Steinn Steinarr

Minningarorð eftir Sigurð A. Magnússon. Birtist í Morgunblaðinu 1. júní 1958


Lífsverk Steins Steinarr er ekki sérlega mikið að vöxtum, en í ljóðum hans flestum eru skýrari drættir frumlegs skapanda en í verkum flestra annarra ljóðskálda aldarinnar. Steinn átti það tvennt sem er hverju skáldi dýrmætast auk sjálfrar skáldagáfunnar: óbugandi hugrekki og algert sjálfstæði. Hann átti auk þess frjóa hugsun, auðugt ímyndunarafl og ríka formtilfinningu. Slíkir eiginleikar hlutu að leiða til afreka.

Í hugum okkar yngri manna verður Steinn Steinarr fyrst og fremst tákn nýs tíma í íslenzkri ljóðagerð, ekki endilega vegna þess að hann kæmi fram með nýstárlegri ljóð en t.d. Jóhann Sigurjónsson eða Jóhann Jónsson, heldur vegna þess að skáldið og verk hans runnu saman í eina heild sem reis fyrir sjónum okkar í mynd kröftugra andmæla gegn öllu, sem var venjubundið, gatslitið, fínt, snobbað og dautt. Steinn var jafngóður rímari og hver annar, enda fór hann ekki dult með það í ljóðum sínum; nýstárleiki hans er fólginn í því að þora jafnan að segja það, sem honum bjó í brjósti á þann hátt sem hann áleit sannastan, án fyrirfram gerðra útreikninga um viðbrögð fjöldans. Það var hin afdráttarlausa trúmennska Steins við sjálfan sig og list sína sem gerði hann stóran, þetta að hugsa fyrst um ljóðið og síðan kannski um lesandann. Slík afstaða er auðvitað eitur í beinum bæði fína fólksins og einsýnna boðbera endanlegra sanninda í hvaða mynd sem er.

Steinn Steinarr var ádeiluskáld, öreigaskáld, skopskáld, heimspekilegt skáld, abstrakt skáld og hvaða heiti önnur sem menn vilja hengja á hann en hann var framar öllu sjándinn og rödd hrópandans. Hann var nærgöngull af því honum lá mikið á hjarta; og af því honum lá mikið á hjarta, var það honum lífsnauðsyn að láta ekki staðar numið, finna sér ekki þægilegt bæli að skríða í, heldur leita linnulaust, skipta um skoðanir og sannfæringar, halda jafnan fram því sem sannara reyndist. Það eru ekki aðrir en stórir menn sem eiga slíka djörfung, að þeir fórna jafnvel félögum og vinum, ef því er að skipta, til að halda fast við sinn eigin sannleik.

Unga kynslóðin vottar Steini ekki virðingu sína og þakklæti vegna þess að hann hafi brotið gömul goð eða gert yngri skáldunum lífið léttara. Ef nokkuð er, hefur hann gert þeim lífið erfiðara, því hann hefur hækkað markið: krafizt algers heiðarleiks, hlífðarlausrar sjálfsögunar og ókvikullar hollustu við listina. Hann hefur „heimtað“ það af ungum skáldum að þeir séu ferskir, ekki vegna þess að það nýja sé ævinlega betra en hið gamla, heldur vegna þess að það er oftast ósviknara, sannara.

Sigurður A. Magnússon



Sigurður A. Magnússon

Sigurður A. Magnússon (F. 31. mars 1928. D. 2. apríl 2017) skrifaði fjölda bóka á íslensku og ensku, þar á meðal skáldsögur, ljóð, leikrit, ferðasögur, endurminningabækur, greinasöfn og bækur um íslenska hestinn. Fyrsta bók hans var ferðasagan Grískir reisudagar sem kom út 1953. Sigurður vann að kynningu íslenskra bókmennta erlendis og ritstýrði meðal annars sýnisbókum og þýddi ljóð íslenskra skálda. Hann þýddi einnig mikið úr dönsku, ensku, grísku og þýsku, þar á meðal verk eftir H.C. Andersen, Bertolt Brecht, Gíorgos Seferis, Pandelis Prevalakis, Walt Whitman, James Joyce, Nagíb Mahfúz, Kazuo Ishiguro, John Fowles og Ernest Hemingway.

Steinn Steinarr

Minningarorð eftir Ragnar Jónsson. Birtist í Morgunblaðinu 1. júní 1958


Hið dásamlegasta í lífinu og listinni er, að þar er allt nýtt, allir hlutir fara þar á annan veg en ætlað var. Og kannske er þessu eins farið í dauðanum.

Flestir menn mundu vafalaust fremur kjósa sér að deyja á sóttarsæng en farast í stríði eða slysum af öðru tagi. En sumir heimta að farast, en sætta sig ekki við að deyja, af því þeim finnst, að þá fyrst hafi þeir staðið í stöðu sinni gagnvart Guði og mönnum, er þeir héldu sig hverju sinni svo nálægt lífsháskanum, að örlög réðu hvort aldan skolaði þeim á land eða bar þá til hafs. Steinn Steinarr var einn þeirra stríðsmanna réttlætisins sem kaus að farast í úrslitaorrustunni um stöðu manngildisins í lífinu, en forlögin höguðu því þann veg, að hann dó fjarri þeim hættum, sem hann hafði alla tíð ögrað af svo staðföstu óttaleysi.

Ég kynntist Steini Steinarr hjá Erlendi í Unuhúsi, eins og mörgum öðrum jafnöldrum mínum úr hópi listamanna. Ég hafði þá aldrei áður þekkt mann, er mér virtist hafa jafnlitla möguleika til að brjótast til valda í heiminum. Hann var bókstaflega alls laus, og ekki hefi ég séð mann með veikari arm. En í Unuhúsi var einmitt griðastaður nafnlausra manna, og ekki siður að hnýsast í einkahagi þeirra, enda vissi enginn þar hvaðan Stein bar að landi né hvert för hans var heitið. En Steinn Steinarr, skáldsnillingur og herkonungur, vissi sjálfur yfir hvaða afli hann bjó, og hafði hiklaust veðsett sál sína og líf vegna þeirra, sem í svipinn urðu að beygja sig fyrir sömu óblíðu örlögunum og hann. Og hann vissi sig kallaðan til þess að breyta ásýnd heimsins vegna þeirra, fella úrskurð, sem erfitt var að áfrýja, um nýtt og gamalt, rétt og rangt.

Með sínum veika armi hefur Steinn Steinarr beygt járngrindur miskunnarleysisins, svo þær eru nú ekki mannheldar lengur, og enginn hefur hrópað hljómmeiri aðvörunarorð yfir hina bergmálslausu múra Kremlar en einmitt hann. En hann fékk ekki að beita sínum hvössu vopnum á leiðinni að síðasta áfangastað, eins og hann hafði óskað sér, ekki að farast í úrslitastríðinu um réttarstöðu manngildisins í lífinu vegna þess að vitjunartími hins nýja réttlætis var enn of fjarri fyrir svo tónvissan lúðurþeytara.

Ragnar Jónsson



Ragnar í Smára

Ragnar Jónsson (F. 1904. D. 1984) betur þekktur sem Ragnar í Smára var íslenskur atvinnurekandi og menningarfrömuður. Ragnar rak Smjörlíkisgerðina Smára og var ásamt því áhrifamikill maður í menningarlífi Íslendinga á 20. öld. Hann stofnaði bókaútgáfuna Helgafell árið 1942 sem gaf m.a. út verk Halldórs Laxness. Árið 1961 gaf Ragnar Alþýðusambandi Íslands málverkasafn sitt og lagði þannig grunninn að Listasafni ASÍ. Gjöfin innihélt 120 myndir eftir þekktustu listamenn þjóðarinnar. Í safninu voru m.a. verk eftir Ásgrím Jónsson, Gunnlaug Scheving, Jóhannes Kjarval og Nínu Tryggvadóttur.

Steinn Steinarr

Minningarorð við kistu hans í Fossvogskapellu 2. júni 1958 — eftir Sigurbjörn Einarsson


Rétta menn ekki út höndina, þegar allt hrynur? Eða hrópa menn ekki á hjálp, þegar þeir eru að farast? Eða grét ég ekki yfir þeim, sem átti illa daga, og hryggðist ekki sála mín vegna fátæklingsins? (Job 30, 24).

Svo mælti Job á sinni tíð, eins og segir í bók hans. Mundi það ekki vera eitt sem sker úr um það, hver maður þú ert, þetta, hversu djúpt þú getur fundið til?

Jobsbók glímir við vandamálið um dýpri rök þeirra atvika og örlaga, sem erfiðast er að skilja. Og hún bendir til sömu áttar um iausn og þessi spurning vísar til. Var það ekki svo um alla þá, sem eitthvað gáfu verulegt, að þeir urðu að heimta það úr djúpum, fæða það með þraut, vinna það úr tífstrega? Guldu þeir ekki þann unað, sem þeir veittu öðrum, við mikilli, oft hulinni raun? Voru ekki leiftrin, sem frá verkum þeirra stafar, að jafnaði sótt langt inn í myrkur? Þeir einir fundu perlur, sem köfuðu til botns.

En þeir, sem gengust undir þessa stóru kosti og mörkuðu spor í þann sand, sem hin mikla lest kynslóðanna fetar, þeir lifðu — og voru þó margir skammlífir, lifðu eitthvað satt, heilt og ósvikið, eitthvað, sem er svo miklu stærra en þau rúmhelgu viðbrögð, sem vér flestir hversdagsmenn þekkjum. Og það gaf þeim sjálfum í aðra hönd, það sem gerði þeim fært að standa undir því, sem á þeim hvíldi, og skila því, sem þeir voru krafðir um.

Skáldið er í þessum hópi, að köllun sinni til. Það, sem skáldið skilur eftir, lífið, sem varir í þessum heimi, þegar skáldið hnígur, ljóðið, listin, er eitthvað, sem greri upp af undum þess, frjóvgaðist við tár þess, þótt enginn sæi þau. Og allt hið verðmæta, sem mannkyn hefur eignazt, er sama ætternis.

Rétta menn ekki út hönd sína, þegar allt hrynur? Þeir voru margir, fyrr og síðar, sem sáu allt hrynja. En það vora fáir útvaldir, sem seildust út yfir hrun og tóm hins sýnilega og stundlega og komu með fyrirheit í hönd sinni, von í augum, trú. Það voru þeir, sem sáu í gegnum fallvelti þess, sem grunnfærnin byggir á, tál fánýtra muna, hégómleik hillinga, fals og feluleik manneskjunnar. Það voru fáir útvaldir, sem skynjuðu hjálparleysi mannsins á þann veg, að kynslóðir hlutu hjálp af þeirri skynjun. Og það voru fáir útvaldir, sem grétu yfir þeim, sem áttu illa daga, og hryggðust vegna fátæklingsins á þann veg, að það vakti samvizku mannkyns. Það, sem vér eigum af lifandi, hræsnislausri samkennd með böli og jákvæðum, undirhyggjulausum hjálparvilja, er vaxið af slíku tári og slíkri hryggð. Og þeir eru fáir, sem líða falslaust með samtíð sinni í ráðaleysi hennar, lifa vandkvæði hennar, þjást með vonlausum, kúguðum, ofsóttum, blindum. En framtíðin á von sína fólgna í þeim. Það eru þeir, sem eru ekki sáttir við hrun og tóm og traðk, meiningarleysi, auvirðileik og viðbjóð, sjá það grímulaust og svipta bað grímu.

Þeir, sem spyrja:

Hví ertu að efast
um þau einföldu sannindi,
að heimskan,
hungraðir verkamenn
og viðbjóðslegt göturykið
sé veruleikinn,
eilífur og óumbreytanlegur?

Þeir, sem geta sagt af nokkrum innri heilindum:

Allar heimsins sorgir eiga sér bústað
í brjóstum vorum.
Allur þungi mannlegra þjáninga
hvílir á herðum vorum.
En augu vor stara sem brennandi blys
gegnum myrkrið og auðnina,
langt, langt
inn í fegurð hins frelsaða heims,
langt, langt
inn í bjarmann af báli hins ófædda lífs.

Allt það, sem unnizt hefur á ferli mannsandans, og allt, sem unnið verður, var og er ábati af fórn. Og það veit Biblían betur en allar aðrar bækur samanlagt. Allt hennar fjölþætta líf hverfist um einn kjarna, þann konung hennar sem nefndur er „harmkvælamaður og kunnugur þjáningum“, „hinn líðandi þjónn allra“ og þess vegna einmitt sá, sem er frelsarinn. Kristin trú fæddist af kvöl, ljós hennar var slegið í myrkrið af klöppinni á Golgata, kirkjan lýtur krossfestum Drottni. Hans hróp út í myrkrið varð hjálp mannkyns.

Það er margur, sem hrópar á sama veg og hann: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig. Fleiri en vita eða við kannast. Má vera, að það sé hinn djúpi sári tónn í vitund vorrar samtíðar. Oft er meira af Guði í slíku hrópi, jafnvel orðvana og ógreinanlegu, en í mörgu háu hósíanna.

En það var einn, sem sagði þetta svo, að það gleymist aldrei, sagði það í skapandi fórn. Það var skapandi þraut guðdómsins sjálfs í því hrópi. Á þeirri stundu í þessum eina, var Guð að berjast til úrslita fyrir því að missa ekki manninn, gefast manninum, eignast manninn. Og þess vegna erum vér hér í dag, í bjarma af báli þess lífs, sem fæddist þá, í nánd hans, sem lifði og leið merkingu inn í meiningarlausa grimmd krossins og dauðans, í bjarma ljóss, sem er handan alls myrkurs, alls dauða. Því að um hvern kristin helgidóm og alla kristna boðun og þjónustu leikur endurskin af fegurð þess heims, sem kærleikur Guðs í Jesú Kristi hefur opinberað og frelsað oss til.


II


Steinn Steinarr er ekki lengur vor á meðal.

Að lokum eftir langan, þungan dag
er leið þín öll

sagði hann forðum, og nú er það orðið.

En hann sagði líka: Ég var aðeins til í mínu ljóði. Og þar er hann. Í ljóði hans er líf, sem ekki deyr með honum, þar lifir Steinn Steinarr meðan íslenzk tunga lifir.

Vér getum að vísu ekki dæmt um það á þessari stundu til neinnar hlítar, hver hann verður, skáldið, að mati þeirra, sem á eftir koma. Bylting tímans birtir ekki allt, og vér vitum aldrei fyrirfram, hverjum hún finnur upp á að bæta hundraðfalt. Og aldrei hefur hann sjálfur spurt: Hvað verður um mig sagt liðinn, hvernig dæmir framtíðin um það verk, sem ég læt eftir? Hann var það, sem hann var, og gat ekki annað verið — það var köllun hans, sem hann laut í sinni hetjulegu auðmýkt, sinni hóglátlegu óbilgirni. Hann hafði engan spurt, hvorki alinn né óborinn, hver hann var eða ætti að vera.

Ég hef séð haft eftir Goethe, að hann hafi sagt, aldraður og mettur af lofi og vegtyllum: „Ég spurði mig aldrei: Hvað vill fjöldinn? Ég spurði hins eins: Hvað vill röddin, sem knýr mig og markar mér braut?“ Mikið skilur þessa tvo, hofmanninn í Weimar og Daladrenginn, einfarann Stein. En þetta hefði hann getað sagt af eins þegnlegum heilindum við gyðju sína og hinn frægi skáldbróðir, þótt hann hefði vissulega sagt það með öðrum hreimi, sínum persónulega blæ og broddi.

Og hvernig sem hann kann að tala til framtíðarinnar, þá var hann meðal samtíðarmanna sinna sá, sem náði furðulegu lífi úr streng sínum, nýjum, óvæntum tóni, sem vakti djúpan enduróm. Og þeirri kynslóð, sem lifði Stein Steinarr, er erfitt að horfast í augu við það, að strengur hans sé brostinn. Hann kom og kvaddi sér hljóðs með ókennilegu háttalagi. Og eftir nokkurt hvim og hik hafði samtíðin áttað sig á því, að hann fól og tjáði í undarlegum brag sínum eitthvað, sem bjó dýpst í sefa hennar sjálfrar, eitthvað, sem var fólgið innst í leit hennar og þrá, hann orðaði þá gátu, sem hún var sjálfri sér, á sannlegri og nærfærnari hátt en aðrir, hann túlkaði ugg hennar og tvíræða útsýn, hann hjálpaði henni til þess að skynja eigin æðaslög, opinberaði nokkuð af sálu hennar í þeirri nekt og örbirgð sem að nokkru leyti er auðlegð hennar, eða gæti orðið það.


III


Og ég var aðeins til í mínu ljóði.
Var hann þar allur?

Það er enginn allur í sínu ljóði, hversu miklu af sjálfum sér, sem hann miðlar, hversu miklu, sem hann skilar um farvegi hendinga sinna. Steinn ekki heldur og ef til vill mörgum síður. Hann tjáði sig aldrei allan, engum. Og það er meira í einum manni en nokkurt ljóð fær tjáð. Hið sannasta kvæði er aldrei annað en hálfkveðin vísa, miðað við allt, sem inni fyrir býr, einn tónn af mörgum. Hann getur verið hinn ómríkasti, tærasti, fyllsti, og hann getur túlkað það frábærlega vel, sem vill brjótast fram á stundu sköpunarinnar, en hann nær því sjaldan til fulls. Það er löngum eitthvað handan orðanna, handan formsins, sem andann grunar, en nær ekki tökum á, eitthvað, sem hugur skynjar, en fær ekki túlkað. Og stundum dyljast menn í orðum sínum en opinbera ekki.

Steinn Steinarr var dulur. Um annað mikið skáld var sagt: „Hann var bæði of sterkur í sjálfstæðiskennd sinni til þess að gangast nokkru sinni undir nein merki, og of viðkvæmur og dulur um leyndardóma síns innra lífs til þess að opna sig í neinum meira eða minna opinskáum játningum“.

Ég hygg, að þetta væri líka satt um Stein.

Það var andlit mín sjálfs,
en þið sáuð það aldrei,
því ég málaði yfir það,

sagði hann. Enginn var fjær því að vilja sýnast en hann. Og einmitt þess vegna var það, að hann málaði yfir, stundum með hrjúflegu handbragði. Og mig grunar, að hann hafi gert það líka í ljóðum sínum. Þau voru sönn allt um það og líf af hans innsta lífi. Honum fannst hann ekki geta með öðru móti verið sannur gagnvart mönnunum né sjálfum sér trúr.

Maðurinn er eitt, verkið annað, hversu mikið, sem í því felst af sæld og þraut og sál höfundar síns. En í játningu Steins um það, hvernig líf hans var fólgið í ljóðinu, kemur fram meðvitund hans um það pund sem honum var fengið, og sú lotning, sem hann bar fyrir skáldköllun sinni. Í þjónustu hennar gekkst hann undir miskunnarlausa sjálfsögun og laut hörðu, ósveigjanlegu sjálfdæmi. Í list sinni mátti hann engu una, sem var litlu goldið, auðsótt, nærtækt, áreynslulítið. Það eitt var gilt, sem var ferskt í framrás sinni skírt úr deiglunni og þannig tjáð, að það hafði ekki verið áður sagt.

Þannig lifði hann merkingu tilveru sinnar. Og þegar hann að lokum stóð einn við hinar luktu dyr og hvarf um þær úr augsýn, hafði hans visni armur og viðkvæma lund auðgað þjóðina að nokkrum fágætum, djúpsóttum og þrautslípuðum eðalsteinum og í töfrum þeirra lifir Steinn Steinarr með þjóð sinni. Og það er ekkert „aðeins“ — þar lifir hann miklu lífi, óyfirsjáanlega miklu, sakir áhrifa sinna á næstu skáldakynslóð. Hann markaði spor brautryðjandans, tímamótamannsins, spor, sem ekki hverfur í sandinum.


IV


En hann var ekki aðeins til í ljóði sínu. Samtímamenn geyma mynd af óvenjulega lifandi og sérstæðum persónuleika, sem er einn hinn minnisstæðasti, sem uppi var um vora daga. Og á þessari kveðjustundu hér er það ekki fyrst og fremst skáldið Steinn Steinarr, sem vér hugsum til, hann eigum vér áfram allir jafnt, svo í framtíð sem nútíð. Vér hugsum um manninn, sem er horfinn. Skáldið, sem í ljóðinu óf líf anda síns inn í líf þessarar þjóðar, hann var einnig til sem barn móður sinnar, vinur vina sinna. Hann var einnig til sem sá Steinn, sem vér mættum til og frá á förnum vegum og hneyksluðumst á honum og dáðum hann, smáðum hann og elskuðum hann, veikbyggður maður að sjá og hrösull í spori, en flestum hugaðri, flestum geiglausari, alltaf hreinskiptinn, alltaf sjálfum sér samkvæmur, alltaf „ekta“. Hann var einnig til sem ástvinur þeirrar góðu heilladísar, sem gerðist eiginkona hans, gaf honum líf sitt og átti þar allan fjársjóð hjarta síns, sem hann var. Og hann var til sem það karlmenni, sem í langri og þungri sjúkdómsraun lét aldrei á sjá, lét aldrei kjark sinn né fölskvaði heiða blikið í sínum skæru, bláu augum.

Vér kveðjum þennan Stein og söknum hans og vér þökkum það, sem hann var og ekki aðeins það, sem hann vann.

Strengur er brostinn í hörpu ljóðalandsins, en ómur hans deyr ekki út meðan íslenzk eyru heyra. En andinn, sem knúði þann streng, maðurinn minnistæði, hinn sérstæði einstaklingur, hvað um hann nú?

Hann var ekki aðeins til í sínu ljóði og ekki aðeins í hugum þeirra manna, sem minnast hans og trega hann. Maðurinn er meiri en verk hans, andinn meiri en það, sem hann skapar, lífið meira en ljóðið. Vegna hvers? Vegna þess, að það er hugur á bak við hvert hverfult líf, eilíf vitund, eilíf baktrygging að baki hins „einskisverða manns“. Væri það ekki satt, þá væri ekkert til í raun og veru, nema dauðinn, allt annað tálsvipir einir á grafarbarmi, öll hin svonefnda tilvera ein fáránleg feilnóta upp úr dauðu gapi eilífs tóms.

Lífssögu er lokið. En

Það stendur af sér allra veðra gný
í annarlegri þrjózku, veilt og hálft,
með ólán sitt og afglöp forn og ný,
hinn einskisverði maður: Lífið sjálft.

Þetta er satt, en þó aðeins að því tilskildu, að ljóð lífsins eigi höfund, eilífa hugsun að baki sér. Og sú annarlega þrjózka, sem er ekki aðeins blint viðnám við ómótstæðilegri sókn dauðans og fyrirsjáanlegum, endanlegum sigri hans yfir öllu dufti og öllum anda líka, heldur vitandi sókn, sigrandi, guðdómlegt lífsafl, heitir trú, líf, andi og sannleikur Jesú Krists, hið himneska, eilífa „þrátt fyrir allt“. Hún er augað, sem eitt sér gegnum myrkrið og auðnina.

Ég kveð þig, bróðir, við blik þeirrar trúar, fel þig honum, sem hjartað skóp og skilur og engum bregzt. Í Jesú nafni, amen.

Birtist í Lesbók Morgunblaðsins — 20. tbl. 15.06.1958



Sigurbjörn Einarsson

Sr. Sigurbjörn Einarsson (F.30. júní 1911. D. 28. ágúst 2008) var biskup Íslands frá 1959 til 1981. Sigurbjörn lauk stúdentsprófi frá MR árið 1931 og nam almenn trúarbragðavísindi, klassísk fornfræði og sögu við Uppsalaháskóla. Hann lauk þaðan prófi í grísku, fornfræðum og sögu árið 1936 og hlaut cand. fil. gráðu frá heimspekideild Stokkhólmsháskóla árið 1937. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1938. Sigurbjörn stundaði framhaldsnám í nýja-testamentisfræðum við Uppsalaháskóla 1939, í trúfræði við Háskólann í Cambridge sumarið 1945 og framhaldsnám veturinn 1947–48, meðal annars í Basel. Sigurbjörn samdi og þýddi mörg ritverk. Þar má nefna Trúarbrögð mannkyns, Opinberun Jóhannesar – skýringar, ævisögu Alberts Schweitzer og kennslurit um trúarbragðasögu og trúarlífssálfræði. Hann gaf einnig út fjölda bóka með greinum, predikunum og hugvekjum og samdi og þýddi fjölda sálma í Sálmabók kirkjunnar.

Þegar klukkan stanzaði

Minningarorð um Stein Steinarr – Þjóðviljinn og Nýi tíminn, 3. júní 1958


Bærinn hans hét Mikligarður. Hann stóð sunnan í Staðarhólsdal miðjum, fallegum dal og veðursælum – og þó vanalega afspyrna þegar hvessti. Fóstran Kristín var völva heimilisins, trölltrygg fornkona. Annars var þarna bergmál í mannanöfnum: hjónin hétu Steinunn og Steingrímur og sjálfur hét pilturinn Aðalsteinn. Þegar hann síðar á ævi lagði í ljóðvíkingu þótti honum vissara að herða enn hljóminn – og þannig kom Steinn Steinarr til sögunnar.

Hann var nær fermingaraldri þegar ég kom kennari á þennan ágæta bæ og gerðist lærifaðir hans. Hann var níu árum yngri en ég, bjartur mjög yfirlitum, hárið sem glóandi silki. Nokkurs andófs kenndi í svipnum meðan hann var að þreifa fyrir sér um tilverurök þessa ókunna manns – stundum skutust gráglettnir demónar um augu og nef. En strax að kvöldi fyrsta dags vorum við orðnir mátar.

Hann var smár vexti og ekki fallinn til líkamlegra stórræða, en því meiri virtist andlegur þroski hans, því enda þótt hann bæri ekki nema hæfilega virðingu fyrir barnaskólastagli og bókakostur væri annars af skornum skammti var skynjun hans undarlega fersk og forvitin, maður gat strax talað við hann um alla heima og geima, það var eins og hann hefði veraldarregistrið einhvernveginn á tilfinningunni.

Ég var nú svo sem ekki orðinn neitt „verðlaunaskáld“ þá, en þó mun hann hafa grunað að ég setti saman vísur, því ekki leið á löngu þar til hann lét talið berast að ljóðagerð og var hann ætíð ákaflega ljúfur og innilegur þegar slík mál bar á góma. En heldur þótti mér lítið fara fyrir hagmælsku hans; hann var ruglaður í ríminu – skorti brageyrað góða. Ég efaðist því um að hann yrði nokkurntíma skáld. Hinsvegar vissi ég strax að hann myndi verða bæði mikill og skrýtinn spekingur. Upp á þetta urðum við fjarska samrýmdir og hvorugan óraði fyrir því sem síðar skyldi fram koma. Samt sendi hann mér kvæði eftir sig nokkru eftir að ég hvarf þaðan úr sveitinni. Það hét Hinn fordæmdi og var ekki björgulegt: einhver óskiljanlegur bölmóður, snarvitlaust rímaður. Ég bað guð að hjálpa okkur báðum.

Þetta vill hvarfla í hugann nú þegar glókollurinn er allur.


II


Að loknum „lestrartímunum“ í Saurbænum skildu leiðir okkar í heilan áratug eða þangað til að ég flutti til Reykjavíkur. Þá var hann þar fyrir fulltíða maður, blásnauður og búinn að mæðast í mörgu, orðinn blóðrauður bolsi – og skáld. Urðu nú miklir fagnaðarfundir og héldust eftir það stöðug samskipti, oft daglega, alla þá stund sem ég hélzt við í höfuðstaðnum. Er þar skemmst af að segja að báðir gerðust nú kreppuskáld, öreigaskáld, byltingarskáld, um sinn. En þessir tveir dalamenn voru harla ólíkir um flest, enda vildi þróunin ganga nokkuð á misvíxl. Útkoman varð sú að meðan nokkur hljómgrunnur fannst hélt ég áfram að „bjarga alþýðunni“ í gamaldags stíl, en er kreppu tók að linna snéri hann sér æ meir að því að „bjarga ljóðlistinni“ í nýmóðins stíl. Og loks kom þar að kveðskapur læriföðurins gamla var orðinn einskonar samnefnari alls þess vanabundna og tímabundna sem víkja þurfti úr vegi. Eða var þar kannski ekki að finna allt það sem hinn nýi skáldaskóli hans fordæmdi hvað harðast: sjálfvirka rímið, þjóðfélagspredikunina, hugsjónaglamrið, tilfinningasemina, andvaraleysið í hinu heilaga musteri listarinnar? Víst horfðust menn nú í augu yfir járntjald snöggra tímamóta, enda þótt aldrei skærist beinlínis í odda um minn kveðskap sérstaklega á opinberum vettvangi – og gæti ég bezt trúað að ég hefði þar að einhverju leyti notið foringjans.

En á einkafundum okkar dalamannanna var annað uppi á teningnum. Þar var ég fyrr en varði orðinn ásmundur karl á bjargi og lét nú grettir sonur kambinn ganga heldur ómjúklega niður bakið og má vera að kengála hafi stokkið hrygglengjulaus til húss. Nú dugði engin sveitahagmælska lengur, engin verkalýðsbylting, engin verðlaun: skrýtni spekingurinn minn var orðinn tímatákn hins eina sanna skáldskapar. En aldrei bar skugga á vináttu okkar hversu öndverðir sem við klóuðumst; ég kunni vel hreinskilninni, þessu ópersónulega hugrekki leitandans, og vissi að á breiðfirzka vísu var hann verstur þegar hann unni mest.

Það var löngum vandi hans þegar hann var búinn að útlista lengur eða skemur fyrir mér hvílíkt dauðans vandræðaskáld ég væri að snúa sér að konu minni eða börnum af þvílíkri ástúð og ljúfmennsku að þau vissu engan meiri dýrðarmann, hversu sárt sem heimilisfaðirinn átti um að binda. Því þó það sé kannski ekki fyrst og fremst spurt um hjartaþel í skáldskap, þá er stundum spurt um það í daglegu lífi. Síðan kvaddi hann og gekk hljóður að nýju út á öræfi götunnar.

Og þegar hann var sjálfur búinn að eignast yndislega konu og ég gerðist gestur þeirra brá svo við að nú var enginn kambur á lofti, heldur sá sjálfgefni höfðingsskapur sem maður átti að venjast á hinum fátækustu sveitaheimilum í gamla daga. Þá urðum við aftur ungir fyrir vestan. Og sama blessuð veðursældin þar undir fjallinu.


III


Með Steini Steinarr er í valinn hniginn einn sérstæðasti snillingur íslenzkrar ljóðlistar. Hann var í eðli sínu persónugervingur þeirrar tragísku lífsvitundar sem efast um allt og reynir að brjóta niður hverja hömlu í umkomulausum sjálfsþótta. Það var ekki einungis harmleikur hans eigin þjóðar sem speglaðist í veru hans og tungutaki, heldur hinn eilífi harmleikur mannkynsins alls. Hann var útlaginn á jörðinni, einstæðingurinn, umrenningurinn: Grettir og Hamlet og Sjaplín áttu allir heima í geði hans; og Bjartur með alla þrjózkuna. Hann gat að vísu hrifizt af voldugri hugsjón um stund, en óðar en hugsjónin tók á sig veruleikaform var hún orðin að blekkingu. Hann var skilyrðislaus hatursmaður alls valds, stjórnleysingi. Meðan hann orti hlutlægt og „skiljanlega“ beindist öll viðleitni hans að því að afhjúpa og spotta máttarvöldin – sýna keisarann allsnakinn. Afstaða hans til smælingjans mótaðist ekki af félagslegri nauðsyn, heldur lögbundinni samþjáningu.

Sí og æ leitaði hann að kjarna hlutanna, veruleikanum að baki þeirra – eða hvað maður vill nú kalla það. Það var því ekki ófyrirsynju að hann í list sinni reyndi að gera jafnvel efann og blekkinguna að sjálfstæðum höfuðskepnum, óháðum, óhagganlegum, ofar þjáningu. Uppreisn hans gegn hefðbundinni ljóðlist var því síður en svo fólgin í formbreytingu einni, nýju viðhorfi til tungunnar, líkinganna, skyntenglsanna, heldur átti hún sér ákveðið hugmyndalegt markmið: að losa skáldskapinn af klafa hins ytri veruleika.

Og ég var aðeins til í mínu ljóði.

Um stefnur og aðferðir má deila, en um hitt verður ekki deilt að með lífsverki sínu í heild hafi Steinn Steinarr orðið djúptækur endurnýjunarkraftur í íslenzkri ljóðagerð.

En þótt skáldið væri magnað var maðurinn, persónuleikinn, sízt áhrifaminni. Árum saman var hann einskonar Sókrates á strætum og gatnamótum höfuðstaðarins og síðan yfirbóhem gildaskálanna þegar batnaði í ári. Enginn átti fleiri málkunningja en þessi mikli einstæðingur. Alþýðlegt viðmót og óvenju slyng og hárbeitt samtalsgáfa staðfestu svo sem verða mátti vald skáldskapar hans. Á viðsjárverðum tímum kreppu og stríðsgróða þegar öll lífsgildi virtust í upplausn eða deiglu gat þessi huldurödd líkzt opinberun, þar sem hún sveiflaðist milli einlægni og spotts, samúðar og fyrirlitningar, umkomuleysis og miskunnarleysis. Hann var holdi klædd ímynd þess margslungna andófs, sem hrikaleg, óráðin heimsmynd hlaut að vekja í hverju ærlegu brjósti – og svigrúmið var margfalt meira í viðræðunni  en ljóðinu. Það var ekki aldeilis ónýtt að hlusta á þennan annarlega galdrameistara sem í einu vetfangi gat tætt heiminn í sundur og skapað hann aftur í sinni mynd.

Ég get hugsað að ýmsum kunni að virðast öræfi götunnar nokkuð grá og hljóð nú þegar röddin er þögnuð.


IV


Já, fyrir kom að í þessum óbilgjarna uppreisnarsegg sæi gamli lærifaðirinn sitt enfant terrible. En hver kennari veit að það getur líka komið fyrir að honum þyki vænzt um óstýrilátasta barnið. Og þegar öllu er á botninn hvolft hygg ég að fáir hafi staðið mér nær en hann. Það sem hér hefur verið drepið á er sízt til þess ætlað að gera upp á milli manna og kenninga á kveðjustund – hinsvegar gat ég ekki minnzt þessa fornvinar míns án þess að geta að nokkru þess sannasta sem okkur fór á milli.

Þegar ég hitti hann síðast – eftir að sýnt var að hverju fór – sá ég og heyrði að honum var í engu brugðið: hann hélt til móts við gátu dauðans með sama æðruleysinu og hann hafði glímt við gátu lífsins. Þegar ég frétti svo lát hans þótti mér sem dálítið kenjótt dýrindisklukka stanzaði. Og mér fannst einna ankannalegast að mín klukka skyldi ekki verða fyrri til að stanza.

 Jóhannes úr Kötlum



Jóhannes úr Kötlum

Jóhannes úr Kötlum (Jóhannes Bjarni Jónasson) (F. 4. nóvember 1899. D. 27. apríl 1972) var rithöfundur og ljóðskáld, þýðandi, farkennari og alþingismaður. Hann var eitt helsta skáld sinnar samtíðar og mjög afkastamikill höfundur. Eftir hann liggja 20 ljóðabækur og 5 skáldsögur. Hann þýddi fjölda bóka, ritaði greinar í blöð og tímarit og flutti erindi um stjórnmál og menningarmál. Fyrsta ljóðabók hans kom út 1926 og nefndist Bí, bí og blaka og sú síðasta, Ný og nið, kom út 1970.

Steinn Steinarr

Minningarorð eftir Halldór Kiljan Laxness. 5. júní 1958 — Nýi Tíminn


Í gestaboðinu sem stóð í Unuhúsi meðan Erlendur Guðmundsson lifði var æfinlega siður að bera á borð einum fleiri bolla en gestir voru kríngum borðið, — það er bollinn handa ókomna gestinum, sagði Erlendur; en við hin kölluðum þetta bolla guðs. Úr þessum bolla drakk Steinn Steinarr oftar en flestir menn.

Uppúr 1930 fóru að verða fleiri þau kvöldin, að ókunnur gestur kæmi innum eldhúsið og tæki sér sæti við borðið; því hélt áfram uns maður þessi var orðinn þar sjálfsagðastur heimagángur. Þessi gestur var í fátækara lagi að útgángi samanborið við aðra gesti, og var þó fátt ríkra manna þar á ferð. Hann var einn þeirra ágætu manna sem ekki hafði neinn status í lífinu, utan hvað hann hét þessu merkilega nafni sem minnti á grjót og enn grjót.

Hvaðan hann kom eða hvert hann ætlaði vissu menn ekki gjörla, enda ekki siður að spyrja slíks í þeim stað; störf hafði hann ekki með höndum svo menn vissu og ég hygg að hann hafi ekki heldur átt neinsstaðar heima. Þetta var lágur maður og visinn á honum annar handleggurinn, en eygður flestum mönnum betur og gáfulegur á uppandlitið, allra manna hárprúðastur. Þegar hann rétti út höndina sást að hún var í laginu eins og hrafnsvængur á flugi: ystu broddar á vængfjöðrum fljúgandi hrafns eru einsog beygðir uppávið.

Þessi maður var yst fata klæddur gömlum þykkum frakka sem hann fór ekki úr undir borðum, og var kraginn uppbrettur en stærðar trefill um hálsinn. Þessi gestur þótti einatt kaldranalegur í svörum um menn og málefni. Ekki held ég að hann hafi verið alskostar við skap þeirra manna flestra er þar voru gestir. En svo sagði Steinn mér síðar, að á öllum sínum gaddhestaárum, meðan hann var daglegur kvöldgestur í Unuhúsi, hefði það aldrei komið fyrir í nokkurt skifti, að Erlendur hefði tekið sér öðruvísi en siður er að heilsa sönnum stórhöfðíngja sem fáir eiga þess kost að heilsa nema einu sinni á ævinni; hefði hann jafnan boðið sig velkominn, beint til sín máli og loks fylgt sér útá hlaðhelluna og þakkað sér fyrir komuna innvirðulega, þegar hann gekk út síðastur gesta uppúr miðnætti. Nokkrir munu enn vera til, sem kunnugir voru í þessu húsi, og geta borið um að Erlendur leit aldrei á Stein öðruvísi en einhvern mesta ágætismann sem þá væri uppi á Íslandi, einkum þó á þeim árum er Steinn átti formælendur fá og margir þóttust þess umkomnir að hnýta í hann.

Það heyrði ég Stein segja að Erlendur hefði verið sér meiri ráðgáta og tíðara umhugsunarefni en flestir menn sem hann hefði kynst fyrr og síðar. Ekki kom það flatt upp á Erlend þegar það varð bert af fyrstu ljóðabók hins ókunna dularfulla gests, árið 1933, að þar var kominn á vettváng ljóðasmiður svo slýngur að telja mátti á fingrum annarrar handar þá skáldmærínga á landinu, sem stóðu honum jafnfætis.

Ég held Steinn Steinarr hafi verið einna skarpastur maður að greind sem ég hef kynst og fljótastur að skilja þá hluti sem hann vildi. Þegar hann kom að vestan kunni hann að yrkja eins vel og þá var yfirleitt ort á Íslandi. En næmi hans gerði hann á skemmri tíma aðnjótanda þeirra hugmynda sem þá voru nýastar og fáheyrðastar en flesta menn, svo að lángskólageingnir menn virtust oft heimskir sem þussar í viðræðu við hann; það var ótrúlegt hvað þessi maður gat fundið á sér.

Kröfuharðar gáfur hans leituðu persónulegrar lausnar á ráðgátum tímans og báru hann burt af troðnum brautum. Fornar niðurstöður, hefð og geymd í efni og formi, urðu honum æ minni fullnægja. Hann barst með náttúrlegum hætti, samkvæmt gáfum sínum, á brattar leiðir sem almenníngi þóttu ekki auðkleifar né fýsilegar. En þær útsýnir sem hann lauk mönnum upp í skáldskap sínum urðu mörgum gáfuðum fullhugum að fordæmi og uppörvun og fyrirheiti stórra hluta.

Heimur Steins Steinars er býr í ljóði hans mun verða síðari mönnum umhugsunarefni. Heimspeki hans er sérstök og á rætur sínar í lyndiseinkunn hans og örlögum, þó eru sumir drættir hennar nær tímanum sem við lifum á en flest sem hugsað hefur verið á íslensku þessi árin. Það var vel til fundið af prestinum sem mælti yfir moldum Steins í gær í Fossvogi, er hann kaus sér texta úr Jobsbók til að auka mönnum skilníng á þessu skáldi. Einnig hefði mátt benda á Hallgrím Pétursson og þau önnur skáld íslensk sem af hvað mestri snild útmáluðu fallvaltleik heimsins og kunnað hafa að yrkja andlátssálma rétt.

Í kulda og myrkri ég kvað og ég baðst ekki vægðar,
og kvæðið var gjöf mín til lífsins, sem vera ber.
Ég veit hún er lítil, og þó var hún aldrei til þægðar
þeim sem með völdin fóru á landi hér.

Karlmennskuhug, þrjósku, ósáttfýsi við heiminn, óbilgirni eins og presturinn sagði í gær, þessa eiginleika átti Steinn í ríkara mæli en flestir menn, auk snildarinnar. Af hans dæmi munu úng skáld læra að standa sig í lífinu; og sömuleiðis að deya.
Hann hafði það af að verða á móti öllum heimsveldunum og dó glaður.

H. K. L.



Halldór Kiljan Laxness

Halldór Kiljan Laxness (F. 23. apríl 1902. D. 8. febrúar 1998) var íslenskur rithöfundur og skáld, jafnan talinn einn helsti íslenski rithöfundurinn á 20. öld. Hann byrjaði snemma að lesa bækur og skrifa sögur, og þegar hann var 13 ára gamall fékk hann sína fyrstu grein birta í Morgunblaðinu undir nafninu H.G., og ekki löngu síðar, þá 14 ára gamall, birti hann grein í sama blaði undir sínu eigin nafni H. Guðjónsson frá Laxnesi. Á ferli sínum skrifaði Halldór skáldsögur, smásögur, margar blaðagreinar, samdi ljóð, leikrit, þýddi bækur yfir á íslensku og fleira. Halldór hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1955.