Hvað táknar þá lífið? …
Á aldarafmæli Steins Steinarr – eftir Gunnar Kristjánsson. Andvari 133. árg. 2008
Steinn Steinarr birtist þjóðinni einatt sem þungbúið skáld, þrúgað af mótlæti og þjáningum. Myndir sem hafa prentast mönnum í minni bera það ekki með sér að hann kunni einnig að hafa verið hamingjumaður. Enda þekkti hann flestum betur andstreymi lífsins, fátækt í bernsku, hreppaflutninga og fjarvistir frá foreldrum og systkinum, hann þekkti allsleysi og basl á krepputímum, atvinnuleysi og fötlun. Vafalaust hefur honum fundist lífið hafa farið um sig ómildum höndum — annað verður tæplega lesið út úr ljóðum hans. En hann átti góða að, fólk sem kunni að meta hann þegar á barnsaldri fyrir góðar gáfur, næmleika og mannkosti. Steinn var aufúsugestur meðal skálda og listamanna eftir að hann fluttist til höfuðborgarinnar, hann átti fjölda vina og kunningja sem voru í fararbroddi nýrra tíma í menningu og listum og síðast en ekki síst átti hann góðan lífsförunaut, Ásthildi Björnsdóttur. Ævisagan dregur upp mynd af manni sem stóð ekki einn heldur vildu margir bera hann á höndum sér. Hin sýnilega mynd gefur til kynna innri baráttu sem skáldið hefur ekki reynt að dylja.
Í ljóðum Steins Steinarr speglast hugarheimur samtímans. Hann er skáld þjóðarinnar í kreppulok og á stríðstímum þegar hún á skyndilega nánara samneyti við aðrar þjóðir en hún hafði áður haft. Skáldið tjáir og túlkar vitund sem einkenndi vestræna menningu um miðbik tuttugustu aldar, þegar tilvistarstefnan var eins og þungur undirstraumur í bókmenntum og listum. Steinn þekkti tóninn sem þar var sleginn og sló hann sjálfur, hann þekkti tungutak þeirrar aldar sem setti firringu mannsins á dagskrá öðrum öldum fremur og yar sterkasta rödd hennar hér á landi. Þar er ekki dansað af gleði heldur horft í djúpið, leitað svara sem virðast einatt langt undan.
Þótt tilvistarstefnan tæki á sig ýmsar myndir, var meginstefnan þó ávallt sú sama, að fjalla um dýpstu spurningar mannsins á skelfilegum tímum í sögu Evrópu, þar sem hver kynslóðin á fætur annarri bognar undan sama þunga, undan spurningum sem vakna með hverjum hugsandi manni og kalla hann til andsvara og ábyrgðar. Spurningarnar skortir ekki en svörin virðast sjaldnast innan seilingar.
Uppvöxtur og mótun
Steinn var næstyngstur fimm systkina. Hann fæddist 13. október 1908 á Laugalandi í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp. Foreldrar hans komu úr röðum vinnufólks og máttu þakka fyrir að fá eitthvað að starfa. Vegna fátæktar var heimilið leyst upp og börnunum komið fyrir hjá vandalausum. Foreldrar hans, Etelríður Pálsdóttir (1882–1963) og Kristmundur Guðmundsson (1874–1944), slitu síðar samvistir. Tveggja ára fluttist Steinn með móður sinni að Bessatungu í Saurbæ en fjórum árum síðar varð hún að láta hann frá sér og var honum komið fyrir hjá mæðginunum í Miklagarði í sömu sveit, Steingrími Samúelssyni og Kristínu Tómasdóttur.
Í viðtali sem Matthías Johannessen átti við Etelríði móður Steins segir hún: „Það var sárt, þegar ég þurfti að láta Stein frá mér á þriðja árinu, það var sárt. Það er ekki hægt að lýsa því hvernig mér var innanbrjósts þá. Ég gleymi honum aldrei, þegar hann kvaddi mig sex ára gamall, viknaði við bæjarvegginn og horfði á eftir mér. Það voru þung spor. En hann var dulur á tilfinningar sínar og átti erfitt með að láta þær í ljós og bældi þær. Hann átti ekki langt að sækja það. Þannig hef ég einnig verið. Ég hef aldrei kunnað að flíka tilfinningum mínum.“((Matthías Johannessen, „Það var sárt þegar ég þurfti að láta Stein frá mér, Etelríður Pálsdóttir.” M, Samtöl II, 1978, bls. 36, sjá einnig eftir sama höfund Hugleiðingar og viðtöl, bls. 252, sjá ennfremur: Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, 2000, bls. 105-106.)) Eitt og annað bendir til mikils sársauka Steins í garð móður sinnar á bernskuárum hans. En í Miklagarði fékk Steinn gott atlæti og þar leið honum vel og einnig á Heinabergi þangað sem þau Steingrímur og Kristín móðir hans fluttust síðar. Þá var Steingrímur kvæntur Steinunni Guðmundsdóttur.
Steinn var viðloðandi sveitina til tvítugsaldurs. Hann stundaði nám í Ungmennaskólanum á Núpi í Dýrafirði veturinn 1925–6, sumarið 1926 var hann kaupamaður í Bessatungu hjá Stefáni skáldi frá Hvítadal. Til Reykjavíkur kemur hann fyrst árið 1926, er m.a. vinnumaður á Korpúlfsstöðum í Mosfellssveit, á árunum 1926–1928 fær hann sjúkdóm, sumir telja lömunarveiki, sem olli lömun á vinstri handlegg.((Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, 2000, bls. 130.))
Áhrifavaldar
Þrátt fyrir bág ytri kjör fékk Steinn gott atlæti og naut umhyggju og ástúðar þeirra sem fóstruðu hann í bernsku. Það var ekki síst Steinunn fóstra hans sem hafði skilning á hæfileikum Steins en Steingrími fóstra hans fannst hinn ungi sveinn hins vegar nýtast lítt við líkamlega vinnu. Kristín móðir Steingríms hafði skilning á gáfum Steins og hæfileikum hans, henni bast Steinn sterkum tilfinningaböndum. Heimilið mótaði hann eins og önnur börn. Tvö þjóðkunn skáld komu við sögu á mótunarskeiði hans. Annað þeirra var Stefán Sigurðsson frá Hvítadal sem fluttist í Bessatungu árið 1923 og gerðist þar bóndi. Hitt skáldið var Jóhannes úr Kötlum sem var farkennari í Saurbænum og kenndi Steini í ein tvö ár eftir því sem næst verður komist. Þótt Steinn byggi alla tíð að kynnum sínum við þessa tvo menn voru áhrif Stefáns drýgri, m.a. er nokkuð víst að hann hafði áhrif á trúarskoðanir Steins á yngri árum. Steinn gekk í kaþólska söfnuðinn í Reykjavík 13. nóv. 1926 og er líklegt að Stefán hafi haft þar sín áhrif.((Ingi Bogi Bogason, Steinn Steinarr: Ævi og skoðanir, 1995, bls. 42.)) Þremur árum síðar, 27. júlí 1929, er Steinn svo fermdur til kaþólskrar trúar, „biskupaður“, í tengslum við kirkjuvígsluna í Landakoti 23. júlí s.á.((Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, 2000, bls. 128, 144.)) Stefán kynnti hann einnig fyrir skáldum og listamönnum sem áttu athvarf í Unuhúsi þar sem hann varð smán saman einn innvígðra.((Sjá einnig: Halldór Kiljan Laxness, „Steinn Steinarr. In memorian.” Gjörningabók, bls.
137-139)) Fljótlega virðist hins vegar hafa dofnað yfir tengslum hans við kaþólsku kirkjuna enda fór það aldrei hátt að hann væri þar skráður, margir sem þekktu hann vel virðast ekki hafa vitað um kaþólsku hans. Um svipað leyti var Steinn félagi í Kommúnistaflokki íslands en var rekinn úr flokknum eftir skamma viðveru, árið 1934.((Ingi Bogi Bogason, Steinn Steinarr: Ævi og skoðanir, 1995, bls. 45.)) Þetta voru tímar hugsjóna og hugmyndafræðilegrar umræðu.
Áhrifavaldar á Stein voru margir. Þar voru ýmsir sem leiddu menningarlega umræðu hér á landi. Utan úr hinum stóra heimi bárust straumar hingað tjl lands. Eftir heimkomuna frá meginlandinu 1946 „er vitað að hann las erlend rit sér að gagni bæði á ensku og norðurlandamálum“.((Kristín Þórarinsdóttir, „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt”, 2008, bls. 42-80, 54.)) Í bókasafni sínu átti Steinn bækur eftir James Joyce, m.a. Ulysses á ensku og sænsku, ýmsar listaverkabækur, Bókina um veginn eftir Lao-tse, verkið Philosophy of Existentialism eftir franska tilvistarheimspekinginn Gabriel Marcel og bókina L’existentialisme est un humanisme eftir Jean-Paul Sartre. Einnig bendir margt til að T.S. Eliot hafi verið í miklum metum hjá Steini.((Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds II, 2001, bls. 54-57, 96-97. Kristín Þórarinsdóttir, „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt”, 2008, bls. 42-80, 48.)) Þeir sem ritað hafa um ævi Steins hafa bent á hversu mikilvæg ferð hans til Svíþjóðar var (júní 1945–mars 1946) og aðrar ferðir til útlanda, einnig samskipti hans við íslenska og erlenda bókmennta- og myndlistarmenn.((Kristín Þórarinsdóttir, „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt”, 2008, bls. 42-80, 47-54,73. Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds II, bls. 43-71, 94-96,168-186, 212-214, 221-242.))
Trúarleg þemu
Í ritgerðinni „Löng og erfið leið“ segir Ingi Bogi Bogason að ljóð Steins séu frumleg með beittan boðskap, hann hafi ekki verið afkastamikið skáld og um það megi deila hversu fjölbreytilegur boðskapur hans hafi verið, hann geri „margar atrennur að svipuðum hugmyndum“.((Ingi Bogi Bogason, Steinn Steinarr: Ævi og skoðanir, 1995, bls. 61.)) Ljóð Steins einkennast af knýjandi viðfangsefnum sem setja svip á bókmenntir samtímans. Það eru viðfangsefni tilvistarheimspekinnar, og óneitanlega sá armur hennar sem ber sterkastan keim af trúarheimspeki.((Um trúarheimspeki: sjá Gunnar Kristjánsson, Fjallræðufólkið, 2002, bls. 18-19.)) Við fyrstu sýn kann mörgum að virðast sem ljóð Steins beri vitni um neikvætt hugarfar í garð trúar og kirkju. Þótt broddurinn sé ekki lengur beittur nú, sex, sjö áratugum eftir að ljóðin birtust fyrst, var tíðin önnur þá og viðbrögð manna eindregnari. Skáld og myndlistarmenn sem fengust við trúarleg þemu á fyrri hluta aldarinnar, þeir sem viku frá hefðbundinni framsetningu, fengu iðulega kaldar kveðjur frá samfélaginu. Þannig var um brautryðjendur nýrra tíma og nýrra viðhorfa þar sem nýr skilningur leitaði útrásar og framandi framsetning sá dagsins ljós. Uppgjör við trúarhefðina einkenndi fyrri hluta tuttugustu aldar á öllum sviðum, bæði innan kirkju sem utan. Steinn er hér engin undantekning. Nítjánda öldin einkennist af fráhvarfi frá biblíulegum myndefnum í myndlist en hin trúarlega tilfinning er sterkt einkenni á myndlist rómantísku stefnunnar, svipuðu máli gegnir um aðrar listgreinar, einnig bókmenntir. Í ýmsum greinum listanna er fengist af nýjum krafti við trúarleg og trúarheimspekileg efni undir lok nítjándu aldar og á fyrri hluta tuttugustu aldar — en nú með nýjum og oft framandi hætti. Í myndlistinni mætti nefna hér expressjónismann, í bókmenntum tilvistarstefnuna.((Gunnar Kristjánsson, „Um myndlist í kirkjum,” 1978, bls. 12-15.))
Meðal þeirra fáu ljóða Steins, þar sem margir hafa talið sig skynja kaldhæðnislega umfjöllun um trúarleg efni, eru ljóðin Hallgrímskirkja, Passíusálmur nr. 51 og Þriðja bréf Páls postula til Korintumanna, þau er öll að finna í „Ýmsum kvæðum“ seint á höfundarferli Steins.
Hallgrímskirkja
(líkan)Húsameistari ríkisins
tók handfylli sína af leir
og horfði dulráðum augum
á reizlur og kvarða:51 x 19 + 18 – 102,
þá útkomu læt ég mig
raunar lítils varða.Ef turninn er lóðréttur
hallast kórinn til hægri.
Mín hugmynd er sú,
að hver trappa sé annarri lægri.Húsameistari ríkisins
tók handfylli sína af leir,
og Hallgrímur sálugi Pétursson
kom til hans og sagði:Húsameistari ríkisins!
Ekki meir, ekki meir!
Í ljóðinu um Hallgrímskirkju er innlegg Steins í heitar umræður og deilur um byggingu Hallgrímskirkju. Hér er ekki fengist við trúarleg efni, hvorki biblíuleg þemu né trú mannsins. Hér blandar skáldið sér í deilur líðandi stundar með snjöllu og beittu ljóði sem hefur lifað af umrót síns tíma. Steinn sýnir afstöðu sína með þessu ljóði og beitir kaldhæðni í samfélagslegum átökum.
Passíusálmur nr. 51
Á Valhúsahæðinni
er verið að krossfesta mann.
Og fólkið kaupir sér far
með strætisvagninum
til þess að horfa á hann.Það er sólskin og hiti,
og sjórinn er sléttur og blár.
Þetta er laglegur maður
með mikið enni og mógult hár.Og stúlka með sægræn augu
segir við mig:
Skyldi manninum ekki leiðast
að láta krossfesta sig?
Í bókmenntum og listum tuttugustu aldar er píslarsaga Jesú kunnuglegt þema, þjáningin var á dagskrá frá upphafi aldarinnar til loka hennar, ekki hvað síst á meginlandi Evrópu, ástæðurnar þarf ekki að tíunda. Í bókmenntum birtist skírskotun til píslarsögunnar m.a. í Jesú-gervingnum, í myndlistinni leituðu expressjónistarnir á sömu mið. Á öllum sviðum brutust listamenn út úr hefðbundnum tjáningarmynstrum og fóru eigin leiðir í þessu efni sem öðrum. Tilgangurinn var margvíslegur, langoftast var vísað til hinnar þekktu sögu til þess að styrkja og dýpka framlag til umræðu líðandi stundar en sjaldnast var tilgangurinn gagnrýni á trú og kirkju. Hinn krossfesti var ímynd hins þjáða manns, sem féll fyrir veraldlegu og andlegu valdi en var hrakinn í dauðann af sinnulausum múgnum sem krafðist krossfestingar hans. Hér birtast örlög spámanna allra tíma, einnig í samtímanum. Orðalag og tjáningarmáti undirstrika sinnuleysi og alvöruleysi fólksins sem er komið til að horfa á aftöku spámanns á Valhúsahæðinni. Atburðurinn á Golgata er gerður furðunálægur og skírskotunin hittir beint í mark.
Þriðja bréf Páls postula til Korintumanna
Ég, sem á að deyja,
dvel hjá yður,
sem Drottinn hefur gefið
eilíft líf.Og Drottinn gefur öllum
eilíft líf.En eilíft líf er ekki til,
því miður.
Hér beitir Steinn kaldhæðni sinni í knöppu hárbeittu ljóði þar sem vegið er að einum grundvallarþætti trúarinnar: trúnni á eilíft líf. Tilgangur kaldhæðninnar er að setja ákveðið efni á oddinn, ekki endilega í þeim tilgangi að túlka boðskap skáldsins heldur gæti markmiðið allt eins venð hið gagnstæða, að þvinga lesandann til þess að taka afstöðu: hvað um mig, er ég sammála því að eilíft líf sé ekki til, að ekkert sé til annað en það sem seð verður og þreifað verður á? Er enginn leyndardómur að baki þessu lífi, er unnt að afgreiða spurningu mannsins um tilgang og markmið með svo einföldum hætti?
Kaldhæðnin er hér önnur hlið á hugrekki efans og jafnframt hugrekki til að ögra hinu viðtekna og þá stofnuninni kirkju ekki síður en öðrum stofnunum samfélagsins sem varðveittu og stóðu vörð um viðtekin gildi. Kaldhæðnin leynir sér ekki í ljóðinu „Jól“ (Ferð án fyrirheits 1942) sem endar á þessum vísuorðum: „Með kurteisum svip skaltu kveikja í stofunm þinni, / Og kauptu svo sóknarprestinn og éttu hann.” Svipuðu máli gegnir um ljóðið „Bæn“ (Ferð án fyrirheits) sem lýkur þannig: „Veit mér, ó, Guð, þann mátt / af miskunn þinni, / að megi ég gleyma þér.”
Í ljóðinu „Kvæði um Krist“, sem er upphafskvæði Ljóða (1937) kveður hins vegar við annan tón, ljóðið hefst þannig: „Það var kvöld. / Og við sátum í garðinum, / tvö fátæk börn…/ Það var þá, / sem þú sagðir mér leyndarmál þitt, / hið mikla leyndarmál, / sem enginn hafði áður / haft vitneskju um. / Það var svo fagurt / og dularfullt, / það var fegursta leyndarmál heimsins…/”
Hvað sem þessum ljóðum líður, sem hér hafa verið tilgreind, fer hin trúarlega glíma Steins ekki fram á vettvangi trúarlegrar orðræðu heldur hinnar trúarheimspekilegu – eða tilvistarheimspekilegu — eins og vikið verður að síðar í þessari ritgerð.
Tíminn og vatnið: Nýr tónn
„Tíminn og vatnið… er nýr tónn í íslenskri póesíu,“ segir Matthías Johannessen í umfjöllun sinni um Stein 1963.((Matthías Johannessen, Hugleiðingar og viðtöl, bls. 249.)) Um þetta eru menn almennt sammála. Þegar einungis er litið til ljóða Steins til samanburðar er kaldhæðnin hér horfin, bölsýnin er ekki lengur til staðar, ró og friður hvílir yfir verkinu, leyndardómsfullur andblær leikur um það. Ljóðin eru persónuleg eins og sjá má af því að persónu- og eignarfornöfn fyrstu persónu koma fjörutíu og fjórum sinnum fyrir í ljóðaflokknum. Orðið „vatn“ kemur ellefu sinnum fyrir, „sól“ tíu sinnum, „djúp“ sjö sinnum, „tími“ sex sinnum, „eilífð“ þrisvar, „guð“ þrisvar, „ást“ einu sinni, „trú“ einu sinni og „ekkert“ kemur einu sinni fyrir („Kemur allt, / kemur ekkert, / gróið bylgjandi maurildum, / eins og guð. //Guð“).
Í lok ritgerðar sinnar um tilurð ljóðaflokksins Tímans og vatnsins ritar Sveinn Skorri Höskuldsson: „Veigamiklir þættir í hugblæ Tímans og vatnsins eru ást, ástartregi og trúarleg tilfinning. Ef til vill væri unnt að lesa verkið í heild sem minnisvarða um mikla ást. Yfir því hvílir einkennilega lotningarfull kyrrð og jafnvægi. Hér gætir hvorki rauðs loga byltingarinnar né angistar tilgangsleysis-heimspeki. Ég ljóðanna virðist sátt við örlög sín, hefur samsamazt eilífðinni, sem horfir „mínum óræða draumi / úr auga sínu“ í yfirskilvitlegum friði.“ ((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 194-195.))
Verkið kom út í tveimur prentuðum gerðum, í fyrri gerðinni eru 13 ljóð en í þeirri síðari 21. Flest ljóðin höfðu birst í tímaritum skömmu áður.((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 156-157.)) Elsta safn ljóðanna í Tímanum og vatninu er vélritað eintak sem Ragnar Jónsson útgefandi gaf Ásthildi Björnsdóttur 2. júní 1958, á titilsíðu þess er heiti ljóðaflokksins Dvalið hjá djúpu vatni og einnig ártalið „1947“ ritað með hendi Ragnars Jónssonar í Smára.((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 159. Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds II, bls. 89, 92-93.))
Í annarri próförk Tímans og vatnsins er titilsíðan varðveitt og þar heitir ljóðaflokkurinn Helgiljóð.((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 162-163. Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds II, bls. 96.)) Árið 1947 birtust þrjú kvæði Steins í tímaritinu „RM – ritlist og myndlist“ og báru sameiginlega fyrirsögnina Þrjú helgiljóð.((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 163.))
Í ritgerð sinni um Tímann og vatnið bendir Sveinn Skorri Höskuldsson á áhrif frá The Waste Land eftir T.S. Eliot. Þetta má m.a. greina af þeirri hugmynd sem var lengi viðloðandi á þróunarstigi verksins undir fyrstu útgáfu að gefa hverju ljóði heiti sem sótt væri til goðsagna og helgisagna. Í uppkasti, rituðu með hendi Ásthildar og Steins, er þessi kvæðaheiti að finna, þau eru öll sótt til ljóðsins The Waste Land eftir T.S. Eliot. Heitin voru reyndar felld niður og aldrei prentuð en gefa mikilvægar upplýsingar um þróun ljóðaflokksins. Í kvæðaheitunum á handskrifaða blaðinu er m.a. vísað til Játninga Ágústínusar og til Lúkasarguðspjalls. Hið síðarnefnda á við um 18. ljóðið í endanlegri útgáfu verksins (8. ljóðið í fyrstu útgáfunni 1948):
Tveir dumbrauðir fiskar
í djúpu vatni.
Dimmblár skuggi
á hvítum vegg.Fjólublátt ský
yfir fjallsins egg.Yfir sofandi jörð
hef ég flutt hina hvítu fregn.Og orð mín féllu
í ísblátt vatnið
eins og vornæturregn.
Á handskrifaða blaðinu stendur „„Kristur í Emaus“ [svo] (Blátt og hvítt)“. Þar er vísun til frásagnar Lúkasar um lærisveinana tvo sem eru á leið til þorpsins Emmaus utan við Jerúsalem síðla á páskadag, fréttir um upprisuna hafa ekki borist þeim enn.((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 189.)) Á leiðinni slæst í för með þeim ókunnur maður sem fylgir þeim í áfangastað og sest til borðs með þeim, þegar hann brýtur brauðið þekkja þeir hann, þetta er Jesús, en þá hverfur hann þeim sýnum. Sagan um Ernmausfarana er ein svonefndra birtingarfrásagna og jafnframt ein sterkasta frásögn Nýja testamentisins um upprisuna enda hefur hún reynst óþrjótandi uppspretta skálda og listamanna alla tíð, ekki hvað síst í nútímanum. Hér er því að mínum dómi réttilega að orði komist í ritgerð Kristínar Þórarinsdóttur um Ijóðaflokkinn: „Sé horft á ljóðin [í þessu ljósi] má sjá þar ferð einstaklings úr myrkri og vonleysi til jafnvægis og uppstyttu eða jafnvel upprisu. Þetta tel ég vera þungamiðju í öllu verkinu.“((Kristín Þórarinsdóttir, „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt”, 2008, bls. 42-80, 59.)) Átjánda ljóðið réttlætir þessa ályktun ekki hvað síst út frá áðurnefndu handriti þeirra Steins og Ásthildar. Orðið upprisa á að mínum dómi betur við hér en orðið uppstytta þar eð hið fyrrnefnda vísar til afgerandi umskipta en ekki aðeins tímabundinna eins og liggur í orðinu uppstytta. Orðið upprisa vísar til endursköpunar manneskjunnar, líf hennar verður með einum eða öðrum hætti annað, líkt og hrifið úr greipum dauðans.
Guðspjall 20. aldarinnar
The Waste Land er iðulega vitnað til heimsbókmenntanna á öllum tímum ems og skýríngar Eliots sjálfs sýna. Þar eru skírskotanir til grískra bókmennta, trúarrita búddismans m.a. Eldræðu Búddha, til evrópskra bókmennta frá ýmsum tímum m.a. til trúarrita eins og Játninga Ágústínusar, Hins guðdómlega gleðileiks eftir Dante, Paradísarmissis Miltons og til Biblíunnar.
Þau biblíurit sem vísað er til samkvæmt skýringum Eliots eru spádómsrit Esekíels, Jeremía, Prédikarinn eftir Salómon, Davíðssálmar, píslarsagan og Emmausgangan.((T.S. Eliot, „Skýringargreinar við Eyðilandið”, í: T S. Eliot, Eyðilandið. Þýðing á The Waste Land. Sverrir Hólmarsson þýddi og sá um útgáfuna, 1990, bls. 39-61.)) Vísanirnar eru ekki í samhengi hver við aðra en engu að síður er ljóðið sterk heild vegna þeirrar hugsunar sem tengir brotin saman. Þá hugsun er m.a. að finna hjá breska heimspekingnum Francis Herbert Bradley (1846-1924).
Bradley var einn af áhrifavöldum á T.S. Eliot og þar með óbeint einnig á Stein Steinarr. Bradley „var hughyggjusinni“ segir í skýringum Sverris Hólmarssonar við Eyðilandið((Sverrir Hólmarsson, „Eliot og Eyðilandið”, Eyðilandið. Þýðing á The Waste Land eftir T.S. Eliot, 1990, bls. 69.)), þ.e.a.s. ídealisti eða platónisti, hann sótti mikið til þýsku ídealistanna með þá Johann Gottlieb Fichte, Friedrich Schelling og Georg Wilhelm Friedrich Hegel fremsta í flokki ásamt Immanúel Kant. Eliot skrifaði ítarlega ritgerð um Bradley sem var lögð fram sem doktorsritgerð við Harvardháskóla en ekki samþykkt.((Sjá: http://plato.stanford.edu/entries/bradley/ og: http://en.wikipedia.org/wiki/RH._Bradley)) ,,[F]yrir honum [þ.e. Bradley] var veruleikinn einn og óskiptur, heild sem ekki er hægt að deila niður í flokka. Venjubundin hugtök eins og „rúm“ og „tími“ geta aðeins gefið brotakennda mynd af veruleiknum, sem endanlega er einungis unnt að tjá sem hið algilda (the Absolute), það sem tengir saman hugsun og veruleik, vilja og tilfinningu, en án slíks hugtaks verður heimurinn merkingarlaus með öllu. Við lifum í heimi ásýnda sem bera svip af hinu algilda án þess að birta það til fulls. En við getum einungis nálgast hið algilda gegnum ásýndirnar og gegnum reynslu „afmarkaðra miðstöðva“.“ Í framhaldi segir höfundur að allt hafi það hæft vel efahyggju Eliots „og hugmyndum um takmarkanir þekkingarinnar, en fullnægði um leið að vissu marki þrá hans eftir fullvissu um algildan veruleik, sem við búum í enda þótt erfitt sé að festa á honum hendur. Alla ævi, einnig eftir að hann lét skírast inn í ensku biskupakirkjuna [1927], tókust þessi tvö öfl á í huga Eliots — djúpstæð efahyggja og þrá eftir algildum sannindum.“
Líkt og The Waste land var tímamótaverk á ferli Eliots og meðal þekktari ljóða tuttugustu aldar var Tíminn og vatnið tímamótaverk meðal ljóða Steins. Í báðum tilvikum snýst málið um trú og nýja sýn til lífsins og tilgangs þess. Ljóðin í Tímanum og vatninu eru vissulega ávöxtur djarflegrar „glímu við eigin vandamál og tilverurök“((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 155.)). Í Tímanum og vatninu hljómar ekki lengur hinn ögrandi tónn tómhyggjunnar, hugrekki mannsins snýst ekki lengur um að afneita tilgangi lífsins, eilífðinni og Guði. Hinn holi rómur sem svaraði „Ekkert, ekkert“ heyrist ekki framar, aðrar hugsanir hafa leyst af hólmi setningar eins og „Elíft líf er ekki til því miður“. En samt er Tíminn og vatnið enginn lofsöngur í hefðbundnum skilningi — en inntakið myndi hæfa lofsöng engu að síður. Í viðtali 1950 sagði Steinn um Eliot og The Waste Land: „Eliot, æ já, nú er ég orðinn þreyttur á honum, þegar allt kemur til alls er hann bara leiðinlegur kristinn hundur. Samt sem áður held ég, að hann sé mikið skáld, og kvæði hans, The Waste Land, er í raun og veru guðspjall 20. aldarinnar, en það er líka ort hér um bil 30 árum áður en þeir veittu honum Order of Merit og Nóbelsverðlaunin.“((Steinn Steinarr, Kvæðasafn og greinar, bls. 324-325. Tilvitnunin er úr viðtalinu „Hið hefðbundna ljóðform er nú loksins dautt” sem birtist fyrst í tímaritinu Líf og list í október 1950.)) Hálfkæringurinn sem birtist í tilvitnuninni er ekki óþekkt fyrirbæri meðal skálda og í íslenskum bókmenntum einkennir hann samtímaskáld Steins og nægir þar að benda á Halldór Laxness. Í slíkum ummælum er oft að finna tilraun skáldsins til að villa á sér heimildir, má út sporin og dylja þau áhrif sem það hafði orðið fyrir af öðrum, skáldið veit fyrir víst að verkin tala. Kannski er Steinn að mörgu leyti of skyldur Eliot til að hann vilji auðveldlega kannast við áhrif hans á eigin verk og þá einkum á Tímann og vatnið.
Um trúarheimspekilega þætti í verkum Steins
Flestir sem fjalla um Stein Steinarr og ljóð hans koma að spurningunni um þá trúarlegu glímu sem ljóð hans sýna. Því mætti nú spyrja um trú í ljóðum Steins. Eru kvæði hans „trúarljóð — með neikvæðu forteikni“ eins og Kristján Karlsson komst að orði í ritgerð um Stein Steinarr árið 1964?((Kristján Karlsson, „Inngangur” í: Steinn Steinarr: Kvæðasafn og greinar, 1964, bls. XXVII.)) Er hann í hópi mestu trúarskálda þjóðarinnar eins og séra Heimir Steinsson staðhæfði (1993)?((Heimir Steinsson: „Meðan eilífðin horfir”, 1993, bls. 14-15. Sjá einnig eftir sama höfund: „Unio mystica í ljóðum Steins Steinarr?” Kirkjuritið 46/2 1980, bls. 130-133.)) Um sama efni hafa fleiri tjáð sig, m.a. Sigurbjörn Einarsson((Sjá Sigurbjörn Einarsson, Um ársins hring, bls. 252, sjá einnig: Sigurður A. Magnússon, Sigurbjörn biskup, ævi og starf 1988, bls. 224: „… Hann [Steinn] væri trúarlega séð mjög merkilegur fulltrúi sinnar tíðar.”)), Matthías Johannessen((Matthías Johannessen, Hugleiðingar og viðtöl, 1963, bls. 251.)), Ingi Bogi Bogason og Kristín Þórarinsdóttir. Sveinn Skorri Höskuldsson hefur bent á „lotningarfulla kyrrð“ í Tímanum og vatninu og „trúarlega tilfinningu“ sem mikilvæg einkenni ljóðsins.((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 194-195.)) Aðrir víkja sér undan því að takast á við þessa spurningu, sbr. Sigfús Daðason sem telur sig ekki dómbæran á efnið.((Sigfús Daðason, Maðurinn og skáldið Steinn Steinarr, 1987, bls. 78.))
Í ljóðum Steins er þungur undirstraumur tilvistarspurninga mannsins. Á skömmum skáldskaparferli glímir hann ítrekað við svipaðar spurningar og gerir þar ýmsar atlögur en rimmunni lýkur ekki til fulls nema ef vera skyldi með Tímanum og vatninu.
Margir hafa staðnæmst við breytingar sem urðu á lífi Steins um það leyti sem hann festi ráð sitt og benda á ljóðaflokkinn Tímann og vatnið því til sönnunar. Þau Ásthildur giftu sig 10. júní 1948 — sama árið og Tíminn og vatnið kom út — en hófu búskap tveimur árum áður.((Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að œvi skálds II, 2001, bls. 106, 83. Kristín Þórarinsdóttir, „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt”, 2008, bls. 42-80, 48.)) Trúarleg stef koma skýrar en áður inn í ljóð hans og jafnframt með öðrum hætti og óræðari. Hver veit nema nóg hafi verið spurt, hver veit nema skáldið hafi fundið þau svör við knýjandi spurningum sem við varð unað?
Mörg þeirra hugtaka sem mest ber á í verkum Steins Steinarr snúa að dýpri vitund mannsins og er þá ljóðum hans um pólitísk efni, hversdagsleg málefni eða ástina ekki gleymt. Hugtök eins og tilgangsleysi, fánýti lífsins, kaldhæðni, þjáning og dauði annars vegar og svo hins vegar tilgangur, von, draumar, þrár og hugrekki vísa til trúarheimspekilegrar glímu sem átti hug hans allan alla tíð. Hjá Steini snýst málið hvorki um trú né efa, heldur um grundvallarspurningar sem finna leiðina til sérhvers hugsandi manns. Þetta ásamt skáldskaparsnilld hans gerði Stein að stórskáldi í vitund þjóðarinnar. Hér verður því reynt að rýna nánar í trúarheimspekilega þætti í ljóðum hans.((Um trúarheimspeki, sjá: Gunnar Kristjánsson, Fjallræðufólkið, um persónur í verkum Halldórs Laxness, 2002, bls. 18-19.))
Fánýti og kaldhæðni, þjáning og dauði
Ljóð Steins Steinarr einkennast löngum af hugsunum um fánýti lífsins, spurningum um tilgang og merkingu sem ósjaldan er svarað með beinskeyttum neikvæðum hætti. Skáldið lætur það flakka að allar slíkar spurningar eigi sér aðeins eitt og sama svarið: lífið er ekki aðeins óvissu ofurselt heldur einnig tilgangsleysi. Í verkum Steins eru hugsanir af þessu tagi eins og þungur undirstraumur. Allt frá ljóðinu „Eftirmælum“ í fyrstu ljóðabók hans, Rauður loginn brann (1934), kveður við þennan tón: „Þú hafðir enga þýðingu í þjóðmálum sem slíkur / og það veit enginn til hvers þú varst í heiminn sendur.“ Síðar í sömu ljóðabók má benda á ljóðin „Minning“, „Eins og gengur“ og „Mold“. Í næstu ljóðabók Steins, Ljóð (1937) slær hann þennan streng með enn eindregnari hætti, þar má benda á ljóðið „Ekkert“:
Þú situr enn við gluggann
og senn er komin nótt,
og úti er niðamyrkur,
svo annarlega hljótt.
Og senn er komin nótt.Þú strýkur þreyttri hendi
um hár þitt þunnt og grátt,
og þú ert gamall maður.
Þér líður máske í huga
ein minning, sem þú átt,
og þú ert gamall maður.Svo finnur þú um andlit þitt
fara kaldan súg.
Þig grípur óljós hræðsla.
Þú horfir út í myrkrið
og hvíslar:
Hver ert þú?
Og holur rómur svarar:
Ekkert, ekkert.
Við sama tón kveður í ljóðunum „Vögguvísa“, „Andvaka“, „Colosseum“, „Kvæðið um veginn“, „Atlantis“, „Skóhljóð“, „Vöggugjöf’ og „Dimmur hlátur“.
Í þriðju ljóðabókinni, Spor í sandi (1940) kveður við sama tón í ljóðunum “Ljóð“, „Heimferð, „Ferðasaga“ og í ljóðabókinni Ferð án fyrirheits (1942) má nefna ljóðin „Hin mikla gjöf’, „Til hinna dauðu“ og „Börn að leik“.
Svipuðu marki brennd eru ljóð sem einkennast af kaldhæðni um þetta efni, þar má nefna ljóðin „Sement“, „Leiksýning“, „Götuvísa“ og „Flóttinn“ úr Ljóðum (1937). Úr Ferð án fyrirheits (1942) má nefna „Sumar við sjó“ og »Að sigra heiminn“. Feigð og dauði eru Steini áleitin yrkisefni. Dæmi eru „Vögguvísa“ (Sofðu, sofðu, / Ég er dauðinn, / ég skal vaka yfir þér“) og „Blóm“ í Ljóðum (1937). Þjáningin er sjaldan langt undan: í ljóðinu „Andvaka“ segir: „Þú bærðir vör, til einskis, angist þín / fékk aldrei mál./ Nei, þjáning þín bar aldrei ávöxt neinn, / og engan tilgang hafði lífs þíns nauð./ Hún lagðist yfir þreytu hjarta þíns / þung og dauð“ (Ljóð 1937). Í „Hamlet“ (Ljóð 1937) kveður við sama tón, einnig í „Mazurka eftir Chopin“ (Spor í sandi 1940).
Ég er djúpið sem geymir þær dýrmætu perlur…
Hér má benda á að Steinn helgar hinum sorglega riddara Don Kíkóta tvö ljóð, manninum sem barðist gegn heimsku heimsins en hlaut að launum náð og spott. Hann var riddari sannleikans í heimi sem tekur lygina iðulega ram yfir það sem satt er. Steinn hafði áreiðanlega fulla samúð með hinum sorglega riddara og hefur fundið til andlegs skyldleika með honum. Annað kvæðið er í Ljóðum frá 1937 en hitt í Ýmsum kvæðum. Hann yrkir einnig um Chaplin (Spor í sandi 1940) þar sem slegið er á svipaða strengi. Þessar þekktu persónur vísa til baráttu gegn blekkingum og lygi, þær eru notaðar ar þeim sem hafa mannúð, mennsku og mannréttindi á stefnuskrá sinni og setja manninn í öndvegi. Boðskapurinn um það efni á erfitt uppdráttar, boðskapur um vonir, drauma og þrár, þetta viðhorf liggur í loftinu: heimurinn virðist ekki kæra sig um annað en forgengileg lífsgildi. Kannski er þá eina leiðin að hrista hann til, að láta hann hafa það, setja á oddinn eitthvað sem gæti valdið hugarfarsbreytingu, afturhvarfi. Skáldið lifir í vitfirrtum heimi. Hér er skáld firringarinnar: hinar spámannlegu ýkjur eru aðferð skálds sem finnur sig knúið til að vekja fólk til umhugsunar um það sem því finnst máli skipta, skáldið býr sig í búning spámannsins. Þessi aðferð birtist í mörgum ljóðum sem einkennast af kaldhæðni og afgerandi fullyrðingu um tilgangsleysi lífsins:
Við biðum, við biðum
og brjóst okkar titruðu
í ögrandi þögn.Eftir örstutta stund
skal það ske.
Eins og kristalstær goðsögn
mun það koma
og fylla líf okkar
óþekktri angan.Við biðum, við biðum,
og að baki okkur reis
einhver hlæjandi ófreskja
og hrópaði:
Aldrei! Það skeður aldrei!
(„Biðin“, Ljóð 1937).
Þrátt fyrir þessi áberandi stef er vonin engu að síður til staðar, hvað sem framhaldinu líður, hinar djúpu tilfinningar og hinn sterki grunur um að lífið sé grundvallað á von og allir draumar um betra líf og svar við hinum þungu spurningum muni rætast — slíkar spurningar eru ávallt til staðar í ljóðum Steins, hvað sem öðru líður. Í ljóðinu „Sýnir“ (Rauður loginn brann 1934) er þetta erindi: „— Trú, sem er týnd og grafin / í tímans Stórasjó./ Draumar, sem hurfu út í veður og vind, / vonin, sem fæddist og dó.“ Í ljóðinu „Eins og gengur“ (Rauður loginn brann 1934) er spurningin um þetta efni mjög augljós: „Hvað táknar þá lífið, með ást sína og yl, / og öll þessi börn, sem að drottinn gefur?“ Í ljóðinu „Ljóð án lags“ (Ljóð 1937) sömuleiðis: „Og brjóst mitt var fullt af söng, / en hann heyrðist ekki…. / Það var söngur hins þjáða, / hins sjúka, hins vitfirrta lífs / í sótthita dagsins, / en þið heyrðuð hann ekki.“ Í Kvæðasafninu koma hugtökin draumur, þrá og von oft fyrir, einnig myndmál sem felur í sér drauma, þrár og vonir. Í ljóðinu „Veruleiki“ (Rauður loginn brann 1934) segir: „Einhvers staðar,/ langt út í lognkyrri nóttinni / heyrist leikið á veikróma hljóðfæri…“, einnig: „Og ég hef leitað, leitað / lífsins og sjálfs mín, / í óvitans von / um eitthvað dásamlegt / bak við ásjónu dagsins…“ en síðar í ljóðinu er svo slegið á þessa tvíráðu tóna: „Ó, þú vesalings villuráfandi sál. / Vegna hvers leitar þú þess, / sem þú veizt að er ekki til?…“. Næsta ljóði bókarinnar, „Kveld við Breiðafjörð“, lýkur með þessum línum: „Látt’ ekki fjandann veiða sálu þína. / Innst inn í firði vakir fátækt ljós.“ Með „Stiganum“ lýkur síðasta ljóði bókarinnar, Rauður loginn brann (1934), á þessum vísuorðum sem verða gerð að umfjöllunarefni síðar í þessari ritgerð: „Svona undarlegur / er þessi stigi, / svona óskiljanlegur / í sínum einfaldleika, / eins og lífið sjálft, / eins og veruleikinn / bak við veruleikann.“ Dýpst í tilvist mannsins, í leyndardóminum sem umlykur hana alla, á draumur mannsins sér athvarf, sbr. ljóðið „Akvarell“ (Ljóð 1937): „Ég er djúpið, sem geymir / þær dýrmætu perlur, / er þig dreymdi um að eignast.“
Og í „Þjóðvísu“ (Ljóð 1937) eru lokahendingarnar: „Já, eitt sinn, eitt sinn skal hinn smáði maður / úr djúpsins myrkri rísa sterkur, frjáls.“ Í voninni og í draumum sínum á maðurinn fjársjóð sem gefur honum hugrekki til að lifa og þrauka. Í ljóðinu „Draumur“ (Ljóð 1937) er þessi hending þar sem slegið er á sömu strengi: „Þitt hugrekki gat enginn máttur þvingað.“
Tilvistarstefnan og trúarheimspekin
Meðal þeirra verka, sem Steinn átti í bókasafni sínu, voru bækur eftir frönsku tilvistarheimspekingana og rithöfundana Gabriel Marcel (1889–1973) og Jean-Paul Sartre (1905–1980). Báðir voru þeir í fremstu röð tilvistarheimspekinga um og upp úr miðri tuttugustu öld. Að mörgu leyti var Marcel leiðtogi í umræðum heimspekinga í Frakklandi þar sem hann stóð fyrir vikulegum umræðufundum um árabil sem margir þekktustu heimspekingar landsins sóttu, þar á meðal Sartre.
Gabriel Marcel var löngum kenndur við kristna tilvistarstefnu enda þótt hann hafi alist upp á heimili guðleysingja og framan af verið guðleysingi sjálfur. Hann gekk í kaþólsku kirkjuna sama árið og Steinn var biskupaður í dómkirkju Krists konungs í Landakoti, 1929. Meðal kristinna existentíalista má nefna þýsk-bandaríska trúarheimspekinginn Paul Tillich (1886–1965), þýska Nýjatestamentisfræðinginn Rudolf Bultmann (1884–1976) og þýsku heimspekingana Karl Jaspers (1883–1969) og jafnvel einnig Martin Heidegger (1889–1976) sem komu heimspekingunum Søren Kierkegaard og Friedrich Nietzsche inn í hina tilvistarlegu umræðu. Þess má geta að þeir Tillich, Heidegger og Bultmann voru um skeið samtímis prófessorar við háskólann í Marburg. Meðal heimspekinga tilvistarstefnunnar, sem vel eru þekktir, eru Spánverjinn Miguel de Unamuno (1864–1936), austurríski gyðingurinn Martin Buber (1878–1965) og Rússinn Nikolai Berdyaev (1874–1948).
Á þeim tíma sem Steinn Steinarr var upp á sitt besta var erfitt að komast undan áhrifum tilvistarstefnunnar, umræðan var lífleg meðal skálda og listamanna, heimspekinga og síðast en ekki síst guðfræðinga: tilvistarstefnan fæst ekki hvað síst við eitt og annað í tilvist mannsins sem guðfræðin hafði alla tíð haft á sinni verkefnaskrá, ekki hvað síst í trúarheimspekinni. Það sem vekur fyrst athygli í ljóðum Steins í þessu samhengi er glíma hans við tilgang lífsins. Hér á undan hafa nokkur ljóð verið tilfærð sem undirstrika spurningar Steins um það efni. Að meira eða minna leyti eru allar ljóðabækur hans fram að Tímanum og vatninu sama marki brenndar að þessu leyti. Í heimspeki Gabriels Marcel,((Sjá: Gabriel Marcel, „The Philosophy of Existentialism” 12. pr. 1973 og Clyde Pax, An Existential Approach to God: A Study of Gabriel Marcel”, 1971.)) sem hefur haft mikil áhrif allt fram á þennan dag, ekki hvað síst vegna áhrifamikilla lærisveina hans í vestrænni menningu, er sterkur greinarmunur gerður á hugtökunum „að eiga“ og „að vera“. Marcel heldur því fram að maðurinn forðist tilvistarspurningar sínar með því að einbeita sér að þeim viðfangsefnum sem hann ræður við, hann veit betur hvað hann á en hvað hann er, hann freistast til að skilgreina sjálfan sig og tilvist sína út frá eigum sínum en síður út frá veru sinni. „Hvað á ég?“ er spurning sem oft er sett til höfuðs spurningunni „hvað er ég?“. Þetta er ein hliðin af mörgum sem sýna að maðurinn forðast að takast á við spurningar sem eru eftir allt saman knýjandi í vitund hans og sem hann þráir að fá svör við en treystir sér ekki til að glíma við vegna þess að hann býst ekki við neinu svari. Hann forðast leyndardóminn að baki tilvistinni í heild en einhendir sér í að leysa einstök áþreifanleg vandamál. Ástæðan er þó ekki sú að hann hafi ekki vitund um „handanlægni“ í lífinu, að lífið hafi tilgang. Hann hefur grun um að svo sé, grunurinn byggist m.a. á því að líf mannsins er borið uppi af voninni, af ástinni, af draumum og ýmsum öðrum hugtökum sem eiga sér rætur í óskilgreinanlegum leyndardómi sem maðurinn hefur ekki aðgang að og þekkir ekki til hlítar — en án hans er líf hans snautt og firrt tilgangi.
Ein afleiðingin er sem sagt sú að maðurinn einbeitir sér að því sem hann ræður við, að leysa vandamál líðandi stundar. En hann getur einnig fyllst reiði yfir því að ráða ekki við þær sterku tilfinningar sem bærast innra með honum og þá sterku vitund sem öðru hvoru blossar upp að lífið hafi tilgang og í þeim leyndardómi sem hann hefur hugboð um sé svarið að finna. Það er ekki aðeins efinn sem vaknar heldur einnig reiðin, steyttur hnefinn sem merkir: það er ekkert til. Hugrekki guðleysisins verður dyggð og leið til að þagga niður hinar óþægilegu spurningar sem vakna sífellt að nýju. Hinn persónulegi tónn í ljóðum Steins á ekki hvað síst rætur sínar að rekja til þess hugrekkis sem þau bera vitni um, þar er óneitanlega hugrekki til að takast á við tilvistarspurningar mannsins og í því hugrekki er ekki hvað síst að finna aðdráttarafl ljóðanna. Hugrekkið snýst ekki aðeins um að hafna allri „handanlægni“ í tilvist mannsins heldur einnig í hinu gagnstæða: að velja hinn kostinn og taka áhættu trúarinnar, „stökkið til trúarinnar“ (Kierkegaard). Skáld sem býr sér hvílu í eilífðinni hlýtur að þekkja báða þessa kosti af eigin raun.
Í ljóðum Steins er hvort tveggja að finna, annars vegar sterka afneitun á tilgangi lífsins en hins vegar sterka vitund um að lífið sé borið uppi að leyndardómi, af von, draumum og ást. í „Stiganum“ (Rauður loginn brann 1934) lýkur hugleiðingum ljóðsins um stigann með samanburði við lífið sjálft:
Svona undarlegur
er þessi stigi, …
eins og lífið sjálft,
eins og veruleikinn
bak við veruleikann.
Orðalagið „veruleikinn bak við veruleikann“ minnir óneitanlega eindregið á hugtakanotkun tilvistarheimspekinganna, m.a. Pauls Tillich((Paul Tillich, Systematic Theology, Welwyn 1968. Paul Tillich, The Courage To Be, 2. útg., 2000. Paul Tillich, Love, Power and Justice, 1967 Paul Tillich, Dynamics ofFaith, 1957.)) sem talar um „God above god“ og „being itself“ og hjá Gabriel Marcel er hugtakið handanlægni (transcendence) lykilhugtak: veruleiki sem birtist manninum sem leyndardómur og gegnsýrir lífið allt í stóru sem smáu, vitund um að handan hins skiljanlega sé eitthvað annað og meira þar sem manninum er óhætt, þar sem tilvist hans er ekki ógnað heldur þvert á móti, þaðan sem honum kemur vonin, draumurinn um lausn, tilgangur og merking og þar sem svar er að finna við spurningu skáldsins í ljóðinu „Eins og gengur“ (1934): „Hvað táknar þá lífið, með ást sína og yl, / og öll þessi börn, sem að drottinn gefur?“ Undir hrjúfu yfirborði afneitunarinnar sem er svo augljós og áberandi í ljóðum Steins fram eftir aldri er eindregin og áleitin spurning um tilgang og merkingu og í þeirri spurningu — með þverstæðukenndum hætti — er fólgin ákveðin von, hugboð og óljós vitund um að svarið sé aldrei langt undan.
Þessi vitund um handanlægni er sterk í ljóðum Steins. Óneitanlega minnir hann í þessu efni á einn borðnaut sinn í Unuhúsi, Halldór Laxness, sem slær sömu strengi í verkum sínum. Um Stein Elliða í Vefaranum mikla frá Kasmír segir: „Hugur hans dregst að „… þeim veruleik sem hylst að baki sköpunarverksins og ljómar á ásýnd hlutanna“.((Halldór Laxness, Vefarinn mikli frá Kasmír, 1. útg. 1999, bls. 40.)) Hinn eilífi veruleiki að baki sköpunarverkinu er það sem hann þráir innst inni.((Halldór Laxness, Vefarinn mikli frá Kasmír, 1. útg. 1999, bls. 318.)) Halldór lætur skína í þessa hugmyndafræði vítt og breitt í verkum sínu, nefna má Sölku Völku: veruleikinn er að sönnu á Óseyri en til er annar raunveruleiki sem er „veruleikinn bak við veruleikann“.((Halldór Laxness, Salka Valka, 5. útg., 1991, bls. 111.)) Meðal sýnilegra áhrifa frá klausturdvöl Halldórs er dulhyggjan sem var þáttur í heimspeki og guðfræði miðalda en ekki andstæða heimspekilegrar hugsunar. Dulhyggjan gefur mörgum textum Halldórs hvort tveggja í senn: framandi blæ og andlega dýpt. Hugtök og myndlíkingar eins og „hinn hreini tónn“, „hið Eina“, „frumhreyfill veruleikans“, „veruleikinn bak við veruleikann“, „æðri heimur, bak við heiminn“, „undarlegur hljómur á bakvið alheiminn“ og fleira skylt má rekja til þeirrar hefðar sem alla tíð hefur verið sterk í kristnum klaustrum og í klassískri guðfræði og þá ekki síst í miðaldaguðfræði og kristnum miðaldabókmenntum — og í tilvistarstefnu tuttugustu aldar. Grunnur hennar er að stórum hluta platónsk og nýplatónsk heimspeki.((Gunnar Kristjánsson, Fjallræðufólkið, 2002, bls. 185.)) Það er ekki ólíklegt að áhrifin frá Stefáni frá Hvítadal og frá Halldóri Laxness, að ógleymdum Gabriel Marcel skili sér hér í síðustu og þroskuðustu ljóðum Steins Steinarr.
Í auga eilífðarinnar
Rennandi vatn,
risblár dagur,
raddlaus nótt.Ég hef búið mér hvílu
í hálf luktu auga
eilífðarinnar.Eins og furðuleg blóm
vaxa fjarlægar veraldir
út úr langsvæfum líkama mínum.Ég finn myrkrið hverfast
eins og málmkynjað hjól
um möndul ljóssins.Ég finn mótspyrnu tímans
falla máttvana
gegnum mýkt vatnsins.Meðan eilífðin horfir
mínum óræða draumi
úr auga sínu.
(21. ljóð).
Í þessu lokaljóði Tímans og vatnsins er freistandi að lesa trúarlega merk- ingu og raunar liggur hún tiltölulega ljós fyrir. Ég hef búið mér hvílu í í hálfluktu auga / eilífðarinnar. Hér hefur skáldið með öðrum orðum búið sér hvílu í eilífðinni. Eilífðin er komin inn í myndina með jákvæðum hætti eða „jákvæðu forteikni”, í sjálfu lokaljóðinu í þessum persónulega ljóðaflokki sem markaði þáttaskil. Það væri því ekki fjarri lagi að setja Stein Steinarr í hóp þeirra skálda sem hafa ort um trú mannsins á tuttugustu öld af miklum næmleika og samið ljóð sem minnir á lofsöng á nýjum tímum, í nýjum búningi. Hugtakið eilífð kallast hér á við tímahugtakið, sterkasta tákn forgengileikans í tilvist mannsins. Nú er annað hugtak komið til sögunnar, eilífðin, sjálf ósnortin af hinum forgengilega tíma, „veruleikinn bak við veruleikann”, sem ef til vill svarar spurningu skáldsins: „Hvað táknar þá lífið…?”
Gunnar Kristjánsson
Gunnar Kristjánsson dr. theol. er fyrrum sóknarprestur í Reynivallaprestakalli og prófastur emeritus í Kjalarnessprófastsdæmi. Hann hefur sinnt rannsóknum og ritstörfum á sviði menningartengdrar guðfræði með áherslu á bókmenntir og myndlist. Lauk cand. theol. prófi frá Háskóla Íslands 1970. Mastersgráða frá Boston University 1971. Doktorsritgerð í guðfræði og bókmenntum frá Ruhr-Universität, í Þýskalandi, 1979. Stundaði framhaldsnám við Yale-háskóla 1982 og Harvard-háskóla 1987 við rannsóknir á bandarískum áhrifum á sr. Matthías Jochumsson. Bækur sem Gunnar hefur ritað eða ritað í: Gengið í guðshús (1986), skrifaði um búnað og gripi í friðuðum kirkjum Kjalarnessprófastsdæmis í ritverkinu Kirkjur Íslands, bd. 11 og 12 (2008), sá um útgáfu Vídalínspostillu 1995 ásamt öðrum og ritaði ítarlegan inngang, ritaði inngang að endurútgáfu Sálma á atómöld eftir Matthías Johannessen 1991. Árið 2002 kom bók hans Fjallræðufólkið, persónur í verkum Halldórs Laxness. 2014 kom út bók hans um Lúther og siðbótina: Marteinn Lúther – Svipmyndir úr siðbótarsögu. Hefur verið stundakennari við heimspekideild Háskóla Íslands (heimspekileg forspjallsvísindi, íslenskar bókmenntir og almennar bókmenntir), endurmenntunardeild H.Í. og guðfræðideild, einnig við Myndlista- og handíðaskóla Íslands.
Tilvísanir
Heimildaskrá
Eliot, T.S., Eyðilandið. Þýðing á The Waste Land. Sverrir Hólmarsson þýddi og sá um útgáfuna. Reykjavík 1990.
Eliot, T.S. The Waste Land and Other Poems. London 1973.
Gunnar Kristjánsson, „Um myndlist í kirkjum.“ Lesbók Morgunblaðsins 53. árg. 1978, 24. des., bls. 12–15. [Um Assy og Couturier].
Gunnar Kristjánsson, Fjallræðufólkið, um persónur í verkum Halldórs Laxness. Reykjavík 2002.
Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, Reykjavík, 2000.
Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds II, Reykjavfk, 2001.
Halldór Laxness, Gjörningabók, Reykjavík 1959.
Halldór Laxness, Vefarinn mikli frá Kasmír, 7. útg., Reykjavík 1999 (1. útg.1927).
Halldór Laxness, Salka Valka, 5. útg., Reykjavík 1991.
Heimir Steinsson: „„Meðan eilífðin horfir“ — Skólaskáldið mitt” — Lesbók Morgunblaðsins, 44. tbl. 20. desember 1993, bls. 14–15.
Heimir Steinsson: „Unio mystica í ljóðum Steins Steinarr?“ Kirkjuritið 46/2 1980, bls. 130–133.
Ingi Bogi Bogason. Steinn Steinarr: Ævi og skoðanir. Reykjavík 1995.
Kristín Þórarinsdóttir, „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt”. Líf og listsköpun Steins Steinarr á tilurðarárum Tímans og vatnsins.” Skírnir 182. árg (vor 2008), bls. 42–80.
Kristján Karlsson, „Inngangur“, í: Steinn Steinarr, Kvæðasafn og greinar. Reykjavík 1964.
Marcel, Gabriel, The Philosophy of Existentialism, 12. prentun, Secausus, N.J, 1973.
Matthías Johannessen, Hugleiðingar og viðtöl, Reykjavík 1963.
Matthías Johannessen, M, Samtöl II, Reykjavík 1978.
Pax, Clyde, An Existential Approach to God: A Study of Gabriel Marcel. The Hague 1972.
Sigfús Daðason. Maðurinn og skáldið Steinn Steinarr. Reykjavík 1987.
Sigurbjörn Einarsson, Um ársins hring. Reykjavfk 1964.
Sigurður A. Magnússon, Sigurbjörn biskup, ævi og starf Reykjavík 1988.
Steinn Steinarr, Kvæðasafn og greinar. Reykjavík 1964.
Sveinn Skorri Höskuldsson. „Þegar Tíminn og vatnið varð til.“ Afmælisrit Steingríms J. Þorsteinssonar (bls. 155–195). Reykjavík 1971.
Sverrir Hólmarsson, „Eliot og Eyðilandið“, í: Eyðilandið. Þýðing á The Waste Land eftir T.S. Eliot. Sverrir Hólmarsson þýddi og sá um útgáfuna. Reykjavík 1990.
Tillich, Paul, Dynamics of Faith, New York 1957.
Tillich, Paul, Love, Power and Justice, London, Oxford, New York, 1967.
Tillich, Paul, Systematic Theology, Welwyn 1968.
Tillich, Paul, The Courage To Be, 2. útg. New, Haven, London, 2000.