Ari Trausti Guðmundsson

Ari Trausti Guðmundsson (1948) nam við Háskóla Íslands og í Osló, með áherslu á jarðvísindi og vann m.a. við kennslu, leiðsögn og ferðaþjónustu til 1987. Eftir það var hann sjálfstætt starfandi til 2016 og t.d. sinnt ýmis konar faglegri ráðgjöf, fyrirlestrum, ferðaþjónustu, kynningu á vísindum, náttúru og umhverfismálum, ritstörfum og dagskrárgerð fyrir sjónvarp og útvarp. Stundað fjallamennsku, útivist og ferðalög, heima og heiman. Ari Trausti á að baki tugi bóka um landið, náttúruna og umhverfismál en einnig ljóðabækur, stuttsögusafn og skáldsögur. Meðal verkefna hans eru sýningar og söfn. Ari Trausti varð þingmaður fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í Alþingiskosningum 2016.

Verkamaður er að mörgu leyti mjög hefðbundið ljóð og fjarri þeim heimspekilegu nútímaljóðum Steins sem mér eru kær. Mörg hver með heillandi blöndu af óræðni og dul, en önnur ort af innsæi og þrungin mannúð eða jafnvel krydduð hæðni eða ádeilu. Ég vel Verkamann engu að síður vegna þeirra hvetjandi áhrifa sem ljóðið hafði á mig, á árunum þegar ég vaknaði til róttækni og vinstri hugsjóna. Beinskeytt og harmþrungið fannst mér það ríma við þá stéttvísi og þau gildi sem mig langaði til að geta deilt með vinnandi alþýðu fyrir tæplega hálfri öld. Ég tel allsendis óþarft að útskýra hvort eða hvernig hugsjónir mínar, verkefni og vinnubrögð hafa breyst. Vel ljóðið sem þá baráttuhvöt er þótti við hæfi og má enn gilda, að breyttu breytanda. Ólíkar ásýndir í ljóðgerð Steins eru heillandi, líka pólitíska kvæðagerðin, sett í samhengi við tíðaranda og samfélag.

Verkamaður

Hann var eins og hver annar verkamaður,
í vinnufötum og slitnum skóm.
Hann var aldrei hryggur og aldrei glaður
og átti ekki nokkurn helgidóm.
Hann vann á eyrinni alla daga,
þegar einhverja vinnu var hægt að fá,
en konan sat heima að stoppa og staga
og stugga krökkunum til og frá.

Svo varð það eitt sinn þann óra tíma,
að enga vinnu var hægt að fá.
Hver dagur varð harðsótt og hatrömm glíma
við hungurvofuna, til og frá.
Þá ólgaði hatrið sem öldur á sænum,
og auðvaldsins harðstjórum reistu þeir níð.
Og loksins kom að því þeir börðust í bænum,
um brauð handa sveltandi verkalýð.

Þann dag var hans ævi á enda runnin
og enginn veit meira um það.
Með brotinn hausinn og blóð um munninn,
og brjóst hans var sært á einum stað.
Hans fall var hljótt eins og fórn í leynum,
í fylkinguna sást hvergi skarð.
Að stríðinu búnu, á börum einum,
þeir báru hans lík upp í kirkjugarð.

Og hann var eins og hver annar verkamaður,
í vinnufötum og slitnum skóm.
Hann var aldrei hryggur og aldrei glaður
og átti ekki nokkurn helgidóm.
Engin frægðarsól eða sigurbogi
er samantengdur við minning hans.
En þeir segja, að rauðir logar logi
á leiði hins fátæka verkamanns.