… not mean but be…

eftir Þorstein Þorsteinsson. Birtist í Aldarminning Steins Steinarr — Lesbók Morgunblaðsins 2008

Það er ekki hlutverk listarinnar að búa til afrit af veröldinni.
Eitt eintak er fjandans nóg.
Rebecca West

Líklega hafa fá kvæði verið jafn umdeild meðal íslenskra ljóðalesara og Tíminn og vatnið eftir Stein Steinarr. Ég á þá hvorki við þann stóra hóp manna sem var á móti öllum nýjungum í ljóðagerð um miðja síðustu öld né þá tiltölulega fáu sem virðast vera það enn meira en hálfri öld síðar, heldur á ég við einlæga ljóðaunnendur og jafnvel skáld sem kunna lítt að meta ljóðaflokkinn og finnst hann slæmt hliðarspor á ferli Steins. Þessa hef ég oft orðið var í samtölum og það hefur einnig ratað á prent.((Af skáldum má nefna nú síðast Braga Ólafsson (Lesbók Mbl., 6/9 2008) en áður t.a.m. Jón úr Vör (Birtingur 3–4/1958, bls. 30) og Hannes Pétursson (sjá hér á eftir).)) Einkum mun bálknum þá fundið það til foráttu að hann sé afar torskilinn og jafnvel merkingarlaus á köflum, og — það sem ófyrirgefanlegast er — að skáldið hafi í þessum ljóðum vísvitandi stefnt að merkingarleysu í skáldskap, eins og ljóst megi vera af einkunnarorðunum sem Steinn setti flokknum í frumútgáfu 1948: „A poem should not mean / But be.“ En ljóðabálkurinn hefur einnig átt sér mikla aðdáendur sem hafa litið svo á að Tíminn og vatnið væri eitt helsta afrek Steins og einn af hápunktunum í ljóðlist okkar á síðustu öld.

Mig langar hér á eftir til að velta ögn vöngum yfir þessu ólíka mati og fjalla lítillega um merkingu í ljóðunum. En fyrst væri ef til vill ráð að skoða kvæðið sem einkunnarorðin eru tekin úr, „Ars Poetica“ eftir bandaríska skáldið Archibald MacLeish. Það kvæði var ort á þriðja áratug 20. aldar.((Kom út 1926 í bók MacLeish Streets in the Moon.))

Ars Poetica
A poem should be palpable and mute
As a globed fruit

Dumb
As old medallions to the thumb

Silent as the sleeve-worn stone
Of casement ledges where the moss
has grown —

A poem should be wordless
As the flight of birds

A poem should be motionless in time
As the moon climbs

Leaving, as the moon releases
Twig by twig the night-entangled trees,

Leaving, as the moon behind the winter leaves,
Memory by memory the mind —

A poem should be motionless in time
As the moon climbs

A poem should be equal to:
Not true

For all the history of grief
An empty doorway and a maple leaf

For love
The leaning grasses and two lights
above the sea —

A poem should not mean
But be.

Eins og vera ber í kvæði um skáldskaparlistina getur hér að líta ýmsar meiningar skáldsins um það hvernig kvæði ættu að vera, og ekki að vera. Ljóð ætti samkvæmt þeim að vera hljómlaust og þögult. Án orða eins og fuglar á flugi. Jafnframt ætti það að vera áþreifanlegt og kyrrstætt í tíma. Það ætti með öðrum orðum að vera hlutur. Þetta þýðir þó engan veginn að ljóðið eigi að vera merkingarlaust. Það getur til dæmis fjallað um tilfinningar og vakið geðhrif. En það á ekki að segja heldur sýna. Til að rekja veraldarsögu sorgarinnar á að sýna auða dyragætt og laufblað af hlyni. Og um ástina gildir slíkt hið sama: Það á ekki að tala um hana heldur sýna bælt gras og tvö ljós yfir hafinu. Og ljóð á ekki að vera satt, trúverðug eftirlíking veruleika, heldur jafngildi hans, sjálfstæður veruleiki. Það er víst eins gott að þeir sem hneyksluðust hvað mest á lokalínunum sem Steinn hafði að einkunnarorðum sáu hinar aldrei. En hvað þýða lokalínurnar? Hvernig ber að skilja þær og hvaða hlutverki gegna þær?

Ef til vill er ekki fjarri lagi, í fyrstu lotu að minnsta kosti, að líta á þær sem ákall: Æ, mættum við biðja um ljóð sem eru öðruvísi en þau sem við höfum einkum vanist! Og síðan dregur skáldið í myndlíkingum fram ýtrustu andstæður hinna háværu, sjálfumglöðu, afskiptasömu ljóða.

Hér á landi virðast lokalínurnar yfirleitt hafa verið skildar eitthvað á þessa leið: Ljóð ætti ekki að flytja neina merkingu, það ætti einungis að vera (vera ljóð). Sá skilningur kom til dæmis mjög glögglega fram hjá Hannesi Péturssyni í stuttri athugasemd, „Aftur fyrir málið“, sem hann skrifaði um Tímann og vatnið 1969 og er hvöss gagnrýni á slíka stefnu í skáldskap.((Úr hugskoti (1976), bls. 7–10. )) Ekki er óhugsandi að Steinn hafi sjálfur skilið orðin þannig líka, þó um það séu engar heimildir svo að mér sé kunnugt. Að minnsta kosti fjarlægði hann orðin við seinni útgáfu bálksins 1956, enda hæfa þau honum naumast séu þau skilin svo. Sigfús Daðason andæfir ekki þessum skilningi beinlínis í ritgerð sinni um Stein en er reyndar mun varkárari og ýjar að annarri túlkun orðanna: „[Móttóið hefur] gert töluvert ógagn. Menn hafa viljað skilja það sem svo að ekki beri að leita neinnar merkingar í skáldskap. […] Staðhæfingu MacLeish mætti ef til vill umorða sem svo, að „a poem that only means isn’t a poem“.“((Ritgerðir og pistlar (2000), bls. 230.))

Nú vitum við að höfundur ljóðsins orti ekki merkingarleysur og þetta ljóð hans, „Ars Poetica“, flytur vissulega merkingu. Reyndar skrifaði hann talsvert um merkingu í skáldskap, og má þar nefna bók hans Poetry and Experience sem fjallar að heita má öll um það efni. Og viðhorf hans til ljóða var ekki formdýrkandans, þó vissulega hugaði hann grannt að þeim þætti eins og öll góð skáld.

Já hvað þýða lokalínur kvæðisins? Þess er þá fyrst að gæta að enska sögnin mean er ekki einræð. Ég nefni hér þrjár mikilvægar merkingar en orðabækur tilgreina fleiri: 1) hafa í hyggju, ætla (að gera); 2) merkja, tákna; 3) eiga við, meina. Það er því kannski ekki öruggt að „mean“ þýði þarna „merkja“. Ef við skoðum til dæmis hvernig þýski þýðandinn, Eva Hesse, snýr kvæðinu á sína tungu sjáum við að hún leggur ekki þá merkingu í orðið:

Ein Gedicht sollte sein
Nicht meinen

Það er að segja: Kvæði ætti að vera, ekki meina. Sé þetta réttur skilningur þá er merking línanna sumsé ekki sú, að ljóð ætti ekki að merkja neitt, heldur að ljóð ætti ekki að flytja skoðanir, staðhæfa, boða mönnum sannindi sem þeir geti síðan umorðað og kippt út úr ljóðinu að vild. Einnig að ekki sé nóg að ljóð sé vel meinandi, það verði að vera fullburða og þokkafullt — „eins og fuglar á flugi“. Þversögn kvæðisins er svo sú að nær allar línur þess ganga þvert á þessa stefnuyfirlýsingu, þær flytja afdráttarlausar meiningar.

Reyndar er þessi skilningur kominn fram á íslensku fyrir löngu, í grein bandaríska bókmenntafræðingsins Peters Carleton um Tímann og vatnið.((tmm 2/1964, bls. 179–91.)) Athugasemdir hans um einkunnarorðin eru allrar athygli verðar:

Flestir virðast skilja þetta svo, að skáldskapur eigi að vera einhvers konar orðatónlist, sem ekkert þýðir: hagara gagara skruggu skró. En nákvæm þýðing á orðunum mun vera: hlutverk kvæðis er ekki að meina, heldur vera [leturbr. hér], og það þýðir einungis að merking þeirra sé órjúfanlega tengd forminu, að vera þess sé óskipt eining. Orð MacLeish eru sérstaklega ætluð efnisgagnrýnendum sem eru vanir að endursegja „tilgang“ eða „boðskap“ kvæðis í sem stytztu máli og taka síðan til óspilltra málanna við að athuga hvort hann sé æskilegur eða ekki.

Ég bendi á orð Carletons „og það þýðir einungis að merking þeirra sé órjúfanlega tengd forminu, að vera þess sé óskipt eining“. Talað hefur verið um ,merkingarbært form‘, það takmark að þættirnir form og inntak séu eitt og hið sama eða að minnsta kosti óaðgreinanlegir. Orðin eru í góðu samræmi við fagurfræðilegan skilning sem á sér virðulega sögu og má orða svo í sinni ýtrustu mynd: Ljóð á ekki að segja frá eða ræða málefni, það á að vera sjálfstæð verund. Það á einungis að lúta eigin lögmálum, bera tilgang sinn í sjálfu sér og vera sjálfu sér nógt (vera átónóm, átótelískt og átark, svo gripið sé til hinna grískættuðu orða sem oft eru notuð í þessu sambandi).

Eins og fram kemur í ljóðlínunum „A poem should be equal to / Not true“ þá á ljóð umfram allt að vera heterokosmos, annar og sjálfstæður heimur. Og segja má að það gildi einnig í meginatriðum um Tímann og vatnið. Ljóðin í bálkinum fjalla ekki um veruleika sem var til áður en þau voru ort. Þau eru ekki eftirlíking veruleika heldur búa til sinn eigin veruleika. Og það er ekki hægt að gera útdrátt úr bálkinum. Þá fagurfræði sem þarna birtist má að verulegu leyti rekja til symbólismans í Frakklandi á ofanverðri 19. öld og hún hefur vissulega getið af sér mikil listaverk þó ekki séu þau allra. Hennar gætti einnig mikið í bókmenntagagnrýni á síðustu öld, ekki síst í Nýrýninni.

Ekki munu allir verða mér sammála um þennan skilning á eðli ljóðaflokksins. Hver lesandi virðist finna í honum sinn tíma og sitt vatn, og skilja hann jafnvel á þann veg að hann sé ástarljóð til konu sem hægt sé að nafngreina. En niðurstaða mín af þessari athugun á einkunnarorðunum verður sem sagt sú, að grunnmerking þeirra sé: Ljóð ætti ekki að flytja meiningar heldur láta sér nægja að vera ljóð. Það mætti svo kannski umorða á þá leið sem Sigfús Daðason ýjar að: Ljóð sem einungis flytur skoðanir, þar sem inntakið er allt, er ekki ljóð. Á hitt ber þó að líta að munurinn á ,meina‘ og ,merkja‘ er ekki alger; og varla verður því neitað að línurnar hafi líka til að bera merkingaraukann ,hlutverk ljóðs er ekki að flytja merkingu‘. Fyrir þeim skilningi er vissulega nokkur stoð, og jafnvel má ætla að MacLeish hafi vísvitandi haft línuna tvíræða.

Hvað sem því líður tel ég að einkunnarorð Tímans og vatnsins hafi ekki verið skilin rétt hér á landi, og að það hafi stuðlað að misskilningi á ljóðaflokknum í heild, að minnsta kosti fyrst í stað. Ætla má að Steinn hafi fjarlægt orðin vegna þess að hann hafi ekki verið sáttur við þá einhliða túlkun á flokknum sem orðin leiddu til. Að sönnu eru margar óræðar myndir í ljóðaflokknum og um flest kvæðin gildir að hæpið er að reyna að umorða þau eða endursegja, en það gildir nú um stóran hluta nútímaljóða.

Hér verður engum getum að því leitt hversvegna Steinn aðhylltist þessa fagurfræði snemma á fimmta áratugnum, tók að smíða ný og glæsileg ljóðform, og orti í þessum ljóðstíl, að því er best verður séð, þangað til hann taldi sig vera búinn að tæma möguleika hans. Ekki verður heldur reynt að grafast fyrir um það að ráði hverjir hafi verið helstu áhrifavaldarnir. Þó vitum við að á þessum árum umgekkst Steinn mikið listmálara sem voru að fara nýjar leiðir í list sinni, og að minnsta kosti einn þeirra, Þorvaldur Skúlason, fylgdist mjög vel með fræðilegri hugsun og skrifum um nýstefnur í listum. Og telja má að grein Steins um Þorvald frá 1942 sé grundvallartexti til skilnings á Tímanum og vatninu og því sem Steinn var að leitast við að gera.((Kvæðasafn og greinar (1964), bls. 251–54.)) Í tilefni sýningar sinnar í Listamannaskálanum 1943 lét Þorvaldur svo ummælt:

Myndin á að hafa sitt gildi, sinn tilgang, aðeins í sjálfri sér, þ.e.a.s. í listrænni framsetningu eingöngu. […] Hún lýtur sínum eigin listrænu lögmálum. Um fyrirmynd hennar í veruleika skiptir engu; hún getur verið án hennar eða ekki [leturbr. hér].((Björn Th. Björnsson: Þorvaldur Skúlason · Brautryðjandi íslenzkrar samtímalistar (1983), bls. 109.))

Orðin eru mjög í samræmi við þann ljóðskilning sem lýst var hér að framan og ættaður er frá symbólismanum. Það sem gildir er að skapa nýjan veruleika fremur en að vísa til og endurskapa veruleika sem áður var til. Orðin gætu, að breyttu breytanda, sem best verið lýsing á fagurfræði Tímans og vatnsins.

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson (F. 1938) bókmenntafræðingur, rithöfundur og þýðandi hefur um árabil fjallað um íslenskar bókmenntir í ýmsum ritum. Nýjasta bók hans Ljóðhús — Þættir um skáldskap Sigfúsar Daðasonar, var gefin út af JPV útgáfu, 2007.

Tilvísanir