Ljóðagerðin varð uppreisn hans
Jón Óskar segir frá kynnum sínum af Steini Steinarr. — Úr bókinni Borg minna drauma
Það var einn maður í Reykjavík, lítill vexti, sem gekk alltaf í frakka og hafði hann jafnan frá sér hnepptan. Þannig minnist ég hans á stríðsárunum, að hann kom á Ingólfskaffi og settist við borð, fékk sér kaffi og rabbaði við menn í makindum, en hann fór ekki úr frakkanum. Hann kom inn á Skálann, settist við borð, sat lengi, fór með vísur fyrir menn sem sátu í kringum hann frakkalausir, drakk mikið kaffi, talaði við menn sem komu og fóru, dró dár að hinu og þessu hægum hreim, en hann fór ekki úr frakkanum. Það var ekki þykkur vetrarfrakki og ekki heldur næfurþunnur sumarfrakki, heldur frakki sem hægt var að nota bæði sumar og vetur, of þykkur í hlýju sumarveðri, of þunnur í köldu vetrarveðri, grár eins og flestir slíkir frakkar á þeim tíma. Seinna hugsaði ég með mér að rétt kynni að vera það sem sumir sögðu, að hann hefði ekki viljað láta sjá föt þau sem hann var í innanundir frakkanum, því frakkinn var ekki neinn frakki til að státa af eins og frakkinn í sögu Steinars Sigurjónssonar um listamanninn sem komst í svo mikinn vanda af því að eignast frakka með loðkraga. Nei, þessi frakki var farinn að láta á sjá, og eigandi hans hafði varla meira en svo ráð á að setja hann í hreinsun, enda engin brýn þörf á því meðan eigandinn leitaði ekki á fínni og háborgaralegri staði en Skálann, Ingólfskaffi, Heitt og kalt eða minniháttar kaffistaði Hafnarstrætis, þar sem hann var þó ekki mikið. Hann var of sterkur til að fara í hundana, sögðu sumir, en aðrir sögðu að það þyrfti sterk bein til að fara í hundana, og þá hefur hann líklega verið of veikur til þess. Hann hét Aðalsteinn Kristmundsson, þessi lágvaxni maður, en þekktur í Reykjavík og jafnvel víðar undir nafninu Steinn Steinarr.
Hann var kaldlyndur maður, að því er ætla mátti af hátterni hans, því hann dró dár að allri tilfinningasemi, var nokkurskonar Óskar Wilde okkar Íslendinga, maður sem gekk um stræti Reykjavíkur, þau stræti sem þá voru lifandi jafnt á kvöldi sem degi, Austurstræti, Aðalstræti, Bankastræti, Lækjargata, og tók menn tali, ef hann kannaðist við þá, gerði grín að borgurunum og varpaði fram skemmtilegum athugasemdum, stundum nokkru galli blöndnum, og hann tamdi sér ákveðna samtalslist eins og Óskar Wilde eða eins og Stefán frá Hvítadal, en þaðan taldi Jóhannes úr Kötlum gallið komið í orðræður Steins, sagði kjaftasögur sem stíll var í, talaði alla jafna mjög hægt og hafði undarlega seiðandi áhrif á viðmælendur sína og áheyrendur, svo sumir losnuðu ekki úr þeirri sefjun ævilangt. Hann var fremur væskilslegur og stundum hálf slyttislegur í hreyfingum, enda visinn annar handleggurinn. Hann gat rætt um hvað sem var, að heita mátti, við hvern sem var, eins og hann hefði langa skólagöngu að baki. Hann hafði það sem í þá daga var kallað lexíkonþekking, en svo var nefnd kjaftaþekking þeirra manna, sem höfðu verið iðnir að fletta upp í alfræðiritum eða fara á hlaupum yfir fræðibækur og skáldverk. Slíkir menn koma fljótt upp um takmarkanir sínar, en Steinn hafði gott vit á að nota þekkingu sína þannig að ekki bæri á því að hann hafði aldrei gengið í skóla umfram það að læra lestur og skrift og reikning í barnaskóla vestur í Dölum, en síðan einn vetur á alþýðuskólanum að Núpi í Dýrafirði.
Sú kaldhæðni sem Steinn Steinarr var búinn að tileinka sér í umgengni við menn og tali um menn, þegar ég kynntist honum á stríðsárunum, kom sjálfsagt ýmsum til að halda að hann væri sá tómhyggjumaður sem sum kvæði hans virtust benda til, hann væri i rauninni ekki uppnæmur fyrir nokkrum sköpuðum hlut. Það var þó tvennt sem hann gat ekki dulið þá sem hann þekktu, að hann var viðkvæmur fyrir. Annað var hans visna hönd „sem vann sér ei til matar“ eins og stendur í kvæði hans, hitt var sjálf ljóðagerðin.
Mér var sögð sú saga, að eitt sinn á kreppuárunum hefði Steinn ráðið sig í erfiðisvinnu. Framan af degi vann hann líkt og aðrir, en bráðlega tók verkstjórinn eftir því að farið var að draga af honum. Spurði hann Stein þá hvort hann væri veikur, en Steinn kannaðist ekki við það. Verkstjórinn sá þó að meira dró af Steini eftir því sem á daginn leið en eðlilegt mátti heita, og að loknu dagsverki gekk hann á hann og komst þá að raun um að annar handleggur þessa verkamanns var visinn. Brá honum í brún og sagði:
Hversvegna sagðirðu mér ekki frá þessu?
Af því að þá hefðirðu aldrei ráðið mig, svaraði Steinn.
Hvort sem þessi saga er uppspuni eða sönn að hálfu eða öllu leyti, þá lýsir hún vel aðstöðu þessa lágvaxna manns á liðnum tímum fárra tækifæra. Ljóðagerðin varð uppreisn hans og sigur yfir örbirgðinni. Enginn annar en sá sem hafði hlotið afburðagáfur í vöggugjöf hefði getað náð slíku valdi á ljóðinu við þau skilyrði fötlunar og kreppu sem hann bjó. Þessvegna sætti hann sig undir niðri illa við þá lítilsvirðingu sem hann hlaut í stað viðurkenningarinnar á meðan hann lifði, og þessvegna var honum nokkurs virði að hljóta viðurkenningu ungra skálda sem töldu sér heiður að vináttu hans. Það var einhverju sinni að við Steinn sátum tveir saman inni á Skála. Þá var Snorri Hjartarson nýbyrjaður að birta kvæði eftir sig, þá starfsmaður í Bæjarbókasafninu við Ingólfsstræti, hafði birt kvæðið fræga „í Úlfdölum“ og fleira. Steinn spurði:
Hvernig líst þér á Snorra?
Mér finnst hann svolitið gamaldags, svaraði ég, en lét annars vel yfir.
Mér þótti Steinn hafa nokkra velþóknun á því, að ég skyldi ekki lýsa yfir óblandinni hrifningu á kvæðum Snorra. Ég vildi hafa meira nýjabrum á íslenskum kveðskap. Snorri hlaut hinsvegar einróma viðurkenningu bókmenntamanna, svo sem hánn átti skilið, því hann orti snilldarvel með sinni gamaldags aðferð.
Steini var greinilega ekki fyllilega rótt, þegar hann minntist á Snorra við mig. Hann sá það sem ég sá ekki, að með svona einróma fylgi bókmenntafræðinga og annarra bókmenntamanna gat svo farið, að Snorri yrði tekinn fram yfir hann, og gengi þá næstur Tómasi, sem ég held óhætt að segja, að gengið hafi næstur Davíð frá Fagraskógi. Þetta held ég hafi valdið Steini nokkrum áhyggjum. Vafalaust hafði hann gert sér vonir um meiri frama, þó Davíð Stefánsson hlyti áfram að fá að sitja í heiðurssætinu á skáldabekk.
Það var öðru sinni, að við sátum tveir saman inni á Skála, einnig þá í rangalanum meðfram garðinum, þar sem oft var gott að sitja og þægilegt að horfa út í garðinn, ef manni leiddist að horfa á fólkið við næstu borð sem þó var jafnan gaman að skoða, og sátu þar oft hrífandi ungar stúlkur sem nutu þess að vera kvenkyns. Þá sagði Steinn:
Hver heldur þú að sé mesta skáld á Íslandi í dag?
Ætli þú hafir ekki vinninginn, svaraði ég. Og ég þurfti raunar ekkert að hræsna, því Tómas var nú heldur að falla í skuggann, að mér þótti. En mér féll ekki vel að þurfa að svara þessu. Hvernig gat Steinn Steinarr látið sér detta í hug að toga slíka yfirlýsingu út úr kunningja sínum? Hvernig gat hann verið að fara í slíkan meting um heiðurssæti á skáldabekk? Hver átti að vera fær um að dæma honum eða öðrum slíkt sæti? Ég get reyndar vel ímyndað mér að sumir aðdáendur hans hafi óbeðnir látið hann heyra, að hann væri mesta skáld á Íslandi, en að hann skyldi fara að spyrja mig um þetta, það þótti mér fremur niðurlægjandi, ekki aðeins fyrir mig, heldur fyrir okkur báða. Hinsvegar skildi ég það betur seinna meir, að Steinn hlaut að vera viðkvæmur gagnvart stöðu sinni í skáldahópi, þar sem hann öðlaðist aldrei þá viðurkenningu bókmenntapáfa þeirra tíma sem honum bar, enda kom það fram við ýmis tækifæri hver hugur hans var til bókmenntaspekinga samtíðarinnar. Eitt dæmið um það er athugasemd frá honum sem birtist i Þjóðviljanum í júnímánuði 1952 (endurprentuð að honum látnum í Kvæðasafn og greinar), en hún hófst á þessa leið:
Sökum þess, að mér er hlýtt til Sósíalistaflokksins, vil ég hér með mótmæla eindregið skrifum þeim um „skáldskap“, sem birtast öðru hverju í blaði hans, Þjóðviljanum, undir nafninu Bjarni Benediktsson. Þau skrif eru sem sé af þeim toga spunnin, að erfitt mun reynast, bæði nú og í náinni framtíð, að kenna þau til menningarlegrar baráttu af nokkru tagi — aðeins virðist höfundur þeirra fá þar persónulega útrás fyrir sjúklega drýldni, mikla vanþekkingu og jafnvel hálfgerðan dónaskap…
Þessari athugasemd svaraði Bjarni á þann hátt í Þjóðviljanum, að vera mætti sígilt dæmi um viðbrögð gagnrýnenda, þegar á þá er hallað, og virðist sem fullyrðing Steins um dónaskap hafi ekki verið með öllu úr lausu lofti gripin, þar sem Bjarni gefur jafnvel í skyn að Steinn hafi nokkra hneigð til þess að verða að skynlausri skepnu. Svar Bjarna var á þessa leið:
Það er ástæða til að fagna hinni endurfæddu umhyggju Steins Steinars skálds fyrir Sósíalistaflokknum og blaði hans. Ég hef lesið í bókum að sá eiginleiki sem umhyggja nefnist muni hafa átt drjúgan þátt í því að forfeður vorir tóku forðum þann kost að fækka fótum sínum um helming, og létu sér nægja tvo upp frá því. Ber að skilja þetta andlegri skilningu, sem engu skáldi má vera ofvaxin. En sé þetta rétt ætti téð umhyggja að geta komið hverjum þeim manni í góðar þarfir sem jafnframt kann að bera í brjósti sér einhverjar tilhneigingar til að fjölga fótum sínum á nýjan leik.
Annað dæmi um hug Steins til bókmenntaspekinganna er það, hversu uppsigað honum var við Sigurð Nordal, enda veitti Nordal honum aldrei verðuga viðurkenningu. Steinn tók upp á því að lýsa sérstakri velþóknun sinni á kveðskap Steingríms Thorsteinssonar af því að Nordal hafði látið þau orð falla í lestrarbók sinni, að Steingrímur væri bæði ófrumlegur í kveðskap sínum og skorti hagmælsku, og var að sönnu engin furða þó ungt skáld vildi andmæla slíkum fullyrðingum, en raunar álitu sumir að Steini hefði einkum sárnað það, að ekkert skyldi birt eftir hann í endurútgáfu á lestrarbókinni, þar sem þó var tekinn kveðskapur eftir Jón prófessor Helgason sem ekki hafði gefið út ljóðabók fyrr en 1939, og má hver lá Steini sem vill. Það gerði Björn Sigfússon magister, þegar Steinn skrifaði gagnrýni um þessa endurútgáfu, og Steinn svaraði honum af rökvísi, en fullri kurteisi í Alþýðublaðinu 27. október 1942. Þá var Steinn búinn að gefa út fjórar ljóðabækur. Þetta var virðingin sem lærðu mennirnir báru fyrir honum.
Á þeim tíma var Davíðsdýrkunin í hámarki, og engin furða þó Steini blöskraði, þar sem gersamlega sama var hvaða bull sást á prenti eftir skáldið frá Fagraskógi, allt var það lof að hástöfum og bækur Davíðs seldust í stærri upplögum en bækur nokkurs annars ljóðskálds, ef ekki nokkurs annars höfundar á Íslandi. Hvernig átti Steinn, sem vissi sig stórlega vanmetinn á sama tíma, að geta stillt sig um að leggja orð í belg? Í bókinni Kvæðasafn og greinar, sem gefin var út eftir lát hans, eru prentuð eftir honum þessi orð sem virðast vera brot úr skrifum sem aldrei hafa áður verið prentuð (frá 1952):
Okkur hefur einnig verið kennt það, að Davíð Stefánsson frá Fagraskógi sé mesta núlifandi skáld íslensku þjóðarinnar. Það má vel vera, að svo sé, en þá vil ég leyfa mér að fullyrða það, að hinir séu býsna lélegir. Og sé nokkur einstakur maður ábyrgur fyrir eymd og niðurlægingu kveðskaparins á seinustu 20–30 árum, þá er það hann.
Orð Steins minna mig á það, að eitt sinn á þeim árum þegar Elías Mar vann fyrir sér með prófarkalestri fyrir Ragnar í Smára og öðru þessháttar, svo sem þýðingum, til þess að geta haldið áfram að skrifa bækur, sátum við að kaffidrykkju á Gildaskálanum, og Elías hafði meðferðis prófarkir að ljóðabók sem hann las úr fyrir mig og bað mig að geta upp á höfundinum. Mér blöskraði svo leirburðurinn sem Elías las þarna yfir mér að ég lenti í stökustu vandræðum að finna höfund að slíku og þvílíku, en það reyndist þá vera Davíð frá Fagraskógi. Ég ætlaði varla að geta trúað þessu, en auðvitað hafði Elías ekki lesið úr einhverju af þekktustu ljóðum hans.
Steinn Steinarr bar ekki virðingu fyrir nema örfáum mönnum. Einn þeirra var Kristinn E. Andrésson, og sú virðing átti fyrir sér að þverra, en sérstaklega bar hann virðingu fyrir Magnúsi Ásgeirssyni, og sú virðing hélst meðan báðir lifðu. Ég held auk þess að hann hafi orðið fyrir áhrifum frá þýðingum hans og Magnús beint huga hans að annarra þjóða skáldum. En hvað hann las á erlendum málum veit ég harla lítið um. Ég hygg þó, að það hafi aðallega verið norðurlandakveðskapur. Ég veit ekki til að Steinn hafi haft neina þekkingu á frönskum skáldskap, þótt hann vildi stundum láta menn halda það, og þótt hann gæti í ræðu sinni á umræðufundinum um atómkveðskapinn frætt samkomuna um André Breton og súrrealismann. Ég efast um að hann hafi vitað neitt sem heitið getur, jafnvel um það atriði, fyrr en hann undirbjó sig fyrir fundinn. Ég hef áður sagt frá því, þegar ég mætti honum með bók eftir Louis Aragon undir hendinni, og hann hélt að það væri mesta núlifandi skáld Frakka. En Aragon var mikilsháttar kommúnisti í Frakklandi og það var almenn skoðun meðal bókmenntamanna erlendis, þeirra sem róttækastir voru, að Aragon væri mesta samtíðarskáld Frakka. Varla mun Steinn hafa vitað, þegar hann flutti ræðu sína, að Aragon hafði að vísu verið súrrealisti á yngri árum, en gersamlega afneitað þeirri stefnu og kveðskap sínum í anda hennar, þegar hann snerist og tók að yrkja baráttukvæði og predika hefðbundið form í kvæðagerð. En Steinn fór sparlega með nöfn í ræðu sinni. Og víst er um það, að þegar frá er dregið dæmið um Aragon, heyrði ég hann aldrei minnast á frönsk skáld eða franskan kveðskap, aldrei minnast á Arthur Rimbaud sem nú er svo mikið skrifað um í heimsbókmenntaskrifum að bæði íslenskur bókmenntafræðingur (Kristján Karlsson) og ungur íslenskur höfundur (Hrafn Gunnlaugsson) hafa fengið þá flugu í höfuðið að þarna væri kominn ljóðasmiðurinn sem Steinn Steinarr hefði gengið í smiðju til þegar hann orti Tímann og vatnið. En sérfræðingar bókmenntanna gerðu ekki eins mikið úr Rimbaud á þeirri tíð sem Steinn var að yrkja fyrrnefndan ljóðaflokk. Menn átta sig ekki á því, að timarnir hafa breyst. Ljóðaflokkurinn Tíminn og vatnið er auk þess í grundvallaratriðum gerólíkur þeim kveðskap (prósaljóðum) eftir Rimbaud sem talinn er undanfari „módernismans“. Það er alls ekki smáatriði, að Steinn heldur þar dauðahaldi í gamalt, hefðbundið form, en Rimbaud gerði nákvæmlega þveröfugt í sínum endurnýjunarverkum, átti það einungis til að setja fáein hefðbundin erindi inn í órímuðu flokkana eins og minnisvarða um það sem var eða til áréttingar því, að fortíðinni hefði ekki verið afneitað, þó nýtt hefði verið upp tekið, horfið yrði til hennar aftur, ef því væri að skipta. Ég held menn ættu að athuga það, að ýmislegt í Tímanum og vatninu minnir á málaralist (hugsum okkur til dæmis hornrétta flötinn, hringinn og keiluna), en Steinn var mikill aðdáandi Þorvalds Skúlasonar og fleiri málara og mikill myndaskoðari. Þá hefur Steinn t. d. minnst á Veda-bækurnar í sambandi við Tímann og vatnið, og ég held menn ættu að taka orð hans sjálfs um þetta efni ofurlítið alvarlegar en þeir hafa gert og þverskallast ekki við að reyna að telja til módernisma það sem hann sjálfur hvað eftir annað tók fram að væri allt annars eðlis.
Steinn Steinarr var enginn tungumálamaður. Hann gat að vísu eitthvað lesið ensku, en ekki varð ég þess var að hann skildi hana talaða né væri fær um að gera sig skiljanlegan á því máli. Hann virtist aldrei hafa lagt það á sig að tileinka sér neitt erlent mál sérstaklega. Dönsku, norsku og sænsku býst ég hinsvegar við að hann hafi getað lesið sér að góðu gagni, auk þess að geta talað skandinavísku. En hann hafði lag á því að gera sig dularfullan framan í mönnum og láta þá halda að hann vissi meira en hann vissi. Það gera raunar allir, sjálfrátt eða ósjálfrátt, en hjá Steini varð þetta að sérstakri list sem ekki var á hvers manns færi að leika eftir, enda þurfti hann á því að halda, þar sem hann var óskólagenginn að brjóta sér braut innan um lærðu mennina í höfuðstaðnum, og hafði ekkert nema ljóð sín. Hann sagði: „Og ég var aðeins til í mínu ljóði.“ Ég veit ekki til þess að hann snerti nokkurntíma við því sem venjan er að nefna ærlegt handtak frá því ég kynntist honum kringum 1940 og til dauðadags. Hann var hinsvegar á ferli í höfuðborginni dagsdaglega og hitti menn að máli.
Steinn hafði snemma orðið kommúnisti og verkalýðssinni, enda tileinkar hann fyrstu bók sína, Rauður loginn brann, „félögum mínum og kunningjum í Reykjavík, sem árum saman hafa barist eins og hetjur við hlið mína, fyrir lífsnauðsynjum sínum — og enn ekki sigrað.“ En smám saman fór hann að linast í trúnni, og eftir það naut hann takmarkaðrar hylli meðal sumra sósíalista.
Ég minnist þess, þegar verið var að steypa Reykjavíkurflugvöll, þá barst talið stundum að bókmenntum, því þarna var blandað lið við vinnu og bókmenntir sennilega meira lifandi með þjóðinni en síðar meir. Þá var þar einn verkamaður miðaldra sem var ótrauður að segja sitt álit um bókmenntir, ekki síður en annað sem tekið var til umræðu, mikill sósíalisti (þ. e. kommúnisti samkv. málvenju þeirra tíma) og hann sagði, eins og til að sýna, að hann kynni að meta yngri höfunda:
Ólafur Jóhann Sigurðsson er skáld, en Steinn Steinarr er ekkert skáld.
Slík viðhorf til Steins heyrðust úr ýmsum áttum. Það var á þeim árum sem út komu tvær helstu ljóðabækur hans, Spor í sandi og Ferð án fyrirheits. Einungis fámennum hópi manna þótti útkoma þeirra nokkur viðburður. Smám saman varð þó fleiri mönnum ljóst að ekki mundi fært að halda áfram að láta sem Steinn væri ómerkingur, og þegar tímar liðu var farið að sækjast eftir blaðaviðtölum við hann og jafnvel nota hann fyrir skemmtikraft í útvarpinu, þar sem Sveinn Ásgeirsson, hagfræðingur og skemmtiþáttamaður á þeim tíma, lét nokkra menn keppa í vísnagerð. Það var nokkuð gaman að þessum þáttum, en þeir voru raunar vel til þess fallnir að hagyrðingar gætu notið sín frammi fyrir alþjóð á kostnað Steins, því þeir voru jafnan fljótir til að kasta fram vísum sínum, en Steinn fór sér hægt. Með honum í þáttunum voru Helgi Sæmundsson, Guðmundur Sigurðsson og Karl Ísfeld, og var Helgi sérstaklega hraðkvæður. Hitt verður að segjast eins og er, að Steinn mun einnig hafa vaxið í áliti við þessa skemmtiþætti, og vitanlega urðu þeir til þess að fleiri könnuðust við hann eftir en áður.
Jón Óskar
Jón Óskar (Ásmundsson) (F. 18. júlí 1921. D. 20. október 1998) var skáld og rithöfundur, einn af frumkvöðlum módernisma í íslenskri ljóðagerð og í hópi atómskáldanna svonefndu. Hann samdi einkum smásögur og ljóð, en einnig eina skáldsögu, ferðahugleiðingar og rit sagnfræðilegs eðlis. Á árunum 1969–1979 komu út í sex bindum æviminningar hans um líf skálda og listamanna í Reykjavík á árunum 1940–1960. Jón var einnig afkastamikill þýðandi úr ítölsku og frönsku og þýddi m.a. ljóð eftir Baudelaire, Verlaine og Rimbaud auk verka í óbundnu máli eftir Albert Camus, Carlo Levi, Ignazio Silone, Simone de Beauvoir, George Sand og fleiri.