Hello
Click here to add your own text
Hello
[CP_BCCF_FORM calendar=“1″]
Click here to add your own text
[CP_BCCF_FORM calendar=“1″]
Í Steinshúsi er opin veitingastofa í þrjá mánuði yfir sumartímann. Á matseðlinum er kjötsúpa, gæðakaffi, heitt súkkulaði, heimabakað brauð, kökur og vöfflur. Hægt er að versla sultur, handverk, sápur og krem úr héraði á staðnum.
Vinsamlegast hringið í síma 898 9300 eða sendið póst.
Opið er frá kl. tíu á morgnana til átján á kvöldin alla daga vikunnar frá 8. júní til 1. september.
Í mörg ár var unnið að því að endurbyggja samkomuhúsið á Nauteyri, sem eyðilagðist í eldi árið 2002, og breyta því í safn og fræðimannasetur til minningar um skáldið Stein Steinarr. Það er sjálfseignarstofnunin Steinshús ses. sem annaðist allar framkvæmdir á staðnum. Stærð Steinshúss er um 150 m² og skiptist þannig að íbúðarhluti er um 50 m² og safnhluti um 100 m². Framkvæmdum við endurgerð byggingarinnar er nú lokið. Safnið var opnað með viðhöfn þann 15. ágúst 2015 og veitingarekstur hófst í Steinshúsi í lok maí 2016. Opið verður frá þeim tíma og fram í byrjun september ár hvert.
Í safnhlutanum er innréttað herbergi með munum sem minna á sögu Steins og eru nokkrir munir fengnir frá erfingjum skáldsins. Jafnframt er þar sögusýning með endurgerðum handrita og bóka sem Landsbókasafn Íslands — Háskólabókasafn hefur séð um að útbúa. Einnig má þar hlýða má á upplestur skáldsins og tónlist við ljóð hans. Í salnum er allmikið safn bóka (um 800 bindi) sem gefið hefur verið til safnsins og þar er talsvert af húsgögnum. Fræðimannsíbúðin er búin öllum nauðsynlegum innréttingum, húsgögnum, tækjum og búnaði.
Á sýningunni sem opnuð var í Steinshúsi 15. ágúst 2015 er fjallað um helstu æviatriði Steins Steinarr — upprunaskáldsins við Djúp, hreppaflutninga í Saurbæ, fyrstu kynni af skáldskap hjá Stefáni frá Hvítadal, nám í Dölum hjá Jóhannesi úr Kötlum, fyrstu skáldskapartilraunir, námsdvöl að Núpi, lausamennsku í vinnu, útgáfur ljóða, upphaflega gerð Tímans og vatnsins, kynni Steins og Ásthildar Björnsdóttur, ferðalög Steins, áhrif hans á ungskáld, síðustu ár hans og ýmislegt fleira.
Sýningin er unnin í samstarfi við Vaxtarsamning Vestfjarða, Menningarráð Vestfjarða, Uppbyggingarsjóð Vestfjarða, Alþingi og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem varðveitir frumgögn, en Steinshús fær eftirgerðir til afnota á sýningunni. Ólafur J. Engilbertsson tók saman sýningartextann og Anna Yates sá um enska þýðingu hans. Björn G. Björnsson sá um hönnun sýningarinnar ásamt Ólafi J. Engilbertssyni. Sýningin er bæði á íslensku og ensku.
Steinshús er staðsett á Nauteyri við sunnanvert Ísafjarðardjúp.
Við hönnun Steinshúss var miðað við að bæði íbúð og safnhluti standist allar nútímakröfur sem gerðar eru til slíkra mannvirkja t.d. varðandi salernisaðstöðu, útgönguleiðir og öryggismál. Þannig er tryggt að í safnhlutanum geti verið margvísleg starfsemi í sátt við rekstur safnsins (fundahöld, kaffiveitingar, leiksýningar o.fl.).