Nokkur orð um líf og ljóð Steins Steinarr
eftir Helga J. Halldórsson. Birtist áður í Jólablaði Þjóðviljans 1958
Á öndverðu þessu ári hvarf okkur af sviði lífsins einn sérstæðasti persónuleiki og frumlegasta skáld þessarar kynslóðar: Steinn Steinarr skáld. Vinum hans og ljóðaunnendum er það hins vegar mikil huggun, að hann er enn hjá þeim í ljóði sínu. Það er þess vegna ekki úr vegi að láta hugann á þessum jólum dvelja um stund við líf hans og ljóð.
Steinn Steinarr var fæddur á Laugalandi í Nauteyrarhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu 1908, sonur Kristmundar Guðmundssonar og Etilríðar Pálsdóttur. Hann fluttist á barnsaldri suður í Saurbæ í Dalasýslu og ólst þar upp til 15 ára aldurs, fyrst eitt ár í Bessatungu og síðan þar til hann var 13 1/2 árs í Miklagarði hjá Steingrími Samúelssyni og móður hans, Kristínu Tómasdóttur. Eftir það var hann 2 ár á Hvoli í Saurbæ og eitt sumar á Tindum í Geiradal. Þá var hann einn vetur á Núpsskóla i Dýrafirði, og er það öll framhaldsmenntun Steins, en í barnaskóla var hann hjá Jóhannesi úr Kötlum, sem var barnakennari í Saurbænum, þegar Steinn var þar að alast upp. Að loknu eins vetrar námi í Núpsskóla kom Steinn til Reykjavíkur 1924, þá á 17. aldursári og átti þar heima síðan. En nú fóru erfiðir tímar í hönd. Steinn var lítt fallinn til erfiðisvinnu, en átti ekki annarra kosta völ. Hann vann almenna hafnarvinnu í Reykjavík, við bústörf á Korpúlfsstöðum, síldarvinnu á Siglufirði og í síldarverksmiðjunni á Sólbakka, vegavinnu í Bröttubrekku og aftur við sveitastörf í Dölum vestur.
Eftir 1930 fór Steinn tvívegis til Danmerkur og Þýzkalands, 1933–34 og ‘36. Varð hann þá gjarnan að vinna sér til lífsuppeldis, var tvívegis í vinnumennsku á Sjálandi, annað skiptið við garðyrkjustörf, en hitt skiptið við hænsnarækt. Fyrsta ljóðabók Steins, Rauður loginn brann, kom út 1934, gefin út á kostnað höfundar. Framan við hana er svofelld tileinkunn:
Þessi bók er tileinkuð félögum mínum og kunningjum í Reykjavík, sem árum saman hafa barizt eins og hetjur við hlið mína fyrir lífsnauðsynjum sínum — og enn ekki sigrað.
Í þessari ljóðabók Steins ber mest á heimsádeilu og byltingarljóðum. Fyrsta kvæðið, Öreigaæska, er greinilega ort undir áhrifum frá Jóhannesi úr Kötlum, en flest eru kvæðin ljóðræn að formi. Steinn er á þessu stigi líkt og Jóhannes rómantískur raunsæismaður. Annars má vera, að Stefán frá Hvítadal hafi átt meiri ítök í huga Steins, þegar hann hóf ljóðaferil sinn. Steinn ólst upp í heimabyggð Stefáns og var honum persónulega kunnugur. Ljóðævi Stefáns og lífsævi var og öll, áður en Rauður loginn brann kom út, því að Stefán andaðist ári áður eða 1933 og síðasta ljóðabók hans, Helsingjar, kom út 1927.
Stefán frá Hvítadal og Davíð frá Fagraskógi voru þau Ijóðskáld íslenzk, er ákafast drógu að sér hugi ungra ljóðunnenda á æskuárum Steins. Sá ástríðueldur og tilfinningahiti, sem brann í ljóðum þeirra, mun að vísu ekki hafa látið Stein ósnortinn í fyrstu, en hann brann ekki upp til ösku í þeim loga, eins og henti sum ljóðskáld á þessum tíma.
Steinn Steinarr er að því leyti í tengslum við þann skáldaskóla, sem reis með Stefáni og Davíð, að flest kvæði hans eiga upptök sín í tilfinningalífi skáldsins. Hann eignaðist hlutdeild í lífsharmi Stefáns, en ekki lífsþorsta og lífsnautn.
Að sjálfsögðu veldur þessu að miklu leyti ólík skapgerð, en þetta er einnig tímanna tákn. Stefán og Davíð hófu ljóðferil sinn í lok heimstyrjaldarinnar fyrri, um leið og Íslendingar endurheimtu fullveldi sitt. Þeir sigldu hraðbyri í því hafróti, sem komst á hið áður kyrrstæða líf hér heima — á styrjaldarárunum og í lok þeirra. Íslendingar fengu meiri fjárráð en áður, þeir urðu stórhugaðri og bjartsýnni á framtíðina. Skáldin kunnu vel að meta og hagnýta sér hið breytta lífsviðhorf. Þau urðu hrifnæmari, geðsveiflur þeirra sterkari, lífsþorsti þeirra ákafari. Þau verða stærri bæði í gleði og sorg. En þetta öldurót stóð ekki nema rúman áratug, og Steinn lenti í útsoginu. Þegar ljóðferill hans hófst, var heimskreppan skollin yfir Ísland, bjartsýnin farin að dvína, lífsmöguleikarnir að þverra. Þess vegna varð ljóðtónn hans annar. Lífsbarátta hans var hörð. Fátækur sveitadrengur vestan af landi með visinn handlegg átti fárra kosta völ í Reykjavík kreppuáranna. En þráin til skáldskapar var öllum örðugleikum yfirsterkari. Hann hafði hrundið ljóðafari sínu á flot, og áfram skyldi haldið.
Ég hef getið þess, að í fyrstu ljóðabók Steins megi greina nokkur áhrif frá Jóhannesi úr Kötlum, en þau áhrif urðu ekki varanleg. Strax í annarri ljóðabók Steins, Ljóðum 1938, eru verkamenn og stéttabarátta ekki lengur aðalyrkisefnið, heldur er meginhluti kvæðanna um hann sjálfan og lífið. Þessar heimspekihugleiðingar ágerast í næstu ljóðabókum, Sporum í Sandi 1940 og Ferð án fyrirheits 1942, og verða heilabrot um fánýti lífsins eða háspekileg tómhyggja eins og Magnús Ásgeirsson komst að orði í ritdómi. Þannig siglir Steinn burt frá sveitunga sínum, Stefáni frá Hvítadal, og kennara sínum, Jóhannesi úr Kötlum, einn á báti.
Þegar fyrsta ljóðabók Steins, Rauður loginn brann, kom út, skrifaði Halldór Kiljan Laxness um hana ritdóm og fór um hana mjög lofsamlegum orðum. Um þriðju ljóðabókina, Spor í sandi, ritaði hann einnig og segir þar m. a. svo:
Höfundur þessara ljóða er sterkt, upprunalegt og persónulegt ljóðskáld, að vísu nokkuð fábreyttur í efnisvali, en vandaður listamaður innan þeirra takmarka, sem hann velur sér. Hann nær lengst í túlkun sinni á þeim kenndum ömurleika og fánýtis, sem grúfa yfir sál hins snauða, rótlausa einstæðings. Mörg kvæðanna eru lifandi túlkun vorrar aldar á anda sálmanna frá 17. öld um forgengileik heimsins og fallvaltleik mannlegs lífs, og snilldarverk bókarinnar eru heimsádeilukvæðin eins og „Það bjargast ekki neitt,“ og „Svo óralangt þú einn og hljóður gekkst,“ þótt þau séu, ef til vill, fullnakin í tjáningu sinni og segi of berum orðum þá hluti, sem betur fara í rósamáli og tákna.
Frá listrænu sjónarmiði er greinilega um framför að ræða með hverri nýrri bók. Steinn leggur sífellt meiri rækt við formið, fágar og slípar. Hann yrkir sjaldan löng kvæði. Stundum er eins og hann leggi metnað sinn í að segja sem mest með sem fæstum orðum, en bregða þó upp skýrri mynd. Gott dæmi þess er smákvæðið „Bær í Breiðafirði“.
Grænt, rautt og gult.
Og golan þýtur
í þaksins stráum.
Tvö fölleit andlit
með augum bláum
á eftir mér stara
í hljóðri spurn:
Hvert ertu að fara?
En styrkur Steins er mestur í harminum, þróttleysi hans og viðnámi í senn — máski ekki í nakinni og beizkri umkvörtun svo sem í kvæðinu Að fengnum skáldalaunum, heldur miklu fremur í ljóðunum Hin mikla gjöf, Heimferð og Til hinna dauðu, þar sem persónan rís upp úr harminum, eldskírn þjáninganna, öllu og öllum óháð, frjáls og sterk í veikleika sínum og einveru. Form og efni falla hvort að öðru í fullkominni sátt.
Í síðari ljóðabókunum Sporum í sandi og þó einkum í Ferð án fyrirheits er háðið, fyndnin og hin markvissa ádeila í orðknöppu formi orðin mjög ríkjandi í ljóðum Steins. Ádeila þessi er í senn meinyrt og nöpur svo sem í Imperium britannicum eða kaldhæðin og glettin svo sem í ljóðunum Að sigra heiminn, Að frelsa heiminn og Passíusálmi nr. 51. Hið síðasttalda er napurt háðkvæði, einfalt en þó sterkt, og skeytið hittir beint í mark. Varla verður betur túlkað hið algjöra skilningsleysi fólksins á því, sem er að gerast í kringum það, hið algjöra kæruleysi fyrir þjáningum mannsins að fornu og nýju. Í kvæðinu er nákvæmlega lýst öllu hinu ytra: veðrinu, sjónum, ytra útliti mannsins, sem verið er að krossfesta, augum stúlkunnar, sem af einskærri forvitni hefur tekið sér far með strætisvagni til þess að horfa á athöfnina. Og svo kemur þessi kæruleysislega spurning langt utan úr órafjarska skilningsleysisins: Skyldi manninum ekki leiðast að láta krossfesta sig? Þó að bölsýn heimsádeila, háð og skop séu mjög ríkjandi í ljóðum Steins, bregður þó stundum fyrir bjartsýni og jafnvel stolti: Má þar benda á þrjú kvæði í Sporum í sandi: Gömul vísa um vorið, Stökur og Chaplinvísan, model 1939. Einnig er víða að finna tærar og ósviknar ljóðperlur, svo sem smákvæðið Vor og Það vex eitt blóm fyrir vestan.
Ég hef orðið var við þann misskilning hjá ýmsum, sem lítt eða ekki hafa lesið ljóð Steins, að hann yrki yfirleitt ekki rímað og sé ósýnt um fornar bragreglur. En sannleikurinn er sá, að órímuð ljóð teljast til algjörra undantekninga í kvæðabókum Steins, meira að segja þeirri síðustu Tímanum og vatninu, sem annars hefur algjöra sérstöðu. Og það mætti segja mér, að Steinn hefði orðið afburða rímnaskáld í líkingu við Bólu-Hjálmar, ef hann hefði verið uppi einni öld fyrr. Máski hefði hann ort sízt ómergjaðri rímur en Göngu-Hrólfs rímur. Í þá átt bendir Mansöngur úr Hlíðar-Jóns rímum, sem birtist í Sporum í sandi, og einhversstaðar mun vera til slitur úr þeim rímum þó að þær hafi ekki birzt ennþá. Í sömu bók er einnig Brúðkaupskvæði í gömlum stíl, þar sem allt stendur í föstum skorðum, stuðlar, rím og hrynjandi. Og ekki vantar rímið í kvæðið Hugleiðingar um nýja heimsstyrjöld.
En Steinn er uppi öld síðar en Bólu-Hjálmar, og íslenzkt þjóðfélag er orðið annað en það var á dögum hans, þó að það eigi sér enn nokkrar hliðstæður. Þess vegna bera ljóð Steins á sér annan svip en ljóð Bólu-Hjálmars. Steini er ljóst, að nýr tími krefst nýrrar tjáningaraðferðar.
Í upphafi ritdóms Halldórs Laxness um Spor í sandi, sem ég vitnaði áður í, segir svo:
Af allri þekktri starfsemi er einna minnst íþrótt að yrkja ljóðræn kvæði á íslenzku nú á dögum. Sá Íslendingur, leikur eða lærður, er varla til, að hann geti ekki ort lýtalaust ljóðrænt kvæði eftir vild. Ljóðrænn kveðskapur íslenzkur er á tuttugustu öld sams konar rennsli í föstum farvegi og sálmakveðskapur eða rímur voru áður fyrri — tungan er í nokkrar kynslóðir vanin á einu sviði, unz hún er orðin sjálfvirk: hugmyndir og yrkisefniföst, blærinn fyrirfram ákveðinn og ævinlega samur, orðin yrkja sig sjálf, starf „skáldsins“ er að skrúfa frá nokkurskonar krana; og oft er rennslið þeim mun jafnara og misfellulausara sem maðurinn við kranann er hugsunarlausari og sljórri.
Því meira allra-meðfæri sem „list“ þessi verður, þeim mun sjaldgæfara að hitta skáld. Þó markmiðið sé rómantísk dýrkun tilfinninganna, eru mannlegar tilfinningar í hefðbundnum skáldskap venjulega allfjarri, því miður.
Mitt í þessari almennu, sjálfvirku starfsemi, getur manni orðið hverft við að heyra upprunalegan hreim í ljóði, skynja einhvern innri veruleik bak við orð, ég tala nú ekki um eitthvað, sem á rót sína í örlögum kynslóðarinnar, eða þó ekki sé nema í trega eins manns.
Hér er nokkuð fast að orði kveðið, en í þessu er þó sannleikskjarni. Hættan á stöðnun vofir yfir sérhverju listformi. Engum er þetta ljósara en listamönnunum sjálfum, og ég hygg, að Steini hafi tekizt vel, er hann reif sig frá meginstraumi ljóðræns kveðskapar á fyrri hluta 20. aldar. Með ljóðabókunum Sporum í sandi og Ferð án fyrirheits reis Steinn upp sem listrænn ljóðasmiður, sérstæður en þó í senn sammannlegur. En formbyltingin er algjörust í Tímanum og vatninu. Segja má, að þessi ljóðabók, sem kom út 1948 marki tímamót í ljóðagerð Steins, ekki þó fyrst og fremst vegna rímleysis, því að mörg kvæðin eru bæði rímuð og stuðluð, heldur af allt öðru, sem nú skal nánar vikið að. Í bókinni eru 13 smáljóð, og höfðu þau birzt áður í tímaritum og þá undir ýmsum heitum, en mynda í þessari bók samstæðan flokk.
Þess er áður getið, að Steinn sé undir nokkrum áhrifum frá Jóhannesi úr Kötlum í fyrstu ljóðabók sinni, en þau áhrif hverfa strax með annarri bók, og því lengra sem líður á skáldferil Steins, verður hann sífellt persónulegri, sérstæðari og óháðari bæði fyrirrennurum sínum og samtímaskáldum innlendum. Í fjórum fyrstu ljóðabókum hans eru kvæði ýmislegs efnis, eins og ég hef þegar vikið að, en eitt hefur undantekningarlaust verið Steini ástríða: það er að nota sem orðknappast form. Og það er í rauninni orðið honum lokatakmark í Tímanum og vatninu. Hann hefur aðgreint listina frá hinni hversdagslegu lífsbaráttu og gert hana að sjálfstæðri höfuðskepnu, losað sig við alla óþarfa mælgi, tínt burt allt óþarfa skraut, meira að segja lesmerki, og fer vel á því í þessu formi. Í kvæðunum er engin ádeila, engin kímni, ekkert háð. Eftir stendur lyrikin ein, lífsheimspekin um mig og þig og hið skynjanlega umhverfi í myndrænu formi.
Fyrstu kvæði Steins í þessu nýja formi munu hafa birzt í Tímariti Máls og menningar 1945. Þar eru þrjú örstutt kvæði, kvæði, sem heita svo: dagur og nótt, hvítur hestur í tunglskini og þögn. Hvert kvæði er aðeins þrjú erindi og hvert erindi er þrjár ljóðlínur. Formið er þanníg mjög þröngt og greinilega byggt upp með hliðsjqn af málverkum. Kvæðið hvítur hestur í tunglskini er þannig:
hvítt
hvítt eins og vængur
míns fyrsta draums
er fax hans
eins og löng ferð
á línhvítum fáki
er líf manns
og feigðin heldur sér
frammjóum höndum
í fax hans
Hér er brugðið upp skýrri mynd, svo skýrri, að við sjáum málverkið fyrir okkur, sjáum feigðina, sem heldur sér frammjóum höndum í hvítt faxið á hinum línhvíta fáki. Jafnframt er komið fyrir í myndinni nokkurri lífspeki um líf mannsins. Í kvæðinu þögn er dirfska skáldsins ennþá meiri. Í því tekur skáldið þögnina og gefur henni bæði lit og lögun, svo að hægt er að sjá hana og jafnvel þreifa á henni. Það kvæði virðist gert með hliðsjón af óhlutlægu málverki:
þögnin rennur
eins og rauður sjór
yfir rödd mína
þögnin rennur
eins og ryðbrunnið myrkur
yfir reynd mína
þögnin rennur
í þreföldum hring
kringum þögn sína
Sama árið og ljóð þessi birtust í Tímariti Máls og menningar eða 1945 fór Steinn til Svíþjóðar og dvaldist þar um 10 mánaða skeið. Mun hann þá hafa kynnt sér nokkuð skáldskap förtitalistanna sænsku og kynntist sumum þeirra persónulega. Væntanlega hefur hann þó verið farinn að lesa ljóð þeirra áður, því að ljóðabók Gunnars Ekelöfs Sent på jorden kom út 1932 og ljóðabók Eriks Lindegren Mannen utan väg kom út 1942. En ljóðabækur þeirra eru fyrstu ljóðasöfnin í Svíþjóð, þar sem ljóðin eru byggð upp sem abstrakt eða máske öllu heldur súrrealisk málverk.
En enda þótt erlendar fyrirmyndir hafi máski orðið Steini hvöt til að gera tilraunir með nýtt ljóðform, er síður en svo, að hann hafi tileinkað sér hinar erlendu fyrirmyndir óbreyttar, heldur bera ljóðin fyrst og fremst svip af skapgerð skáldsins og lífsviðhorfi. Þó að margt komi okkur ókunnuglega fyrir sjónir í Tímanum og vatninu, má, ef betur er að gáð, finna ýmsar hliðstæður í eldri ljóðum skáldsins. Ég minni á Vor í annarri ljóðabókinni 1938 og Bæ í Breiðafirði í Ferð án fyrirheits.
Einnig heldur áfram og reyndar ágerist heldur tómleikatilfinning sú, einverukennd og lífsharmur, sem eru svo ríkjandi í eldri ljóðabókunum:
Frá vitund minni
Til vara þinna
Er veglaust haf
En draumur minn glóði
í dulkvikri báru
Meðah djúpið svaf
Og falin sorg mín
Nær fundi þínum
Eins og firðblátt haf
Tíminn og vatnið er síðasta ljóðabók Steins. 1949 komu út 100 kvæði, úrval úr eldri ljóðum, og heildarútgáfa af ljóðum hans kom út 1956. En eftir að Tíminn og vatnið kom út 1948, birtist nær ekkert af nýjum ljóðum eftir Stein. Unnendum ljóða hans var þetta mikið áhyggjuefni. Þegar menn hafa fengið eitthvað gott, vilja þeir gjarnan meira af slíku. Engum getum skal að því leitt þessu sinni, hvað hafi valdið. Það virðist eins og Steinn hafi með Tímanum og vatninu ort sig í þá sjálfheldu, sem hann losnaði ekki úr, ort sig burt frá amstri daglegs lífs, og ekkert mun hafa verið honum fjær skapi en eiga það á hættu að yrkja sig niður. En þótt hann gæfi okkur fá ljóð síðustu árin og þótt hann sé horfinn af sviði lífsins, var ljóðgjöf hans samt svo stór og vönduð, að vegna hennar mun hans minnzt, meðan íslenzk ljóð eru einhvers metin.
Helgi J. Halldórsson
Helgi J. Halldórsson (F. 1915. D. 1987) lagði stund á íslensk fræði við Háskóla íslands og lauk þaðan cand. mag.-prófi 1945. Sama ár tók hann við starfi kennara í íslensku og ensku við Stýrimannaskólann í Reykjavík og gegndi því starfi þar til hann varð sjötugur árið 1985. Auk kennslunnar stundaði Helgi ritstörf. Hann tók saman Enska lestrarbók handa sjómönnum sem kom út árið 1954. Meðal annarra verka hans eru Þættir úr sagnfræði Íslandsklukkunnar og lögmál skáldverksins, sem birtist í Á góðu dægri árið 1951, og Skýringar við Gerplu sem komu út árið 1956. Af þýðingum Helga má nefna skáldsöguna Smaragðinn eftir Josef Kjellgren, Hús skáldsins, rit um skáldverk Halldórs Laxness eftir Peter Hallberg, og Gift og Götu bernskunnar eftir Tove Ditlevsen.