Steinn Steinarr og myndlistin
Ljóð Steins Steinarr og persónan Steinn hafa frá fyrstu tíð haft sérstakt aðdráttarafl fyrir íslenska myndlistarmenn. Steinn hafði ætíð mikinn áhuga á öllum listgreinum og gerði sér far um að fylgjast vel með hvað var að gerast í listaheiminum. Samstarf hans við myndlistarmennina Nínu Tryggvadóttur, Louisu Matthíasdóttur og Þorvald Skúlason er vel þekkt. Fjölmargir listamenn hafa síðan myndskreytt bækur hans, ljóð eða hljóðdiska eftir að hann féll frá eða sótt innblástur í ljóð hans eða persónuna sjálfa.
Nína Tryggvadóttir
Nína gerði þrjár portrettmyndir af Steini og myndskreytti bók hans Tindátarnir sem kom út 1943. Hún kynntist Steini í Unuhúsi eftir að hún flutti heim frá París ásamt Louisu Matthíasdóttur í byrjun seinni heimstyrjaldarinnar. Erlendur í Unuhúsi lagði til að Steinn sæti fyrir hjá Nínu.
Jón Kaldal
Fyrra portrett Jóns Kaldals er sennilega ein þekktasta mynd af Steini sem til er. Myndin er tekin á árabilinu 1940–1944. Seinna portrettið af Steini skeggjuðum er tekið árið 1947. List Kaldals fólst í móta jafnt í myndatöku sem eftirvinnslu sýn á persónuleika skapandi fólks og svipsterkra einstaklinga.
Sigurður Þórir
Á aldarafmæli Steins Steinarr gaf Sigurður Þórir út bók með syrpu myndverka við Tímann og vatnið, alls sjötíu og sjö málverk og álíka af teikningum, eitt við hverja vísu. Hann myndskreytti einnig hljómdiskinn Tíminn og vatnið — tónverk eftir Jón Ásgeirsson sem gefinn var út sama ár.
Kristján Davíðsson
Kristján var einn þekktasti listmálari þjóðarinnar á sínum tíma og brautryðjandi á ýmsum sviðum. Hann stundaði nám í listaskólanum Barnes Foundation og við Pennsylvaníuháskóla í Merion 1945–47 og var við listnám í París veturinn 1949–50. Kristján og Steinn þekktust vel.