Elfar Logi Hannesson
Elfar Logi Hannesson (1971) er leikari og sjálfstætt starfandi listamaður á landsbyggð. Hann starfrækir ásamt eiginkonu sinni, Marsibil G. Kristjánsdóttur, Kómedíuleikhúsið atvinnuleikhús Vestfjarða og einnig eru þau listahjónin stofnendur og stjórnendur Act alone listahátíðarinnar á Suðureyri. Það er óhætt að segja að Steinn Steinarr hafi verið þeim listahjónum hugleikinn því alls hefur Kómedíuleikhúsið sett upp fjórar leiksýningar sem tengjast ævi og verkum Steins. Líklegt að enn fleiri Steinsleikverk rati á senu í komandi kómískri framtíð.
Sem ég var þakklátur þegar ég kynntist ljóðum Steins því þá loks fattaði ég hið dásamlega ljóðform. Líklega var það Hudson Bay sem heillaði snáðann mig fyrst. Kannski var ég tólf eða þrettán ára er Steinn kom í mína ljóðatilveru. Allar götur síðan hefur Steinn verið mitt uppáhalds ljóðskáld. Ég er einsog stjórnmálamaðurinn og tækifærissinninn er alltaf að skipta um uppáhalds Steins ljóð. Einn daginn er það Kvæði um hund, þar næsta dag Ræfilskvæði, viku síðar Miðvikudagur og miðvikudaginn þar á eftir Tindátarnir. En í dag er mitt Steinsljóða uppáhald, Leiksýning. Ekki bara vegna þess að ég starfa sem leikari og ljóðið nær að fanga vel tilveru leikarans sem er á hverju sýningarkveldi að kasta sér fyrir björg og vonast til að gónendur grípi vesalinginn allavega gefi honum klapp í lok leiks. Heldur og vegna þess að mér finnst þetta ljóð fanga einstaklega vel tilveru okkar í dag.
Leiksýning
Hin mikla leiksýning
var loks á enda.
Einsog logandi blys
hafði leikur minn risið
í hamslausri gleði
og friðlausri kvöl,
uns hann féll á ný
í skoplegri auðmýkt
til upphafs síns.
Það var lífið sjálft,
það var leikur minn.
Og ég leit fram í salinn
og bjóst við stjórnlausum fögnuði
fólksins.
En þar var enginn.
Og annarleg kyrrð hvíldi yfir
auðum bekkjunum.