Um skáldskap Steins
Í ævi Steins Steinarr persónugerast á öfgakenndan hátt samfélagslegar og hugmyndalegar umbreytingar íslensks samfélags á fyrri helmingi 20. aldar. Hann var kominn af bláfátæku bændafólki, en var undir lok ævi sinnar talinn helsta skáld módernismans hér á landi. Hann var í fararbroddi þeirra sem ruddu nútímanum braut í íslenskri ljóðagerð um miðja 20. öld en orti einnig í hefðbundnu formi. Steinn var baráttuskáld, hann braust til mennta og tókst ýmist á við fjandsamlega eða vinsamlega, en oft óskiljanlega, tilveru. Ljóð hans endurspegla pólitíska, trúarlega og tilvistarlega baráttu, sjónarhornið er sjálfhverft og niðurstaðan oft óræð. Ljóð Steins teljast nú sígild og mikilvægur þáttur í íslenskri bókmenntasögu. Sumir telja hann hafa verið undir áhrifum frá T.S. Eliot, einkum The Waste Land. Aðrir nefna áhrif frá súrrealisma.
Tíminn og vatnið
Tíminn og vatnið fól í sér stökkbreytingu í íslenskri ljóðlist og hafði víðtæk og varanleg áhrif. Ljóðin minna á abstraktmyndir, línur, liti og form en ekki hlutveruleika. Hvorki bölsýni né heimshryggð í klassískum skilningi vakir fyrir skáldinu í þessum ljóðum, miklu fremur tómleiki sem túlkaður er á æðrulausan hátt. Sjálfur sagði Steinn í miðnætursamtali við Matthías Johannessen að Tíminn og vatnið væri mjög misskilin eða óskilin bók. Hann hafi upphaflega hugsað þennan ljóðaflokk sem texta að ballett í nánum tengslum við ákveðnar helgisagnir og þjóðsögur. Þetta virðist enginn hafa gert sér ljóst og sennilega ekki heldur hann sjálfur.
Það vex eitt blóm fyrir vestan
Steinn Steinarr fæddist að Laugalandi í Nauteyrarhreppi við Ísafjarðardjúp þann 13. október 1908. Foreldrar hans voru Etelríður Pálsdóttir frá Bæjum á Snæfjallaströnd og Kristmundur Guðmundsson frá Bessatungu í Saurbæ í Dalasýslu. Sveinninn ungi var skírður Aðalsteinn og var jafnan kallaður Alli í æsku.
Etelríður og Kristmundur eignuðust fjögur börn auk Aðalsteins; þau Steinunni, Hjört, Valborgu og Láru. Þeim hjónum varð um megn að framfleyta fjölskyldunni og fóru á hreppinn. Voru þau flutt hreppaflutningum árið 1910 ásamt þremur af fimm börnum sínum í fæðingarsveit föðurins, Saurbæjarhrepp, og fjölskyldan sundraðist. Hjörtur varð eftir á Laugalandi. Elsta dóttirin Lára, var send heilsuveil til Ísafjarðar þar sem hún lést átta ára gömul. Aðalsteinn Kristmundsson var því fluttur hreppaflutningum úr Ísafjarðardjúpi í Dalina tveggja ára gamall. Hann var í Bessatungu til sex ára aldurs, en var eftir það í Miklagarði hjá Kristínu Tómasdóttur sem hann kallaði jafnan fóstru sína.
Í Miklagarði — fyrstu kynni af skáldskap
Stefán skáld frá Hvítadal gerðist bóndi í Bessatungu árið 1919 og kom þá oft að Miklagarði. Stefán átti að baki þriggja ára dvöl í Noregi og varð landsþekkt skáld þegar hann gaf út ljóðabók sína, Söngva förumannsins árið 1918. Í heimasveitinni var Stefán hinsvegar ekki í miklum metum, en þótti eflaust forvitnilegt fyrir ungan pilt að fá heimsóknir frá slíkum manni. Staðfest er að drengurinn Alli heimsótti Stefán í Bessatungu. Etelríður móðir Steins, var vinnukona á ýmsum bæjum í Saurbæ og hitti bæði son sinn og Stefán öðru hverju. Hún sagði að Stefán hafi haft mikið álit á þessum dreng, ekki þó sem verkamanni, því Steinn var ekki hneigður fyrir vinnu. Löngu síðar heimsótti Steinn skáldið í sveitina, en minnist hvergi á skáldskap hans, enda tilheyrði hann líkast til annarri bylgjulengd en Steinn var móttækilegur fyrir.
Í viðtali sem birt var í Nýju Helgafelli 1958 segir Steinn frá því að þegar hann hitti Stefán frá Hvítadal síðast, skömmu áður en hann dó í mars árið 1933, og hafði Steinn þá nýlega fengið birt eftir sig þrjú kvæði í tímariti. Stefán mun hafa lesið kvæðin og sagt:
Ég vissi það alltaf, að það býr eitthvað í þér, hvað sem helvítis karlarnir segja. En mikill bölvaður bjáni gastu verið að hafa þau svona mörg!
Námsár í Saurbæ — hjá Jóhannesi úr Kötlum
Jóhannes úr Kötlum var farkennari í Saurbænum og kenndi Steini um tíma. Steinn segir síðar um kynni þeirra:
Þegar ég var barn að aldri, var hann til þess fenginn að troða inn í mig einhvers konar undirstöðuatriðum menntunarinnar. Þetta gekk ekki mjög vel og varð okkur báðum til sárra leiðinda.
Og leiðindin virðast hafa enst hjá Steini fram eftir aldri:
Það gekk meira að segja svo langt, að ég barði hann.
Jóhannes skrifar síðar um fyrstu kynni þeirra:
Hann var níu árum yngri en ég, bjartur mjög yfirlitum, hárið sem glóandi silki. Nokkurs andófs kenndi í svipnum meðan hann var að þreifa fyrir sér um tilverurök þessa ókunna manns – stundum skutust gráglettnir demónar um augu og nef. En strax að kvöldi fyrsta dags vorum við orðnir mátar.
Sigfús Daðason taldi að ekki hafi verið trútt um að nemandinn hefði nokkra tilburði til að stríða meistaranum. Skapgerð þeirra hafi verið of ólík til að hinn yngri gæti lært mikið af hinum eldri fram yfir lögboðnar skólagreinar. Jóhannes var þá þegar byrjaður að yrkja en ýmist fullyrðir Steinn að það hafi ekki vakið með sér neina skáldadrauma eða hann segir Jóhannes beinlínis hafa stuðlað að því að hann fór að yrkja:
Ég hafði enga náttúru til kveðskapar, en einu sinni þegar ég var innan við fermingu skipaði Jóhannes mér að yrkja kvæði (ég held helzt í hegningarskyni fyrir einhver ótímabær slagsmál). Þá settist ég niður og orti mitt fyrsta ljóð. Það hét „Hinir fordæmdu“ og fjallaði um skemmtanalífið í Helvíti. Aldrei hefur Jóhannes minnzt á það kvæði, hvorki fyrr né síðar.
Undir handleiðslu Jóhannesar skrifaði Steinn ritgerð um haustið: „Haustið var búið að setja sinn föla svip í Náttúrunnar ríki, túnin orðin fölbleik eins og ásjóna deyjandi manns…“
Fyrstu skáldskapartilraunir
Fóstra Steins, Kristín Tómasdóttir, mun hafa sagt honum að það væri ólánsmerki að yrkja. Ekki er ljóst hvort hún hafi verið að bregðast við skopkvæðum drengsins, en þó Steini hafi þótt vænt um fóstru sína mun hann hafa skopast að henni af og til í bundnu máli. Þegar Steinn var vinnumaður í Fagradal orti hann níðvísu um Jón Þórðarson kaupfélagsstjóra í Salthólmavík sem var að hnýta í hann fyrir aumingjaskap. Vísan var sú fyrsta eftir Stein sem varð fleyg:
Aldrei mun þitt orðagjálfur
ótta vekja í sinni mínu.
En alltaf finnst mér fjandinn sjálfur
fela sig í glotti þínu.
Steinn sagði eitt sinn í viðtali að hann hafi sem ungur maður eitt sinn hírst kalda nótt á gólfinu að Hverfisgötu 16 og upptgötvað í sér skáldskapargáfuna þegar hann kvað:
Kvenmannslaus í kulda og trekki
kúri ég volandi.
Þetta er ekki, ekki, ekki,
ekki þolandi.
Hann bætti við að síðan hafi sér alltaf verið að fara aftur í skáldskapnum.
Líklega er þó fyrsta kvæðið sem prentað var eftir Stein ávarp til Sigvalda Kaldalóns fimmtíu ára, sem prentað var í Tímanum 1. mars 1931. Kvæðið ber að vísu ekki mörg skáldskapareinkenni Steins, en er undirritað Aðalsteinn Kristmundsson.
Kvæðið Eggert Snorri, sem Steinn orti til minningar um vin sinn úr Saurbænum, birtist svo í Lögréttu 18. mars árið 1931.
Í námi að Núpi
Steinn fór sautján ára gamall haustið 1925 í skóla á Núpi við Dýrafjörð. Sumarið eftir að Steinn fermdist fór hann frá Miklagarði í vinnumennsku á nokkra bæi, fyrst að Hvoli í Saurbæ og um tíma var hann á Laugabóli við Djúp. Í skólaskýrslunni er hann skráður frá Tindum í Geiradal, Austur-Barðastrandarsýslu. Að sögn Steinunnar Guðmundsdóttur í Miklagarði áttu þeir Steinn og Steingrímur bóndi hennar ekki skap saman. Etelríður, móðir Steins, mun hafa gefið með honum seinni árin í Miklagarði og eflaust hefur hún haft eitthvað með það að segja að hann fór að vinna fyrir sér. Heimildum ber saman um að Steinn hafi ekki verið meira í Saurbæ eftir dvölina á Núpi.
Á Núpi var tveggja ára skóli með lýðháskólasniði, en Steinn var þar aðeins einn vetur. Varðveittar eru skólaskýrslur frá Núpi þegar Steinn var þar og vitna þær um meiri líkamlegar framfarir hjá honum en flestum öðrum, sem má draga af þá ályktun að hann hafi ekki notið nægilega góðs atlætis í uppvextinum. Steinn mun hafa haft hug á frekara námi á Akureyri en þær vonir brugðust þar sem hann fékk ekki til þess fjárhagslegan stuðning.
Í lausamennsku
Steinn fór vorið 1926 áleiðis suður. Hann var um skeið vinnumaður í Drápuhlíð í Helgafellssveit, svo í Grindavík í 2–3 ár, vann þar sem verkamaður og var m.a. til sjós. Hann fór einnig til vinnumennsku á æskuslóðirnar í Saurbæ, en undi þar ekki lengi. Um tíma var hann næturvörður í Reykjanesvita fyrir milligöngu Sigvalda Kaldalóns.
Árið 1930 kom Steinn til Reykjavíkur, en Steinunn systir hans bjó þar. Steinn dvaldi þó ekki mikið í Reykjavík á þessum árum. Hann var um tíma á kúabúi kaþólikka á Jófríðarstöðum í Hafnarfirði og á Blikastöðum í Mosfellssveit hjá Magnúsi bónda þar og einnig á Korpúlfsstöðum.
Ásthildur sagði síðar í viðtali að Steinn hafi veikst um það leyti sem hann var á Korpúlfsstöðum og eftir það átt erfitt með að beita öðrum handleggnum. Verkamannavinna varð honum sífellt erfiðari, en hann lét sig þó hafa það að vera í byggingavinnu við Elliðaárvirkjun og við hús Ólafs Thors. Þar var steypuvinnan svo erfið að skáldið sagðist þá hafa farið að hata Ólaf Thors. Loks var Steinn sumarið 1938 við vinnu í verksmiðjunni á Sólbakka í Önundarfirði og mun þar hafa lokið sínum verkamannsferli.
Rauður loginn brann
Árin 1930–1934 voru umbrotaár í lífi Steins. Ljóð eftir hann birtist í fyrsta sinn á prenti í Tímanum í mars 1931, Til Kaldalóns, fimmtíu ára. Hann ákvað að setjast að í Reykjavík og gekk í Kommúnistaflokkinn. Þessi ár eru eina tímabilið á ævi Steins þar sem hann tekur þátt í flokkspólitískri starfsemi. Einnig var Steinn meðal stofnenda Félags byltingarsinnaðra rithöfunda árið 1933. Tímaritið Rauðir pennar var fyrstu tvö árin gefið út af því félagi. Steinn var dæmdur fyrir „kommúnistísk ofbeldisverk“ unnin sumarið 1933. Frá því var greint í Alþýðublaðinu 27. febrúar 1935 að fimm kommúnistar hafi ráðist á hakakrossfána sem blakti við hún á húsi þýska ræðismannsins á Siglufirði og skorið hann niður. Konsúllinn kærði niðurskurð flaggsins og var Steinn ásamt félögum sínum dæmdur í tveggja og þriggja mánaða fangelsi, óskilorðsbundið.
Fangelsisdómnum mun þó aldrei hafa verið fullnægt. En hreinsanir voru tíðar meðal íslenskra kommúnista ekki síður en úti í hinum stóra heimi. Í Alþýðublaðinu 22. maí 1934 er greint frá því að fjöldi manns hafi verið rekinn úr Kommúnistaflokknum, þar á meðal Steinn.
Fyrsta ljóðabók Steins, Rauður loginn brann, kom út þetta sama ár. Þar er viðfangsefnið atvinnuleysi og kreppa og rauður litur kommúnismans endurspeglast í kvæðunum:
Ég heils´yður öreiga æska
með öreigans heróp á tungu.
Með bókinni orti hann sig frá draumórum um annað og betra stjórnarfar. Hann orti lítið um stjórnmál eftir það en sneiddi að öllum valdhöfum, jafnt í austri sem vestri.
Í Unuhúsi
Á meðal þeirra listamanna sem fluttu heim til Íslands vegna seinni heimsstyrjaldarinnar voru tvær ungar konur sem höfðu sinnt abstraktlist og numið í París, þær Louisa Matthíasdóttir og Nína Tryggvadóttir. Erlendur í Unuhúsi lagði til að Steinn sæti fyrir hjá Nínu. Í gegnum kunningsskap við hana hitti Steinn fljótlega Louisu og sat einnig fyrir hjá henni. Innan skamms voru Steinn og „stúlkurnar hans“ aðalumræðuefnið í bænum.
Árið 1943 kom út bók sem Steinn gerði samvinnu við Nínu, Tindátarnir. Eftir lát Louisu árið 2000 fannst handritið að Höllu sem þau höfðu unnið að saman og var það endurútgefið. Bókin varð sjöunda og síðasta ljóðabók Steins. Matthías Johannessen segir að Steinn yrki um Louisu í Tímanum og vatninu:
frá vitund minni
til vara þinna
er veglaust haf
og hún sé á „á gulum skóm“ sem tákn fyrir sólina og birtuna í Tímanum og vatninu. Þær Nína séu táknmyndir hins ljósa og dökka í ljóðaflokknum.
Spor í sandi — Ásthildur
Steinn kynntist Ásthildi Björnsdóttur árið 1937. Ásthildur var fædd 1917 og var prestsdóttir að norðan. Faðir hennar var séra Björn Stefánsson og móðir hennar Guðrún Ólafsdóttir, en hún lést þegar Ásthildur var aðeins ársgömul. Eftir það ólst hún upp hjá afa sínum og ömmu, séra Ólafi í Hjarðarholti og Ingibjörgu konu hans. Ásthildur fór í Menntaskólann á Akureyri og kom tvítug til Reykjavíkur árið 1937 og kynntist þá fljótlega Steini. Ásthildur sagði í viðtali við Ingu Huld Hákonardóttur að hún hafi strax orðið veik fyrir Steini, rödd hans og hvernig hann komst að orði. Steinn kom oft í heimsókn til Ásthildar og Þorbjargar systur hennar í Ingólfsstræti 6 á kvöldin og las fyrir þær úr bókum Kiljans jafnóðum og þær komu út. Steinn hafði þá nýverið gefið út Ljóð. Næstu árin gaf Steinn út Spor í sandi 1940 og Ferð án fyrirheits 1942. Þær bera annan svip en fyrsta bók hans, Rauður loginn brann. Tilvistarspeki og fallvaltleiki setja mark sitt á ljóðin.
Í stríðslok flutti Þorbjörg til útlanda og Steinn flutti inn í staðinn. Þá voru þær systur komnar í íbúð í Lækjargötu. Þar var jafnan gestkvæmt og lykillinn var geymdur undir mottunni svo kunningjar gætu komist inn. Magnús Ásgeirsson ljóðskáld og þýðandi var mikill vinur Steins og beið hann gjarnan eftir strætó í stofunni. Eitt sinn þegar þau Ásthildur og Steinn komu heim sat Magnús í stofunni og sagði eins og afsakandi:
Ég er nú bara að drekka með kettinum.
Dvalið hjá djúpu vatni
Árið 1948 kom út ljóðabókin Tíminn og vatnið. Sú bók markar þáttaskil á ferli Steins. Öll kvæðin eru stutt, sum rímuð, önnur órímuð. Efnislega flytja þau ekki rökrétt sannindi heldur óskipulegar svipmyndir, ætluð til skynjunar fremur en skilnings. Tíminn og vatnið fól í sér stökkbreytingu í íslenskri ljóðlist, hafði víðtæk og varanleg áhrif. Mönnum hefur ekki komið saman um það hvort réttara sé að líta á Tímann og vatnið sem heild eða sem safn stakra ljóða. Sveinn Skorri Höskuldsson vill líta á kvæðaflokkinn sem úrval ljóða sem Steinn orti frá því Ferð án fyrirheits kom út 1942, ekki sem fyrirfram hugsaða heild.
Túlkendur Tímans og vatnsins verða þó að hafa í huga að ljóðaflokkurinn er til í tveimur gerðum. Í sérútgáfunni eru 13 ljóð, en í útgáfunni í Ferð án fyrirheits er 21 ljóð. Þetta gerir alla túlkun erfiðari. Raunar má segja að til sé enn ein gerð, einskonar frumgerð af Tímanum og vatninu, vélrit að ljóðkveri með teikningum eftir Þorvald Skúlason, tíu kvæði og tíu myndir. Titill kversins er Dvalið hjá djúpu vatni. Það hefur ekki verið gefið út, en Ragnar í Smára gaf Ásthildi frumgerðina að Steini látnum.
Á faraldsfæti
Steinn hafði mikla útþrá og fór fyrst utan til Kaupmannahafnar 1936. Hann var í Reykjavík öll stríðsárin en 1942 hugðist hann fara til Bandaríkjanna, en þangað lágu leiðir margra listamanna á þeim árum, eins og Louisu Matthíasdóttur og Nínu Tryggvadóttur sem Steinn hafði kynnst. Umsókn Steins um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna var hinsvegar hafnað, af ókunnum orsökum. Í lok stríðsins fór Steinn í ferð til Norðurlanda og var úti í átta mánuði, einkum í Svíþjóð. Steinn fór enn utan í árslok 1946, til Kaupmannahafnar og Parísar, og kom heim í apríl.
Síðar fóru þau Ásthildur og Steinn tvívegis til Spánar um París og voru nokkra mánuði í burtu. Árið 1956 fór Steinn í sögulega ferð til Sovétríkjanna ásamt Agnari Þórðarsyni og fleiri Íslendingum. Nokkrar pólitískar deilur risu í kjölfar þessarar ferðar sem Steinn mun hafa haft mikið gaman af.
Ljóð ungra skálda
Steinn naut vaxandi virðingar fyrir skáldskap sinn eftir útgáfuna á Tímanum og vatninu og hafði hann mikil áhrif á yngri skáld. Jón Óskar, Hannes Sigfússon, Matthías Johannessen, Hannes Pétursson og Sigfús Daðason báru allir að Steinn hefði haft talsverð áhrif á hvaða stefnu skáldskapur þeirra tók, mismikil þó. Steinn hafði einna mesta mætur á Hannesi Sigfússyni og Sigfúsi Daðasyni að sögn Ásthildar Björnsdóttur. Matthías Johannessen segir að Steinn hafi valið ljóðin í fyrstu ljóðabók hans, Borgin hló. Steinn hafi verið strangur í dómum sínum um ung skáld, en verið hreinskiptinn.
Jón Óskar sagði eitt sinn frá því hvaða áhrif Steinn hafði á fyrstu ljóðabók hans, Skrifað í vindinn (1953). Steinn þrýsti á Jón að leyfa sér að sjá kvæðin:
Leyfðu mér að sjá þetta, Jón minn, ég hef dálítið vit á þessu.
Steinn mun hafa tekið eitt kvæði út úr handritinu og sagt:
Ég ráðlegg þér að taka þetta með, því ég held ég skilji það.
Hinu átti ungskáldið að sleppa. Einn skýrasti vitnisburðurinn um forystuhlutverk Steins í því að ryðja nýjum skáldskaparháttum braut var stúdentafundurinn svokallaði sem haldinn var í ársbyrjun 1952. Þar skarst í odda milli fulltrúa ljóðhefðarinnar og svokallaðra atómskálda. Þar sagði Steinn meðal annars:
…ekki er fremur hægt að endurtaka list hins liðna, en jarðarför, sama hve vel hún hefur heppnazt.
Síðustu árin
Steinn kvæntist Ásthildi Björnsdóttur árið 1948. Þegar Þorbjörg systir Ásthildar flutti úr íbúðinni í Lækjargötunni þurftu þau fljótlega að flytja þaðan út og komu sér fyrir í bragga í Kamp Knox. Þar þótti Ásthildi rúmgott og ekki óvistlegt en ógurlega kalt eins og í tjaldi. Þau áttu góða nágranna í bröggunum í kring eins og Þorvald Skúlason listmálara sem bjó þar í nokkur ár. Steinn fékk þá astma sem hann losnaði ekki við fyrr en þau fluttu þaðan. Ásthildur segir í viðtali að Steinn hafi á þessum tíma safnað gömlum bókum. Þegar Steinn seldi fornbókasafn sitt gátu þau farið til Spánar og verið þar í nokkra mánuði árið 1952. Þau Steinn og Ásthildur eignuðust svo hús í Fossvogi. Því fylgdi tún og hænsnakofi og bakhýsi sem voru leigð út. Einnig fylgdu húsinu tvær læður sem gutu þindarlaust, að sögn Ásthildar. Innan skamms voru þau komin með ellefu ketti og að auki voru þau með tík sem hafði eignast fimm hvolpa.
Eitt sinn þegar hvolparnir voru nýfæddir gisti Jóhannes úr Kötlum hjá þeim. Um morguninn á hann að hafa spurt hvaða ýlfur þetta hafi verið sem hann hafi heyrt um nóttina. Þá mun Steinn hafa svarað:
Heyrirðu ekki að þetta er alveg eins og hljóðið í sumum ljóðabókum.
Þau Steinn og Ásthildur undu sér vel í Fossvogi. Þau keyptu sér bíl haustið 1957 og ætluðu næsta vor í skemmtiferð á honum vestur í Dali, en Steinn komst aldrei í þá ferð. Hann lést úr krabbameini 25. maí 1958.