Ingi Bogi Bogason

Ingi Bogi skrifaði meistararitgerð sína í íslenskum bókmenntum um lífssýn í ljóðum Steins. Um árabil var hann bókmenntagagnrýnandi hjá Þjóðviljanum, Morgunblaðinu og fleiri blöðum. Hann hefur kennt og sinnt stjórnunarstörfum í háskóla og framhaldsskóla og starfar nú sem sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Formáli á jörðu hefur orðið mér hugstæðara á síðari árum. Heimska, ofbeldi, blekking, lygi og dauði eru viðfangsefnið eins og svo oft hjá Steini. Mælandinn mætir öllu þessu með sorg, von og trú í brjósti. En hann beygir sig ekki undir illþolandi ástand heldur bregst við — svo að ljóðið, andinn og guð megi lifa. Er þetta ekki bjartsýnt niðurlag? Þrátt fyrir allt niðurbrotið í heiminum er von. Maður spyr áfram: Að hverju er þetta ljóð formáli? Hefði mátt búast við Eftirmála á himnum?

Formáli á jörðu

Út í veröld heimskunnar,
út í veröld ofbeldisins,
út í veröld dauðans
sendi ég hugsun mína
íklædda dularfullum,
óskiljanlegum
orðum.

Gegnum myrkur blekkingarinnar,
meðal hrævarloga lyginnar,
í blóðregni morðsins
gengur sorg mín
gengur von mín
gengur trú mín
óséð af öllum

Djúp, sár og brennandi.

Óséð af öllum.

Svo að ljóðið megi lifa,
svo að andinn megi lifa,
svo að guð megi lifa.