nokkuð milli þessara tveggja gerða og heildarmyndin skýrist. Öll bygging verksins styður þá kenningu að það endurspegli erfiða ferð einstaklings frá sársauka og örvæntingu til friðar og jafnvægis. Þannig fæst ákveðin heildarsýn á verkið. Ljóðin sem Steinn bætti inn í verkið í lokagerð og önnur sem hann færði til innan þessara tveggja gerða styðja hana einnig. Hér er því haldið fram að með 6. ljóði fyrri gerðar og því 14. í lokagerð verði hvörf í verkinu. Ljóðmyndirnar á undan hvörfunum sýna átök, einmanaleika og söknuð, en á eftir hvörfum er eins og risið sé upp til nýs lífs og jafnvægi er yfir ljóðmyndunum.

Lífsbarátta og samtími

Frá tveggja ára aldri ólst Steinn upp hjá vandalausum við misjafnt atlæti. Foreldrar hans voru fluttir hreppaflutningi með börn sín ung vestur í Dali þar sem faðir hans átti sveitfesti. Að auki veiktist hann ungur, líkast til af lömunarveiki, og var önnur hönd hans visin og gagnslítil upp frá því. Það blés því ekki byrlega þegar hann kom snauður af veraldargæðum til Reykjavíkur um 1930 og gat lítt stundað líkamlega vinnu. Hann var ekki mikils metinn af samborgurum sínum og fann mjög til þess. Hann brynjaði sig gjarnan með háði og faldi þannig sársaukann.

Jón Þórarinsson varpar ljósi á aðstæður Steins á þessum árum og fjallar um leið um líðan þeirra ungu manna sem komu af landsbyggðinni og voru að fóta sig í hörðu samfélagi borgarinnar:

Uppi á háalofti í húsi einu við Ingólfsstræti bjuggu þrjár prestsdætur að norðan, Ásthildur Björnsdóttir bekkjarsystir mín úr Menntaskólanum á Akureyri sem síðar varð kona Steins og systur hennar. Íbúð þeirra köllum við „Skjólið“. „Þar var hlýtt athvarf og þangað komu oft fáeinir bekkjarbræður Ásthildar. Og þar kynntist ég Steini, ekki aðeins skáldinu sem einatt faldi viðkvæmni sína og sársauka bak við nokkuð kaldranalegt orðalag, heldur einnig manninum ógrímuklæddum, því að þannig ræddust menn stundum við í Skjólinu. Það var langt frá því að skáldskapur Steins nyti almennrar viðurkenningar á þessum tíma, og víst fannst honum hann vanmetinn þótt ekki viki hann að því í ljóði nema í hálfkæringi. 1Jón Þórarinsson 1994:26.

Í ljóðinu Sjálfsmynd birtist hinn ógrímuklæddi maður eitt andartak:

Ég málaði andlit á vegg
í afskekktu húsi.
Það var andlit hins þreytta og sjúka
og einmana manns.
Og það horfði frá múrgráum veggnum,
út í mjólkurhvítt ljósið
eitt andartak.
Það var andlit mín sjálfs,
en þið sáuð það aldrei,
því ég málaði yfir það.

(Ljóð 1938:66)

Í verkum Steins er mikil samsvörun milli inntaks ljóðanna og lífsbaráttu hans sjálfs. Í fyrstu ljóðabókinni, Rauður loginn brann (1934), birtist ungt, reitt baráttuskáld, andsnúið heiminum. Bókin er, eins og nafnið gefur til kynna, innblásin rauðum loga þjóðfélagslegs byltingarhugar sem síðar hverfðist í hvítan, tærðan loga angistarinnar eins og Sveinn Skorri Höskuldsson kemst að orði í Ljóðarabbi. 2Sveinn Skorri Höskuldsson 1989:92. Önnur bók Steins, Ljóð, kom út árið 1937 þar sem tilgangsleysi og einsemd einkenna mörg ljóðin. Næstar koma Spor í sandi (1940) og Ferð án fyrirheits (1942) þar sem spurningar um tilvistarleg rök lífsins verða enn áleitnari. Ætla má að sársaukinn í ljóðum Steins hafi ekki einungis átt rætur í erfiðum aðstæðum hans sjálfs. Hann var af þeirri kynslóð sem óx úr grasi og lifði í skugga tveggja heimsstyrjalda. Sjálfsagt má að einhverju leyti rekja þangað það vonleysi sem einkennir lífsviðhorf Steins. Slíkt vonleysi verður varla orðað betur en í ljóði hans Formáli á jörðu:

Út í veröld heimskunnar,
út í veröld ofbeldisins,
út í veröld dauðans
sendi ég hugsun mína
íklædda dularfullum,
óskiljanlegum
orðum.
[…]

(Kvæðasafn og greinar 1964:214)

Hverfum til áranna 1943–1944, þegar fyrstu ljóð Tímans og vatnsins eru að verða til. Sveinn Skorri segir „… að ljóðin í Tímanum og vatninu séu ávöxtur djarflegri glímu við eigin vandamál og tilverurök en kvæði skáldsins í eldri bókum“. 3Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:155. Út frá því ætla ég að ganga og skyggnast örlítið inn í þetta tímabil í lífi Steins. Hann hafði, þegar hér var komið sögu, líklega beðið tvö skipbrot í ástarmálum ef marka má þær heimildir sem ég hef undir höndum. Ásthildur og Steinn höfðu verið í föstu sambandi á árunum 1938–1940. Þau höfðu ólíkan bakgrunn og höfðu búið við ólíkt atlæti í uppvextinum. Ásthildur var prestsdóttir norðan úr Húnavatnssýslu. Þegar hún kom ung til Reykjavíkur hafði hún lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og settist svo einn vetur í Háskóla Íslands. Steinn var bókhneigður frá barnæsku og þráði að ganga menntaveginn en aðstæður hans leyfðu ekki slíkt. Hann fór einn vetur að Núpi í Dýrafirði en átti ekki kost á frekara námi.

Steinn var níu árum eldri en Ásthildur. Harðræðið hafði mótað hann og eftir að hann kom til Reykjavíkur hafði hann oft ekkert húsaskjól og þurfti að leita ásjár vina eða kunningja. Að auki var hann talsvert drykkfelldur þótt Ásthildur hafi ætíð gert lítið úr slíkum orðrómi og sagt hann orðum aukinn. Hann hefur því tæpast þótt álitlegt mannsefni á viðsjárverðum tímum. Gegn eigin tilfinningum fór Ásthildur að ráðum föður síns og annarra ættingja og sleit sambandi við Stein. 4Þorbjörg Björnsdóttir, munnleg heimild. Hún virðist þó aldrei hafa fyrirgefið að fullu, hvorki sjálfri sér né öðrum, þennan aðskilnað. Í blaðaviðtali við Elísabetu Jökulsdóttur segir hún:

Nei, ég er ekki sátt við að hafa látið aðra hafa áhrif á mig, fyrst þegar við Steinn kynntumst þannig að samband okkar rofnaði um skeið. Hvort það hefði breytt einhverju? Ég held að okkur hefði liðið betur. Það misheppnaðist að eignast barn en það varð að taka því. Ég sé frekar eftir hinu hvað ég var áhrifagjörn þarna fyrst. En það var svo margt erfitt í þessu. Fátæktin var svo mikil. Steinn gat ekki unnið líkamlega vinnu með góðu móti og hann var líka slíkur andans maður að líkamleg vinna höfðaði aldrei til hans. 5Elísabet Jökulsdóttir 1990:67.

Mér varð ljóst, er ég fór að afla upplýsinga um þessi ár í lífi þeirra, að eitthvað hefur verið látið liggja í þagnargildi sem ef til vill hefur haft meiri áhrif á líf þeirra en almennt er vitað. Frá barnæsku hafði ég óljósa vitneskju um að Ásthildur hefði ung misst fóstur og erfiðleikar og sorg fylgt í kjölfarið. Reyndar gefur hún það í skyn í orðunum hér á undan. Þá má einnig skilja af orðum hennar að samband þeirra Steins hafi rofnað í þetta eina skipti og þá fyrir tilstuðlan annarra. Í hug mér tengdust saman aðskilnaðurinn og fósturlátið en dæmið gekk ekki upp þegar ég sá að þau skildu að skiptum svo snemma, en fósturlátið átti sér stað nokkrum árum síðar. Er ég fór að leita skýringa á þessari tímaskekkju komst ég að raun um að Ásthildur gerir þarna tvo atburði að einum.

Skömmu eftir að þau Steinn skildu að skiptum kynntist hann myndlistarkonunum Nínu Tryggvadóttur og Louisu Matthíasdóttur er hann fór að sitja fyrir hjá þeim stallsystrum. Ekki er ljóst hve mikil alvara var í ástarsambandi Steins og Louisu. Ef marka má þær heimildir sem Gylfi Gröndal byggir á var Steinn mjög hrifinn af Louisu og ætlaði að fara á eftir henni til Ameríku 1942, en var neitað um vegabréfsáritun. Sögusagnir voru um að faðir Louisu hefði jafnvel haft þar einhver áhrif. 6Gylfi Gröndal 2000:318. Kannski hefur samband þeirra aldrei átt tilvist utan draumsins. Hvernig sem það hefur verið er ljóst að viðhorfin í samfélaginu voru Steini ekki hliðholl og hægt að gera sér í hugarlund að undan hafi sviðið. Honum virðist hafnað í báðum tilvikum vegna almennt neikvæðra viðhorfa gagnvart honum.

Steinn og Ásthildur hafa þó ekki verið aðskilin mjög lengi því hún varð ófrísk eftir hann á haustdögum 1943, eftir því sem næst verður komist. Hann virðist þá ekki tilbúinn til slíkrar ábyrgðar og eflaust ekki búinn að fyrirgefa henni fyrri höfnun. Þau skildu því aftur að skiptum og í þetta sinn án afskipta annarra. 7Ingibjörg Ólafsdóttir, munnleg heimild. Í þrengingum sínum leitaði Ásthildur á náðir gamals vinar og vonbiðils norðan úr landi sem trúlofaðist henni og ætlaði að ganga barninu í föðurstað. Geta má nærri að það hafi ekki síður verið Steini erfið lífsreynsla er Ásthildur flúði á náðir annars manns sem ætlaði að taka að sér skyldur hans. Hún var komin talsvert langt á leið er henni leystist höfn, snemma árs 1944. Fljótlega eftir það sleit hún trúlofuninni. 8Ólafur Ólafsson / Þorbjörg Björnsdóttir, munnlegar heimildir.

Þessir atburðir gerast á sköpunarárum Tímans og vatnsins og hafa án efa haft áhrif bæði á Stein sjálfan og verk hans. Líklega var hann að reyna í fyrsta sinn, að gerðar væru skilyrðislausa kröfur til hans um ábyrgð og skyldur sem ekki yrðu um flúnar. Slíkt hefur án efa hentað Steini illa. Skýrt dæmi um líðan hans á þessum árum er ljóð sem hann birti ekki sjálfur í ljóðabókum sínum, en birtist fyrst í Ljóðasafni 1991 undir heitinu „Augu mín“. Þar falla bæði bragform og minni að ljóðum Tímans og vatnsins og „fjall tímans í framréttri hendi“ kallast á við fjallið sem höndin sprengir í 14. ljóði verksins:

Augu mín týndust í hafið
og hafið rann burt
yfir hendur mínar.

Upp af svefnþungum gróðri
saltsins og dimmunnar
stígur þung angan
hins óskiljanlega.

Eins og fleygmyndaður veggur
rís fjall tímans
upp af flötum lófa mínum.

Á botni djúpsins
stend ég blindur og einn
með fjall tímans
í framréttri hendi.

(Ljóðasafn 1993:277)

Víst er að á þeim árum sem Steinn var að yrkja ljóðin í Tímanum og vatninu hafði hann beðið tilfinningalegt skipbrot og í kjölfarið lent í djúpum sálarlegum öldudal:

Var það ekki svo um alla þá, sem eitthvað gáfu verulegt, að þeir urðu að heimta það úr djúpum, fæða það með þraut, vinna það úr lífstrega? Guldu þeir ekki þann unað, sem þeir veittu öðrum, við mikilli, oft hulinni raun? Voru ekki leiftrin, sem frá verkum þeirra stafar, að jafnaði sótt langt inn í myrkur? Þeir einir fundu perlur, sem köfuðu til botns. 9Sigurbjörn Einarsson 1958.

Þessi samlíking séra Sigurbjörns Einarssonar við Jobsbók, sem hann talaði út frá við kistu Steins, á vel við um það tímabil í lífi Steins sem hér er til umfjöllunar. Án efa er kveikjan að ljóðunum í Tímanum og vatninu sótt í myrk djúp sálarlegrar örvæntingar.

Tilvistarvandi og erlend áhrif

Ýmsir hafa velt fyrir sér hvort tilvistarheimspeki Steins hafi verið heimatilbúin eða lærð. Engan þarf að undra þótt hugmyndir módernismans hafi fallið vel að lífssýn Steins því aðstæður hans voru slíkar frá blautu barnsbeini. Hann féll strax í æsku illa að þeim skyldum sem honum voru ætlaðar og fátækt og einsemd voru förunautar hans mest allt lífið. Steinn fór utan til Danmerkur og Svíþjóðar í stríðslok 1945. Á þeim tíma var módernisminn í ljóðagerð að ná fótfestu á Norðurlöndum og má kenna margvíslegra áhrifa frá honum í Tímanum og vatninu. Til dæmis hefur hið óræða form módernismans vafalaust hentað vel til að tjá innstu tilfinningar án þess að opinbera þær með augljósum hætti.

Ýmsar bækur úr búi Steins vitna um áhugasvið hans á þeim árum sem hann er að vinna að Tímanum og vatninu. Má þar nefna bækur eftir James Joyce, en Steinn hefur átt Ulysses í útgáfu frá 1934 á ensku og einnig sænska þýðingu frá 1946. Ýmsar listaverkabækur með list módernískra myndlistarmanna voru einnig meðal bóka úr eigu hans. Þar var einnig Bókin um veginn eftir Lao-tse, en mér er ekki örgrannt um að áhrifa gæti víða frá henni í Tímanum og vatninu. Þá hefur hann átt The Philosophy of Existence eftir Gabriel Marcel frá 1948, þar sem fjallað er um hugmyndir Jean-Paul Sartre og fleiri tilvistarspekinga um ábyrgð og frelsi einstaklingsins í guðlausri veröld. Einnig hefur hann átt sænska þýðingu bókarinnar L’existentialisme est un humanisme eftir Sartre frá 1946.

Þessar bækur benda til þess að Steinn hafi verið að kynna sér Sartre á þessum árum. Ingi Bogi Bogason ber saman ýmsa þætti hjá Steini og Sartre:

Steinn dregur upp svipaða mynd af manninum: einangruðum í athöfnum sínum og ábyrgð. Ólíkt með þeim Sartre er að maðurinn hjá Steini er þolandi í spilverki sem hann ekki skilur. Sartre gerir hins vegar þá kröfu að hinn frjálsi maður sýni ábyrgð og takist af einurð á við tilveru sína. 10Ingi Bogi Bogason 1986:114.

Segja má að bæði líf Steins og ljóð hafi að ýmsu leyti endurspeglað flótta frá því að takast á við hlutverk mannsins. Því eiga þessi orð Inga Boga vissulega við um fyrri ljóð Steins en með Tímanum og vatninu verður breyting á. Átökin þar eiga sér stað í eigin vitund ljóðmælanda og lausnir ef einhverjar eru felast í úrvinnslu hans sjálfs. Hann birtist ekki sem þolandi lengur heldur beinir sjónum lesanda strax í fyrsta erindinu inn í vitund sína þar sem maðurinn stendur einn andspænis sjálfum sér og leitar jafnvægis. Ábyrgð og úrlausnir eru hans. Í einu handriti úr fórum Steins sést að á ákveðnu vinnslustigi Tímans og vatnsins mátaði hann nafnið 13 jafnvægisæfingar á ljóðaflokkinn. Það er því augljóst að átökin í Tímanum og vatninu snúast um innri baráttu, sjálfa spurninguna um það að vera maður.

Margir Íslendingar voru í Stokkhólmi á þeim tíma sem Steinn dvaldi þar. Þeirra á meðal voru Magnús Ásgeirsson vinur Steins, Hannes Sigfússon og Jón úr Vör. Jón leigði herbergi hjá Bergi Pálssyni góðvini Steins. Íbúð Bergs varð þarna vettvangur íslenskra skálda. 11Sbr. Gylfa Gröndal 2001:43–44. Ragnar í Smára kostaði ferð Steins og hélt honum uppi gegn loforði um að hann skilaði af sér ljóðabók. Skáldgyðjan virðist þó ekki hafa verið með í för og Steini varð lítið úr verki.

Margt er til marks um að T.S. Eliot hafi verið í miklum metum hjá Steini enda talinn eitt áhrifamesta skáld módernismans á 20. öld. 12Eysteinn Þorvaldsson 1980:36. Steinn virðist hafa lagt sig fram um að skilja hann til hlítar ef marka má þær heimildir sem til eru. Eliot glímdi á tímabili við svipað framtaksleysi og Steinn sem hann kallaði viljadoða (aboulie) og lýsti sér í missi viljaþreks og getu til að taka ákvarðanir. Hann þurfti á aðstoð geðlæknis að halda til að brjótast úr þeirri deyfð. 13Sverrir Hólmarsson 1990:75. Ef til vill býr svipað að baki hjá Steini er hann segir:

Og líf mitt stóð kyrrt
eins og kringlótt smámynt,
sem er reist upp á rönd.

(Ferð án fyrirheits 1956:196)

Steini hreifst mjög af The Waste Land eftir T.S. Eliot og að sögn vinar hans, Bergs Pálssonar, lærði hann utan að hendingar úr því á sænsku og fór gjarnan með þær. 14Gylfi Gröndal 2001:54. Þetta kvæði Eliots, sem Steinn sjálfur kallaði í viðtali „guðspjall 20. aldarinnar“, 15Steinn Steinarr 1964:32. var umdeilt og hafa túlkanir þess verið margvíslegar, eins og Sverrir Hólmarsson bendir á: „Lengi vel tíðkaðist mest að túlka það sem napra krufningu á sjúkri samtíð en í seinni tíð hafa margir hallast að því að lesa það sem persónulega tjáningu manns sem er staddur í sálar- og trúarkreppu.“ 16Sverrir Hólmarsson 1990:76. Ef til vill hefur Steinn fundið líðan sinni farveg í þessu ljóði og það hefur jafnvel orðið honum hvatning til dáða. Eliot leit á sál og líkama sem ósættanlegar andstæður og þráði að frelsa sálina úr viðjuni líkamans. Það ef athyglisvert að skoða samsvörun í lífi þessara tveggja skálda því báðir virðast hafa haft víðara skynsvið en almennt þekkist og er kannski forsenda skáldskapargáfunnar. Sverrir Hólmarsson segir um Eliot:

Þar var fyrst sjálfur tíminn, sem hélt honum föngnum og olli hrörnun og rotnun alls sem lifði. Hann þráði að losna úr fjötrum tímans og að endingu varð hann fyrir uppljómun dag einn í Boston, árið 1910. Hann var á gangi um göturnar þegar honum fannst þær skyndi lega skreppa saman og leysast upp og um leið hurfu honum allar hvunndagsáhyggjur, bæði út af fortíð og framtíð, og hann var umlukinn mikilli þögn. Um þessa reynslu orti hann ljóðið Þögn, sem hann birti aldrei, en að samskonar uppljómun leitaði hann æ síðan. 17Sverrir Hólmarsson 1990:65.

Tíminn var Eliot umhugsunarefni rétt eins og Steini en í Tímanum og vatninu má að mínum dómi sjá svipaða frelsun sálarinnar og hjá Eliot. Tími og rúm eru grundvallarform allrar mannlegrar skynjunar. Líklega er leit, bæði Steins og Eliots, fólgin í því að brjótast undan svo þröngri sýn. Báðir vilja ná út fyrir mörk tíma og rúms.

Þótt margt sé til marks um hrifningu Steins á ljóðum Eliots er þó ekki um mikinn sýnilegan skyldleika að ræða milli Tímans og vatnsins og The Waste Land. Þó eru til í Landsbókasafni handrit úr fórum Steins þar sem fram koma hugmyndir að nafngiftum kvæðanna í Tímanum og vatninu sem eru tengdar helgiog goðsögnum. Sveinn Skorri Höskuldsson hefur sýnt fram á að þessi heiti eiga sér flest fyrirmyndir í The Waste Land. 18Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:187. Steinn hvarf þó frá þessum heitum. Þótt ljóð þessara tveggja skálda séu ólík gætu uppsprettur þeirra verið af svipuðum toga. Steinn átti ekki sömu trúarvissu og Eliot því sá sem leitar guðs grípur gjarnan í tómt hjá Steini. Í Tímanum og vatninu tel ég þó að það viðhorf breytist einnig.

Annar ljóðaflokkur Eliots, Four Quartets, er ekki síður athyglisverður í samanburði við Tímann og vatnið. Þótt ég hafi ekki fundið neinar vísbendingar um að Steinn hafi haft það kvæði undir höndum má heita næsta víst að hann hafi lesið það sem út kom eftir Eliot á þeim tíma sem hann hreifst mest af skáldskap hans. Þessi ljóðabók Eliots kom út 1943 19Eliot 1952. Fyrsta ljóðið í þessum flokki, „Burnt Norton“, kom út nokkrum árum fyrr, 1936. og margt kallast þar á við Tímann og vatnið eins og vitundin, tíminn og eilífðin. Þá er í þessu ljóði Eliots unnið með frumefnin fjögur, jörð, eld, vatn og loft, eða höfuðskepnurnar sem eru undirstaða alls lífs samkvæmt forngrískum kenningum. Heimssýn Eliots er ekki mjög björt í þessu kvæði en hann eygir þó eins og áður von í trúnni á kristindóminn. Í fyrirlestri sem Heimir Pálsson hélt á rannsóknaræfingu Félags íslenskra fræða í upphafi 9. áratugar 20. aldar og hann nefndi Tíminn og vatnið — tilraun til draumaráðningar, lék hann sér með hugmyndir um að lykilhugtök í Tímanum og vatninu væru höfuðskepnurnar, jörð, eldur, vatn og ef til vill loft. Aðalpersónurnar, þú og ég, tilheyrðu hvor sínu frumefninu, þ.e. eldinum og vatninu, og sorgin fælist í því að þessi öfl væru ósættanleg. Samt skapist að lokum einhvers konar jafnvægi milli persónanna þótt þær nái ekki saman. 20Heimir Pálsson samkv. tölvupósti til höfundar greinarinnar. Eitt þeirra ljóða, sem Steinn birti aldrei sjálfur en er fyrst birt í Ljóðasafninu 1991 og nefnt þar Draumurinn, minnir um margt á Four Quartets Eliots. Þar takast á sömu minni:

Draumurinn,
eldurinn,
vatnið.

Og eldurinn logar í vatninu
og vatnið horfir á eldinn
kolbláum augum.

Og hinn hvíti vagn draumsins
nemur skyndilega staðar
á þríhveldri brú vatnsins.

Og vatnið lyftir eldinum
eins og glórauðum blómvendi
og réttir draumnum.

(Ljóðasafn 1993:278)

Ljóð þetta er, ásamt fleiri ljóðum úr fórum Steins, til á vélrituðu blaði án upphafsstafa og greinarmerkja, rétt eins og ljóðin í frumgerð Tímans og vatnsins. Svo virðist því að Steinn hafi jafnvel á einhverju stigi ætlað því sess í verkinu. Ég tek hér síðustu ljóðlínur í Four Quartets sem óneitanlega benda til skyldleika þessara tveggja ljóða:

Quick now, here, now, always —
A condition of complete simplicity
(Costing not less than everything)
And all shall be well and
All manner of thing shall be well
When the tongues of flame are in-folded
Into the crowned knot of fire
And the fire and the rose are one.

(Four Quartets 1952:44)

Í báðum þessum ljóðum sameinast eldurinn og blómið. Glóðin í ljóði Eliots hefur tekið á sig form rósarinnar og þessir ólíku kraftar eru orðnir eitt. Steinn notar aftur á móti líkingu í sínu ljóði, sem er eitt sterkasta einkenni á ljóðagerð hans. Með því að láta vatnið lyfta eldinum eins og glórauðum blómvendi sameinast eldurinn og blómið og draumurinn tekur við. Ef til vill hefur Steini fundist skyldleiki þessara tveggja kvæða of augljós og þess vegna aldrei birt þetta ljóð. Fleira gæti þó hafa valdið því að honum hafi ekki fundist það eiga heima í verkinu. Má þar nefna að lausn Tímans og vatnsins felst ekki í sameiningu þessara afla, heldur virðist ljóðmælandi þar sætta sig við að þessi öfl verði ekki sameinuð.

Hverfulleiki lífsins, náttúrunnar og allra hluta er áleitið yrkisefni hjá Eliot. Öll lögmál lúta ákveðinni hringrás, rísa og hníga og byrja að nýju:

What we call the beginning is often the end
And to make an end is to make a beginning.

(Four Quartets 1952:42)

Í Tímanum og vatninu má einnig greina vissa hringrás, því þegar komið er á leiðarenda hefst nýtt upphaf. Allt lýtur þessu sama lögmáli.

Í eftirmála að útgáfu Tímans og vatnsins frá 1974 segir Kristján Karlsson:

Mér finnst líklegt, að á bak við hvert kvæði í Tímanum og vatninu, nema ef til vill fyrsta kvæðið, sem er heimspekilegur formáli, liggi heimild eða endurminning, sem skáldið umbreytir í draumsýnir í samræmi við skáld skaparkenningar um hugmyndatengsl, skynhverfingu og ímyndir frelsaðrar undirvitundar, þangað til fyrirmyndirnar hætta að skipta máli. Lengst í fjarska að baki alls flokksins hillir undir „Lýsingar“ Rimbauds. En miklu nær stendur allur sá rómantískur táknskáldskapur, þar sem vatnið kemur við sögu, ýmist sem tákn um forvitund vora og undirvitund eða frumheim lífsins og afturhvarf til hans. Og á stöku stað rís upp þversögnin sem höfuðskepna laus allra mála. 21Kristján Karlsson 1974, án blaðsíðutals.

Hér tæpir Kristján á mörgu án þess að útskýra það nánar. Hann bendir á hringrás rómantísks táknsæis þar sem vatnið er tákn forvitundar sem lýtur þessu sama lögmáli. Hugmyndir Kristjáns vekja upp spurningar um frumheim lífsins og frelsaða undirvitund. Sú þróun sem ljóðmælandi Tímans og vatnsins fer í gegnum leiðir einmitt að slíkri lausn. Skýrt dæmi þess er í 16. ljóði er Steinn segir: „og þögn mín breyttist í þungan samhljóm einskis og alls.“ Þarna er skáldið líklega komið nærri hugsun rómantískrar náttúruheimspeki sem byggði að hluta tl á platónskri tvíhyggju og taldi efnisheiminn dauft endurskin æðri veruleika sem sérhver maður skapaði með skynjun sinni. Annað einkenni rómantísks skáldskapar var einingarþráin eða sú viðleitni að sætta andstæður efnis og anda. 22Páll Valsson 1996:264.[/ mfn] Sú upplifun sem Steinn lýsir í þessum ljóðlínum er nær því að vera lýsing á reynslu einstaklings sem nær einhvers konar hugljómun og sameinast æðri vitund svo jafnvægi skapast.

Í ljóðum Steins er fleira sem minnir á rómantískan skáldskap. Ég nefni sem dæmi sýn hans á náttúruna sem er nánast eins og hluti af honum sjálfum. Hann skynjar hana ekki sem ógnvekjandi eða óskiljanlega eins og módernistarnir gerðu gjarnan heldur sækir hann til náttúrunnar táknheim tilfinninga sinna. Steinn verður því líklega seint eyrnamerktur einni hugmyndastefnu, enda fæddur á mörkum þeirra tíma er heimsmyndin öll tekur miklum stakkaskiptum.

Er Steinn kom heim frá Svíþjóð í mars 1946 bjó Ásthildur ein að Lækjargötu 6. Hann flutti til hennar skömmu síðar og hún virðist eftir það gera honum allt til hæfis. Eftir heimkomuna leitaði Steinn til vinar síns Þorvalds Skúlasonar og bað hann að myndskreyta fyrir sig tíu ljóð sem koma áttu út í ljóðabók undir heitinu Dvalið hjá djúpu vatni. Þorvaldur varð við þessari bón hans, en bókin komst þó aldrei á prent því Ragnar í Smára taldi hana verða of dýra til útgáfu vegna myndanna. „Ef til vill hefur hinum örláta forleggjara ofboðið hve afköst skáldsins voru lítil eftir langan tíma erlendis og háar peningagreiðslur: aðeins tíu smáljóð sem nálega öll höfðu birst áður í blöðum og tímaritum. 22Gylfi Gröndal 2001:88.
Þá vitnar Gylfi Gröndal í Magnús Á. Árnason og segir hann hafa spurt Stein um þetta leyti hvort hann og Ragnar í Smára væru orðnir ósáttir og Steinn hafi svarað: „Ja, hann hefur ef til vill ástæðu til þess, hann er nefnilega búinn að borga mér þrisvar sinnum fyrir næstu bók — sem ég er enn ekki farinn að skrifa!“ 23Gylfi Gröndal 2001:88. Hér ber allt að sama brunni, skáldið glímdi á þessum árum við einhvers konar viljadoða og náði ekki flugi í ljóðlistinni. Þótt Steini hafi ekki orðið mikið úr verki í Svíþjóð virðist ferð hans þó ekki hafa verið til einskis. Þarna var hann í hringiðu bókmenntaumræðunnar. Eftir þessa ferð er vitað að hann las erlend rit sér að gagni bæði á ensku og norðurlandamálum. 24Að sögn mágkonu Steins, Þorbjargar Björnsdóttur, las Steinn bæði ensku og norðurlandamál er hún var samtímis honum í London árið 1947. Þau fóru saman á söfn þennan tíma og hún segir Stein hafa þýtt fyrirhafnarlaust allar skýringar við listaverk safnanna.

Árið 1947 fór Steinn til London og Parísar og þá virðist Ásthildur hafa kostað ferð hans. Því til staðfestingar er bréf úr fórum hennar sem hún skrifaði Steini 20. febrúar 1947:

Mikið finnst mér óhugnanlegt að vita af þér í þessum kulda og myrkri, þarna í London. Ég vildi óska að þú værir kominn heim. Nú get ég víst fengið gjaldeyrisleyfi fyrir þig um mánaðarmótin. Þú lætur mig svo vita þegar þú ferð frá London og þá sendi ég peningana. Þú mátt ekki gleyma mér alveg þó þú farir til Parísar. Gerðu það ekki ástin mín og vertu ekki lengur í burtu en þú sagðir þegar þú skrifaðir mér. Mér finnst þú þegar vera búinn að vera heilan mannsaldur. 25Ásthildur K. Björnsdóttir 1947: sendibréf.

Mikil breyting varð bæði á lífi Steins og listsköpun eftir að hann fór að búa með Ásthildi. Hann fór líklega um það leyti að vinna að Tímanum og vatninu af markvissri alvöru. Þau gengu í hjónaband í júní 1948 og eftir það sest hann nánast í helgan stein. Segja má því að Tíminn og vatnið marki tímamót bæði í einkalífi Steins og ljóðagerð. Sú bók er síðasta sjálfstæða ljóðabókin sem Steinn gaf út. Eftir það kom aðeins út ein bók sem hann sjálfur fylgdi eftir til útgáfu, þ.e. ljóðasafnið Ferð án fyrirheits þar sem lokagerð Tímans og vatnsins birtist árið 1956.

Bygging verksins og burðarstoðir

Fátt er vitað með vissu um það hvenær ljóðin í Tímanum og vatninu voru ort en Sveinn Skorri Höskuldsson gerir skilmerkilega grein fyrir því hvenær þau birtust fyrst á prenti sem, eins og hann segir, er eina örugga viðmiðið varðandi aldur þeirra. Þau birtust flest fyrst á prenti á árunum 1944–1948. 26Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:157–158.

Í fyrri gerð Tímans og vatnsins (1948–1949) birtir Steinn 13 ljóð og eru fimm þeirra þau sömu og áttu að birtast í frumgerðinni Dvalið hjá djúpu vatni (1947). Yfirbragð verksins hefur breyst mjög frá þessari frumgerð. Í lokagerðinni (1956) eru ljóðin orðin 21 og hafa þá bæst við 8 ljóð, þar af þrjú þeirra sem áttu að birtast í frumgerðinni.

Sveinn Skorri Höskuldsson hefur rannsakað þau ljóð Steins sem birtust í ýmsum tímaritum á þessu tímabili. Mörg þeirra velur Steinn svo í Tímann og vatnið en önnur rötuðu ekki inn í verkið. Þá segir Sveinn Skorri: „Sú athugun, sem hér hefur verið gerð á lokaþætti sköpunarsögu Tímans og vatnsins virðist ekki benda til þess, að verkið hafi frá upphafi verið hugsað sem ein heild, heldur hafi heimur þess tekið á sig formgerð sína smátt og smátt.“ 27Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:192. Þá segir hann að ef ljóðið hafi verið hugsað sem ein heild bylti skáldið formgerð þess gjörsamlega í 2. útgáfu. 28Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:194.

Af þeim fáu orðum sem Steinn sjálfur hefur látið falla um Tímann og vatnið, má kannski ráða svolítið í sköpunarsöguna þótt kaldhæðni hans geti reyndar hæglega villt manni sýn:

Tíminn og vatnið? Ég hef tekið eftir því, að Tíminn og vatnið er mjög misskilin eða réttara sagt óskilin bók. Upphaflega hugsaði ég mér þennan ljóðaflokk sem texta að ballett, ef hægt er að segja sem svo, í nánum tengslum við ákveðnar helgisagnir og þjóðsögur. Þetta virðist enginn hafa gert sér ljóst og sennilega ég ekki heldur. Í raun og veru gafst ég upp við þetta fyrirtæki í miðjum klíðum, og útkoman er þar af leiðandi dálítið öðruvísi en til var ætlazt. 29Steinn Steinarr 1964:362–363.

Þótt orð Steins séu hér sett fram í hálfkæringi, má vera að talsverður sannleikur felist í þeim. Í frumgerðinni er augljósast verið að tala til annarrar persónu. Þar er hún eða þú ljóðsins mjög áberandi og greinilega tilfinningalegur áhrifavaldur. Þessar andstæður, þú og ég, eru ekki eins afgerandi í Tímanum og vatninu. Flestir hafa talið ástina meginþema verksins. Vissulega kemur ástin við sögu og markar án efa þar einhver upphafsspor. Sé horft á gerðirnar þrjár, allt frá frumgerðinni til lokagerðar þá víkur ástarljóðasvipurinn, áherslur breytast og nýjar víddir koma inn. Segja má að þær tilfinningar sem lagt var upp með í frumgerðinni skipti stöðugt minna og minna máli.

Í stórum dráttum helst sama röð ljóðanna í báðum gerðum Tímans og vatnsins. Steinn færir nokkur ljóð til sem gefa vísbendingar um leit hans að ákveðinni heildarmynd.

Í frumgerðinni er bragformið mjög regluleg tersína eða þríhenda og ljóðmyndirnar lýsa söknuði og einsemd. Það er allsendis óvíst að Steinn hafi á þessum tíma verið að hugsa um heildstætt verk og jafnvel ólíklegt þar sem hann hafði birt flest ljóðin stök í ýmsum tímaritum áður en hann safnaði þeim saman til útgáfu. Í fyrri gerð Tímans og vatnsins er hrynjandi og rím víða orðið óreglulegra og baráttan harðari. Þá má greina djúpstæða þrá eftir einhverjum æðri sannindum. Í seinni gerð verksins verður röð kvæðanna markvissari og einkenni módernismans setja meiri svip á verkið. Í 9. ljóði þeirrar gerðar, sem ort var síðast allra ljóðanna, er bragformið orðið algjörlega óhefðbundið. Það ljóð birtist fyrst á prenti í Nýju Helgafelli 1956. 30Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:157–158. Eins og Steinn segir sjálfur í orðunum hér á undan er verkið að breytast og þróast í höndum hans.

Hugum að orðum Steins er hann segir ljóðaflokkinn í heild vera upphaflega hugsaðan sem ballett, byggðan á goð- og helgisögnum: „Jú, það var nú meiningin, hvað sem þú segir. Eitt kvæðið studdist t.d. við Veda-bækurnar, annað við sagnir um Parsival og Graal.“ 31Steinn Steinarr 1964:352–35. Nú er vitað, af þeim vinnublöðum Steins sem varðveitt eru, að þetta er hverju orði sannara. Þá er vert að hafa í huga hvert þessar vísanir úr goðsögunum benda. Þær hafa áreiðanlega ekki verið valdar af handahófi. Þannig beinir goðsögnin um Parsival sjónum að hinum sönnu verðmætum og þeim erfiðu þolraunum sem riddarinn verður að ganga í gegnum til að komast að Graalkastala.

Gagnsæjum vængjum
flýgur vatnið til baka
gegn viðnámi sínu.

Hið rauðgula hnoða,
sem rennur á undan mér,
fylgir engri átt.

(Ferð án fyrirheits 1956:193)

Þetta ljóð er annað ljóð fyrri gerðar sem gæti bent til þess að þarna sé verið að leggja af stað í leit að einhverjum verðmætum sem erfitt muni reynast að finna. Fyrsta ljóð Tímans og vatnsins er eins konar leiðarvísir að þeim lindum sem okkur er ætlað að setjast við. Landslag ljóðsins er landslag hugans og táknmyndirnar vísa til innstu sálarfylgsna.

Sveinn Skorri hefur tekið saman yfirlit um mismunandi röð ljóða í þessum tveimur gerðum. Hann kemst að því að sex þeirra hafa sömu eða svipaða stöðu í báðum gerðum:

Við sjáum, að upphafs- og lokakvæðið skipa ein sama sess í báðum útgáfunum. Fjögur kvæði hafa sömu afstöðu innbyrðis í báðum útgáfum (3. og 4. verða 6. 0g 7.; 9. og 10. verða 16. og 17.). Þrjú kvæði færast framar (7., 11. og 12. verða 5., 12. og 15.) og þrjú aftar (5., 6. og 8. verða 10., 14. og 18). Upphafs- og lokakvæðið ásamt kvæðunum 6 og 7, 16 og 17, miðað við 2. útg., hafa sömu eða mjög svipaða stöðu í heildarformgerð verksins í báðum útgáfum. Það er ekki verkefni þessarar ritgerðar að gera grein fyrir því, að hve miklu leyti þau geti talizt merkingarbærar stoðir verksins, eða hvort þau hafa yfirleitt slíka stöðu í heimi Tímans og vatnsins. 3233 Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:194.

Flest þeirra ljóða, sem Sveinn Skorri telur jafnvel merkingarbærar stoðir verksins, eru án efa þýðingarmikil í byggingu verksins. Ég vil þó bæta einu ljóði við þetta burðarvirki. Það er 6. ljóð fyrri gerðar en hið 14. í þeirri síðari og í báðum gerðum er það 8. síðasta ljóð verksins. Það heldur mjög svipaðri stöðu í báðum gerðum og er eitt máttugasta ljóð verksins. Þar snýst þróunin í ljóðinu við er höndin, sem í ljóðum Steins hefur verið tákn vanmáttar hans, verður sterk og máttug og sprengir fjallið. Því má segja að það marki hvörf í verkinu.

Einnig má benda á, varðandi meintar máttarstoðir, að seinna ljóð síðari samstæðunnar eða ljóð númer 10 í fyrri gerð og 17 í þeirri seinni er ekki mjög efnislega sterkt ljóð innan verksins. A ftur á móti er ljóðið sem fært er yfir þessa samstæðu, eða 8. ljóð fyrri gerðar og það 18. í síðari gerð, mjög öflugt og þýðingarmikið. Því má spyrja sig hvort það hafi ekki frekar þá stöðu að tilheyra merkingarbærum máttarstoðum verksins.

Sveinn Skorri segir að eðlilegast virðist að líta á Tímann og vatnið sem úrval, er Steinn hafi gert úr kvæðum sínum frá tilteknu kveðskaparskeiði með ákveðin sjónarmið í huga. 33Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:192. Þessi orð má eflaust til sanns vegar færa, en ég vil þó taka sterkar til orða og halda því fram að val ljóðanna myndi nánast rökrétt samhengi og lýsi þroskaferli einstaklings frá djúpri örvæntingu til hugarkyrrðar. Hér verður farið yfir verkið og einkum lögð áhersla á þau ljóð sem áður eru nefnd sem burðarstoðir og einnig nokkur önnur sem greinilega brjóta blað á einhvern hátt. Líklega hefur verkið verið að þróast og þroskast í höndum Steins smátt og smátt og heildarhugsun þess að mótast allt til síðustu gerðar. Hér verður fyrst og fremst horft til þeirrar gerðar sem Steinn gekk sjálfur frá sem lokagerð verksins.

Áður var vikið að þeim atburðum í lífi Steins sem ef til vill voru undirrót þessa verks. Leitt hefur verið getum að því að sjálfsmynd hans hafi skaðast svo að eina færa leiðin hafi verið að rísa upp og skilgreina sig upp á nýtt. Sé horft á ljóðin í þessu ljósi má sjá þar ferð einstaklings úr myrkri og vonleysi til jafnvægis og uppstyttu eða jafnvel upprisu. Þetta tel ég vera þungamiðju í öllu verkinu. Hvíti liturinn í verkinu hefur orðið mörgum umhugsunarefni, einkum vegna þess að erfitt hefur reynst að sjá að hann hafi sömu eða svipaða merkingu frá upphafi til enda þess. Flestir hafa tengt hann dauðanum. Svavar Sigmundsson hefur skoðað liti í ljóðum Steins og bendir á að hvíti liturinn hafi fleiri en eina merkingu í Tímanum og vatninu. 34Svavar Sigmundsson 1965:39.

Hvíti liturinn varð Peter Carleton einnig umhugsunarefni í 8. ljóði fyrri gerðar. Þar túlkar hann „hina hvítu fregn“ sem gleðifregn sem byggð sé smám saman upp með litum í ljóðinu og því standist ekki að tala um „Dimmbláan skugga á hvítum vegg“ í fjórðu ljóðlínu fyrsta erindisins. Þetta skýrir hann með því að skáldið hafi hlaupið á sig. 35Carleton 1964:186.

Silja Aðalsteinsdóttir telur að með Tímanum og vatninu hverfi Steinn frá hefðbundinni notkun lita og liti sjálfur bæði hluti og hugtök. „Sérkennilegt við þá breytingu var að hvíti liturinn, litur hinnar visnu handar, kom í stað dökkri lita á sorg og dauða.“ 36Silja Aðalsteinsdóttir 1981:37.

Breytt afstaða Steins til dauðans í þessum ljóðum gæti stafað af því að dauðinn er honum ekki lengur endanlegur heldur undanfari upprisu. Það er ekki þar með sagt að Steinn sé að snúa sér að trúarlegri lausn, heldur beinir hann sjónum inn í eigin vitund, sem er að rísa úr myrkri til ljóss. Sú upprisa er svipuð upprisu blómsins sem deyr en vex á ný af sömu rót að vori. Blómið er mjög sterkt tákn í verkinu og tengist tilfinningum ljóðmælanda. Fyrst er gengið yfir það, þá kemur hið hvíta blóm dauðans, næst stendur þroskað axið undir þáfjalli tímans þegar búið er að sprengja af sér fjötrana. Að lokum birtist það sem líking við hinar fjarlægu veraldir sem vaxa út úr langsvæfum líkamanum. Þetta ferli blómsins undirstrikar framvindu verksins.

Margar fyrstu ljóðmyndirnar lýsa því er tíminn hreinlega stöðvast og vanmáttur, angist og einsemd ráða hugsuninni, en eftir að höndin sprengir af sér þessa fjötra breytist stefnan og ljóðmælandi getur horfst í augu við liðna atburði og sæst við eigin tilfinningar. Ráða má svolítið í heildarhugsun ljóðsins með því að skoða þau ljóð sem Steinn færir til á milli gerðanna tveggja. Nefna má ljóð númer 7 í fyrri gerð sem fær sæti númer 5 í þeirri síðari og er flutt fram fyrir það ljóð sem markar hvörfin. Þar er gleðin dökkbrýnd og sorgin glitrandi og eiga ljóðmyndirnar því varla heima á eftir hvörfunum:

Vatn sem rennur
um rauðanótt
út í hyldjúpt haf.

Í dul þína risti
mín dökkbrýnda gleði
sinn ókunna upphafsstaf.

Og sorg mín glitraði
á grunnsævi þínu
eins og gult raf.

(Ferð án fyrirheits 1956:195)

Annað ljóð má nefna sem dæmi um að átakaljóðin séu færð fram fyrir hvörfin. Það er 11. ljóð í fyrri gerð sem verður númer 12 í Þeirri seinni. Silja Aðalsteinsdóttir gengur svo langt að telja þetta ljóð nánast lýsa heimsendi: „Í 12. ljóði sjáum við tættan og áttlausan villuheim þar sem ekkert er sem sýnist, dagarnir eru nafnlausir, játunin er neikvæð, fjarlægðin nálæg.“ ((Silja Aðalsteinsdóttir 1981:45.))

Eins og blóðjárnaðir hestar
hverfa bláfextar hugsanir mínar
inn um bakdyr eilífðarinnar.

Eins og nýskotnir fuglar
falla nafnlausir dagar
yfir náttstað minn.

Eins og naglblá hönd
rís hin neikvæða játun
upp úr nálægð fjarlægðarinnar.

Meðan andlit mitt sefur
eins og óslokkið kalk
í auga fljótsins.

(Ferð án fyrirheits 1956:202)

Þarna sækja sárar hugsanir á og jafnvel sektarkennd og langt frá því að jafnvægi sé á hugsuninni. Sé horft til þeirrar heildarmyndar sem hér er dregin upp á ljóðið ekki heima á eftir þeim hvörfum sem talin eru verða með 14. ljóði seinni gerðar, enda færir Steinn það fram fyrir hvörfin.

13. ljóð síðari gerðar lýsir mikilli vanlíðan. Þetta ljóð fer næst á undan hvörfunum. Blátt regn hinna blævængjuðu daga fellur á brennheitt andlit. Strax í kjölfar þessa ljóðs eykst ljóðmælandanum afl til að snúa þróuninni við.

Aðeins eitt ljóð færir Steinn aftar í lokagerðinni og yfir seinni ljóðasamstæðuna í meintu burðarvirki verksins. Það er 8. ljóð fyrri gerðar og fær 18. sæti í þeirri seinni. Þetta ljóð er að mínum dómi þýðingarmikið í verkinu og bendir bæði merking ljóðsins og öll sköpunarsagan til þess:

Tveir dumbrauðir fiskar
í djúpu vatni.

Dimmblár skuggi
á hvítum vegg.

Fjólublátt ský
yfir fjallsins egg.

Yfir sofandi jörð
hef ég flutt hina hvítu fregn.

Og orð mín féllu
í ísblátt vatnið
eins og vornæturregn.

(Ferð án fyrirheits 1956:208)

Hver er hin hvíta fregn? Samkvæmt athugun Sveins Skorra Höskuldssonar gaf Steinn þessu ljóði á vinnslustigi nafnið Kristur í Emmaus og vísar þá í frásögn Biblíunnar af ferð lærisveinanna tveggja til Emmaus er Kristur birtist þeim, en augu þeirra voru haldin, svo að þeir þekktu hann ekki, og hann ávítaði þá fyrir að trúa ekki fregninni um upprisuna. 37Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:189.

Með þessa Biblíuvísun í huga skýrist þessi breytta afstaða til litarins er dauðinn fær nýja vídd og vísar til upprisu. Ljóðmælandi er í sömu sporum og Kristur er hann flytur hina hvítu fregn yfir sofandi jörð. Allir eru í fjötrum eigin reynsluheims og boðskapurinn nær því ekki eyrum annarra, eins og sannaðist best á þessu verki Steins. Standist sú heildartúlkun á Tímanum og vatninu sem hér er haldið fram á þetta ljóð tvímælalaust heima aftarlega í verkinu þegar jafnvægi hefur skapast. Þótt ljóðmælandi standi einn með þá fregn gefur hún lífi hans gildi.

Þetta 18. ljóð verksins er til í óvenju mörgum handog vélritum og segir Sveinn Skorri að sjá megi þar meira af sköpunarsögu verksins en flestra kvæða annarra. 38Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:180. Það segir kannski nokkuð um vægi ljóðsins í verkinu. Einnig sést af þeim mörgu útfærslum þess hvernig verkið breytist og þróast frá örvæntingu til jafnvægis. Ljóðið er til í nokkrum tilbrigðum sem varðveitt eru í Lbs. 769 og nefnist „Hersöngur“ í tveimur þeirra. Ein útgáfa þess er svona:

„Tveir dumbrauðir fiskar í djúpu vatni,
dimmblár skuggi á hvítum vegg.

Einn dag kem ég sjálfur og legg
mínu leiftrandi sverði
í gegnum þá fiska,
þann skugga,
þann vegg.“ 39Lbs. 769.

Fyrstu tvær ljóðlínurnar eru eins í lokagerð verksins en þær sem á eftir koma sýna gjörólíka mynd og segja meira um þróun verksins en mörg orð. Sársaukinn sem fyrst er lagt upp með leynir sér ekki í þessum ljóðlínum og sýnir talsvert aðra mynd en í lokagerð. Í ljósi þessa er því eðlilegt að Steinn hafi í upphafi ætlað því sess framar í verkinu.

Í 2. ljóði seinni gerðar er sársaukanum lýst á öllu duldari hátt en í hinu óbirta broti hér að ofan:

Sólin,
sólin var hjá mér,
eins og grannvaxin kona,
á gulum skóm.

Í tvítugu djúpi
svaf trú mín og ást
eins og tvílitt blóm.

Og sólin gekk
yfir grunlaust blómið
á gulum skóm.

(Ferð án fyrirheits 1956:192)

Þetta ljóð heitir „Sólskin í fyrstu prentun 1944 og einnig í öllum hand- og vélritum sem varðveitt eru. Það er til í tveimur handritum í Lbs. 770 og er annað handritið með örlítið aðra orðaröð í þriðja erindi. Í Lbs. 769 er vélritað eintak ljóðsins samhljóða frumprentun og annað þar sem orðnotkun hefur verið breytt í lokagerð. Það virðist að dómi Sveins Skorra vera elst þessara handrita og þar stendur „spratt trú mín og ást“ sem Steinn breytir svo í „svaf trú mín og ást“og „sólin gekk yfir gálaust blómið“ sem verður „sólin gekk yfir grunlaust blómið“ (leturbreyting mín). Þessar breytingar á orðnotkun gera ljóðmælanda ögn saklausari í grunleysi sínu í seinni gerðum í stað þess að hann birtist manni sem ákafur og óaðgætinn í þessari fyrstu gerð. Í upphafi ljóðsins er sólin verndandi afl þar sem trúin og ástin eiga sér griðastað en í lokaerindinu er hún orðin tillitslaus og gengur yfir blómið. Þetta ljóð gefur því vísbendingar um að troðið hafi verið á tilfinningum ljóðmælanda úr þeirri átt sem hann síst átti von.

Samkvæmt athugun Sveins Skorra Höskuldssonar birtist þetta ljóð fyrst á prenti í Tímariti Máls og menningar, 2. hefti árið 1944, eða stuttu eftir að þeir atburðir gerast milli Ásthildar og Steins sem fyrr voru taldir. Ljóðið var meðal þeirra sem áttu að birtast í Dvalið hjá djúpu vatni. Það er þó athyglisvert að Steinn birtir það ekki í fyrri útgáfu Tímans og vatnsins sem út kom á sjálfu giftingarári þeirra. Tíminn og vatnið kom þá út í 200 tölusettum eintökum. Steinn færði Ásthildi fyrsta eintakið að gjöf og áritaði „Til konunnar minnar elskulegu frá höfundi Steini Steinarr“.

Í lokagerð Tímans og vatnsins setur Steinn þetta ljóð í annað sæti ljóðabálksins, sem gæti bent til þess að ljóðið marki einhver upphafsspor í verkinu. Í Dvalið hjá djúpu vatni er þetta 3. ljóð bókarinnar, þótt röð ljóðanna þar sé vart að treysta.“ ((Svo virðist sem mynd Þorvalds Skúlasonar við ljóðið „Hvítur hestur í tunglskini“ fylgi ekki réttu ljóði og myndin við ljóðið „Sólskin“ snýr öfugt.))

Heildarmynd

Eins og áður sagði telur Sveinn Skorri tvær ljóðasamstæður, ásamt fyrsta og síðasta ljóði verksins, líklegar til að vera burðarstoðir verksins þar sem þessi ljóð hafa svipaða stöðu í báðum gerðum. Eftirfarandi ljóð tilheyrir fyrri samstæðunni og er númer 3 í fyrri gerð en 6 í þeirri seinni:

Ég var drúpandi höfuð,
ég var dimmblátt auga,
ég var hvít hönd.

Og líf mitt stóð kyrrt
eins og kringlótt smámynt,
sem er reist upp á rönd.

Og tíminn hvarf
eins og tár,
sem fellur á hvíta hönd.

(Ferð án fyrirheits 1956:196)

Tíminn stendur kyrr og hin hvíta hönd minnir á vanmáttinn. Augnablikið á meðan smámyntin rís upp á rönd skapar spennu og óvissu um framhaldið.

Seinna ljóð fyrri samstæðunnar er ljóð númer 4 í fyrri gerð og 7 í þeirri síðari. Á eftir andartaki óvissunar er lýst hruni tilverunnar í guðlausri veröld þar sem ekkert skjól er að finna. Guði er líkt við maurildi sem enginn fær höndlað:

Himinninn rignir mér
gagnsæjum teningum
yfir hrapandi jörð.

Dagseldur, ljós,
í kyrrstæðum ótta
gegnum engil hraðans,
eins og gler.

Sofa vængbláar hálfnætur
í þakskeggi mánans,
koma mannstjörnur,
koma stjarnmenn,
koma syfjuð vötn.

Kemur allt,
kemur ekkert,
gróið bylgjandi maurildum,
eins og guð.

Guð.

(Ferð án fyrirheits 1956:197)

Með þessu ljóði brotnar fyrst upp hið hefðbundna ljóðform, en tersínan er mjög regluleg fram að því. Í samræmi við formið verður inntak ljóðsins einnig óreglulegra, meiri ringulreið, meiri ótti, meiri átök. Maðurinn stendur einn með ógninni því guð er óhöndlanlegur. Þaðan er einskis að vænta. Á eftir þessu ljóði kemur svo hljóð minning. Ljóðformið er aftur orðið reglulegra en staðurinn ber með sér einhverja óvissu. Hann er kominn að óvæðum ósi, lengra verður ekki haldið á sömu braut:

Í nótt mun ég sofa
undir sjöstirndum himni
við hinn óvæða ós.

(Ferð án fyrirheits 1956:198)

Ljóð númer 9 er eitt þeirra sem bætt er við seinni gerðina og er ort síðast þeirra allra. Þar koma einkenni módernisma sterkt fram. Hrynjandin er óregluleg og lítið um ljóðstafi. Upphaf þess er svona:

Net til að veiða vindinn:

Flýjandi djúpfiski
hlaðið glæru ljósi
einskis.

Sólvængjuð hringvötn
búin holspeglum
fjórvíðra drauma.

Týnd spor
undir kvöldsnjó
efans.
[…]

(Ferð án fyrirheits 1956:199)

Ingi Bogi Bogason túlkar þetta ljóð í ritgerð sinni. Hann telur ljósið, netið og veiðarnar vísanir í Biblíuna og telur hið glæra ljós einskis beinast að sambandsleysinu við guð. Einsemd mannsins birtist í sporunum sem týnd séu undir kvöldsnjó efans. Undir þetta skal hér tekið. Niðurstöður Inga Boga eru síðan þær að Steinn sé í ljóðum sínum sinnulaus um guð. Hann telur Stein ekki guðsafneitara heldur guðleysingja og skáldskap hans guðlausan.((Ingi Bogi Bogason 1986:106.)) Þetta tel ég hæpna fullyrðingu því þótt Steinn yrki ekki lofsöngva til guðs þá felst sorgin í skáldskap hans meðal annars í því að leitin að guði hefur engan árangur borið. Hann þráir í raun samband við guð en grípur í tómt er hann leitar hans. Hann á þó þessa þrá og getur því varla talist sinnulaus um guð.

Ljóð númer 6 í fyrri gerð og 14 í þeirri seinni tel ég tvímælalaust eina af máttarstoðum verksins. Það hefur mjög svipaða stöðu í báðum gerðum og markar hvörf í verkinu. Hugarfar ljóðmælanda tekur afgerandi stefnubreytingu frá sárum minningum, einsemd og uppnámi til innra jafnvægis og sátta. Neitunin í miðju ljóðsins gefur vísbendingar um að breyting sé í vændum:

Sólskinið,
stormurinn,
hafið.

Ég hef gengið í grænum sandinum
og grænn sandurinn
var allt í kring um mig
eins og haf í hafinu.

Nei.

Eins og margvængjaður fugl
flýgur hönd mín á brott
inn í fjallið.

Og hönd mín sökkur
eins og sprengja
djúpt inn í fjallið,
og sprengir fjallið.

(Ferð án fyrirheits 1956:204)

Þetta kvæði ber samkvæmt rannsókn Sveins Skorra Höskuldssonar nafnið „Fjallið og draumurinn“ í Lbs. 769. Fyrri hluti kvæðisins er einna líkastur draumi þar sem ljóðmælandi gengur í grænum sandi sem umlykur hann. Samt er einhver kraftur í upphafi ljóðsins þar sem sólskinið, stormurinn og hafið veita orku inn í verkið. Eftir neitunina í miðju ljóði er eins og hann eflist af þessum krafti og nái sjálfur undirtökum í lífi sínu. Þá verður höndin, sem fram til þessa hefur verið tákn vanmáttar og útskúfunar, sterk og brýtur af sér fjötrana. Eftir hvörfin virðist ljóðmælandi geta horfst í augu við eigin tilfinningar og séð þær í nýju ljósi án sársauka og reiði. Engin átök eru í ljóðinu eftir þetta. Næsta ljóð sýnir að kyrrð er komin á hugann og hægt að sættast við eigin tilfinningar:

Í sólhvítu ljósi
hinna síðhærðu daga
býr svipur þinn.

Eins og tálblátt regn
sé ég tár þín falla
yfir trega minn.

Og fjarlægð þín sefur
í faðmi mínum
fyrsta sinn.

(Ferð án fyrirheits 1956:205)

Þetta ljóð birtist fyrst á prenti 1945. Það hét Minning í Dvalið hjá djúpu vatni en Rigning í sólskini á próförk af kvæðaheitum Tímans og vatnsins. Í fyrri gerð Tímans og vatnsins er það númer 12 eða næstsíðasta ljóð bókarinnar. Þegar Steinn færir það framar í lokagerðinni fer það í 15. sæti eða næsta á eftir hvörfum verksins. Það er kannski gott dæmi um að verið sé að skapa breytta heildarmynd. Fjarlægð og nálægð mætast, átökum er að linna.

16. ljóð seinni gerðar sem er númer 9 í þeirri fyrri er fremra ljóð síðari samstæðunnar í meintu burðarvirki. Hér er lýst uppstyttunni eða upprisunni sem áður var nefnd:

Undir þáfjalli tímans,
stóð þögn mín
eins og þroskað ax.

Ég sá sólskinið koma gangandi
eftir gráhvítum veginum,
og hugsun mín gekk til móts við sólskinið,
og sólskinið teygði ljósgult höfuð sitt
yfir vatnsbláan vegg.

Ég sá myrkrið fljúga
eins og málmgerðan fugl
út úr moldbrúnum höndum mínum.

Og þögn mín breyttist
í þungan samhljóm
einskis og alls.

Meðan gljásvart myrkrið
flaug gullnum vængjum
í gegn um sólskinið.

(Ferð án fyrirheits 1956:206)

Þetta ljóð hefst á óvenjulegri þversögn. Fjallið er að sprengja af sér frost og vetrardrunga og axið stendur þroskað að vori sem verður að teljast óvenjulegt. Þegar horft er til þess að við erum stödd í landslagi hugans verður ljóst að hverju þessi þroski beinist. Þá kemur mögnuð lýsing á upprisu úr myrkum hugarfylgsnum. Sólskinið kemur eftir gráhvítum veginum og hugsunin kemur til móts við það. Þegar það svo teygir ljósgult höfuðið yfir vatnsbláan vegginn mætast þarna vatnið og sólskinið í uppstyttunni. Eitthvað er að vakna til lífsins.

Þá flýgur myrkrið á brott eins og málmgerður fugl. Myndlíkingin ber með sér vélrænan dauðablæ fjarri lifandi náttúru. Moldbrúni liturinn á höndunum minnir á gröf sem risið er upp úr. Þegar þögnin breytist í þungan samhljóm einskis og alls er maðurinn laus úr fjötrum hlutveruleikans. Þroski, frelsi og friður eru þau orð sem koma upp í hugann. Hér er lýst á hljóðlátan og fallegan hátt þegar sálin rennur saman við alheimsvitundina. Gljásvart myrkrið fær þá gullna vængi og flýgur í gegnum sólskinið. Hér eru öll átök úr sögunni og ljóðmælandi getur horfst í augu við tilveruna. Gleðin er ekki lengur dökkbrýnd né sálin rökkvuð eins og fyrr.

17. ljóð seinni gerðar, sem er númer 10 í þeirri fyrri, er látið tilheyra seinni samstæðu í meintu burðarvirki:

Á sofinn hvarm þinn
fellur hvít birta
harms míns.

Um hið veglausa haf
læt ég hug minn fljúga
til hvarms þíns.

Svo að hamingja þín
beri hvíta birtu
harms míns.

(Ferð án fyrirheits 1956:207)

Af þeim ljóðum, sem Sveinn Skorri Höskuldsson taldi burðarstoðir verksins, eru einna minnstar sviptingar í þessu ljóði. Harmurinn og hamingjan bera sama lit og renna nánast í eitt. Kyrrð og jafnvægi ríkir yfir ljóðmyndunum.

Í 19. ljóði virðist þú ljóðsins vera að hverfa sem tilfinningalegur áhrifavaldur og birtist aðeins sem svalkaldur skuggi í útstreyminu og fjarlægist. Þá tekur þögnin við í 20. ljóði. Henni er líkt við rauðan sjó og ryðbrunnið myrkur. Þögnin virðist umlykja og leysa upp það sem áður kvaldi og skiptir ekki máli lengur.

Síðasta ljóð Tímans og vatnsins er óbreytt í báðum gerðum og á það sameiginlegt með fyrsta ljóðinu að vera í sömu stöðu í þeim báðum.

Rennandi vatn,
risblár dagur,
raddlaus nótt.

Ég hef búið mér hvílu
Í hálfluktu auga
eilífðarinnar.

Eins og furðuleg blóm
vaxa fjarlægar veraldir
út úr langsvæfum
líkama mínum.

Ég finn myrkrið hverfast
eins og málmkynjað hjól
um möndul ljóssins.

Ég finn mótspyrnu tímans
falla máttvana
gegnum mýkt vatnsins.

Meðan eilífðin horfir
mínum óræða draumi
úr auga sínu.

(Ferð án fyrirheits 1956:211)

Þrjú fyrstu erindi þessa ljóðs hefur Steinn hripað með blýanti í litla vasabók eða almanak frá árinu 1946.

Í vasabókinni eru erindin svona:

rennandi vatn
risblár dagur
raddlaus nótt

eins og furðuleg blóm
vaxa fjarlægar veraldir
út úr flýandi líkama mínum

ég hef búið mér hvílu
í brennandi auga
eilífðarinnar (leturbreyting mín)

Ef horft er til þess sem skrifað er í bókina að öðru leyti virðist Steinn hafa verið með hana í vasanum er hann fór til Frakklands og Englands í byrjun árs 1947. Þar hefur hann einnig skrifað nöfn og heimilisföng ýmissa manna bæði í París og London. Á eina síðuna hefur hann skrifað Picasso, Braque, Miró, Kandinsky, Juan Gris og Matisse og neðst á þeirri blaðsíðu stendur „Frönsk list á stríðsárunum“. Þetta sýnir að á ferðum sínum erlendis hefur hann verið að kynna sér listir og listviðburði af fullri alvöru.

Þá segir þessi litla bók okkur að síðasta ljóð Tímans og vatnsins sé ekki ort fyrir árið 1946 og kannski ekki fyrr en 1947. Þær breytingar sem Steinn gerir seinna á þessum vísum gefa til kynna að þetta séu frumdrög. Það getur komið heim og saman við athugun Sveins Skorra, sem segir þetta síðasta ljóð verksins hafa birst fyrst á prenti í RM ritlist og myndlist, 1. árg., 2. hefti, nóv.–des. 1947. 40Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:183. Sennilegast er að ljóðið sé ort eftir heimkomuna frá Svíþjóð.

Athyglisvert er að orðnotkun er í tveimur tilfellum breytt í endanlegri gerð og eins er röð vísuorða ekki sú sama. Orðin, sem breytt er, fá mun mildari blæ í lokagerð ljóðsins þegar brennandi auga eilífðar verður hálflukt auga eilífðar og flýjandi líkami verður langsvæfur líkami. Þarna verður svipuð þróun og greina má í verkinu öllu, þróun frá reiði og sársauka til jafnvægis og kyrrðar.

Í vasabókinni notar Steinn lýsingarhátt nútíðar af sögnunum þ.e. brennandi og flýjandi, sem gefur ljóðmyndinni þau áhrif að verknaðurinn sé yfirstandandi. Síðan breytir hann þessum orðum í langsvæfur líkami og hálflukt auga eilífðarinnar sem í þessum samböndum hafa yfirbragð friðar og dular. Þetta síðasta ljóð verksins er eins og endapunktur á því ferli sem á undan er komið. Yfir vötnum svífur algjör friður. Þau öfl sem ollu ólgunni fyrr í kvæðinu hafa misst áhrifamátt sinn. Myrkrið hverfist um möndul ljóssins. Myrkrinu er líkt við málmkynjað hjól en möndullinn sem heldur þessu öllu saman er ljósið. Eflaust vísar hjólið til hringrásar tímans í hlutveruleikanum. Í næstu vísu segir:

Ég finn mótspyrnu tímans
falla máttvana
gegnum mýkt vatnsins.

(Ferð án fyrirheits 1956:211)

Er hér ekki einhver samhljómur við Lao-tse? „Ekkert er mýkra og gljúpara í heimi, en vatnið, en ekkert kemst til jafns við það í því, að eyða hinu harða og sterka; — að því leyti ber það af öllu.“ 41Lao-tse 1921:67-68. Vatnið má túlka sem tákn undirvitundarinnar hjá Lao-tse og því er víða líkt við alvaldið. Tíminn sem gjarnan hefur truflað hin beinu tengsl skynjunarinnar við alvaldið eða eilífðina fellur hér máttvana gegnum mýkt vatnsins og mótspyrna hans er horfin.

Heimir Steinsson hefur nefnt þetta síðasta ljóð Tímans og vatnsins „dýrustu trúarjátningu, sem íslenskt skáld hefur saman sett á tuttugustu öld.“ 42Heimir Steinsson 1980:131. Hann segir:

Ekki þekki ég skýrara dæmi úr nýrri ljóðagerð íslenskri um þann samruna einstaklings og heildar, stundlegrar veru og ævarandi, sem er grunntónn tiltekinnar trúarreynslu og e.t.v. blundar nærri hjartarótum allrar trúarreynslu yfirleitt. 43Heimir Steinsson 1980:132.

Það er enginn vafi að í þessu lokaljóði er Steinn að lýsa samruna einstaklings og heildar og víst er það trúarreynsla. Við látum þá liggja milli hluta hvers konar trú er um að ræða. Í eftirmála að Bókinni um veginn segir Yngvi Jóhannesson: „Þungamiðjan í riti Lao-tse er Tao, hið órannsakanlega upphaf og viðhald alls, leyndardómur tilverunnar. Honum finnst það vera blíður og velviljaður máttur, sem menn þurfi að reyna að komast í samræmi við.“ 44Yngvi Jóhannesson 1921:74. Í lokaljóði Tímans og vatnsins hefur hið hálflukta auga eilífðar yfir sér einhverja yfirskilvitlega kyrrð. Annað verður sagt ef vísan úr vasabókinni er skoðuð þar sem augað er brennandi. Þarna er enn eitt dæmið um að ljóðið sé að þróast í höndum skáldsins frá uppnámi hugans til innri kyrrðar og jafnvægis.

Sama er að segja um hinar fjarlægu veraldir sem ljóðmælandi líkir við furðuleg blóm sem vaxi út úr langsvæfum líkama hans. Í vasabókinni er líkaminn flýjandi og orðið sýnir mun meira ójafnvægi og löngun til að losna frá þessu öllu. Þegar Steinn breytir svo orðinu flýjandi í langsvæfum kemur allt önnur sýn á ljóðmyndina. Hinn langsvæfi líkami er að vakna aftur til lífsins, er að rísa úr svefnrofum. Hinar fjarlægu veraldir sem vaxa eins og furðuleg blóm út úr líkamanum minna á þær víddir sem eru að opnast inn í nýja heima er skynsviðið víkkar. Ljóðmælandi hefur eygt ljósið utan við hellismunnann og séð fegurð himinsins. Hann er að vakna og verða áskynja þessa alls. Allt ber þetta að sama brunni að lokum. Á vegi eilífðarinnar er sálin frjáls og óheft. „Fylgdu ljósinu og láttu það vísa þér veginn heim, þá mun eyðing líkamans ekki verða þér að tjóni. Það er að íklæðast eilífðinni.“ 45Lao-tse 1921:46. Í kínverskri heimspeki er ljósvakinn (ether) samsettur úr tveimur aðalþáttum, jákvæðum og starfandi (Yang) og neikvæðum og hvílandi (Yin). Hinn þriðji þáttur er svo hinn sameinandi (Ki). Alvaldið framleiðir alla hluti, lætur þá koma fram í tilvistina og tekur við þeim aftur. 46Yngvi Jóhannesson 1921:79. Í síðustu vísu Tímans og vatnsins má greina slíkt sameinandi afl þar sem hlutverk eilífðar og ljóðmælanda hafa snúist við og eilífðin er orðin frumlag eða gerandi og allt verður ein órjúfanleg heild.

Lokaorð

Sú athugun sem hér hefur verið gerð á Tímanum og vatninu leiðir ótvírætt í ljós að lesa má ákveðna heildarhugsun úr verkinu. Um er að ræða ferð einstaklings í gegnum ákveðið þroskaferli. Líf hans stöðvast og hann upplifir hrun tilverunnar. Þá eykst honum afl frá kröftum höfuðskepnanna og honum tekst að snúa þróuninni við. Eftir þessi hvörf opnast nýjar víddir og jafnvægi kemst á. Öll bygging verksins og þær burðarstoðir sem hér hafa verið skoðaðar styðja þessa túlkun. Þessi erfiða ganga einstaklingsins leiðir einnig í ljós að maðurinn stendur alltaf einn andspænis örlögum sínum. Hann er einn í sorg sinni, vonbrigðum og söknuði. Hann er einn í angist sinni og örvæntingu og úrlausnin er á ábyrgð hans eins. Í því ljósi má sjá skyldleika við hugmyndafræði Sartre. Í ljóðinu ber leitin að samfélagi við aðra manneskju ekki árangur og guð er einnig fjarri. Þá stendur ljóðmælandinn líka einn er hann rís upp með nýja reynslu sem hann hefur öðlast. Orð hans falla í ísblátt vatnið og enginn er til að meðtaka þau. Um leið og hann sjálfur uppgötvar nýjar víddir er það þögnin ein sem geymir þetta allt því enginn hlustar. Allir eru í fjötrum eigin reynsluheims. Niðurstaða verksins er samt ekki vonleysi því í lokin hefur ljóðmælandi öðlast einhverja sýn sem gefur lífi hans gildi og er líklega næst því að birta hugsun austurlenskrar heimspeki.

Með Tímanum og vatninu hefur lífsviðhorf Steins breyst mjög frá fyrri verkum og skáldskapur hans stendur þar sem „þroskað ax“ svo notuð sé líking hans sjálfs. Áður var lífið vonlítil leit að takmarki og tilgangi. Hér er tekist af alvöru á við eigið sjálf og brotnir þeir fjötrar tíma og rúms sem takmarka skynsvið mannsins. Þótt leitin að guði virðist ekki hafa borið árangur í bókstaflegri merkingu, verður sú upplifun sem birtist í lokaljóði verksins varla skilin á annan veg en að eilífðin sé hluti af veruleika ljóðsins, einhver æðri vitund sé því þar til staðar.

Við þetta er því litlu að bæta. Orð Kristjáns Karlssonar sem hann viðhafði um Tímann og vatnið eiga því ekki síður við um allan skáldskaparferil Steins: „Einu kvæði lengra og hin auða síða myndi blasa við.“ ((Kristján Karlsson 1974.)) Það er áreiðanlega ekki tilviljun að Steinn orti nánast ekkert eftir að hann lauk við Tímann og vatnið. Hann var þar kominn að leiðarlokum í ljóðlist sinni.

Birtist áður í Skírni, 182 árg. 2008 1. tbl.

Kristín Þórarinsdóttir

Kristín Þórarinsdóttir er systurdóttir Ásthildar K. Björnsdóttur, eiginkonu Steins Steinarr. Hún lauk BA námi í íslensku frá Háskóla Íslands vorið 2005 með ritgerð um Tímann og vatnið. Kristín starfaði sem fjármálastjóri Fjölbrautaskóla Suðurlands í tæpan aldarfjórðung, en hætti störfum þar vorið 2011.

Tilvísanir

  • 1
    Jón Þórarinsson 1994:26.
  • 2
    Sveinn Skorri Höskuldsson 1989:92.
  • 3
    Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:155.
  • 4
    Þorbjörg Björnsdóttir, munnleg heimild.
  • 5
    Elísabet Jökulsdóttir 1990:67.
  • 6
    Gylfi Gröndal 2000:318.
  • 7
    Ingibjörg Ólafsdóttir, munnleg heimild.
  • 8
    Ólafur Ólafsson / Þorbjörg Björnsdóttir, munnlegar heimildir.
  • 9
    Sigurbjörn Einarsson 1958.
  • 10
    Ingi Bogi Bogason 1986:114.
  • 11
    Sbr. Gylfa Gröndal 2001:43–44.
  • 12
    Eysteinn Þorvaldsson 1980:36.
  • 13
    Sverrir Hólmarsson 1990:75.
  • 14
    Gylfi Gröndal 2001:54.
  • 15
    Steinn Steinarr 1964:32.
  • 16
    Sverrir Hólmarsson 1990:76.
  • 17
    Sverrir Hólmarsson 1990:65.
  • 18
    Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:187.
  • 19
    Eliot 1952. Fyrsta ljóðið í þessum flokki, „Burnt Norton“, kom út nokkrum árum fyrr, 1936.
  • 20
    Heimir Pálsson samkv. tölvupósti til höfundar greinarinnar.
  • 21
    Kristján Karlsson 1974, án blaðsíðutals.
  • 22
    Páll Valsson 1996:264.[/ mfn] Sú upplifun sem Steinn lýsir í þessum ljóðlínum er nær því að vera lýsing á reynslu einstaklings sem nær einhvers konar hugljómun og sameinast æðri vitund svo jafnvægi skapast.

    Í ljóðum Steins er fleira sem minnir á rómantískan skáldskap. Ég nefni sem dæmi sýn hans á náttúruna sem er nánast eins og hluti af honum sjálfum. Hann skynjar hana ekki sem ógnvekjandi eða óskiljanlega eins og módernistarnir gerðu gjarnan heldur sækir hann til náttúrunnar táknheim tilfinninga sinna. Steinn verður því líklega seint eyrnamerktur einni hugmyndastefnu, enda fæddur á mörkum þeirra tíma er heimsmyndin öll tekur miklum stakkaskiptum.

    Er Steinn kom heim frá Svíþjóð í mars 1946 bjó Ásthildur ein að Lækjargötu 6. Hann flutti til hennar skömmu síðar og hún virðist eftir það gera honum allt til hæfis. Eftir heimkomuna leitaði Steinn til vinar síns Þorvalds Skúlasonar og bað hann að myndskreyta fyrir sig tíu ljóð sem koma áttu út í ljóðabók undir heitinu Dvalið hjá djúpu vatni. Þorvaldur varð við þessari bón hans, en bókin komst þó aldrei á prent því Ragnar í Smára taldi hana verða of dýra til útgáfu vegna myndanna. „Ef til vill hefur hinum örláta forleggjara ofboðið hve afköst skáldsins voru lítil eftir langan tíma erlendis og háar peningagreiðslur: aðeins tíu smáljóð sem nálega öll höfðu birst áður í blöðum og tímaritum. 22Gylfi Gröndal 2001:88.
  • 23
    Gylfi Gröndal 2001:88.
  • 24
    Að sögn mágkonu Steins, Þorbjargar Björnsdóttur, las Steinn bæði ensku og norðurlandamál er hún var samtímis honum í London árið 1947. Þau fóru saman á söfn þennan tíma og hún segir Stein hafa þýtt fyrirhafnarlaust allar skýringar við listaverk safnanna.
  • 25
    Ásthildur K. Björnsdóttir 1947: sendibréf.
  • 26
    Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:157–158.
  • 27
    Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:192.
  • 28
    Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:194.
  • 29
    Steinn Steinarr 1964:362–363.
  • 30
    Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:157–158.
  • 31
    Steinn Steinarr 1964:352–35.
  • 32
    33 Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:194.
  • 33
    Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:192.
  • 34
    Svavar Sigmundsson 1965:39.
  • 35
    Carleton 1964:186.
  • 36
    Silja Aðalsteinsdóttir 1981:37.
  • 37
    Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:189.
  • 38
    Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:180.
  • 39
    Lbs. 769.
  • 40
    Sveinn Skorri Höskuldsson 1971:183.
  • 41
    Lao-tse 1921:67-68.
  • 42
    Heimir Steinsson 1980:131.
  • 43
    Heimir Steinsson 1980:132.
  • 44
    Yngvi Jóhannesson 1921:74.
  • 45
    Lao-tse 1921:46.
  • 46
    Yngvi Jóhannesson 1921:79.

Heimildir

1. Handrit
Handrit á Landsbókasafni Íslands Háskólabókasafni
Lbs. 769-771 fol. Handrit úr fórum Steins Steinarr.

Handrit í einkaeigu
Svört vasabók með almanaki frá 1946 úr fórum Steins Steinarr. Útgefið af Steindórsprenti H.F. Almanakssjóður Háskóla Íslands. Í þessa bók hefur Steinn skrifað með blýanti tvær vísur úr síðasta ljóði Tímans og vatnsins og hefur síðan breytt bæði orðnotkun og fært til ljóðlínur í endanlegri gerð. Höfundur greinarinnar varðveitir nú bókina.
Ýmis önnur hand- og vélrit úr búi Steins Steinarr.

Sendibréf í einkaeigu
Ásthildur K. Björnsdóttir. Sendibréf til Steins Steinarr 20. febrúar 1947. Höfundur greinarinnar hefur bréfið nú undir höndum.
Ingi Bogi Bogason. Sendibréf til Ásthildar Björnsdóttur 18. febrúar 1990. Höfundur greinarinnar hefur bréfið nú undir höndum.

2. Prentaðar frumheimildir
Rauður loginn brann. 1934. Reykjavík: Gefið út á kostnað höfundar.
Ljóð. 1938. Reykjavík: Heimskringla.
Spor í sandi. 1940. Reykjavík: Víkingsútgáfan.
Ferð án fyrirheits. 1942, Reykjavík: Heimskringla.
Dvalið hjá djúpu vatni. 1947. Tíu ljóð eftir Stein Steinarr á vélrituðum blöðum ásamt teikningum Þorvalds Skúlasonar. Bókin hefur verið talin frumgerð Tímans og vatnsins og lét Ragnar í Smára binda hana inn og færði Ásthildi Björnsdóttur að gjöf á greftrunardegi Steins, 3. júní 1958.
Tíminn og vatnið. [Án ártals en talin hafa komið út síðla árs 1948]. Reykjavík: Helgafell. Bókin var prentuð í tvöhundruð tölusettum eintökum. Hér notað 1. eintak þessarar útgáfu, áritað til Ásthildar frá Steini: „Til konunnar minnar elskulegu frá höfundi Steini Steinarr.“
Ferð án fyrirheits. Ljóð 1934–1954. 1956. Reykjavík: M.F.A.
Við opinn glugga. Laust mál. 1961. Hannes Pétursson sá um útgáfuna. Reykjavík: Menningarsjóður.
Kvæðasafn og greinar. 1964. Reykjavík: Helgafell.
Ljóðasafn. 1993. Valgerður Benediktsdóttir bjó til prentunar. 2. prentun. Frumútgáfa 1991. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

3. Aðrar prentaðar heimildir
Brandell, Gunnar. 1946. Inledning. Jean-Paul Sartre: Existentialismen är en humanism (bls. 5-17). Stockholm: Albert Bonniers förlag.
Carleton, Peter. 1964. Tíminn og vatnið í nýju ljósi. Tímarit Máls og menningar, 25(2), 179-191.
Eliot, T.S. 1952. Four Quartets (1. útg. 1943). London: Faber 8t Faber.
Eliot, T.S. 1990. Eyðilandið = The Waste Land. Sverrir Hólmarsson þýddi og sá um útgáfuna. Reykjavík: Iðunn.
Elísabet Jökulsdóttir. 1990. Viðtal við Ásthildi Björnsdóttur: Ég sakna hans ennþá. Mannlíf, 7(8), 58–67.
Eysteinn Þorvaldsson. 1980. Atómskáldin: Aðdragandi og upphaf módemisma í íslenskri ljóðagerð. Fræðirit 5. Reykjavík: Rannsóknarstofnun í bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hið íslenska bókmenntafélag.
Eysteinn Þorvaldsson. 2002. Ljóðaþing — um íslenska ljóðagerð á 20. öld. Til heiðurs Eysteini Þorvaldssyni sjötugum 23. júní 2002. Reykjavík: Ormstunga.
Gylfi Gröndal. 2000. Steinn Steinarr: Leit að ævi skálds. I. bindi. Reykjavík: JPV forlag.
Gylfi Gröndal. 2001. Steinn Steinarr: Leit að ævi skálds. II. bindi. Reykjavík: JPV forlag.
Hannes Sigfússon. 1985. Framhaldslíf förumanns: Endurminningar Hannesar Sigfússonar skálds. Reykjavík: Iðunn.
Heimir Pálsson. 2004. Tölvupóstur til höfundar ritgerðarinnar um helstu punkta úr týndum fyrirlestri, „Tíminn og vatnið — tilraun til draumaráðningar“, sem fluttur var á rannsóknaræfingu Félags íslenskra fræða, líklega 1982-1983.
Heimir Steinsson. 1980. Unio mystica í ljóðum Steins Steinarr? Kirkjuritið, 46(2), 130-133.
Holmberg, Maj-Lis. 1979. Eftirmáli. Steinn Steinarr: Kanske har du aldrig varit till, Maj-Lis Holmberg þýddi (bls. 64-77). Helsingfors: G. Mikinen 82 Co.
Illugi Jökulsson. 1982. Viðtal við Steinunni Guðmundsdóttur: Hann átti annan heim. Tíminn, 4. júlí.
Ingi Bogi Bogason. 1986. Utan hringsins. Óprentuð cand. mag. ritgerð, Háskóli Íslands, Reykjavík.
Ingi Bogi Bogason. 1989. Viðtal við Kristján Albertsson: Ekki er gott að skáldin séu skyrtulaus. Morgunblaðið, 20. maí.
Ingi Bogi Bogason. 1991. Uppruni hugmynda í ljóðum Steins Steinars. Lesbók Morgunblaðsins, 2. nóvember.
Ingi Bogi Bogason. 1995. Steinn Steinarr: Ævi og skoðanir. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
Jakob Benediktsson (ritstj). 1983. Hugtök og heiti í bókmenntafræði. 1983. Reykjavík: Mál og menning.
Jón Þórarinsson. 1994. Vort líf, vort líf, Jón Pálsson, er líkt og nóta fölsk. Morgunblaðið, 14. maí.
Kristján Karlsson. 1974. Eftirmáli. Steinn Steinarr: Tíminn og vatnið (án blaðsíðutals). Reykjavík: Helgafell.
Kristján Karlsson. 1991. Hin ósögðu lausnarorð. Steinn Steinarr: Ljóðasafn (bls. 9–29), Reykjavík. Ritgerðin var áður prentuð sem inngangur að Kvæðasafni og greinum Steins Steinarr, Reykjavík 1964, og í greinasafni Kristjáns Karlssonar, Hús sem hreyfist: Sjö ljóðskáld, Reykjavík 1986.
Lao-tse. 1921. Bókin um veginn. Jakob Jóh. Smári og Yngvi Jóhannesson þýddu. Reykjavík: Bókaversl. Guðm. Gamalíelssonar. [Bókin er úr búi Steins].
Marcel, Gabriel. 1948. The philosophy of existence. Manya Harari þýddi. London: The Harvill Press. [Bókin er úr búi Steins].
Matthías Viðar Sæmundsson. 1981. Einfarar og utangarðsmenn. Skírnir, 155, 52–100.
Orgland, Ivar. 1960. Formáli. Steinn Steinarr: På veglaust hav. Dikt í urval (bls. 5–48). Oslo: Fonna forlag.
Ólafur Jónsson. 1981. Atómskáld og módernismi. Skírnir, 155, 101–125.
Páll Valsson. 1996. Einkenni rómantísks skáldskapar. Íslensk bókmenntasaga III (bls. 264–269). Reykjavík: Mál og menning.
Pedersen, Poul P.M. 1964. Steinn Steinarr digte. Rejse uden løfte. København: Gyldendalske Boghandel, Nordisk Forlag.
Sartre, Jean-Paul. 1946a. Tilverustefnan er mannhyggja. [Ljósrit Páls Skúlasonar, endurskoðuð drög að þýðingu 1981]. Reykjavík.
Sartre, Jean-Paul. 1946b. Existentialismen är en humanism. Arne Higgqvist þýddi. Stockholm: Albert Bonniers förlag. [Bókin er úr búi Steins].
Sigfús Daðason. 1987. Maðurinn og skáldið Steinn Steinarr. Reykjavík: Reykholt.
Sigurbjörn Einarsson. 1958. Minningarorð við kistu Steins í Fossvogskapellu 2. júní 1958. Birt í Lesbók Morgunblaðsins 15. júní sama ár.
Silja Aðalsteinsdóttir. 1981. Þú og ég sem urðum aldrei til. Skírnir, 155, 29–51.
Silja Aðalsteinsdóttir. 1998. Steinn Steinarr — skáld. DV, 17. október.
Svavar Sigmundsson. 1965. Um litatáknanir hjá Steini Steinarr. Mímir, blað Félags stúdenta í íslenzkum fræðum, 4(1), 36–48.
Sveinn Skorri Höskuldsson. 1971. Þegar tíminn og vatnið varð til. Afmælisrit Steingríms J. Þorsteinssonar (bls. 155–195). Reykjavík.
Sveinn Skorri Höskuldsson. 1989. Ljóðarabb. Reykjavík: Bókaútgáfa menningarsjóðs.
Sverrir Hólmarsson. 1990, Eliot og Eyðilandið. T.S. Eliot: Eyðilandið = The Waste Land (bls. 63–77). Reykjavík.
Yngvi Jóhannesson. 1921. Eftirmáli. Bókin um veginn (bls. 71–93). Jakob Jóh. Smári og Yngvi Jóhannesson þýddu. Reykjavík: Bókaversl. Guðm. Gamalíelssonar.
Vilhjálmur S. Vilhjálmsson. 1958. Vinarkveðja frá VSV. Alþýðublaðið, 3. júní.
Þorvaldur Skúlason. 1941. Gömul og ný málaralist. Tímarit máls og menningar, 2(3), 243–249.
Örn Ólafsson. 1992. Kóralforspil hafsins. Reykjavík: Bókaútgáfan Skjaldborg.
Örn Ólafsson. 2004. Uppsprettur Tímans og vatnsins. Kaupmannahöfn: Arnarbæli.

4. Munnlegar heimildir
Ingibjörg Ólafsdóttir. Viðtal við höfund ritgerðarinnar 25. ágúst 2003.
Ólafur Ólafsson. Viðtal við höfund ritgerðarinnar 20. júní 2004.
Þorbjörg Björnsdóttir. Viðtöl við höfund ritgerðarinnar á árunum 2000–2004.