Hann kvaðst á við fjandann

Hugleiðingar kringum Stein Steinarr — eftir Guðmund Andra Thorsson. Andvari 133. árg. 2008


Steinn Steinarr gat trútt um talað þegar hann kvartaði um að lífsháskann vantaði í ljóð ungu skáldanna í viðtali við Birtingsmenn árið 1955: Hann kvaðst á við fjandann.((Steinn Steinarr: Kvæðasafn og greinar, Helgafell 1964, bls 329. Í viðtalinu segir hann meðal annars: „Í fljótu bragði virðist mér vanta lífsháskann í þessa bók, ef ég mætti orða það svo. Menn verða ekki mikil skáld, nema því aðeins, að þeir komist í mikinn lífsháska, séu leiddir út undir högg eins og Þórir jökull eða flæði á skeri suður í Kópavogi eins og Jón gamli í Digranesi.“))

Ferð án fyrirheits kom fyrst út árið 1942 og síðar sendi hann frá sér aukna og endurbætta útgáfu sem hafði í raun að geyma úrval ljóða hans. Þótt Steinn lifði til ársins 1958 varð þetta síðasta eiginlega ljóðabók hans — síðasta bókin þar sem safnað er saman ljóðum af ýmsu tagi og þau látin kallast á með óbeinum hætti, laustengd. Ljóðabálkurinn Tíminn og vatnið kom á bók 1948 og hafði að einkunnarorðum að ljóð skyldu ekki merkja neitt heldur vera — ljóðin eru samkvæmt því sjálfstæður veruleiki sem okkur býðst að ganga inn í og njóta en sé ætlunin að leita merkingar er verið að fara í ljóðhús að leita predikunar. Sérhver tilraun til túlkunar er samkvæmt þessum hugsunarhætti þýðing á nýtt tungumál, og þar með fölsun. Hvernig svo sem túlkunarmöguleikum kann að vera háttað á þeim orða- og rímballett sem Tíminn og vatnið er má ef til vill segja að þar hafi skáldið horfið inn í ljóð sitt þegar það var loks fullskapað og fagurt.((Um Tímann og vatnið sjá Kristín Þórarinsdóttir: „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt“: líf og listsköpun Steins Steinarr á tilurðarárum Tímans og vatnsins. Skírnir 2008 vor. bls 41–81.))

En áður hafði hann sem sé kveðist á við fjandann. Í niðurlagi bókarinnar Ferðar án fyrirheits víkur hann að því hlutskipti sínu þegar hann stígur fram í lokin í ljóðinu Undirskrift og ávarpar lesendur sína líkt og leikari eftir sýningu í epísku leikhúsi sem afklæðist gervinu og gerir grein fyrir sjálfum sér og jafnvel því hvaða ályktanir má draga af því sem á undan er gengið. Ljóðið hefst á sposkri hlédrægni. Steini var í ljóðum sínum tíðrætt um það hversu lítils álits skáldskapur hans nyti meðal þjóðarinnar — og á honum að skilja að það væri að verðleikum — en hér minnir hann eiginlega fremur á stoltar húsmæður fyrri tíma sem sögðu gjarnan „fyrirgefiði hvað þetta ómerkilegt“ um krásirnar sem bornar voru á borð; segist ekkert frekar hafa að segja lesendum þessarar bókar „ef einhverjir eru“; hér sé hann sjálfur og þetta sé „allur minn auður“ / hið eina sem ég hef að bjóða lifandi og dauður“.

Því næst víkur hann að sérstöðu sinni í samfélaginu og segist vita að hann sé ekki talinn „í ykkar hópi“ heldur „skringilegt sambland af fanti og glópi“. En svo koma málsbæturnar: hann segist „langt að kominn úr heimkynnum niðdimmrar nætur, / og niður í myrkursins djúp liggja enn mínar rætur“.

Í „heimkynnum niðdimmrar nætur“ hófst sem sé þessi ferð án fyrirheits sem þarna er afstaðin. Í næsta ljóði á undan þessu, Tveimur skuggum, yrkir Steinn eins og stundum áður um samskipti sín við heiminn og undarlegan samruna: Og eins og stundum áður koma í lokin drungaleg og torskilin skilaboð frá fjarlægri rödd sem spáir því að hann eigi að vísu í vændum að „hverfa í heimsins skugga“ en hins vegar muni líka heimurinn „hverfa í skugga þinn“((Kvæðasafn og greinar, bls 161.)). Í ljóðinu þar á undan — / Í draumi sérhvers manns — er svipuð hugsun, nema þar á sér stað samruni draums og manns.

Sömu gagnvirku ummyndanir eru hvarvetna í bókinni — í ljóðinu Hamingjan og ég, nema þar fær hamingjan loks vestfirskan framburð þegar skáldinu hefur tekist að tileinka sér þann sunnlenska; í ljóðinu / kirkjugarði þar sem óvissa ríkir um það hvor dó, syrgjandinn eða líkið; í ljóðinu Heimurinn og ég þar sem „ólán mitt er brot af heimsins harmi,/ og heimsins ólán býr í þjáning minni“; og í ljóðinu Þjóðin og ég þar sem líf hans er aðeins „táknmynd af þessari þjóð, / og þjóðin sem heild er tengd við mitt ókunna ljóð“.

Hér er hann staddur: í þann mund að gerast hluti af heiminum/þjóðinni/ hamingjunni/draumnum og þessi fyrirbæri þar með hluti af honum. Þessar stöðugu ummyndanir eru með öðrum orðum sú ferð sem hófst í „heimkynnum niðdimmrar nætur“.

Það orðalag leiðir hugann að ævisögu Steins eftir Gylfa Gröndal, en hafi maður lesið hana er freistandi að tengja þetta myrka upphaf ömurlegum bernskukjörum.((Sex ára gömlum var Aðalsteini Kristmundssyni komið fyrir hjá Kristínu Tómasdóttur sem varð fóstra hans og hann hafði í miklum metum alla tíð. Þá hafði barnið upplifað hreppaflutning, fátækt og aðskilnað frá móður sem ekki virðist hafa haft aðstæður til að hugsa sómasamlega um barnið og föður sem ekki taldi sig eiga það. Sjá Gylfi Gröndal: Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, JPV Forlag, 2000, bls 53 og bls 105–6 þar sem fjallað er um samband Steins við Etilríði móður sína og meðal annars haft eftir honum sem barni: „Mér er sagt að þetta sé móðir mín. Ég þekki hana ekkert.“)) Í þriðja erindi Undirskriftar heldur hann áfram að gera grein fyrir sjálfum sér vafningalaust og af einlægni. Upphafsins í myrkrinu segist hann bera „að sjálfsögðu ævilangt óbrigðult merki“ og minnir á að örlög hvers manns móti verk hans. Í lokin koma svo frægar línur:

Það var lítið um dýrðir og næsta naumt fyrir andann.
Mitt nafn er Steinn Steinarr, skáld. Ég kvaðst á við fjandann.

(Kvæðasafn og greinar, bls 162.)

Fyrri línan hefur að geyma dæmi um stílbragð sem Steinn hafði miklar mætur á og má kannski segja að sé nokkurs konar „falskur hortittur“. Vísuorðinu virðist hnoðað framan við hina öflugu lokalínu og frasinn „Það var lítið um dýrðir“ er svo lítilfjörlegur í þessu samhengi að það er naumast einleikið. Skáldið notar þannig útjaskaðan talsmálsfrasa í óvæntu samhengi kringum mjög dramatískar línur svo að útkoman verður klassískur og útsmoginn úrdráttur kringum útmálun þjáningarinnar, svolítið eins og dauft bros út í annað sem færir okkur nær skáldinu. Ljóðið verður fyrir vikið meira í líkingu við samtal skálds og lesanda. Þessu stílbragði — að láta flatneskju og orðsnilld leikast á — beitti Steinn iðulega af mikilli snilld í lausamálsskrifum sínum. Undirskrift er til marks um að hið hefbundna ljóðform var þá eftir allt saman ekki „loksins dautt“. Það er reglufast í hrynjandi, rími og ljóðstafasetningu, og gæti ekki verið eftir neitt annað skáld. Þarna er Steinn Steinarr lifandi kominn: formfast og hátíðlegt tungutak með kaldranalegu glotti, beinskeytt afhjúpun á nöturlegu hlutskipti í lífinu sem skáldið horfist staðfastlega í augu við og greinir frá undanbragðalaust.


II


Meðal þess sem gefur Ferð án fyrirheits jafnsterkan heildarsvip og raun ber vitni er að bókin er römmuð inn með tveimur ljóðum sem kallast á og bera hvort um sig skáldi sínu vitni. Aftast er Undirskrift en fremst er hins vegar Tileinkun. Það er einkennilegt ljóð, í senn torskilið og óhugnanlegt og þar virðist skáldið takast á við svo djúpa persónulega reynslu að hún verður ekki túlkuð með röklegum hætti. Ljóðið hefur hins vegar yfirbragð hinnar rökrænu reglufestu og fastmótuðu heildar. En þegar rýnt er í það skreppur merking þess sífellt undan manni og á mann sækir tilfinning um óreiðu og sundrað sjálf:

Til þín, sem býrð á bak við hugsun mína,
blóðlaus og föl, og speglar ásýnd þína
í mínum kalda og annarlega óði.

Frá mér, sem horfði úr húmi langrar nætur
á heimsins blökku dýrð, og reis á fætur
með jódyn allra jarða mér í blóði.

Og ég var aðeins til í mínu ljóði.

Í lokaljóðinu — Undirskrift — sagðist hann kominn úr heimkynnum niðdimmrar nætur og eiga þar sínar rætur. Hér eru þær. Hér ríkir kuldi og annarleiki, hér er myrkur og nótt, og hér sleppur skáldið undan öllu saman með fjarstæðukenndri útmálun á hverfulli tilvist í eigin einkaheimi, eins og öll vanrækt börn.

Til þín — frá mér: Og ég var aðeins til í mínu ljóði. Þetta er sem sagt ekki frá mér heldur mér. Hér er í vissum skilningi ort kringum hina frægu staðhæfingu Arthurs Rimbauds „Je est une autre“ sem er meðal helstu útgangspunkta nútímaljóðlistar. Þessi tileinkun er að minnsta kosti ekki frá Aðalsteini Kristmundssyni heldur frá þeim Steini Steinarr sem ritar undir allt saman í lok bókarinnar — frá þeim sem hefur búið sjálfan sig til og risið á fætur með „jódyn allra jarða“ í blóði sér. Er þetta ástarljóð? Ávarpar skáldið hér músu sína? Er þetta hin tilbúna Beatrís Steins Steinarr sem hér birtist okkur? Það er hæpið. Hún er meira eins og draugur. Hér er lífvana kvenpersóna ávörpuð sem speglar sig blóðlaus og föl í köldum og annarlegum óði skáldsins; hún virðist í senn stödd í ljóði hans og fyrir utan það, hún grúfir einhvern veginn yfir því, virðist ríkja yfir því og vera inni í því, vegna þess að hún býr „á bak við hugsun mína“. Fyrsta erindið einkennist af lífleysi, annarleika og kulda en næsta erindi er á hinn bóginn þrungið einhvers konar lífi — kannski ekki góðu lífi en þar er — að minnsta kosti að finna blakka dýrð heimsins sem myndar andstæðu við fölan litinn í fyrsta erindi. í fyrsta erindi er lamandi nálægð — það hreyfist „til þín“ en í öðru erindi er athöfn sem beinist „frá mér“. Og lokalínan má kannski segja að sé „til mín“. Ljóðið er allt umlukið slíku rökkri að erfitt er að sjá til í því en það virðist samt sem áður fjalla um nokkurs konar endurlausn undan „henni“ sem speglar sig í hugsun og köldum og annarlegum óði skáldsins; endurfæðingu frá blóðleysi til blóðs, til blakkrar dýrðar heimsins frá fölum kulda, til jódyns frá húmi langrar nætur — til jarðarinnar og til ljóðsins.

Og loks þegar skáldið hefur endurskapað sig í ljóði sínu — þar sem það er aðeins til — þá getur hann snúið huga sínum á ný til upphafsins — „til þín“ — þaðan sem ferðinni var heitið. Og er þetta þá ástarljóð? Í raun og veru ekki: nærtækara er að líta svo á að hér yrki skáldið til hinnar fjarverandi móður; skortinn á móðurástinni í frumbernsku sem skáldið „ber […] að sjálfsögðu óbrigðult merki“ eins og segir í Undirskrift.


III


Gunnar Eyjólfsson leikari hefur sagt frá því þegar hann og aðrir skátar úr Keflavík gengu árið 1938 til Herdísarvíkur frá Krýsuvík í þeirri von að koma auga á mesta skáld Íslands Einar Benediktsson en áður en haldið var af stað las skátaforinginn Helgi S. Jónsson kvæðið Útsæ fyrir drengina.((Sjá Gylfi Gröndal: Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, JPV útgáfa, 2000, bls 173–174.)) Þegar þangað var komið sat skáldið úti undir húsvegg og lotningarfullur hópur drengjanna safnaðist að honum. Skáldið spyr hverjir séu á ferð og fær þau svör að hér séu komnir skátar út Keflavík.

Þá spyr Einar: „Er Steinn Steinarr í hópnum?“
Og varð fyrir miklum vonbrigðum þegar hann komst að raun um að svo væri ekki. Seinna komst Gunnar að því að Einar Benediktsson var alltaf að bíða eftir Steini Steinarr. Hann leit á hann sem arftaka sinn.

Raunar hafði Steinn farið á fund Einars Benediktssonar með Magnúsi Á. Árnasyni málara nokkrum árum fyrr en sú heimsókn mun hafa endað með ósköpum eftir að þeim Steini og Einari virðist hafa lent saman þegar Magnús fór út að mála — og var hann beðinn að koma „aldrei með það helvítis kvikindi aftur“.((Magnús Á. Árnason: Gamanþættir af vinum mínum, Reykjavík 1967, bls 125–126.))

Þegar hér var komið sögu var Einari vissulega tekið að förlast. Og sú hugmynd að Steinn hafi í einhverjum skilningi verið arftaki Einars Benediktssonar virðist fáránleg. Einar orti voldug kvæði út frá sögulegum viðburðum og völdum stöðum í náttúrunni, þrungin speki um hinstu rök; þar var vit og niðurskipan hlutanna og Guð. Og þar var vissa um eigið erindi.

Ekkert af þessu var nokkru sinni í ljóðum Steins: hann gerði yfirleitt lítið úr sjálfum sér í ljóðum sínum — sem er vissulega ein tegund mikillætis — beitti viljandi stílbragði „hins falska hortitts“ til að draga úr fjálgi, og væru ljóð kennd við merka staði eins og Þingvelli eða gamlar sagnir eins og um víg Snorra var slíkt yfirleitt í hálfkæringi gert. Mörg kvæði Steins miðluðu beinlínis hálfgerðri andspeki — því var slengt framan í lesandann í hverju ljóðinu á fætur öðru að lífið væri tilgangslaust, hláleg markleysa, tóm þjáning, eilíft líf væri ekki til, þaðan af síður Guð.

Einar Ben. reyndi að sýna mátt sinn í ljóðum sínum, hvernig sem á stóð, lét oftast nær eins og hann væri ósigrandi — eða að minnsta kosti stór í ósigri. Steinn Steinarr játaði sig sigraðan, tók sér stöðu í ósigrinum miðjum og lét hann umvefja sig — og ummyndast þar með um leið í einhvers konar sigur.

Helsti munurinn á þeim Steini og Einari Ben. felst sennilega í sjálfum stellingum þeirra, afstöðunni gagnvart lesandanum. Einar Ben. messar yfir lesendum sínum sem er ætlað að ígrunda spekina og tileinka sér hana; Steinn talar hins vegar við okkur í ljóðum sínum, næstum eins og góður kunningi að deila með okkur hugrenningum sínum í góðu tómi. Sennilega höfum við átt fá skáld sem tileinkuðu sér betur samtalstæknina í ljóðagerð sinni en einmitt Steinn Steinarr; Kristján Karlsson kallaði Stein „skáld fyrstu persónu eintölu“ í formála sínum að Kvæðasafni og greinum((Kristján Karlsson: Inngangur, Kvæðasafn og greinar, Helgafell 1964, bls XI.)) en ætli megi ekki allt eins segja að hann hafi verið skáld annarrar persónu eintölu. Orðið „þú“ er algengasta orðið í ljóðheimi hans, þótt vissulega sé hann misjafnlega hlýlegur við okkur…

Einar Benediktsson var þjóðskáld. Hann var í raun og veru síðasta 19. aldar skáldið og með þrálátri nálægð hans í íslensku þjóðlífi virtist sú öld engan enda ætla að taka. Það má raunar segja að í hvert sinn sem draumar hans skjóta upp kollinum fyllist íslenskt þjóðlíf af bjartsýnni og bernskri auðhyggju þeirrar aldar. Þjóðskáld eins og hann var almennt talið hafa vald á launhelgum orðsins og þar með aðgang að goðkynjuðum sannindum sem öðru fólki væru hulin, og fær um að miðla þeim vísdómi í fagurmótuðum og reglulegum setningum sem fengu galdur sinn ekki síst af sjálfri bragdýrðinni. Þjóðskáldið er samkvæmt þessum átrúnaði nokkurs konar sjaman sem hefur aðgang að huldum heimum og blessar yfir athafnir samþegna sinna rneð máttugum orðum sínum: mælir fram hendingar sínar við vígslu mannvirkja og á tímamótum í þjóðarsögunni, blessar allt með merkingu. Davíð Stefánsson og Tómas Guðmundsson freistuðust báðir til að máta sig við slíkar stellingar: Davíð þrumaði drápu yfir sofandi Noregskonungi. Tómas orti ljóð til blessunar Sogsvirkjun sem hann var þó algerlega andvígur í hjarta sér — svo mjög að seinasta alvöru ljóðabók hans Fljótið helga frá 1950 má heita samfelldur dýrðaróður til hins óbeislaða Sogs.

Steinn Steinarr hafði forakt á þess háttar skáldaskyldum og setti sig ekki úr færi að yrkja sem háðuglegastar skopstælingar á hátíðakveðskap — og reyndar líka ljóðagerð Einars Ben.

Ljóðið Afturhvarf í Ferð án fyrirheits er hins vegar tilraun til að yrkja einlægt ættjarðarljóð. Svona hefst það:

Ó, græna jörð, ó mjúka, raka mold,
sem myrkur langrar nætur huldi sýn.
Ég er þitt barn, sem villtist langt úr leið,
og loksins kem ég aftur heim til þín.

(Kvæðasafn og greinar, bls 145)

Aftur þessi langa nótt og aftur andstæður lífsmagnsins í jörðinni, moldinni, og hrjósturs „naktra kletta og auðnir sands“ eins og segir síðar í ljóðinu. Það endar svo á því að skáldið hálfpartinn hrópar upp yfir sig: „Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!“ segist nú kominn heim, drúpir höfði og biðst fyrirgefningar.

Sé þetta kvæði tilraun til að yrkja sig í sátt við átthagana, land og þjóð, er engu líkara en að Steinn reyni í kvæðinu Landsýn 26. 5. 1954 að yrkja sig í ósátt við land og þjóð. Það er einkennilega tvíátta ljóð. Þar kallar hann ísland draum sinn, þjáningu og þrá og „vængjaða auðn“. Síðan gerir hann þá játningu að hér sé staður hans, líf hans og lán og hreinlega krýpur fyrir „þér, mín ætt og mín þjóð“ — rétt eins og hann gerði í Afturhvarfi. En rétt í þann mund sem við lesendur búumst til að breiða út faðminn og sættast við skáldið eftir allt sem á undan er gengið hrópar hann upp svo við hljótum að frjósa í sporunum því í tvær síðustu línurnar leggur hann allan sinn orðagaldur til að lýsa yfir andstyggð sinni og ógeði.

Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,
mín skömm og mín tár og mitt blóð.

(Kvæðasafn og greinar, bls 213)

Þannig endar kvæðið eins og það hófst: á þremur nafnorðum með eignarfornafni á undan. Draumur, þjáning og þrá endar með orðunum skömm, tár og blóð — með viðkomu í orðunum staður, líf og lán. Við getum ímyndað okkur mann sem kemur með skipi og sér landið fagra — hina vakandi og vængjuðu auðn og víðernin blá. Hann fagnar og hugsar: minn… minn… minn… Og býst til þess að játa um síðir að hér sé þrátt fyrir allt sá staður sem lán hans sé bundið við en á síðustu stundu þyrmir allt í einu yfir hann — kannski þegar í land er komið og hann kynnist menningu landsmanna á ný. Ljóðið fjallar um svik. Og svikin felast í óheilindum og prjáli: Heimskan er skrínlögð og smánin er skrautklædd, því er hampað sem lítilsvert er og léttvægt og breitt er yfír glæpi. En sjálft er skáldið á einkennilegan hátt eins og hið samseka fórnarlamb. Hans blóð, hans tár og hans skömm.

Hann kemst að minnsta kosti ekki burt og því fylgja andstæðar kenndir sem stríða um völd í huga hans. Þarna rýfur Steinn eitt af helstu tabúum íslenskra bókmennta — rétt eins og Matthías Jochumsson hafði gert á undan honum í kvæðinu Volaða land — hann yrkir um andstyggð sína á landi og þjóð.

Í Afturhvarfi yrkir sá sem fór burt — villtist til borgarinnar — fullur sektarkenndar yfir því að hafa ekki yrkt jörðina. Hann sá ekki að jörðin er græn þegar hann dvaldi þar vegna þess að „myrkur langrar nætur huldi sýn”. Steinn Steinarr sem bóndi er samt sem áður svo fráleit hugmynd að erfitt er að taka ljóðið fyllilega alvarlega nema þegar það er túlkað almennt og litið svo á að hér sé ort fyrir munn þeirra þúsunda Íslendinga sem stóðu í sömu sporum: höfðu yfirgefið jörðina og upplifðu borgina sem „hrjóstur naktra kletta”.

Kannski komst Steinn næst því að yrkja hefðbundin ættjarðarljóð að þjóðskáldasið í ljóðinu Landsýn — nær landi komst hann ekki — og við heyrum það sjálfsagt seint í meðförum fjallkonunnar 17. júní. Hann var með öðrum orðum ekki þjóðskáld, að minnsta kosti ekki í sama skilningi og skáld 19. aldarinnar. Samt var hann ástsælasta skáld 20. aldarinnar, kannski síðasta skáldið sem náði til alls almennings — þjóðarinnar — með ljóðum sínum. í rauninni var hann síðasta alþýðuskáldið sem ekki var kallað því einkennilega niðrunarheiti: hagyrðingur.


IV


„Mitt nafn er Steinn Steinarr skáld“ segir hann og vottar fyrir stolti, rétt eins og í þeirri staðhæfingu að hann hafi aðeins verið til í sínu ljóði. Þegar Magnús Stefánsson — það íslenskt skáld sem kannski var einna skyldast Steini Steinarr — tók sér skáldanafn ákvað hann að kenna sig við örninn á tvöfaldan hátt: örn og sonur arnarins. Hann var þannig sá sem flaug hæst í forsal vinda, hafði mest vænghafið og ríkti yfir öðrum fuglum. Þegar Aðalsteinn Kristmundsson tók sér skáldanafn valdi hann sér á hinn bóginn nafnið Steinn Steinarr. Hann kennir sig við það sem liggur á jörðinni, og er hluti af jörðinni, það sem flýgur ekki (nema því sé grýtt), blómstrar ekki, syngur ekki — liggur bara. Nafnið vísar á svo hversdagsleg fyrirbæri — ekki síst hér á landi — svo litlaust, ómerkilegt og fábrotið að útkoman verður svolítið eins og af „falska hortittinum“: frumleg og gott ef ekki beinlínis litrík. Steinninn er líka harður í gegn, allur eins og allur hann sjálfur. Dropinn kann að hola steininn — um síðir — en steinninn hins vegar harðari en fyrirbærin sem hann kemst hugsanlega í snertingu við. Kannski var hann að víkja að þessari nafngift með glott undir tönn í skopkvæðinu Mannkynssaga handa byrjendum sem hefst á línunum:

Undan ferðamannsins fæti
valt steinn úr stað
og steininn hélt áfram að velta,
veiztu það?

(Kvæðasafn og greinar, bls 201)

Tildrög þess að Aðalsteinn Kristmundsson tók sér þetta sérkennilega nafn eru hvergi rædd í ævisögu Steins eftir Gylfa Gröndal né heldur bók Sigfúsar Daðasonar um Stein, Maðurinn og skáldið. Hins vegar kemur það fram hjá Gylfa að Steinn hafi byrjað að yrkja fyrir alvöru þegar hann bjó í Grindavík árið 1930 og barðist þar við að hafa í sig og á af veikum mætti. Það kemur líka fram hjá Gylfa að árið 1932 hafi í fyrsta sinn birst ljóð á prenti undir nafninu Steinn Steinarr. Að sögn Tómasar Þorvaldssonar heimildamanns Gylfa var faðir Steins Kristmundur Guðmundsson samtíða Steini í Grindavík á þessum árum og segir Tómas að ekki hafi verið kært með þeim feðgum.((Sjá Gylfi Gröndal: Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, bls 157.)) Það má leiða að því getum að endurnýjuð kynnin af föðurnum fjarverandi hafi hvatt unga manninn til að hætta að kenna sig við hann en kenna sig heldur við sjálfan sig, eða öllu heldur þann eiginleika sinn sem hann taldi sig þurfa helst á að halda við eigin endursköpun: hann hafi viljað hleypa í sig hörku.

Og ekki veitti af: Hann átti í vændum að kveðast á við fjandann.


V


Steinn Steinarr hefur löngum verið nokkurs konar persónugervingur ljóðbyltingarinnar sem hér varð um miðbik 20. aldarinnar, þegar rím og stuðlar og hefðbundin hrynjandi véku og aðrar ljóðrænar eigindir voru settar í öndvegi.((Í bók sinni Atómskáldin tilgreindi Eysteinn Þorvaldsson þrjú mikilvæg einkenni nútímaljóða: Óbundið form, samþjöppun í máli og loks „frjálsleg og óheft tengsl myndmáls“. Sjá Atómskáldin, Hið íslenska bókmenntafélag 1980, bls 196.)) Það kann að vera umdeilanlegt, þó ekki væri nema fyrir þá sök að ljóðaflokkurinn Tíminn og vatnið — helsta móderna verk hans — er að mestu rímaðar og stuðlaðar tersínur hlaðnar samlíkingum af því tagi sem Einar Bragi úthýsti úr nútímaskáldskap í frægum ritdómi um Sjödægru.((Birtíngur 4/1955, bls 38.)) Á hinn bóginn var það Steinn sem gaf út sjálft dánarvottorð hins hefðbundna ljóðforms í viðtali við Steingrím Sigurðsson í Lífi og list.((Kvæðasafn og greinar, bls 322–326.)) Og um hann sagði Sveinn Skorri Höskuldssson prófessor í íslenskum nútímabókmenntum í bók sinni um þessa Ijóðbyltingu að stærð Steins sé þvílík í íslenskum bókmenntum síðustu áratuga, „að segja megi að hann hafi í raun og veru bæði hafið og lokið því fyrirbæri, sem oft er kallað formbylting ljóðsins á Íslandi.“((Sveinn Skorri Höskuldsson: Að yrkja á atómöld, Reykjavík 1970, bls 25.)) Og einn af hinum róttækari byltingarmönnum og aðdáendum Steins, Hannes Sigfússon skáld sagði í viðtali við Silju Aðalsteinsdóttur í Tímariti Máls og menningar árið 1989: „Það er mín kenning um Stein Steinarr að hann væri, burtséð frá Einari Benediktssyni, fyrsti Íslendingurinn sem orti með allan heiminn í vitundinni.“((Hér vitnað eftir Íslenskri bókmenntasögu V, Reykjavík 2006, bls 40.))

Kannski má það einu gilda hver var formbyltingarmaður og hver ljóðbyltingarmaður og hver hvorugt þetta — svona eftir á að hyggja — og sennilega hefur fullmikið verið einblínt á formræna þætti í umræðu á Íslandi um það mikla rof sem hér varð í ljóðagerð um miðja 20. öldina þegar skyndilega var varpað fyrir róða mörghundruð ára gömlum aðferðum.

Við megum samt ekki gera of lítið úr forminu: íslensk skáld hafa frá elstu tíð verið formdýrkendur og litið svo á að staka eða ljóð skuli vera fögur smíði í sjálfu sér. Andri Snær Magnason rithöfundur, ljóðskáld og íslenskufræðingur hélt erindi á Hugvísindaþingi árið 1999 um það hversu gjörtæk þessi bylting var. Þar minnir hann á það hversu litlar breytingar höfðu orðið á ljóðagerðinni í mörg hundruð ár þegar skáld tóku skyndilega upp á því að varpa stuðlum og höfuðstöfum fyrir róða. Að sögn Andra Snæs var með þessu „verið að leggja niður heilan menningarheim […] Ég held að það sem kæmist næst því að vekja álíka viðbrögð og tilfinningar hjá fólki nú væri ef ungu skáldin tækju sig öll til, gæfu út bækur sínar á ensku og hrópuðu: Nú er íslenskan loksins dauð.“((Andri Snær Magnason: „Ég er 900 ára gamall. Ég er 15 ára gamall. Fyrirlestur um gamalt og nýtt í íslenskri menningu frá Grýlu til Bónuss, fluttur á Hugvísindaþingi í okt. 1999.“ Sjá Íslenska bókmenntasögu V, Reykjavík 2006, bls 43 og 713.))

Var Steinn þá form/ljóðbyltingarmaður? Það fer svolítið eftir því hvað við teljum vera nútímaljóð. Hannes Pétursson skáld lýsir býsna vel ákveðinni grundvallarbreytingu á ljóðlistinni sem varð með kvæðinu Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson:

Með þessu kvæði roðar í rauninni fyrir nýjum tíma, þegar skáldin hætta að segja hug sinn, heldur sýna hann, birta hugarástand sitt með því að velja þær sýnir í kvæðin sem bezt gefa það til kynna. […] Ljóðið er ekki lengur hugsað sem eins konar samtal við lesandann, heldur eins og bygging sem skáldið reisir á víðavangi, hverfur síðan frá og lætur lesandann um að leita þangað og dvelja þar.((Hér vitnað eftir bók Þorsteins Þorsteinssonar: Ljóðhús, JPV útgáfa, 2007, bls 35.))

Byggingarlíking Hannesar á sérlega vel við Tímann og vatnið. En eins og fyrr var nefnt þá var Steinn skáld annarrar persónu eintölu. Eftirlætisstílbragð hans er ávarp, hann ýmist ávarpar lesandann eins og í trúnaði, spyr hann, ráðgast við hann, móðgar hann, huggar hann — og ruglar hann í ríminu með torskildum spurningum og þversögnum, sem gerðu lesandann þeim mun ringlaðri vegna þess að hann hafði staðið í þeirri trú að hann fylgdi þræðinum fram að lokum kvæðisins; en skyndilega er eins og kippt undan honum merk— ingarlegum grundvelli hans. Hann er sem sagt sífellt að ná sambandi við lesandann — fram að Tímanum og vatninu þegar hann hverfur inn í sitt fullsmíðaða ljóð. Það sem þó gerir Stein Steinarr á endanum að nútímaljóðskáldi er ekki fjarlægð frá lesendum eða notkun hans á rími, hrynjandi og ljóðstöfum, samþjöppun í máli eða frjálslegt myndmál — ekki einu sinni notkun á samlíkingum fremur en beinum myndum — þó að allt þetta skipti vissulega máli. Það sem gerði Stein að nútímaskáldi var ósköp einfaldlega þetta: hann fékkst við nútímann.

Það sem umfram allt veldur því að hann náði svo mjög eyrum ungs fólks sem var að alast upp á seinni hluta 20. aldar var að hann tókst á við knýjandi tilvistarlegar spurningar nútímans af meiri einurð en ýmsir aðrir. Hann færði okkur tilgangsleysið. Með þversögnum sínum og hálfkveðnu vísum tókst hann á við nýja heimsmynd þar sem öll gildi og verðmæti voru á hverfanda hveli.

Silja Aðalsteinsdóttir bendir á það í grein sinni í Skírni árið 1981 að rauður þráður í ljóðum Steins hafi verið exístensíalískur.((Silja Aðalsteinsdóttir: Þú og ég sem urðum aldrei til. Existensíalismi í verkum Steins Steinarr. Skírnir 1981, 29–51.)) Eitt helsta einkenni þeirrar stefnu er einmitt að hún getur naumast talist stefna fremur en nokkurs konar viðhorf og laustengdar hugmyndir uppreisnargjarnra heimspekinga sem aðhylltust einstaklingshyggju og gengu út frá þeirri forsendu að maðurinn hefði frjálsan vilja, gæti valið um það hvert líf hans stefndi. Sumir existensíalistar voru trúaðir — Dostojevski og Kierkegaard til að mynda — en aðrir eins og Jean-Paul Sartre, Heidegger og Camus gengu út frá því að maðurinn stæði einn í guðlausum heimi og þyrfti að hefjast handa um að finna sér nýjan tilvistargrundvöll að standa á. Maðurinn er það sem hann gerir úr sér, ekkert annað — það er, eins og Sartre skrifaði, sjálf frumregla existensíalismans.((Jean-Paul Sartre: „Existensialism is Humanism“. Existentialism from Dostojevsky to Sartre. New American Library 1956, bls 349.)) Sú kvöð skapar hins vegar kvíða og jafnvel þá tilfinningu að staðið sé frammi fyrir hengiflugi.

Eiginlega er ábending Silju um áhrif exístensíalisma á heimsmynd Steins Steinars svo augljós að hún blasir við um leið og einhver hefur orð á þessu. Ekki þarf að benda á annað en ljóð eins og Dimmur hlátur úr annarri bók Steins sem hefst á línunum: „Hæ! / Ég er maðurinn, / hinn eilífi maður / án takmarks og tilgangs…“ (Kvæðasafn og greinar, bls 81). Og kannski má það heita einkennilegt að enginn skyldi verða til að setja ljóð hans í þetta alþjóðlega hugmyndasamhengi á undan henni. Hinn glöggi bókmenntaskýrandi Kristján Karlsson fjallar nokkuð um heimspeki Steins í inngangi sínum að Kvæðasafni og greinum og opnar augu lesenda á snjallan hátt fyrir aðferð Steins að beita þversögnum og röksemdafærslu ímyndunarafls og tilfinninga, opnar ljóð á borð við Utan hringsins með snjallri túlkun — en meira að segja hann segir um heimspeki Steins að hún sé „…heimatilbúin, hún er nakið mál tilfinninga hans, og þess vegna skírskotar hún beint til tilfinninga lesandans. Hún á ekki stoð í menningarlegri hefð eða hugmyndakerfi. Steinn var ekki menntaður maður í formlegum skilningi; hann sá og skildi beint og milliliðalaust.“((Kristján Karlsson: Inngangur að Kvæðasafni og greinum, Helgafell 1964, bls XVII.))

Ef til vill ofmetur Kristján hér hlut háskóladvalar í menntun íslenskra skálda.

Uppgangur existensíalismans í Evrópu átti rót í tveimur hryllilegum styrjöldum og þeirri vá sem grúfði yfir mannkyni í köldu stríði þar sem kjarnorkuvopn gátu þá og þegar farið að fljúga milli andstæðra fylkinga — þetta var líka tíska og fylgdi jafnvel viss fatnaður, músík og fas slíkum viðhorfum. Hér á landi var tilvistarvandinn að nokkru leyti af öðrum toga en engu að síður ærinn. Með þjóðflutningunum sem stóðu mestalla 20. öldina úr sveit í þéttbýli hafði átt sér stað meira rof í tilveru þorra Íslendinga en dæmi voru um: Meira að segja Steinn Steinarr af öllum mönnum var fullur sektarkenndar yfir því að hafa ekki gerst bóndi.


VI


Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að kölski hafi veðjað við Kolbein Jöklaskáld um að sá þeirra sem ekki gæti botnað vísu hins skyldi steypast ofan af „þúfubjargi undir Jökli þegar brim geingi þar hæðst“ og vera „þaðan í frá í valdi hins.“

Erfitt er að sjá fyrir sér að skáld rati í öllu meiri lífsháska en þennan: að sitja í myrkrinu og kveðast á við kölska yfir hengifluginu. Kolbeinn botnar allt sem kölski hefur fram að færa en þegar kemur að honum sjálfum að hafa frumkvæði bregður hann á það ráð að taka hníf úr vasanum, og heldur honum „fyrir framan glyrnurnar á kölska svo eggin bar við túnglið“. Hann sigrar svo með rímbrellu: varpar fram fyrripartinum: „Horfðu í þessa egg egg / undir þetta túngl túngl“. Skratttinn er ráðalaus gagnvart þessu og þá kemur botninn: „Eg steypi þér þá með legg legg / lið sem hrærir úngl—úngl“. Brelluna þekkja öll leirskáld sem lent hafa í vandræðum: að taka í sundur orð, snúa upp á það og hafa á því endaskipti og bjarga sér þannig. Hann finnur leið út úr ógöngunum. Hann bjargast undan hengifluginu. Hann gerir sjálfan kölska sér undirgefinn með bragðvísi.((Kolbeinn og kölski. Þjóðsögur Jóns Árnasonar II, Leipzig 1864, bls 18–19.))

Þetta er í stuttu máli þjóðsagan sem liggur að baki þeirri kynningu Steins á sjálfum sér að hann hafi kveðist á við fjandann. Ljóðabókin Ferð án fyrirheits geymir þá rimmu. Fjandinn sem pundar á hann hverjum fyrripartinum á fætur öðrum er hlutskipti hans í heiminum. Botninn sem hann nær jafnharðan að hrista fram úr erminni er að horfast undanbragðalaust í augu við þetta hlutskipti; lokasigurinn er að snúa upp á þetta hlutskipti — taka það í sundur svo að segja og hafa á því endaskipti.



Guðmundur Andri Thorsson

Guðmundur Andri Thorsson (F. 31. desember 1957) er íslenskur rithöfundur og alþingismaður. Guðmundur Andri hefur starfað sem blaðamaður, gagnrýnandi, ritstjóri og þáttagerðarmaður. Hann var ritstjóri bóka hjá Forlaginu og ritstýrði jafnframt Tímariti Máls og menningar. Fyrsta skáldsaga hans, Mín káta angist, kom út árið 1988 og síðan hefur hann sent frá sér nokkrar skáldsögur og hlotið fyrir þær ýmsar viðurkenningar. Hann var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Íslenska drauminn 1991, Íslandsförina 1996 og Sæmd 2013. Valeyrarvalsinn var lögð fram til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2012. Hann hefur einnig þýtt allmargar bækur, skrifað formála og annast ritstjórn ýmissa bóka. Árið 2008 hlaut hann barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur fyrir þýðingu sína á Bangsímon eftir A.A. Milne.



Tilvísanir


Hvað táknar þá lífið? …

Á aldarafmæli Steins Steinarr – eftir Gunnar Kristjánsson. Andvari 133. árg. 2008


Steinn Steinarr birtist þjóðinni einatt sem þungbúið skáld, þrúgað af mótlæti og þjáningum. Myndir sem hafa prentast mönnum í minni bera það ekki með sér að hann kunni einnig að hafa verið hamingjumaður. Enda þekkti hann flestum betur andstreymi lífsins, fátækt í bernsku, hreppaflutninga og fjarvistir frá foreldrum og systkinum, hann þekkti allsleysi og basl á krepputímum, atvinnuleysi og fötlun. Vafalaust hefur honum fundist lífið hafa farið um sig ómildum höndum — annað verður tæplega lesið út úr ljóðum hans. En hann átti góða að, fólk sem kunni að meta hann þegar á barnsaldri fyrir góðar gáfur, næmleika og mannkosti. Steinn var aufúsugestur meðal skálda og listamanna eftir að hann fluttist til höfuðborgarinnar, hann átti fjölda vina og kunningja sem voru í fararbroddi nýrra tíma í menningu og listum og síðast en ekki síst átti hann góðan lífsförunaut, Ásthildi Björnsdóttur. Ævisagan dregur upp mynd af manni sem stóð ekki einn heldur vildu margir bera hann á höndum sér. Hin sýnilega mynd gefur til kynna innri baráttu sem skáldið hefur ekki reynt að dylja.

Í ljóðum Steins Steinarr speglast hugarheimur samtímans. Hann er skáld þjóðarinnar í kreppulok og á stríðstímum þegar hún á skyndilega nánara samneyti við aðrar þjóðir en hún hafði áður haft. Skáldið tjáir og túlkar vitund sem einkenndi vestræna menningu um miðbik tuttugustu aldar, þegar tilvistarstefnan var eins og þungur undirstraumur í bókmenntum og listum. Steinn þekkti tóninn sem þar var sleginn og sló hann sjálfur, hann þekkti tungutak þeirrar aldar sem setti firringu mannsins á dagskrá öðrum öldum fremur og yar sterkasta rödd hennar hér á landi. Þar er ekki dansað af gleði heldur horft í djúpið, leitað svara sem virðast einatt langt undan.

Þótt tilvistarstefnan tæki á sig ýmsar myndir, var meginstefnan þó ávallt sú sama, að fjalla um dýpstu spurningar mannsins á skelfilegum tímum í sögu Evrópu, þar sem hver kynslóðin á fætur annarri bognar undan sama þunga, undan spurningum sem vakna með hverjum hugsandi manni og kalla hann til andsvara og ábyrgðar. Spurningarnar skortir ekki en svörin virðast sjaldnast innan seilingar.


Uppvöxtur og mótun


Steinn var næstyngstur fimm systkina. Hann fæddist 13. október 1908 á Laugalandi í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp. Foreldrar hans komu úr röðum vinnufólks og máttu þakka fyrir að fá eitthvað að starfa. Vegna fátæktar var heimilið leyst upp og börnunum komið fyrir hjá vandalausum. Foreldrar hans, Etelríður Pálsdóttir (1882–1963) og Kristmundur Guðmundsson (1874–1944), slitu síðar samvistir. Tveggja ára fluttist Steinn með móður sinni að Bessatungu í Saurbæ en fjórum árum síðar varð hún að láta hann frá sér og var honum komið fyrir hjá mæðginunum í Miklagarði í sömu sveit, Steingrími Samúelssyni og Kristínu Tómasdóttur.

Í viðtali sem Matthías Johannessen átti við Etelríði móður Steins segir hún: „Það var sárt, þegar ég þurfti að láta Stein frá mér á þriðja árinu, það var sárt. Það er ekki hægt að lýsa því hvernig mér var innanbrjósts þá. Ég gleymi honum aldrei, þegar hann kvaddi mig sex ára gamall, viknaði við bæjarvegginn og horfði á eftir mér. Það voru þung spor. En hann var dulur á tilfinningar sínar og átti erfitt með að láta þær í ljós og bældi þær. Hann átti ekki langt að sækja það. Þannig hef ég einnig verið. Ég hef aldrei kunnað að flíka tilfinningum mínum.“((Matthías Johannessen, „Það var sárt þegar ég þurfti að láta Stein frá mér, Etelríður Pálsdóttir.” M, Samtöl II, 1978, bls. 36, sjá einnig eftir sama höfund Hugleiðingar og viðtöl, bls. 252, sjá ennfremur: Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, 2000, bls. 105-106.)) Eitt og annað bendir til mikils sársauka Steins í garð móður sinnar á bernskuárum hans. En í Miklagarði fékk Steinn gott atlæti og þar leið honum vel og einnig á Heinabergi þangað sem þau Steingrímur og Kristín móðir hans fluttust síðar. Þá var Steingrímur kvæntur Steinunni Guðmundsdóttur.

Steinn var viðloðandi sveitina til tvítugsaldurs. Hann stundaði nám í Ungmennaskólanum á Núpi í Dýrafirði veturinn 1925–6, sumarið 1926 var hann kaupamaður í Bessatungu hjá Stefáni skáldi frá Hvítadal. Til Reykjavíkur kemur hann fyrst árið 1926, er m.a. vinnumaður á Korpúlfsstöðum í Mosfellssveit, á árunum 1926–1928 fær hann sjúkdóm, sumir telja lömunarveiki, sem olli lömun á vinstri handlegg.((Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, 2000, bls. 130.))


Áhrifavaldar


Þrátt fyrir bág ytri kjör fékk Steinn gott atlæti og naut umhyggju og ástúðar þeirra sem fóstruðu hann í bernsku. Það var ekki síst Steinunn fóstra hans sem hafði skilning á hæfileikum Steins en Steingrími fóstra hans fannst hinn ungi sveinn hins vegar nýtast lítt við líkamlega vinnu. Kristín móðir Steingríms hafði skilning á gáfum Steins og hæfileikum hans, henni bast Steinn sterkum tilfinningaböndum. Heimilið mótaði hann eins og önnur börn. Tvö þjóðkunn skáld komu við sögu á mótunarskeiði hans. Annað þeirra var Stefán Sigurðsson frá Hvítadal sem fluttist í Bessatungu árið 1923 og gerðist þar bóndi. Hitt skáldið var Jóhannes úr Kötlum sem var farkennari í Saurbænum og kenndi Steini í ein tvö ár eftir því sem næst verður komist. Þótt Steinn byggi alla tíð að kynnum sínum við þessa tvo menn voru áhrif Stefáns drýgri, m.a. er nokkuð víst að hann hafði áhrif á trúarskoðanir Steins á yngri árum. Steinn gekk í kaþólska söfnuðinn í Reykjavík 13. nóv. 1926 og er líklegt að Stefán hafi haft þar sín áhrif.((Ingi Bogi Bogason, Steinn Steinarr: Ævi og skoðanir, 1995, bls. 42.)) Þremur árum síðar, 27. júlí 1929, er Steinn svo fermdur til kaþólskrar trúar, „biskupaður“, í tengslum við kirkjuvígsluna í Landakoti 23. júlí s.á.((Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, 2000, bls. 128, 144.)) Stefán kynnti hann einnig fyrir skáldum og listamönnum sem áttu athvarf í Unuhúsi þar sem hann varð smán saman einn innvígðra.((Sjá einnig: Halldór Kiljan Laxness, „Steinn Steinarr. In memorian.” Gjörningabók, bls.
137-139)) Fljótlega virðist hins vegar hafa dofnað yfir tengslum hans við kaþólsku kirkjuna enda fór það aldrei hátt að hann væri þar skráður, margir sem þekktu hann vel virðast ekki hafa vitað um kaþólsku hans. Um svipað leyti var Steinn félagi í Kommúnistaflokki íslands en var rekinn úr flokknum eftir skamma viðveru, árið 1934.((Ingi Bogi Bogason, Steinn Steinarr: Ævi og skoðanir, 1995, bls. 45.)) Þetta voru tímar hugsjóna og hugmyndafræðilegrar umræðu.

Áhrifavaldar á Stein voru margir. Þar voru ýmsir sem leiddu menningarlega umræðu hér á landi. Utan úr hinum stóra heimi bárust straumar hingað tjl lands. Eftir heimkomuna frá meginlandinu 1946 „er vitað að hann las erlend rit sér að gagni bæði á ensku og norðurlandamálum“.((Kristín Þórarinsdóttir, „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt”, 2008, bls. 42-80, 54.)) Í bókasafni sínu átti Steinn bækur eftir James Joyce, m.a. Ulysses á ensku og sænsku, ýmsar listaverkabækur, Bókina um veginn eftir Lao-tse, verkið Philosophy of Existentialism eftir franska tilvistarheimspekinginn Gabriel Marcel og bókina L’existentialisme est un humanisme eftir Jean-Paul Sartre. Einnig bendir margt til að T.S. Eliot hafi verið í miklum metum hjá Steini.((Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds II, 2001, bls. 54-57, 96-97. Kristín Þórarinsdóttir, „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt”, 2008, bls. 42-80, 48.)) Þeir sem ritað hafa um ævi Steins hafa bent á hversu mikilvæg ferð hans til Svíþjóðar var (júní 1945–mars 1946) og aðrar ferðir til útlanda, einnig samskipti hans við íslenska og erlenda bókmennta- og myndlistarmenn.((Kristín Þórarinsdóttir, „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt”, 2008, bls. 42-80, 47-54,73. Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds II, bls. 43-71, 94-96,168-186, 212-214, 221-242.))


Trúarleg þemu


Í ritgerðinni „Löng og erfið leið“ segir Ingi Bogi Bogason að ljóð Steins séu frumleg með beittan boðskap, hann hafi ekki verið afkastamikið skáld og um það megi deila hversu fjölbreytilegur boðskapur hans hafi verið, hann geri „margar atrennur að svipuðum hugmyndum“.((Ingi Bogi Bogason, Steinn Steinarr: Ævi og skoðanir, 1995, bls. 61.)) Ljóð Steins einkennast af knýjandi viðfangsefnum sem setja svip á bókmenntir samtímans. Það eru viðfangsefni tilvistarheimspekinnar, og óneitanlega sá armur hennar sem ber sterkastan keim af trúarheimspeki.((Um trúarheimspeki: sjá Gunnar Kristjánsson, Fjallræðufólkið, 2002, bls. 18-19.)) Við fyrstu sýn kann mörgum að virðast sem ljóð Steins beri vitni um neikvætt hugarfar í garð trúar og kirkju. Þótt broddurinn sé ekki lengur beittur nú, sex, sjö áratugum eftir að ljóðin birtust fyrst, var tíðin önnur þá og viðbrögð manna eindregnari. Skáld og myndlistarmenn sem fengust við trúarleg þemu á fyrri hluta aldarinnar, þeir sem viku frá hefðbundinni framsetningu, fengu iðulega kaldar kveðjur frá samfélaginu. Þannig var um brautryðjendur nýrra tíma og nýrra viðhorfa þar sem nýr skilningur leitaði útrásar og framandi framsetning sá dagsins ljós. Uppgjör við trúarhefðina einkenndi fyrri hluta tuttugustu aldar á öllum sviðum, bæði innan kirkju sem utan. Steinn er hér engin undantekning. Nítjánda öldin einkennist af fráhvarfi frá biblíulegum myndefnum í myndlist en hin trúarlega tilfinning er sterkt einkenni á myndlist rómantísku stefnunnar, svipuðu máli gegnir um aðrar listgreinar, einnig bókmenntir. Í ýmsum greinum listanna er fengist af nýjum krafti við trúarleg og trúarheimspekileg efni undir lok nítjándu aldar og á fyrri hluta tuttugustu aldar — en nú með nýjum og oft framandi hætti. Í myndlistinni mætti nefna hér expressjónismann, í bókmenntum tilvistarstefnuna.((Gunnar Kristjánsson, „Um myndlist í kirkjum,” 1978, bls. 12-15.))

Meðal þeirra fáu ljóða Steins, þar sem margir hafa talið sig skynja kaldhæðnislega umfjöllun um trúarleg efni, eru ljóðin Hallgrímskirkja, Passíusálmur nr. 51 og Þriðja bréf Páls postula til Korintumanna, þau er öll að finna í „Ýmsum kvæðum“ seint á höfundarferli Steins.

Hallgrímskirkja
(líkan)

Húsameistari ríkisins
tók handfylli sína af leir
og horfði dulráðum augum
á reizlur og kvarða:

51 x 19 + 18 – 102,
þá útkomu læt ég mig
raunar lítils varða.

Ef turninn er lóðréttur
hallast kórinn til hægri.
Mín hugmynd er sú,
að hver trappa sé annarri lægri.

Húsameistari ríkisins
tók handfylli sína af leir,
og Hallgrímur sálugi Pétursson
kom til hans og sagði:

Húsameistari ríkisins!
Ekki meir, ekki meir!

Í ljóðinu um Hallgrímskirkju er innlegg Steins í heitar umræður og deilur um byggingu Hallgrímskirkju. Hér er ekki fengist við trúarleg efni, hvorki biblíuleg þemu né trú mannsins. Hér blandar skáldið sér í deilur líðandi stundar með snjöllu og beittu ljóði sem hefur lifað af umrót síns tíma. Steinn sýnir afstöðu sína með þessu ljóði og beitir kaldhæðni í samfélagslegum átökum.

Passíusálmur nr. 51

Á Valhúsahæðinni
er verið að krossfesta mann.
Og fólkið kaupir sér far
með strætisvagninum
til þess að horfa á hann.

Það er sólskin og hiti,
og sjórinn er sléttur og blár.
Þetta er laglegur maður
með mikið enni og mógult hár.

Og stúlka með sægræn augu
segir við mig:
Skyldi manninum ekki leiðast
að láta krossfesta sig?

Í bókmenntum og listum tuttugustu aldar er píslarsaga Jesú kunnuglegt þema, þjáningin var á dagskrá frá upphafi aldarinnar til loka hennar, ekki hvað síst á meginlandi Evrópu, ástæðurnar þarf ekki að tíunda. Í bókmenntum birtist skírskotun til píslarsögunnar m.a. í Jesú-gervingnum, í myndlistinni leituðu expressjónistarnir á sömu mið. Á öllum sviðum brutust listamenn út úr hefðbundnum tjáningarmynstrum og fóru eigin leiðir í þessu efni sem öðrum. Tilgangurinn var margvíslegur, langoftast var vísað til hinnar þekktu sögu til þess að styrkja og dýpka framlag til umræðu líðandi stundar en sjaldnast var tilgangurinn gagnrýni á trú og kirkju. Hinn krossfesti var ímynd hins þjáða manns, sem féll fyrir veraldlegu og andlegu valdi en var hrakinn í dauðann af sinnulausum múgnum sem krafðist krossfestingar hans. Hér birtast örlög spámanna allra tíma, einnig í samtímanum. Orðalag og tjáningarmáti undirstrika sinnuleysi og alvöruleysi fólksins sem er komið til að horfa á aftöku spámanns á Valhúsahæðinni. Atburðurinn á Golgata er gerður furðunálægur og skírskotunin hittir beint í mark.

Þriðja bréf Páls postula til Korintumanna
Ég, sem á að deyja,
dvel hjá yður,
sem Drottinn hefur gefið
eilíft líf.

Og Drottinn gefur öllum
eilíft líf.

En eilíft líf er ekki til,
því miður.

Hér beitir Steinn kaldhæðni sinni í knöppu hárbeittu ljóði þar sem vegið er að einum grundvallarþætti trúarinnar: trúnni á eilíft líf. Tilgangur kaldhæðninnar er að setja ákveðið efni á oddinn, ekki endilega í þeim tilgangi að túlka boðskap skáldsins heldur gæti markmiðið allt eins venð hið gagnstæða, að þvinga lesandann til þess að taka afstöðu: hvað um mig, er ég sammála því að eilíft líf sé ekki til, að ekkert sé til annað en það sem seð verður og þreifað verður á? Er enginn leyndardómur að baki þessu lífi, er unnt að afgreiða spurningu mannsins um tilgang og markmið með svo einföldum hætti?

Kaldhæðnin er hér önnur hlið á hugrekki efans og jafnframt hugrekki til að ögra hinu viðtekna og þá stofnuninni kirkju ekki síður en öðrum stofnunum samfélagsins sem varðveittu og stóðu vörð um viðtekin gildi. Kaldhæðnin leynir sér ekki í ljóðinu „Jól“ (Ferð án fyrirheits 1942) sem endar á þessum vísuorðum: „Með kurteisum svip skaltu kveikja í stofunm þinni, / Og kauptu svo sóknarprestinn og éttu hann.” Svipuðu máli gegnir um ljóðið „Bæn“ (Ferð án fyrirheits) sem lýkur þannig: „Veit mér, ó, Guð, þann mátt / af miskunn þinni, / að megi ég gleyma þér.”

Í ljóðinu „Kvæði um Krist“, sem er upphafskvæði Ljóða (1937) kveður hins vegar við annan tón, ljóðið hefst þannig: „Það var kvöld. / Og við sátum í garðinum, / tvö fátæk börn…/ Það var þá, / sem þú sagðir mér leyndarmál þitt, / hið mikla leyndarmál, / sem enginn hafði áður / haft vitneskju um. / Það var svo fagurt / og dularfullt, / það var fegursta leyndarmál heimsins…/”

Hvað sem þessum ljóðum líður, sem hér hafa verið tilgreind, fer hin trúarlega glíma Steins ekki fram á vettvangi trúarlegrar orðræðu heldur hinnar trúarheimspekilegu – eða tilvistarheimspekilegu — eins og vikið verður að síðar í þessari ritgerð.


Tíminn og vatnið: Nýr tónn


Tíminn og vatnið… er nýr tónn í íslenskri póesíu,“ segir Matthías Johannessen í umfjöllun sinni um Stein 1963.((Matthías Johannessen, Hugleiðingar og viðtöl, bls. 249.)) Um þetta eru menn almennt sammála. Þegar einungis er litið til ljóða Steins til samanburðar er kaldhæðnin hér horfin, bölsýnin er ekki lengur til staðar, ró og friður hvílir yfir verkinu, leyndardómsfullur andblær leikur um það. Ljóðin eru persónuleg eins og sjá má af því að persónu- og eignarfornöfn fyrstu persónu koma fjörutíu og fjórum sinnum fyrir í ljóðaflokknum. Orðið „vatn“ kemur ellefu sinnum fyrir, „sól“ tíu sinnum, „djúp“ sjö sinnum, „tími“ sex sinnum, „eilífð“ þrisvar, „guð“ þrisvar, „ást“ einu sinni, „trú“ einu sinni og „ekkert“ kemur einu sinni fyrir („Kemur allt, / kemur ekkert, / gróið bylgjandi maurildum, / eins og guð. //Guð“).

Í lok ritgerðar sinnar um tilurð ljóðaflokksins Tímans og vatnsins ritar Sveinn Skorri Höskuldsson: „Veigamiklir þættir í hugblæ Tímans og vatnsins eru ást, ástartregi og trúarleg tilfinning. Ef til vill væri unnt að lesa verkið í heild sem minnisvarða um mikla ást. Yfir því hvílir einkennilega lotningarfull kyrrð og jafnvægi. Hér gætir hvorki rauðs loga byltingarinnar né angistar tilgangsleysis-heimspeki. Ég ljóðanna virðist sátt við örlög sín, hefur samsamazt eilífðinni, sem horfir „mínum óræða draumi / úr auga sínu“ í yfirskilvitlegum friði.“ ((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 194-195.))

Verkið kom út í tveimur prentuðum gerðum, í fyrri gerðinni eru 13 ljóð en í þeirri síðari 21. Flest ljóðin höfðu birst í tímaritum skömmu áður.((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 156-157.)) Elsta safn ljóðanna í Tímanum og vatninu er vélritað eintak sem Ragnar Jónsson útgefandi gaf Ásthildi Björnsdóttur 2. júní 1958, á titilsíðu þess er heiti ljóðaflokksins Dvalið hjá djúpu vatni og einnig ártalið „1947“ ritað með hendi Ragnars Jónssonar í Smára.((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 159. Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds II, bls. 89, 92-93.))

Í annarri próförk Tímans og vatnsins er titilsíðan varðveitt og þar heitir ljóðaflokkurinn Helgiljóð.((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 162-163. Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds II, bls. 96.)) Árið 1947 birtust þrjú kvæði Steins í tímaritinu „RM – ritlist og myndlist“ og báru sameiginlega fyrirsögnina Þrjú helgiljóð.((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 163.))

Í ritgerð sinni um Tímann og vatnið bendir Sveinn Skorri Höskuldsson á áhrif frá The Waste Land eftir T.S. Eliot. Þetta má m.a. greina af þeirri hugmynd sem var lengi viðloðandi á þróunarstigi verksins undir fyrstu útgáfu að gefa hverju ljóði heiti sem sótt væri til goðsagna og helgisagna. Í uppkasti, rituðu með hendi Ásthildar og Steins, er þessi kvæðaheiti að finna, þau eru öll sótt til ljóðsins The Waste Land eftir T.S. Eliot. Heitin voru reyndar felld niður og aldrei prentuð en gefa mikilvægar upplýsingar um þróun ljóðaflokksins. Í kvæðaheitunum á handskrifaða blaðinu er m.a. vísað til Játninga Ágústínusar og til Lúkasarguðspjalls. Hið síðarnefnda á við um 18. ljóðið í endanlegri útgáfu verksins (8. ljóðið í fyrstu útgáfunni 1948):

Tveir dumbrauðir fiskar
í djúpu vatni.
Dimmblár skuggi
á hvítum vegg.

Fjólublátt ský
yfir fjallsins egg.

Yfir sofandi jörð
hef ég flutt hina hvítu fregn.

Og orð mín féllu
í ísblátt vatnið
eins og vornæturregn.

Á handskrifaða blaðinu stendur „„Kristur í Emaus“ [svo] (Blátt og hvítt)“. Þar er vísun til frásagnar Lúkasar um lærisveinana tvo sem eru á leið til þorpsins Emmaus utan við Jerúsalem síðla á páskadag, fréttir um upprisuna hafa ekki borist þeim enn.((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 189.)) Á leiðinni slæst í för með þeim ókunnur maður sem fylgir þeim í áfangastað og sest til borðs með þeim, þegar hann brýtur brauðið þekkja þeir hann, þetta er Jesús, en þá hverfur hann þeim sýnum. Sagan um Ernmausfarana er ein svonefndra birtingarfrásagna og jafnframt ein sterkasta frásögn Nýja testamentisins um upprisuna enda hefur hún reynst óþrjótandi uppspretta skálda og listamanna alla tíð, ekki hvað síst í nútímanum. Hér er því að mínum dómi réttilega að orði komist í ritgerð Kristínar Þórarinsdóttur um Ijóðaflokkinn: „Sé horft á ljóðin [í þessu ljósi] má sjá þar ferð einstaklings úr myrkri og vonleysi til jafnvægis og uppstyttu eða jafnvel upprisu. Þetta tel ég vera þungamiðju í öllu verkinu.“((Kristín Þórarinsdóttir, „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt”, 2008, bls. 42-80, 59.)) Átjánda ljóðið réttlætir þessa ályktun ekki hvað síst út frá áðurnefndu handriti þeirra Steins og Ásthildar. Orðið upprisa á að mínum dómi betur við hér en orðið uppstytta þar eð hið fyrrnefnda vísar til afgerandi umskipta en ekki aðeins tímabundinna eins og liggur í orðinu uppstytta. Orðið upprisa vísar til endursköpunar manneskjunnar, líf hennar verður með einum eða öðrum hætti annað, líkt og hrifið úr greipum dauðans.


Guðspjall 20. aldarinnar


The Waste Land er iðulega vitnað til heimsbókmenntanna á öllum tímum ems og skýríngar Eliots sjálfs sýna. Þar eru skírskotanir til grískra bókmennta, trúarrita búddismans m.a. Eldræðu Búddha, til evrópskra bókmennta frá ýmsum tímum m.a. til trúarrita eins og Játninga Ágústínusar, Hins guðdómlega gleðileiks eftir Dante, Paradísarmissis Miltons og til Biblíunnar.

Þau biblíurit sem vísað er til samkvæmt skýringum Eliots eru spádómsrit Esekíels, Jeremía, Prédikarinn eftir Salómon, Davíðssálmar, píslarsagan og Emmausgangan.((T.S. Eliot, „Skýringargreinar við Eyðilandið”, í: T S. Eliot, Eyðilandið. Þýðing á The Waste Land. Sverrir Hólmarsson þýddi og sá um útgáfuna, 1990, bls. 39-61.)) Vísanirnar eru ekki í samhengi hver við aðra en engu að síður er ljóðið sterk heild vegna þeirrar hugsunar sem tengir brotin saman. Þá hugsun er m.a. að finna hjá breska heimspekingnum Francis Herbert Bradley (1846-1924).

Bradley var einn af áhrifavöldum á T.S. Eliot og þar með óbeint einnig á Stein Steinarr. Bradley „var hughyggjusinni“ segir í skýringum Sverris Hólmarssonar við Eyðilandið((Sverrir Hólmarsson, „Eliot og Eyðilandið”, Eyðilandið. Þýðing á The Waste Land eftir T.S. Eliot, 1990, bls. 69.)), þ.e.a.s. ídealisti eða platónisti, hann sótti mikið til þýsku ídealistanna með þá Johann Gottlieb Fichte, Friedrich Schelling og Georg Wilhelm Friedrich Hegel fremsta í flokki ásamt Immanúel Kant. Eliot skrifaði ítarlega ritgerð um Bradley sem var lögð fram sem doktorsritgerð við Harvardháskóla en ekki samþykkt.((Sjá: http://plato.stanford.edu/entries/bradley/ og: http://en.wikipedia.org/wiki/RH._Bradley)) ,,[F]yrir honum [þ.e. Bradley] var veruleikinn einn og óskiptur, heild sem ekki er hægt að deila niður í flokka. Venjubundin hugtök eins og „rúm“ og „tími“ geta aðeins gefið brotakennda mynd af veruleiknum, sem endanlega er einungis unnt að tjá sem hið algilda (the Absolute), það sem tengir saman hugsun og veruleik, vilja og tilfinningu, en án slíks hugtaks verður heimurinn merkingarlaus með öllu. Við lifum í heimi ásýnda sem bera svip af hinu algilda án þess að birta það til fulls. En við getum einungis nálgast hið algilda gegnum ásýndirnar og gegnum reynslu „afmarkaðra miðstöðva“.“ Í framhaldi segir höfundur að allt hafi það hæft vel efahyggju Eliots „og hugmyndum um takmarkanir þekkingarinnar, en fullnægði um leið að vissu marki þrá hans eftir fullvissu um algildan veruleik, sem við búum í enda þótt erfitt sé að festa á honum hendur. Alla ævi, einnig eftir að hann lét skírast inn í ensku biskupakirkjuna [1927], tókust þessi tvö öfl á í huga Eliots — djúpstæð efahyggja og þrá eftir algildum sannindum.“

Líkt og The Waste land var tímamótaverk á ferli Eliots og meðal þekktari ljóða tuttugustu aldar var Tíminn og vatnið tímamótaverk meðal ljóða Steins. Í báðum tilvikum snýst málið um trú og nýja sýn til lífsins og tilgangs þess. Ljóðin í Tímanum og vatninu eru vissulega ávöxtur djarflegrar „glímu við eigin vandamál og tilverurök“((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 155.)). Í Tímanum og vatninu hljómar ekki lengur hinn ögrandi tónn tómhyggjunnar, hugrekki mannsins snýst ekki lengur um að afneita tilgangi lífsins, eilífðinni og Guði. Hinn holi rómur sem svaraði „Ekkert, ekkert“ heyrist ekki framar, aðrar hugsanir hafa leyst af hólmi setningar eins og „Elíft líf er ekki til því miður“. En samt er Tíminn og vatnið enginn lofsöngur í hefðbundnum skilningi — en inntakið myndi hæfa lofsöng engu að síður. Í viðtali 1950 sagði Steinn um Eliot og The Waste Land: „Eliot, æ já, nú er ég orðinn þreyttur á honum, þegar allt kemur til alls er hann bara leiðinlegur kristinn hundur. Samt sem áður held ég, að hann sé mikið skáld, og kvæði hans, The Waste Land, er í raun og veru guðspjall 20. aldarinnar, en það er líka ort hér um bil 30 árum áður en þeir veittu honum Order of Merit og Nóbelsverðlaunin.“((Steinn Steinarr, Kvæðasafn og greinar, bls. 324-325. Tilvitnunin er úr viðtalinu „Hið hefðbundna ljóðform er nú loksins dautt” sem birtist fyrst í tímaritinu Líf og list í október 1950.)) Hálfkæringurinn sem birtist í tilvitnuninni er ekki óþekkt fyrirbæri meðal skálda og í íslenskum bókmenntum einkennir hann samtímaskáld Steins og nægir þar að benda á Halldór Laxness. Í slíkum ummælum er oft að finna tilraun skáldsins til að villa á sér heimildir, má út sporin og dylja þau áhrif sem það hafði orðið fyrir af öðrum, skáldið veit fyrir víst að verkin tala. Kannski er Steinn að mörgu leyti of skyldur Eliot til að hann vilji auðveldlega kannast við áhrif hans á eigin verk og þá einkum á Tímann og vatnið.


Um trúarheimspekilega þætti í verkum Steins


Flestir sem fjalla um Stein Steinarr og ljóð hans koma að spurningunni um þá trúarlegu glímu sem ljóð hans sýna. Því mætti nú spyrja um trú í ljóðum Steins. Eru kvæði hans „trúarljóð — með neikvæðu forteikni“ eins og Kristján Karlsson komst að orði í ritgerð um Stein Steinarr árið 1964?((Kristján Karlsson, „Inngangur” í: Steinn Steinarr: Kvæðasafn og greinar, 1964, bls. XXVII.)) Er hann í hópi mestu trúarskálda þjóðarinnar eins og séra Heimir Steinsson staðhæfði (1993)?((Heimir Steinsson: „Meðan eilífðin horfir”, 1993, bls. 14-15. Sjá einnig eftir sama höfund: „Unio mystica í ljóðum Steins Steinarr?” Kirkjuritið 46/2 1980, bls. 130-133.)) Um sama efni hafa fleiri tjáð sig, m.a. Sigurbjörn Einarsson((Sjá Sigurbjörn Einarsson, Um ársins hring, bls. 252, sjá einnig: Sigurður A. Magnússon, Sigurbjörn biskup, ævi og starf 1988, bls. 224: „… Hann [Steinn] væri trúarlega séð mjög merkilegur fulltrúi sinnar tíðar.”)), Matthías Johannessen((Matthías Johannessen, Hugleiðingar og viðtöl, 1963, bls. 251.)), Ingi Bogi Bogason og Kristín Þórarinsdóttir. Sveinn Skorri Höskuldsson hefur bent á „lotningarfulla kyrrð“ í Tímanum og vatninu og „trúarlega tilfinningu“ sem mikilvæg einkenni ljóðsins.((Sveinn Skorri Höskuldsson, „Þegar Tíminn og vatnið varð til,” 1971, bls. 194-195.)) Aðrir víkja sér undan því að takast á við þessa spurningu, sbr. Sigfús Daðason sem telur sig ekki dómbæran á efnið.((Sigfús Daðason, Maðurinn og skáldið Steinn Steinarr, 1987, bls. 78.))

Í ljóðum Steins er þungur undirstraumur tilvistarspurninga mannsins. Á skömmum skáldskaparferli glímir hann ítrekað við svipaðar spurningar og gerir þar ýmsar atlögur en rimmunni lýkur ekki til fulls nema ef vera skyldi með Tímanum og vatninu.

Margir hafa staðnæmst við breytingar sem urðu á lífi Steins um það leyti sem hann festi ráð sitt og benda á ljóðaflokkinn Tímann og vatnið því til sönnunar. Þau Ásthildur giftu sig 10. júní 1948 — sama árið og Tíminn og vatnið kom út — en hófu búskap tveimur árum áður.((Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að œvi skálds II, 2001, bls. 106, 83. Kristín Þórarinsdóttir, „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt”, 2008, bls. 42-80, 48.)) Trúarleg stef koma skýrar en áður inn í ljóð hans og jafnframt með öðrum hætti og óræðari. Hver veit nema nóg hafi verið spurt, hver veit nema skáldið hafi fundið þau svör við knýjandi spurningum sem við varð unað?

Mörg þeirra hugtaka sem mest ber á í verkum Steins Steinarr snúa að dýpri vitund mannsins og er þá ljóðum hans um pólitísk efni, hversdagsleg málefni eða ástina ekki gleymt. Hugtök eins og tilgangsleysi, fánýti lífsins, kaldhæðni, þjáning og dauði annars vegar og svo hins vegar tilgangur, von, draumar, þrár og hugrekki vísa til trúarheimspekilegrar glímu sem átti hug hans allan alla tíð. Hjá Steini snýst málið hvorki um trú né efa, heldur um grundvallarspurningar sem finna leiðina til sérhvers hugsandi manns. Þetta ásamt skáldskaparsnilld hans gerði Stein að stórskáldi í vitund þjóðarinnar. Hér verður því reynt að rýna nánar í trúarheimspekilega þætti í ljóðum hans.((Um trúarheimspeki, sjá: Gunnar Kristjánsson, Fjallræðufólkið, um persónur í verkum Halldórs Laxness, 2002, bls. 18-19.))


Fánýti og kaldhæðni, þjáning og dauði


Ljóð Steins Steinarr einkennast löngum af hugsunum um fánýti lífsins, spurningum um tilgang og merkingu sem ósjaldan er svarað með beinskeyttum neikvæðum hætti. Skáldið lætur það flakka að allar slíkar spurningar eigi sér aðeins eitt og sama svarið: lífið er ekki aðeins óvissu ofurselt heldur einnig tilgangsleysi. Í verkum Steins eru hugsanir af þessu tagi eins og þungur undirstraumur. Allt frá ljóðinu „Eftirmælum“ í fyrstu ljóðabók hans, Rauður loginn brann (1934), kveður við þennan tón: „Þú hafðir enga þýðingu í þjóðmálum sem slíkur / og það veit enginn til hvers þú varst í heiminn sendur.“ Síðar í sömu ljóðabók má benda á ljóðin „Minning“, „Eins og gengur“ og „Mold“. Í næstu ljóðabók Steins, Ljóð (1937) slær hann þennan streng með enn eindregnari hætti, þar má benda á ljóðið „Ekkert“:

Þú situr enn við gluggann
og senn er komin nótt,
og úti er niðamyrkur,
svo annarlega hljótt.
Og senn er komin nótt.

Þú strýkur þreyttri hendi
um hár þitt þunnt og grátt,
og þú ert gamall maður.
Þér líður máske í huga
ein minning, sem þú átt,
og þú ert gamall maður.

Svo finnur þú um andlit þitt
fara kaldan súg.
Þig grípur óljós hræðsla.
Þú horfir út í myrkrið
og hvíslar:
Hver ert þú?
Og holur rómur svarar:
Ekkert, ekkert.

Við sama tón kveður í ljóðunum „Vögguvísa“, „Andvaka“, „Colosseum“, „Kvæðið um veginn“, „Atlantis“, „Skóhljóð“, „Vöggugjöf’ og „Dimmur hlátur“.

Í þriðju ljóðabókinni, Spor í sandi (1940) kveður við sama tón í ljóðunum “Ljóð“, „Heimferð, „Ferðasaga“ og í ljóðabókinni Ferð án fyrirheits (1942) má nefna ljóðin „Hin mikla gjöf’, „Til hinna dauðu“ og „Börn að leik“.

Svipuðu marki brennd eru ljóð sem einkennast af kaldhæðni um þetta efni, þar má nefna ljóðin „Sement“, „Leiksýning“, „Götuvísa“ og „Flóttinn“ úr Ljóðum (1937). Úr Ferð án fyrirheits (1942) má nefna „Sumar við sjó“ og »Að sigra heiminn“. Feigð og dauði eru Steini áleitin yrkisefni. Dæmi eru „Vögguvísa“ (Sofðu, sofðu, / Ég er dauðinn, / ég skal vaka yfir þér“) og „Blóm“ í Ljóðum (1937). Þjáningin er sjaldan langt undan: í ljóðinu „Andvaka“ segir: „Þú bærðir vör, til einskis, angist þín / fékk aldrei mál./ Nei, þjáning þín bar aldrei ávöxt neinn, / og engan tilgang hafði lífs þíns nauð./ Hún lagðist yfir þreytu hjarta þíns / þung og dauð“ (Ljóð 1937). Í „Hamlet“ (Ljóð 1937) kveður við sama tón, einnig í „Mazurka eftir Chopin“ (Spor í sandi 1940).


Ég er djúpið sem geymir þær dýrmætu perlur…


Hér má benda á að Steinn helgar hinum sorglega riddara Don Kíkóta tvö ljóð, manninum sem barðist gegn heimsku heimsins en hlaut að launum náð og spott. Hann var riddari sannleikans í heimi sem tekur lygina iðulega ram yfir það sem satt er. Steinn hafði áreiðanlega fulla samúð með hinum sorglega riddara og hefur fundið til andlegs skyldleika með honum. Annað kvæðið er í Ljóðum frá 1937 en hitt í Ýmsum kvæðum. Hann yrkir einnig um Chaplin (Spor í sandi 1940) þar sem slegið er á svipaða strengi. Þessar þekktu persónur vísa til baráttu gegn blekkingum og lygi, þær eru notaðar ar þeim sem hafa mannúð, mennsku og mannréttindi á stefnuskrá sinni og setja manninn í öndvegi. Boðskapurinn um það efni á erfitt uppdráttar, boðskapur um vonir, drauma og þrár, þetta viðhorf liggur í loftinu: heimurinn virðist ekki kæra sig um annað en forgengileg lífsgildi. Kannski er þá eina leiðin að hrista hann til, að láta hann hafa það, setja á oddinn eitthvað sem gæti valdið hugarfarsbreytingu, afturhvarfi. Skáldið lifir í vitfirrtum heimi. Hér er skáld firringarinnar: hinar spámannlegu ýkjur eru aðferð skálds sem finnur sig knúið til að vekja fólk til umhugsunar um það sem því finnst máli skipta, skáldið býr sig í búning spámannsins. Þessi aðferð birtist í mörgum ljóðum sem einkennast af kaldhæðni og afgerandi fullyrðingu um tilgangsleysi lífsins:

Við biðum, við biðum
og brjóst okkar titruðu
í ögrandi þögn.

Eftir örstutta stund
skal það ske.
Eins og kristalstær goðsögn
mun það koma
og fylla líf okkar
óþekktri angan.

Við biðum, við biðum,
og að baki okkur reis
einhver hlæjandi ófreskja
og hrópaði:
Aldrei! Það skeður aldrei!

(„Biðin“, Ljóð 1937).

Þrátt fyrir þessi áberandi stef er vonin engu að síður til staðar, hvað sem framhaldinu líður, hinar djúpu tilfinningar og hinn sterki grunur um að lífið sé grundvallað á von og allir draumar um betra líf og svar við hinum þungu spurningum muni rætast — slíkar spurningar eru ávallt til staðar í ljóðum Steins, hvað sem öðru líður. Í ljóðinu „Sýnir“ (Rauður loginn brann 1934) er þetta erindi: „— Trú, sem er týnd og grafin / í tímans Stórasjó./ Draumar, sem hurfu út í veður og vind, / vonin, sem fæddist og dó.“ Í ljóðinu „Eins og gengur“ (Rauður loginn brann 1934) er spurningin um þetta efni mjög augljós: „Hvað táknar þá lífið, með ást sína og yl, / og öll þessi börn, sem að drottinn gefur?“ Í ljóðinu „Ljóð án lags“ (Ljóð 1937) sömuleiðis: „Og brjóst mitt var fullt af söng, / en hann heyrðist ekki…. / Það var söngur hins þjáða, / hins sjúka, hins vitfirrta lífs / í sótthita dagsins, / en þið heyrðuð hann ekki.“ Í Kvæðasafninu koma hugtökin draumur, þrá og von oft fyrir, einnig myndmál sem felur í sér drauma, þrár og vonir. Í ljóðinu „Veruleiki“ (Rauður loginn brann 1934) segir: „Einhvers staðar,/ langt út í lognkyrri nóttinni / heyrist leikið á veikróma hljóðfæri…“, einnig: „Og ég hef leitað, leitað / lífsins og sjálfs mín, / í óvitans von / um eitthvað dásamlegt / bak við ásjónu dagsins…“ en síðar í ljóðinu er svo slegið á þessa tvíráðu tóna: „Ó, þú vesalings villuráfandi sál. / Vegna hvers leitar þú þess, / sem þú veizt að er ekki til?…“. Næsta ljóði bókarinnar, „Kveld við Breiðafjörð“, lýkur með þessum línum: „Látt’ ekki fjandann veiða sálu þína. / Innst inn í firði vakir fátækt ljós.“ Með „Stiganum“ lýkur síðasta ljóði bókarinnar, Rauður loginn brann (1934), á þessum vísuorðum sem verða gerð að umfjöllunarefni síðar í þessari ritgerð: „Svona undarlegur / er þessi stigi, / svona óskiljanlegur / í sínum einfaldleika, / eins og lífið sjálft, / eins og veruleikinn / bak við veruleikann.“ Dýpst í tilvist mannsins, í leyndardóminum sem umlykur hana alla, á draumur mannsins sér athvarf, sbr. ljóðið „Akvarell“ (Ljóð 1937): „Ég er djúpið, sem geymir / þær dýrmætu perlur, / er þig dreymdi um að eignast.“

Og í „Þjóðvísu“ (Ljóð 1937) eru lokahendingarnar: „Já, eitt sinn, eitt sinn skal hinn smáði maður / úr djúpsins myrkri rísa sterkur, frjáls.“ Í voninni og í draumum sínum á maðurinn fjársjóð sem gefur honum hugrekki til að lifa og þrauka. Í ljóðinu „Draumur“ (Ljóð 1937) er þessi hending þar sem slegið er á sömu strengi: „Þitt hugrekki gat enginn máttur þvingað.“


Tilvistarstefnan og trúarheimspekin


Meðal þeirra verka, sem Steinn átti í bókasafni sínu, voru bækur eftir frönsku tilvistarheimspekingana og rithöfundana Gabriel Marcel (1889–1973) og Jean-Paul Sartre (1905–1980). Báðir voru þeir í fremstu röð tilvistarheimspekinga um og upp úr miðri tuttugustu öld. Að mörgu leyti var Marcel leiðtogi í umræðum heimspekinga í Frakklandi þar sem hann stóð fyrir vikulegum umræðufundum um árabil sem margir þekktustu heimspekingar landsins sóttu, þar á meðal Sartre.

Gabriel Marcel var löngum kenndur við kristna tilvistarstefnu enda þótt hann hafi alist upp á heimili guðleysingja og framan af verið guðleysingi sjálfur. Hann gekk í kaþólsku kirkjuna sama árið og Steinn var biskupaður í dómkirkju Krists konungs í Landakoti, 1929. Meðal kristinna existentíalista má nefna þýsk-bandaríska trúarheimspekinginn Paul Tillich (1886–1965), þýska Nýjatestamentisfræðinginn Rudolf Bultmann (1884–1976) og þýsku heimspekingana Karl Jaspers (1883–1969) og jafnvel einnig Martin Heidegger (1889–1976) sem komu heimspekingunum Søren Kierkegaard og Friedrich Nietzsche inn í hina tilvistarlegu umræðu. Þess má geta að þeir Tillich, Heidegger og Bultmann voru um skeið samtímis prófessorar við háskólann í Marburg. Meðal heimspekinga tilvistarstefnunnar, sem vel eru þekktir, eru Spánverjinn Miguel de Unamuno (1864–1936), austurríski gyðingurinn Martin Buber (1878–1965) og Rússinn Nikolai Berdyaev (1874–1948).

Á þeim tíma sem Steinn Steinarr var upp á sitt besta var erfitt að komast undan áhrifum tilvistarstefnunnar, umræðan var lífleg meðal skálda og listamanna, heimspekinga og síðast en ekki síst guðfræðinga: tilvistarstefnan fæst ekki hvað síst við eitt og annað í tilvist mannsins sem guðfræðin hafði alla tíð haft á sinni verkefnaskrá, ekki hvað síst í trúarheimspekinni. Það sem vekur fyrst athygli í ljóðum Steins í þessu samhengi er glíma hans við tilgang lífsins. Hér á undan hafa nokkur ljóð verið tilfærð sem undirstrika spurningar Steins um það efni. Að meira eða minna leyti eru allar ljóðabækur hans fram að Tímanum og vatninu sama marki brenndar að þessu leyti. Í heimspeki Gabriels Marcel,((Sjá: Gabriel Marcel, „The Philosophy of Existentialism” 12. pr. 1973 og Clyde Pax, An Existential Approach to God: A Study of Gabriel Marcel”, 1971.)) sem hefur haft mikil áhrif allt fram á þennan dag, ekki hvað síst vegna áhrifamikilla lærisveina hans í vestrænni menningu, er sterkur greinarmunur gerður á hugtökunum „að eiga“ og „að vera“. Marcel heldur því fram að maðurinn forðist tilvistarspurningar sínar með því að einbeita sér að þeim viðfangsefnum sem hann ræður við, hann veit betur hvað hann á en hvað hann er, hann freistast til að skilgreina sjálfan sig og tilvist sína út frá eigum sínum en síður út frá veru sinni. „Hvað á ég?“ er spurning sem oft er sett til höfuðs spurningunni „hvað er ég?“. Þetta er ein hliðin af mörgum sem sýna að maðurinn forðast að takast á við spurningar sem eru eftir allt saman knýjandi í vitund hans og sem hann þráir að fá svör við en treystir sér ekki til að glíma við vegna þess að hann býst ekki við neinu svari. Hann forðast leyndardóminn að baki tilvistinni í heild en einhendir sér í að leysa einstök áþreifanleg vandamál. Ástæðan er þó ekki sú að hann hafi ekki vitund um „handanlægni“ í lífinu, að lífið hafi tilgang. Hann hefur grun um að svo sé, grunurinn byggist m.a. á því að líf mannsins er borið uppi af voninni, af ástinni, af draumum og ýmsum öðrum hugtökum sem eiga sér rætur í óskilgreinanlegum leyndardómi sem maðurinn hefur ekki aðgang að og þekkir ekki til hlítar — en án hans er líf hans snautt og firrt tilgangi.

Ein afleiðingin er sem sagt sú að maðurinn einbeitir sér að því sem hann ræður við, að leysa vandamál líðandi stundar. En hann getur einnig fyllst reiði yfir því að ráða ekki við þær sterku tilfinningar sem bærast innra með honum og þá sterku vitund sem öðru hvoru blossar upp að lífið hafi tilgang og í þeim leyndardómi sem hann hefur hugboð um sé svarið að finna. Það er ekki aðeins efinn sem vaknar heldur einnig reiðin, steyttur hnefinn sem merkir: það er ekkert til. Hugrekki guðleysisins verður dyggð og leið til að þagga niður hinar óþægilegu spurningar sem vakna sífellt að nýju. Hinn persónulegi tónn í ljóðum Steins á ekki hvað síst rætur sínar að rekja til þess hugrekkis sem þau bera vitni um, þar er óneitanlega hugrekki til að takast á við tilvistarspurningar mannsins og í því hugrekki er ekki hvað síst að finna aðdráttarafl ljóðanna. Hugrekkið snýst ekki aðeins um að hafna allri „handanlægni“ í tilvist mannsins heldur einnig í hinu gagnstæða: að velja hinn kostinn og taka áhættu trúarinnar, „stökkið til trúarinnar“ (Kierkegaard). Skáld sem býr sér hvílu í eilífðinni hlýtur að þekkja báða þessa kosti af eigin raun.

Í ljóðum Steins er hvort tveggja að finna, annars vegar sterka afneitun á tilgangi lífsins en hins vegar sterka vitund um að lífið sé borið uppi að leyndardómi, af von, draumum og ást. í „Stiganum“ (Rauður loginn brann 1934) lýkur hugleiðingum ljóðsins um stigann með samanburði við lífið sjálft:

Svona undarlegur
er þessi stigi, …
eins og lífið sjálft,
eins og veruleikinn
bak við veruleikann.

Orðalagið „veruleikinn bak við veruleikann“ minnir óneitanlega eindregið á hugtakanotkun tilvistarheimspekinganna, m.a. Pauls Tillich((Paul Tillich, Systematic Theology, Welwyn 1968. Paul Tillich, The Courage To Be, 2. útg., 2000. Paul Tillich, Love, Power and Justice, 1967 Paul Tillich, Dynamics ofFaith, 1957.)) sem talar um „God above god“ og „being itself“ og hjá Gabriel Marcel er hugtakið handanlægni (transcendence) lykilhugtak: veruleiki sem birtist manninum sem leyndardómur og gegnsýrir lífið allt í stóru sem smáu, vitund um að handan hins skiljanlega sé eitthvað annað og meira þar sem manninum er óhætt, þar sem tilvist hans er ekki ógnað heldur þvert á móti, þaðan sem honum kemur vonin, draumurinn um lausn, tilgangur og merking og þar sem svar er að finna við spurningu skáldsins í ljóðinu „Eins og gengur“ (1934): „Hvað táknar þá lífið, með ást sína og yl, / og öll þessi börn, sem að drottinn gefur?“ Undir hrjúfu yfirborði afneitunarinnar sem er svo augljós og áberandi í ljóðum Steins fram eftir aldri er eindregin og áleitin spurning um tilgang og merkingu og í þeirri spurningu — með þverstæðukenndum hætti — er fólgin ákveðin von, hugboð og óljós vitund um að svarið sé aldrei langt undan.

Þessi vitund um handanlægni er sterk í ljóðum Steins. Óneitanlega minnir hann í þessu efni á einn borðnaut sinn í Unuhúsi, Halldór Laxness, sem slær sömu strengi í verkum sínum. Um Stein Elliða í Vefaranum mikla frá Kasmír segir: „Hugur hans dregst að „… þeim veruleik sem hylst að baki sköpunarverksins og ljómar á ásýnd hlutanna“.((Halldór Laxness, Vefarinn mikli frá Kasmír, 1. útg. 1999, bls. 40.)) Hinn eilífi veruleiki að baki sköpunarverkinu er það sem hann þráir innst inni.((Halldór Laxness, Vefarinn mikli frá Kasmír, 1. útg. 1999, bls. 318.)) Halldór lætur skína í þessa hugmyndafræði vítt og breitt í verkum sínu, nefna má Sölku Völku: veruleikinn er að sönnu á Óseyri en til er annar raunveruleiki sem er „veruleikinn bak við veruleikann“.((Halldór Laxness, Salka Valka, 5. útg., 1991, bls. 111.)) Meðal sýnilegra áhrifa frá klausturdvöl Halldórs er dulhyggjan sem var þáttur í heimspeki og guðfræði miðalda en ekki andstæða heimspekilegrar hugsunar. Dulhyggjan gefur mörgum textum Halldórs hvort tveggja í senn: framandi blæ og andlega dýpt. Hugtök og myndlíkingar eins og „hinn hreini tónn“, „hið Eina“, „frumhreyfill veruleikans“, „veruleikinn bak við veruleikann“, „æðri heimur, bak við heiminn“, „undarlegur hljómur á bakvið alheiminn“ og fleira skylt má rekja til þeirrar hefðar sem alla tíð hefur verið sterk í kristnum klaustrum og í klassískri guðfræði og þá ekki síst í miðaldaguðfræði og kristnum miðaldabókmenntum — og í tilvistarstefnu tuttugustu aldar. Grunnur hennar er að stórum hluta platónsk og nýplatónsk heimspeki.((Gunnar Kristjánsson, Fjallræðufólkið, 2002, bls. 185.)) Það er ekki ólíklegt að áhrifin frá Stefáni frá Hvítadal og frá Halldóri Laxness, að ógleymdum Gabriel Marcel skili sér hér í síðustu og þroskuðustu ljóðum Steins Steinarr.


Í auga eilífðarinnar


Rennandi vatn,
risblár dagur,
raddlaus nótt.

Ég hef búið mér hvílu
í hálf luktu auga
eilífðarinnar.

Eins og furðuleg blóm
vaxa fjarlægar veraldir
út úr langsvæfum líkama mínum.

Ég finn myrkrið hverfast
eins og málmkynjað hjól
um möndul ljóssins.

Ég finn mótspyrnu tímans
falla máttvana
gegnum mýkt vatnsins.

Meðan eilífðin horfir
mínum óræða draumi
úr auga sínu.

(21. ljóð).

Í þessu lokaljóði Tímans og vatnsins er freistandi að lesa trúarlega merk- ingu og raunar liggur hún tiltölulega ljós fyrir. Ég hef búið mér hvílu í í hálfluktu auga / eilífðarinnar. Hér hefur skáldið með öðrum orðum búið sér hvílu í eilífðinni. Eilífðin er komin inn í myndina með jákvæðum hætti eða „jákvæðu forteikni”, í sjálfu lokaljóðinu í þessum persónulega ljóðaflokki sem markaði þáttaskil. Það væri því ekki fjarri lagi að setja Stein Steinarr í hóp þeirra skálda sem hafa ort um trú mannsins á tuttugustu öld af miklum næmleika og samið ljóð sem minnir á lofsöng á nýjum tímum, í nýjum búningi. Hugtakið eilífð kallast hér á við tímahugtakið, sterkasta tákn forgengileikans í tilvist mannsins. Nú er annað hugtak komið til sögunnar, eilífðin, sjálf ósnortin af hinum forgengilega tíma, „veruleikinn bak við veruleikann”, sem ef til vill svarar spurningu skáldsins: „Hvað táknar þá lífið…?”



Gunnar Kristjánsson

Gunnar Kristjánsson dr. theol. er fyrrum sóknarprestur í Reynivallaprestakalli og prófastur emeritus í Kjalarnessprófastsdæmi. Hann hefur sinnt rannsóknum og ritstörfum á sviði menningartengdrar guðfræði með áherslu á bókmenntir og myndlist. Lauk cand. theol. prófi frá Háskóla Íslands 1970. Mastersgráða frá Boston University 1971. Doktorsritgerð í guðfræði og bókmenntum frá Ruhr-Universität, í Þýskalandi, 1979. Stundaði framhaldsnám við Yale-háskóla 1982 og Harvard-háskóla 1987 við rannsóknir á bandarískum áhrifum á sr. Matthías Jochumsson. Bækur sem Gunnar hefur ritað eða ritað í: Gengið í guðshús (1986), skrifaði um búnað og gripi í friðuðum kirkjum Kjalarnessprófastsdæmis í ritverkinu Kirkjur Íslands, bd. 11 og 12 (2008), sá um útgáfu Vídalínspostillu 1995 ásamt öðrum og ritaði ítarlegan inngang, ritaði inngang að endurútgáfu Sálma á atómöld eftir Matthías Johannessen 1991. Árið 2002 kom bók hans Fjallræðufólkið, persónur í verkum Halldórs Laxness. 2014 kom út bók hans um Lúther og siðbótina: Marteinn Lúther – Svipmyndir úr siðbótarsögu. Hefur verið stundakennari við heimspekideild Háskóla Íslands (heimspekileg forspjallsvísindi, íslenskar bókmenntir og almennar bókmenntir), endurmenntunardeild H.Í. og guðfræðideild, einnig við Myndlista- og handíðaskóla Íslands.



Tilvísanir



Heimildaskrá

Eliot, T.S., Eyðilandið. Þýðing á The Waste Land. Sverrir Hólmarsson þýddi og sá um útgáfuna. Reykjavík 1990.
Eliot, T.S. The Waste Land and Other Poems. London 1973.
Gunnar Kristjánsson, „Um myndlist í kirkjum.“ Lesbók Morgunblaðsins 53. árg. 1978, 24. des., bls. 12–15. [Um Assy og Couturier].
Gunnar Kristjánsson, Fjallræðufólkið, um persónur í verkum Halldórs Laxness. Reykjavík 2002.
Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, Reykjavík, 2000.
Gylfi Gröndal, Steinn Steinarr, leit að ævi skálds II, Reykjavfk, 2001.
Halldór Laxness, Gjörningabók, Reykjavík 1959.
Halldór Laxness, Vefarinn mikli frá Kasmír, 7. útg., Reykjavík 1999 (1. útg.1927).
Halldór Laxness, Salka Valka, 5. útg., Reykjavík 1991.
Heimir Steinsson: „„Meðan eilífðin horfir“ — Skólaskáldið mitt” — Lesbók Morgunblaðsins, 44. tbl. 20. desember 1993, bls. 14–15.
Heimir Steinsson: „Unio mystica í ljóðum Steins Steinarr?“ Kirkjuritið 46/2 1980, bls. 130–133.
Ingi Bogi Bogason. Steinn Steinarr: Ævi og skoðanir. Reykjavík 1995.
Kristín Þórarinsdóttir, „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt”. Líf og listsköpun Steins Steinarr á tilurðarárum Tímans og vatnsins.” Skírnir 182. árg (vor 2008), bls. 42–80.
Kristján Karlsson, „Inngangur“, í: Steinn Steinarr, Kvæðasafn og greinar. Reykjavík 1964.
Marcel, Gabriel, The Philosophy of Existentialism, 12. prentun, Secausus, N.J, 1973.
Matthías Johannessen, Hugleiðingar og viðtöl, Reykjavík 1963.
Matthías Johannessen, M, Samtöl II, Reykjavík 1978.
Pax, Clyde, An Existential Approach to God: A Study of Gabriel Marcel. The Hague 1972.
Sigfús Daðason. Maðurinn og skáldið Steinn Steinarr. Reykjavík 1987.
Sigurbjörn Einarsson, Um ársins hring. Reykjavfk 1964.
Sigurður A. Magnússon, Sigurbjörn biskup, ævi og starf Reykjavík 1988.
Steinn Steinarr, Kvæðasafn og greinar. Reykjavík 1964.
Sveinn Skorri Höskuldsson. „Þegar Tíminn og vatnið varð til.“ Afmælisrit Steingríms J. Þorsteinssonar (bls. 155–195). Reykjavík 1971.
Sverrir Hólmarsson, „Eliot og Eyðilandið“, í: Eyðilandið. Þýðing á The Waste Land eftir T.S. Eliot. Sverrir Hólmarsson þýddi og sá um útgáfuna. Reykjavík 1990.
Tillich, Paul, Dynamics of Faith, New York 1957.
Tillich, Paul, Love, Power and Justice, London, Oxford, New York, 1967.
Tillich, Paul, Systematic Theology, Welwyn 1968.
Tillich, Paul, The Courage To Be, 2. útg. New, Haven, London, 2000.

Brot úr óprentuðum samtölum við Stein

eftir Matthías Johannessen. Birtist í Nýju Helgafelli, 3. árg. 1958


Þú hefur komizt yfir skaflinn, sagði Steinn Steinarr um leið og hann bauð mér inn. Ég kinkaði kolli og leit snöggt til baka: Þarna lá hann í túninu, eins og særður dreki og var ekki á því að yfirgefa hús skáldsins, að minnsta kosti ekki fyrst um sinn. Þegar ég hugsaði um skaflinn og veturinn, kom í mig einhver óhugur. Það var eins og ég væri heltekinn af einhverjum óljósum ótta; veturinn og myrkrið, og sólin gengin til viðar, en við sitjandi í lítilli stofu, hlustandi á skáldið í þögninni. Það var aftur hlýtt og notalegt, og Halldór Þorbjörnsson fulltrúi sakadómara tekur upp koníakspela. Þeir skála. Ásthildur kemur inn með kaffi: Hefur nokkur verið kærður fyrir að stela öskutunnu? spyr hún „sakadómarann“. — Það er nýbúið að stela tunnunni okkar, bætir hún við. „Sakadómarinn“ hristir höfuðið og lítur síðan a skáldið og bíður.

— Já mikið helvíti var það skrítið, sagði skáldið, að þeir skyldu nenna að stela öskutunnunni. En hún var nýmáluð og þeim hefur fundizt hún falleg. En ég ætla ekki að kaupa aðra, onei — dettur það ekki í hug, fyrst þær eru ekki greiddar niður af ríkissjóði. Ég er bóndi og kaupi ekki annað en það sem er niðurgreitt. En öskutunnur eru bráðnauðsynlegar og það er eins og sumir hafi aldrei nóg af þeim.

Hann strauk kettinum, kveikti í sígarettu og sagði svo:
— Það er undarlegt, hvað maður getur vanizt rottum. Ég bjó einu sinni í litlu herbergi, það var fyrir mörgum árum og ég átti ekkert nema borð og bókaskáp. Herbergið var fullt af rottum, stórum og smáum rottum, og stundum klifruðu þær upp á bókaskápinn og duttu niður á mig, þar sem ég lá í rúminu. Mér var lítið um þær gefið, en það er skrítið í þeim hljóðið og merkilegt, hvað það getur verið fallega lyriskt. Samt fékk ég mér rottueitur og setti það í skál á borðinu. Ég man það nú ekki, en held það hafi borið einhvern árangur. Hitt var merkilegra, að Ásmundur frá Skúfsstöðum fékk sér vænan mola af því, þegar hann kom einhvern tíma í heimsókn. Það var von, þetta var eins og lagkaka, ágætt á bragðið, en undarlegt að honum skyldi ekkert verða meint af því.

Þetta var góð byrjun fannst okkur. Páll Hafstað fór nú að minnast á stjórnmál, enda var Steinn nýkominn úr frægri heimsókn sinni til Sovétríkjanna. Steinn talaði gjarna um Rússlandsförina og fór ekki dult með skoðanir sínar. Honum þótti gaman, þegar honum tókst að espa menn upp á móti „stórveldapólitík“ sinni og talaði þá eins og sá, sem valdið hefur: — Það er skrítið, en Rússar kunna ekki að byggja hús. Þeir hafa ekki frekar vit á byggingarlist en lélegur smalahundur í Flóanum. Þetta eru tómar blúnduhallir, óskaplega ómerkilegar. Bolsivíkar hljóta að vera bæði fífl og ofbeldismenn. Þetta er eins og Hornstrendingur fengi sendan emeleraðan kopp og stillti honum upp a stofuborði. Það er alveg óskaplegt. Annars ætla þeir víst að reyna að lagfæra þetta eitthvað: Krúsjev segist vera á móti sykurhöllum og ég las það fyrir skömmu, að hann hefði sagt við óánægða arkitekta, sem vildu láta endurskoða byggingarstefnu ríkisins: — Verið þið bara rólegir, piltar mínir, þetta hrynur allt saman einn góðan veðurdag. Það var gott hjá honum, finnst ykkur það ekki? Krúsjev er ágætur maður og veit, hvað hann syngur. Það er vafalaust rétt hjá honum, að þetta er eina lausnin. — Einhver bezti maður, sem ég hef hitt, er þjóðskáld þeirra Grúsíumanna; frábær gestgafi, sómasamlegur drykkjumaður og góður ræðumaður. Hann flutti margar ágætar ræður. En hann skildi ekki rússnesku. Því lenti það í hálfgerðu stímabraki, þegar Hallgrímur Jónasson fararstjóri ætlaði með miklum hátíðleik að skýra honum frá efni vísunnar „Yfir kaldan eyðisand“. Ég þýddi vísuna á dönsku, svo var hún þýdd á rússnesku og armenisku og loks á grúsisku og þá skyldi karlinn vísuna og hafði gaman af. Hann er nefnilega ágætt rímnaskáld.

Nú var hlé á frásögninni, því að kötturinn var farinn að trufla húsbónda sinn með mjálmi og ólátum. Hann var settur fram í eldhús og lokaður inni: „sakadómaranum“ létti, því honum hafði aldrei verið neitt um bölvaðan köttinn gefið: Hann lyfti glasi og leit á skáldið, þegar hann kom aftur inn í stofuna og settist: — Það var árið 1934, sagði Steinn, og brosti með öllu andlitinu. Hann hafði verið spurður um það hvenær hann hefði sagt skilið við Kommúnistaflokk Íslands. — Annars sagði ég ekki beint skilið við hann, bætti hann við, því ég var rekinn úr flokknum með mikilli skömm. Ætli ég muni það ekki, Sella B 5 hét hún víst, og það var ákaflega leiðinlegt að vera í henni. Þegar ég var rekinn, var líka samþykkt síðasta aðvörun til Einars Olgeirssonar. Mál hans var tekið fyrir á undan mínu, svo ég mátti greiða atkvæði. Dýrleif Árnadóttir var formaður sellunnar og þegar atkvæði voru greidd um Einar, laumaði hún hendinni upp í loftið, svo lítið bar á. Og hún grét. En þegar kom að mér, rétti hún höndina upp af miklum myndugleik, aldrei ákveðnari á ævi sinni. Þegar samþykkt hafði verið að reka mig, stóð ég upp og hélt ræðu. Ég sagði, að allir viðstaddir væru þorparar og illmenni. Þá skifti það engum togum, að séra Gunnar Benediktsson og Dýrleif ráðast á mig og hrinda mér niður brattan stiga, sem þarna var. Ég marðist á baki, en slapp að öðru leyti ómeiddur á sál og líkama úr þessum hildarleik. Þó hafði þetta þær óþægilegu afleiðingar, að mér hefur alltaf síðar staðið ógn af háum stigum, hugsa mig um tvisvar áður en ég legg í þá.

Nú glottir skáldið: — Svona var þetta og þó var það skemmtilegasta eftir. Þetta var allt saman herfilegur misskilningur. Það var ekki ætlunin að reka nokkurn mann, en Jens Pigved, sem átti að sækja „línuna“ til Moskvu, lenti á viku fylliríi í Vestmannaeyjum og kom of seint. Nokkru síðar var mér boðið að ganga aftur í flokkinn, en sagði þá af eintómu stolti: Nei, takk. Síðan hef ég aldrei gengið í neinn flokk. — Ojá, þetta voru erfiðir tímar og maður var fátækur, og sannleikurinn var sá, að það kom sér vel fyrir mig að losna úr sellunni, því að það var alltaf verið að skjóta saman í bollapör handa einhverjum fátæklingi, sem þarna var og Bergsteinn hét. Ég gaf tvisvar 25 aura, sem var mikil upphæð í þá daga, en ekki held ég Bergsteinn hafi fengið bollana, því að hann lenti á Kleppi litlu síðar. Ég ætti að vita það, hitti hann einu sinni, þar sem hann var að rjátla um nágrennið. Ég gekk til hans og fór að tala um veðrið, en hann sagði aldrei annað en þessa vafasömu setningu: Skáldið er komið, skáldið er komið. Það var alveg sama, hvað ég talaði um, ég fékk aldrei annað svar. Hann hélt ég væri kominn á Klepp, hann var ekki svo vitlaus…

Og nóttin leið og reykjarmökkurinn lá eins og skýjaflóki yfir herberginu. Þegar við stóðum upp til að kveðja, tók skáldið upp gamlan virðulegan staf og sýndi okkur: — Þetta er stafur Guðbrands Jónssonar, sagði hann. Ég keypti hann á uppboði fyrir 500 krónur. Þótti það vissara. Það er harður viður í honum og einu sinni barði Brandur mig með stafnum.

Við kvöddum og gengum út. Ég vona, að þið týnist ekki í skaflinum, sagði skáldið, en við gengum út í morguninn og heilsuðum sólinni, sem kom brosandi á móti okkur á gulum skóm.


II


Þegar ég heimsótti Stein Steinarr nokkru síðar, var ég einn á ferð og kom gagngert í þeim erindum að hafa viðtal við skáldið: — Þetta er eiginlega mikill misskilningur, sagði hann, þegar við gengum inn í stofuna, ég ætti miklu fremur að eiga viðtal við þig. Ég mundi skrifa ágætt viðtal. Ég sagði honum, að ég efaðist ekki um það, en við yrðum að láta það bíða síns tíma: — Ja, ég er nú að verða gamall, svaraði Steinn þá.
— Hvað gamall ertu?
— Ég er víst orðinn 48 ára.
— Nú ekki meira.
— Finnst þér það ekki nóg. Maður er orðinn fimmtugur áður en varir. Ásthildur er meira að segja byrjuð að baka. Hún tók sér eiginlega frí í kvöld, því Petrína Jakobsson ætlaði að ræða um launamál „opinberra“ kvenna á fundi. Hér verður enginn maður, hingað kemur eiginlega aldrei neinn.

Þegar ég hitti skáldið að máli þetta kvöld, voru aðeins liðnir nokkrir dagar, frá því að hann hafði sagt okkur af lagkökunni hans Ásmundar og blúnduhöllum Krúsjevs. En það hafði margt breytzt, það var komið vor, drekinn lá í blóði sínu í túni skáldsins, tvær tíkur léku á tröppunum. Það var ljós í hænsnakofanum.

— Já, hvenær ég byrjaði að yrkja? sagði Steinn, þegar við vorum setztir. Það var einmitt árið, sem þú fæddist. Það var 1930. Þá kom andinn allt í einu yfir mig, en ég ætla ekki að segja þér, hvar fyrsta kvæðið mitt birtist — onei, það mundi ég aldrei gera, kemur ekki til mála. En heyrðu annars, þetta er víst ekki alveg rétt hjá mér, ég man vel eftir mínu fyrsta kvæði og ég skal segja þér meira um það, ef þú villt. Eg var í far- skóla í sveitinni og Jóhannes úr Kötlum var kennari minn. Hann gegndi því virðulega embætti marga vetur. Hann var alltaf að yrkja sjálfur, eins og allir vita, og það hafði þau áhrif á mig, að ég fór auðvitað að yrkja líka. Ég afhenti honum fyrsta kvæðið uppskrifað, viltu heyra meira um það?
— Já.
— Efnið er gleymt, en ég man vel hvað kvæðið hét. Það hét „Skemmtanalífið í helvíti“. Og enn hristir Jóhannes höfuðið, þegar ég minnist á kvæðið við hann. Hann segist að vísu ekki vilja úttala sig um það, en kveðst munu nota það á mig, þó seinna verði.
— Um sveitina? Þú vilt fá að vita meira um hana. Þetta var ágæt sveit. Og ágætis fólk, lauslátt, alvörulaust og bláfátækt. Og svo voru þarna tveir menn, sem gerðu allt dálítið órólegt, Jóhannes og Stefán frá Hvítadal. Við Stefán urðum snemma góðir kunningjar, þótt ég væri þetta yngri og hann var alltaf ákaflega almennilegur við mig. Þegar ég hitti hann síðast, skömmu áður en hann dó, höfðu birzt eftir mig þrjú kvæði í einhverju tímariti og Stefán hafði séð þau og virtist ánægður. Ég man hann sagði við mig: Ég vissi það alltaf, að það býr eitthvað í þér, hvað sem helvítis karlarnir segja. En svo bætti hann nefnilega einu við: En mikill bölvaður bjáni gaztu verið að hafa þau svona mörg! Það var nokkuð gott hjá honum. Hann kunni sitt fag. Stefán bóndi gat talað svo um algengustu hluti við fólk, að það gleymdi þeim aldrei. Hann gat sagt frá af svo mikilli kúnst, að fólk tárfeldi yfir sögum hans. Það var alveg ótrúlegt. En hann þótti alltaf hættulegur maður, hættulegur móralnum og friðnum í sveitinni. Hann var merkismaður og eitt af okkar fínustu skáldum á þessari öld. — En nú ætlarðu að fara að tala um minn eigin skáldskap. Það kemur ekki til mála. Ég hef aldrei tekið hann alvarlega, ég hef aldrei ort af ástríðu. Það væri miklu nær að tala um önnur skáld eða kreppuárin, þú getur spurt mig eitthvað um þau. Svo geturðu líka talað við mig um skáldastyrk. Ég hef alltaf verið í sama flokki og Elínborg, ég mundi ekki kunna við mig í öðrum flokki. Þegar ég fékk skáldalaun í fyrsta skifti 1935, var varpað hlutkesti um það, hvort okkar Elínborgar skyldi hljóta styrkinn. Ég vann, en átti það alls ekki skilið.

— Hvort ég hafi ekki orðið fyrir aðkasti á kreppuárunum? Onei — ég hef aldrei vitað til þess að menn hefðu neitt á móti mér. Ég hef ekkert sótt til þjóðfélagsins og mér vitanlega hefur það aldrei sótt neitt til mín. En við erum góðir kunningjar samt. — Þó held ég, að skáld og listamenn séu ævinlega dálítið illa séðir, að minnsta kosti fyrst framan af. Þannig var það í mínu ungdæmi, það er rétt. Við vorum dálítið illa séðir. Og á ég að segja þér eitt, ég held ég viti hvers vegna: Þetta er eiginlega fjölskylduvandamál, skáld eru að vísu menn, en allra manna aumastir, geta ekki neitt, kunna ekki neitt. Fröding hefur lýst þessu snilldarlega í „Draumamanninum“. Æ, hvernig er það nú? Ég er víst búinn að gleyma því, get aldrei lært neitt utanbókar. En við vorum að tala um kreppuárin. Við sem þá vorum ungir, vorum miklir hugsjónamenn, eins og ungir menn eiga að vera. Nei, það kom ekkert „Rauðum pennum“ við. Þeir höfðu engin áhrif á mig. En ég held við höfum verið í nánara sambandi við þjóðfélagshræringar tímabilsins en ungt fólk nú á dögum og þær hafi haft meiri áhrif á okkur. Þegar Hitler var að taka við völdum veturinn 1933, kom okkur aldrei dúr á auga. Við settum upp ímyndaðan front á móti honum og okkar menn Thalmann, Neumann og hvað þeir nú hétu, báru sigur úr býtum. Og þegar Spánarstyrjöldin skall á vorið 1936, vildum við gjarna fara til Spánar, þessa fagra umkomu- lausa lands, og berjast með öðrum sjálfboðaliðum, en áttum ekki fyrir fargjöldum; áttum sem sagt ekki peninga til að fórna lífinu og deyja hetjudauða fyrir hugsjónir okkar. Þetta voru erfiðir tímar — og afskaplega slæmar fjárreiður, eða finnst þér það ekki?

— En þú ert að spyrja um líðan mína. Mér leið aldrei illa. Af einhverjum dularfullum ástæðum hafa svokallaðar líkamlegar þarfir mínar komið af sjálfu sér. Ég veit ekki hvað veldur því, ég hef aldrei hugsað um það. Ég hef ævinlega haft nóga peninga. Suma vantar alltaf allt, en aðra skortir aldrei neitt, en samt eru þeir jafnilla staddir. Það er eins og sumir menn séu jafnfátækir, hvað mikla peninga, sem þeir eiga.

— En segðu mér eitt, Steinn, stjórnmálabaráttan hefur verið ákaflega hörð á þessum árum.
— Já, ákaflega hörð, eins og alltaf á kreppuárum. Ég man vel eftir því, þegar borgarastyrjöldin á Spáni hófst. Ég var á gangi niðri í miðbæ að morgni dags. Þá sá ég marga verkamenn lesa Morgunblaðið og þeir voru afskaplega glaðir og upprifnir yfir þessum fréttum. Þegar ég gekk fram hjá, heyrði ég þá segja: Svona á að taka þá, þessa fanta! Þeir voru nefnilega á móti ríkisstjórninni, ástandið erfitt og atvinnuleysi. Á þessum árum var kommúnisminn að koma upp með miklum harmkvælum, og átti undir högg að sækja. Andstæðingar hans kölluðu mig kommúnista í tíma og ótíma, en í augum þeirra sjálfra var ég oftast hálfgerður nazisti. Ég hygg þó, að þeir hafi reiknað með mér sem kjósanda fyrst í stað, en nú lengi hafa þeir ekki haft mig á sinni kjörskrá. Þeim hefur til dæmis ekki dottið í hug að borga undir mig bíl á kjörstað. — Annars er mér vel við marga kommúnista og sumir þeirra eru mínir beztu vinir. Til dæmis fór alltaf mjög vel á með okkur Brynjólfi Bjarnarsyni. Ágætur maður Brynjólfur og stórgáfaður. Ég held jafnvel, að liann sé með beztu mönnum, sem ég hef kynnzt. Eins og þú veizt, var ég víst kaþólskur að nafninu til, fyrst eftir að ég kom til Reykjavíkur. Ojú, það var Stefán… Hann hefur ætlað að bæta mig, en þú veizt, hvernig það fór. Auðvitað kom að því, að ég glataði þessari ágætu trú, og mér leið óskaplega illa, fannst ég hafa svikið einhvern, ráfaði eirðarlaus um bæinn og fór loksins heim til Brynjólfs, eins og hver annar auðnulaus maður, spurði hvort hann gæti ekki gert eitthvað fyrir mig. Svo leysti ég frá skjóðunni og hann hlustaði. Eftir góða stund, segir Brynjólfur: Má ég ekki bjóða þér ýsu? Það var gott hjá honum, finnst þér það ekki? En nú er þetta allt breytt, Brynjólfur kom inn í andatrúna og framsókn kommúnismans liðin hjá.

Þegar hér var komið sögu, birtist frúin í dyrunum og var varla komin inn, þegar Steinn spurði: — Þú hefur ekki verið kosin í neinar nefndir? Hún brosti og svaraði spurningu skáldsins neitandi um leið og hún spurði um hæl: — Þú hefur ekki gefið hænsnunum vatn?
— Nei, svaraði hann, ætli þau sofi ekki. Svo sneri hann sér að mér og sagði snöggt: — Þú varst eitthvað að spyrja um Unuhús. Ojú, ég þekkti Erlend mæta vel. Hann var ef til vill merkilegasti maður, sem ég hef kynnzt. Samt hefur mér aldrei dottið í hug að yrkja um hann; ég hef ekki viljað móðga Erlend dauðan.

Ég spurði um „Tímann og vatnið“.
— Það er engin formbylting í þessum kvæðum. „Tíminn og vatnið“ er eins og þú veizt sjálfur, varieraðar terzínur. Það er ákaflega gamalt form og þrælklassískt. Terzínurnar í „Tímanum og vatninu“ eru ekki alltaf reglulegar, það er öll formbyltingin. Ljóðaflokkurinn í heild er upphaflega hugsaður sem ballett, byggður á goð- og helgisögnum. Jú, það var nú meiningin, hvað sem þú segir. Eitt kvæðið studdist t. d. við Vedabækurnar, annað við sagnir um Parsival og Graal:

Gagnsæjum vængjum
flýgur vatnið til baka
gegn viðnámi sínu.

Hið rauðgula hnoða,
sem rennur á undan mér,
fylgir engri átt.

Handan blóðþyrstra vara
hins brennandi efnis
vex blóm dauðans.

Á hornréttum fleti
milli hringsins og keilunnar
vex hið hvíta blóm dauðans.

— og enn annað við för Odysseifs:

Vatn, sem rennur
um rauðanótt
út í hyldjúpt haf.

Í dul þína risti
mín dökkbrýnda gleði
sinn ókunna upphafsstaf.

Og sorg mín
glitraði á grunnsævi
eins og gult raf.

Annars er mér alveg sama um minn svokallaða skáldskap. Ég ber enga virðingu fyrir honum; ég veit, að eitt kvæða minna er verra en annað, það er allt og sumt. Ég hef aldrei verið skáld. Ég hef aldrei haft ástríðu til að yrkja, en mér er nauðsynlegt að geta sofnað á kvöldin og í stað þess að lesa reyfara fór ég að raða saman orðum. Sá sem nennti að athuga mín kvæði, gæti auðveldlega séð, að þau eru öll ort milli svefns og vöku. En það kemur engum við.



Matthías Johannessen

Matthías Johannessen (F. 3. janúar 1930) er ljóðskáld og rithöfundur. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu meðfram háskólanámi og síðar ritstjóri þess á árunum 1959–2000. Fyrsta ljóðabók Matthíasar Borgin hló kom út árið 1958 og vakti töluverða athygli. Síðan hefur hann gefið út tugi ljóðabóka, auk fræðibóka, skáldsagna, smásagnasafna, leikrita og viðtalsbóka.

Steinn Steinarr

Minningarorð eftir Halldór Kiljan Laxness. 5. júní 1958 — Nýi Tíminn


Í gestaboðinu sem stóð í Unuhúsi meðan Erlendur Guðmundsson lifði var æfinlega siður að bera á borð einum fleiri bolla en gestir voru kríngum borðið, — það er bollinn handa ókomna gestinum, sagði Erlendur; en við hin kölluðum þetta bolla guðs. Úr þessum bolla drakk Steinn Steinarr oftar en flestir menn.

Uppúr 1930 fóru að verða fleiri þau kvöldin, að ókunnur gestur kæmi innum eldhúsið og tæki sér sæti við borðið; því hélt áfram uns maður þessi var orðinn þar sjálfsagðastur heimagángur. Þessi gestur var í fátækara lagi að útgángi samanborið við aðra gesti, og var þó fátt ríkra manna þar á ferð. Hann var einn þeirra ágætu manna sem ekki hafði neinn status í lífinu, utan hvað hann hét þessu merkilega nafni sem minnti á grjót og enn grjót.

Hvaðan hann kom eða hvert hann ætlaði vissu menn ekki gjörla, enda ekki siður að spyrja slíks í þeim stað; störf hafði hann ekki með höndum svo menn vissu og ég hygg að hann hafi ekki heldur átt neinsstaðar heima. Þetta var lágur maður og visinn á honum annar handleggurinn, en eygður flestum mönnum betur og gáfulegur á uppandlitið, allra manna hárprúðastur. Þegar hann rétti út höndina sást að hún var í laginu eins og hrafnsvængur á flugi: ystu broddar á vængfjöðrum fljúgandi hrafns eru einsog beygðir uppávið.

Þessi maður var yst fata klæddur gömlum þykkum frakka sem hann fór ekki úr undir borðum, og var kraginn uppbrettur en stærðar trefill um hálsinn. Þessi gestur þótti einatt kaldranalegur í svörum um menn og málefni. Ekki held ég að hann hafi verið alskostar við skap þeirra manna flestra er þar voru gestir. En svo sagði Steinn mér síðar, að á öllum sínum gaddhestaárum, meðan hann var daglegur kvöldgestur í Unuhúsi, hefði það aldrei komið fyrir í nokkurt skifti, að Erlendur hefði tekið sér öðruvísi en siður er að heilsa sönnum stórhöfðíngja sem fáir eiga þess kost að heilsa nema einu sinni á ævinni; hefði hann jafnan boðið sig velkominn, beint til sín máli og loks fylgt sér útá hlaðhelluna og þakkað sér fyrir komuna innvirðulega, þegar hann gekk út síðastur gesta uppúr miðnætti. Nokkrir munu enn vera til, sem kunnugir voru í þessu húsi, og geta borið um að Erlendur leit aldrei á Stein öðruvísi en einhvern mesta ágætismann sem þá væri uppi á Íslandi, einkum þó á þeim árum er Steinn átti formælendur fá og margir þóttust þess umkomnir að hnýta í hann.

Það heyrði ég Stein segja að Erlendur hefði verið sér meiri ráðgáta og tíðara umhugsunarefni en flestir menn sem hann hefði kynst fyrr og síðar. Ekki kom það flatt upp á Erlend þegar það varð bert af fyrstu ljóðabók hins ókunna dularfulla gests, árið 1933, að þar var kominn á vettváng ljóðasmiður svo slýngur að telja mátti á fingrum annarrar handar þá skáldmærínga á landinu, sem stóðu honum jafnfætis.

Ég held Steinn Steinarr hafi verið einna skarpastur maður að greind sem ég hef kynst og fljótastur að skilja þá hluti sem hann vildi. Þegar hann kom að vestan kunni hann að yrkja eins vel og þá var yfirleitt ort á Íslandi. En næmi hans gerði hann á skemmri tíma aðnjótanda þeirra hugmynda sem þá voru nýastar og fáheyrðastar en flesta menn, svo að lángskólageingnir menn virtust oft heimskir sem þussar í viðræðu við hann; það var ótrúlegt hvað þessi maður gat fundið á sér.

Kröfuharðar gáfur hans leituðu persónulegrar lausnar á ráðgátum tímans og báru hann burt af troðnum brautum. Fornar niðurstöður, hefð og geymd í efni og formi, urðu honum æ minni fullnægja. Hann barst með náttúrlegum hætti, samkvæmt gáfum sínum, á brattar leiðir sem almenníngi þóttu ekki auðkleifar né fýsilegar. En þær útsýnir sem hann lauk mönnum upp í skáldskap sínum urðu mörgum gáfuðum fullhugum að fordæmi og uppörvun og fyrirheiti stórra hluta.

Heimur Steins Steinars er býr í ljóði hans mun verða síðari mönnum umhugsunarefni. Heimspeki hans er sérstök og á rætur sínar í lyndiseinkunn hans og örlögum, þó eru sumir drættir hennar nær tímanum sem við lifum á en flest sem hugsað hefur verið á íslensku þessi árin. Það var vel til fundið af prestinum sem mælti yfir moldum Steins í gær í Fossvogi, er hann kaus sér texta úr Jobsbók til að auka mönnum skilníng á þessu skáldi. Einnig hefði mátt benda á Hallgrím Pétursson og þau önnur skáld íslensk sem af hvað mestri snild útmáluðu fallvaltleik heimsins og kunnað hafa að yrkja andlátssálma rétt.

Í kulda og myrkri ég kvað og ég baðst ekki vægðar,
og kvæðið var gjöf mín til lífsins, sem vera ber.
Ég veit hún er lítil, og þó var hún aldrei til þægðar
þeim sem með völdin fóru á landi hér.

Karlmennskuhug, þrjósku, ósáttfýsi við heiminn, óbilgirni eins og presturinn sagði í gær, þessa eiginleika átti Steinn í ríkara mæli en flestir menn, auk snildarinnar. Af hans dæmi munu úng skáld læra að standa sig í lífinu; og sömuleiðis að deya.
Hann hafði það af að verða á móti öllum heimsveldunum og dó glaður.

H. K. L.



Halldór Kiljan Laxness

Halldór Kiljan Laxness (F. 23. apríl 1902. D. 8. febrúar 1998) var íslenskur rithöfundur og skáld, jafnan talinn einn helsti íslenski rithöfundurinn á 20. öld. Hann byrjaði snemma að lesa bækur og skrifa sögur, og þegar hann var 13 ára gamall fékk hann sína fyrstu grein birta í Morgunblaðinu undir nafninu H.G., og ekki löngu síðar, þá 14 ára gamall, birti hann grein í sama blaði undir sínu eigin nafni H. Guðjónsson frá Laxnesi. Á ferli sínum skrifaði Halldór skáldsögur, smásögur, margar blaðagreinar, samdi ljóð, leikrit, þýddi bækur yfir á íslensku og fleira. Halldór hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1955.