Hér birtast þrjár greinar í flokknum Íslensk nútímaljóðlist eftir Jóhann Hjálmarsson sem birtust áður í Lesbók Morgunblaðsins í september 1968. Sú fyrsta þann 15. september, önnur þann 22. september og sú þriðja þann 29. september.
Án takmarks og tilgangs
Árið 1934 kveður eitt sérkennilegasta ljóðskáld þessarar aldar sér hljóðs: Steinn Steinarr, skáldið sem viljandi og óviljandi varð tákn nýjunga í bókmenntum. Þótt Steinn sé fyrir ýmissa hluta sakir hefðbundinn í viðhorfum sínum, er flestum tamt að líta á hann sem upphafsmann nútímaljóðagerðar á Íslandi. Þetta er þó ekki að öllu leyti rétt afstaða. En Steinn er að minnsta kosti uppreisnarmaðurinn. Hann gengur lengra í leit sinni að nýjum veruleik en nokkur annar. Skáldævi hans er sambærileg við listferil málara eins og Þorvalds Skúlasonar, sem gerist brautryðjandi nútímamálaralistar hérlendis, en þar skilur á milli þeirra, að Steinn leggur rækt við fleiri form en eitt í skáldskap sínum, en myndheimur Þorvalds verður æ einhliðari eftir að hann snýr baki við hinni ytri eftirlíkingu. Ef til vill sannar þessi samanburður ekki annað en það, að bókmenntirnar eru jafnan íhaldssamari en myndlistin. Fyrsta bók Steins, Rauður loginn brann, er skilgetið afkvæmi kreppuáranna. Eins og Jóhannes úr Kötlum dreymir skáldið um „nýjan heim, nýja menningu“, og eru þar komin sósíalistísk lífsviðhorf. En trú Steins á mannlegt vald er ekki jafn sterk og hjá Jóhannesi. Hann leynir ekki vonbrigðum sínum með hinn „hungraða verkalýð“, sem „skilur ekki sína eigin afstöðu til óvina sinna“. Þess vegna lætur hamn sér nægja vitundina um líf eftir dauðann:
Ef til vill betra líf,
ef til vill bjartara
og miskunnsamara
gagnvart fátœkum mönnum.
(Úr Mold).
En um leið er það ekki sagt, að ljóð Steins hafi ekki verið skilin „réttum“ skilningi samkvæmt formúlu stjórnmálabaráttunnar á sinni tíð; um afstöðu hans er raunar ekki að villast. Rauður loginn brann hefst á hvatningarljóði til öreigaæskunnar, sem á eftir því sem Steinn segir „allan heiminn að vinna“. Og það er til marks um skáldskap Steins, að hann er einna lakastur þegar hann bregður sér í gervi vandlætarans og umbótamannsins. Hin einfalda lífsmynd, sem okkur er kunn úr ljóðum Jóhannesar úr Kötlum, á ekki við Stein. Aftur á móti átti háðið eftir að verða hans bitrasta vopn, því ádeiluskáld var Steinn, þannig að fáir léku eftir.
Einna eftirminnilegust eru þau ljóð í Rauður loginn brann, sem eru tilbeiðslukennd, játningar manns, sem þrátt fyrir hina myrku tíma, hefur komist í snertingu við hamingju lífsins. Í vor, Elín Helena, Minning, og Mold eru dæmi um þetta, öll órímuð ljóð, sem sýna leikni Steins og skáldlegan þroska. Tvö fyrrnefndu ljóðin eru lík að efni. Þau fjalla bæði um stúlkur, sem eru „eins og boðskapur um betri og ríkari framtíð mannanna“ í fegurð sinni og ást; en síðarnefndu ljóðin eiga það sammerkt að vitna um tengsl manns og náttúru, þá fró, sem það veitir þreyttum göngumanni, að eiga sér minningu um liðna daga í hlýjum faðmi landsins og vissu um að hljóta að lokum „frið og hvíld“ í skauti jarðarinnar. En skáldið er ekki heilt í gleði sinni, tortryggnin er því í blóð borin og nærð af hörðum tíma. Hann efast um, að stúlkan brosmilda, sem hann sá á malbikuðu strætinu og fékk von hans til að blómstra, sé til, eða hafi nokkru sinni verið til, og í Minningu, þar sem hann rifjar upp ljúfar stundir bernsku sinnar, er hann líkt og vakinn harkalega úr draumi sínum af hinum kalda veruleika:
Ó, sál mín, sál mín.
Var það golan, sem þýtur í grasinu,
eða gjálpandi báran við ströndina,
sem bar þessa mildu óma, að eyra mínu?
Var það kaldhæðni lífsins,
sem lét mig
enn þá
nokkur augnablik gleyma
hinum gráa hversdagsleika
steinlagðra strætanna?
Var það blekking hugans,
sem huldi sjón minni
helkalda auðnina,
þar sem spor mín liggja,
þar sem líf mitt rann út í gljúpan sandinn?
„Var það blekking hugans?“, segir skáldið, og fyrr í ljóðinu standa þessar línur um minninguna:
Ó, minning.
Þú hvíslar svo hljótt, svo hljótt,
að það heyrist varla.
Í Daginn eftir eru greinileg áhrif frá Tómasi Guðmundssyni, enda verður því ekki á móti mælt að ljóðagerð Tómasar hefur haft gífurlega þýðingu fyrir mótun Steins Steinarr sem skálds. Þetta sést mönnum oft yfir, og er það einn þátturinn í því hvað mönnum er gjarnt til að líta á ljóð Tómasar sem sjálfsagðan hlut, þeirri bókmenntalegu blindu að átta sig ekki á nýjung þeirra. Reykjavíkurljóð Steins hafa að vísu annað innihald. Beiskja og umkomuleysi eru augljósir fylgifiskar þeirra. Tómas segir í ljóði sínu Húsin í bænum: „Aldraðir byggja og ungir menn kaupa lóðir og ætla sér líklega að byggja“; Steinn fjallar um þá, sem vinna verkið og segir: „Samt finnst okkur öllum launin svo lítils virði og líf okkar sjálfra svo dapurt og allt í molum“. En þrátt fyrir þetta eru niðurstöður skáldanna líkar:
En til hvers er þá að vakna og fara á fætur,
og fást við kol eða verzlun, sem illa gengur,
og hlaupa sig þreyttan í daganna fánýta flani,
þegar flestir gætu þó sofið svo miklu lengur.
(Steinn í Daginn eftir).
Já, mönnum finnst það skrítið, sem þeir ekki skilja.
Hver skilur öll þessi hús, sem í röðum liggja?
Hver skilur lífið og allar þess óbyggðu lóðir?
Og af hverju er verið að byggja?
(Tómas í Húsin í bænum).
Miðvikudagur er einnig dæmi um skólagöngu Steins hjá Tómasi. Vafalítið hafa kynni Steins af skáldskap Tómasar átt þátt í að draga úr biturleika hans; honum hefur lærst af þeim, að það er stundum viturlegra að líta sjálfum sér nær, skyggnast um í sínum innri heimi til að fá svör við áleitnum spurningum, eða að minnsta kosti efni í nýjar. Steinn ræktaði síðar með sér eigin borgarljóðastíl, enda hentaði honum ekki til lengdar hin mjög svo hófsama afstaða Tómasar til yrkisefnisins. Ljóð Steins í Rauður loginn brann eru yfirleitt beinskeytt, nakin; það er hinn hrái, miskunnarsnauði veruleiki, sem skáldið á í stríði við. Við finnum að það er statt í bráðri lífshættu, eina vopn þess er orðið, og meðan það hefur vald á því, er alltaf von um sigur, hversu slæmur, sem heimurinn reynist. Furðu mikið segir þessi fyrsta bók skáldsins okkur um það, sem koma skal.
Réttu ári fyrir seinni heimsstyrjöld gefur Steinn út næstu bók sína, Ljóð. Með þeirri bók er hann orðinn sá Steinn sem átti eftir að setja svo tilkomumikinn svip á íslenzka ljóðagerð; helstu einkenni hans sem skálds eru nú komin í ljós.
Bókin hefst á Kvæði um Krist, sem bæði að efni og formi er glæsilegur sigur ungu skáldi. Einfaldleiki ljóðsins er mikill, en um leið er það margrætt. Það leyndarmál, sem ljóðið fjallar um, er ekki sagt berum orðum; við erum ekki viss um hvort lausn þess er í raun og veru trúarlegs eðlis eða þjóðfélagsleg. Það er talað um að mennirnir verði góðir, og einnig frelsun heimsins. Börn sitja í garði „fyrir tvö þúsund árum“. Það er sterkur leikur í ljóði, að leggja „sannindi“ í munn barna, láta þau gefa fyrirheit um betri tíð.
Draumur um ljósið, er skylt Kvæði um Krist. Okkur er ekki sagt hvað ljósið táknar í ljóðinu, aðeins frá drauminum um það:
Það var eitthvað,
sem streymdi og rann
með sælutitrandi sársauka
gegn um sál okkar.
Sömu sögu er að segja um Biðina, um þá sem bíða þess, sem mun fylla líf þeirra „óþekktri angan“:
Við biðum, við biðum,
og að baki okkur reis
einhver hlæjandi ófreskja
og hrópaði:
Aldrei!
Það skeður aldrei!
Aftur á móti er Don Quijote afdráttarlaust ljóð í boðskap sínum:
Þessi auðugi maður,
sem myrðir og brennir,
og járnuðum hæl
treður jörð hinna snauðu,
hann skal falla!
Það er hann, sem er óvinur minn.
Miklu veikara ljóð er Prometheus, eins og eftir uppskrift tímans um róttæka ljóðagerð:
En fólkið skal sigra,
því ég færði því eld,
sem að eilífu brennur
í hjörtum þess:
Hatrið til kúgarans.
Ljóðin vitna þó bæði um vald skáldsins yfir yrkisefni sínu, hvernig því hefur lærst að takmarka sig, og að það stefnir að því, að þurrka út öll óþörf orð, allt það prjál, sem of oft íþyngir þjóðfélagslegum skáldskap.
Í ádeilukvæði um Stein, sem Vilhjálmur frá Skáholti orti, eitt af þeim skáldum kreppuáranna, sem fylgdi nýjum tíma í vali yrkisefna og var óvenju hreinskilinn um sjálfan sig og samtíð sína, ræðir hann tengsl Steins við Hamlet, og segir nokkuð kaldhæðnislega undir lokin:
Ég auðmjúkur spyr, því spekin hentar ei öllum:
— Á speki Shakespeares að gera út af við þig? —
Steinn yrkir einmitt ljóð til Hamlets:
Nei, Hamlet sæll, þú herra krónprins Dana!
Vér höfum fráleitt lent á réttum stað.
Vort líf var blóðugt, grimmt og gleðivana,
án gæfu og sigurs. Ekki meira um það.
En upp úr liðins tíma mold og myrkri,
þótt máð og glötuð séu öll vor spor,
gegn dagsins björtu ásýnd ungri
og styrkri rís andlit dimmt og brjálað:
Þjáning vor.
„Ó, guð, hve mig langaði stundum að vera þú“, segir Vilhjálmur frá Skáholti í fyrrnefndu kvæði um það skáld, sem var svo fundvíst á það, sem öðrum var hulið. „Brjóst mitt var fullt af söng, en hann heyrðist ekki“, yrkir Steinn í Ljóði án lags, einu þeirra ljóða skáldsins, sem ber keim af sjálfsmeðaumkvun. Ekki fer það Steini vel að barma sér, og sem betur fór kom háðið honum til hjálpar, stundum fyrirlitningin á mannlegu æði.
Það er hin sérkennilega heimspeki Steins, sem færir honum úrslitasigurinn, eða réttara sagt hvernig hann túlkar skoðun sína. Fánýtishyggja hans er í ætt við orð Prédikarans: „Allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi“. Sagnirnar ganga og stara, koma oft fyrir í ljóðum Steins, eins og til áréttingar staðfestuleysis þeirrar persónu, sem hefur fundið sér athvarf í þeim. „Steinn er í íslenzkum bókmenntum hreinræktaðasti fulltrúi efans, bölmæðinnar og um leið sjálfshyggjunnar“, segir Guðmundur Gíslason Hagalín í yfirlitsgrein sinni: íslenzk ljóðlist 1918–1944, í Almanaki Hins íslenzka þjóðvinafélags um árið 1954. En um leið og Steinn er bölsýnt skáld, er hann líka skáld vonar, eða minnsta kosti einhverrar glætu í mannlífsmyrkrinu, þótt lausn í einhverri mynd sé skáldskap hans órafjarri.
Ekki þarf að fletta lengi blöðum í ljóðabókum Steins til að finna dæmi um tómleikakennd þeirra. Ljóðið Ekkert hefur oft verið mönnum tákn lífsmyndar Steins: Gamall maður situr að kvöldlagi við gluggann, strýkur sitt þunna, gráa hár, minnist ef til vill einhvers, sem er liðið. Svo finnur hann kaldan súg fara um andlit sitt, óljós hræðsla nær tökum á honum; hann horfir út í myrkrið og hvíslar:
Hver ert þú?
Og holur rómur svarar:
Ekkert, ekkert.
Umbúðalítið er þetta ljóð í tjáningu sinni, en miklu naktara en Skóhljóð; tvær seinustu hendingarnar allt að því ungæðislega dökkar:
Sjá! Þú ert einn og allt er löngu dáið,
og yfir líki heimsins vakir þú.
„Hið eilífa myrkur, sem ekkert ljós getur lýst“ er jafn áleitið vitund skáldsins og það, sem enginn veit hvað er: hið óskýranlega. Kvæðið um veginn minnir á Ekkert. Það fjallar um þá, sem „hugsuðu djarft“ þegar þeir lögðu út í heiminn eftir „gömlum vegi“, sem var „gott að rata“:
Svo héldum við áfram.
Í hópnum var enginn
huglaus né tregur.
Svo námum við staðar:
Það var auðn og myrkur
á allar hliðar, og enginn vegur.
Það getur oft orkað tvímælis hvaða ljóð eru persónulegustu; menn hafa margs konar skilning á innræti skálda eins og annarra. Kristján Karlsson segir í veigamiklum inngangi að Kvæðasafni og greinum eftir Stein:
Steinn Steinarr er skáld fyrstu persónu eintölu. Sú persóna er vitaskuld ekki alltaf né öll hann sjálfur; hún er líka að einhverju leyti persónugervingur samtímans. Til þess að skilja kvæðin er óhjákvæmilegt að átta sig á þeirri persónu, sem hefur tekið sér bústað í þeim. Ef þraut hans virðist vor eigin, kann það að stafa að nokkru leyti af því, hún sé alveg sérstaklega vandi nútímamannsins.
Í Ljóðum segir Sjálfsmynd okkur ef til vill margt um Stein sjálfan. Upphafið er þannig:
Ég málaði andlit á vegg
í afskekktu húsi.
Það var andlit hins þreytta og sjúka
og einmana manns.
Ljóðið endar á þessum línum:
Það var andlit mín sjálfs,
en þið sáuð það aldrei,
því ég málaði yfir það.
Í þessu er bæði fólgið ásökun og flótti. Í öðru ljóði, sem nefnist Flóttinn, er skáldið á flóttanum. En því er veitt eftirför, það heyrir rödd úr fjarska:
Ég er lífið sjálft. Og þú kemst ekki undan.
Ég elti þig.
Götuvísa lýsir einnig hinum einmana manni, en í því er meiri kuldi en í Sjálfsmynd og Flóttanum, líkt og skáldið storki hinni dapurlegu tilveru. Leiksýning á heima með þessum ljóðum, bæði að efni og formi; þau eru eins og hugleiftur, bygging þeirra fastmótuð í sveigjanleik sínum:
Hin mikla leiksýning
var loks á enda.
Eins og logandi blys
hafði leikur minn risið
í hamslausri gleði
og friðlausri kvöl,
unz hann féll á ný
í skoplegri auðmýkt
til upphafs síns.
Það var lífið sjálft,
það var leikur minn.
Og ég leit fram í salinn
og bjóst við stjórnlausum fögnuði
fólksins.
En þar var enginn.
Og annarleg kyrrð hvíldi yfir
auðum bekkjunum.
(Leiksýning)
Frá þessu ljóði, sem minnir á draum, gæti ferðin legið að kvæði eins og Borg, sem á ættingja í fyrstu bók skáldsins:
Ó, þú sem geymir öll mín gleymdu spor
og grófst í duftið þjáning mína og sorg.
Ég er þitt barn, þitt barn. Og nú er vor,
sem baðar regni og sól þín stræti og torg.
Og velktir, þöglir veðurbarðir menn
velta af sér drungans fargi og hlæja á ný
ugglausum hlátri. Sólskin þitt mun senn
sigra til fulls þinn storm og veðragný.
Og samt er einn, sem ögrar vorsins mynd
og enn ber dauðans svip á þínum veg,
svo ótvírætt í ætt við þína synd,
sem enginn veit. Ó, borg mín, það er ég.
Í Vöggugjöf, sem er ort til barns, segir:
Sjá! Ég gef þér tryggt og trúfast
tilgangsleysið: Lífið sjálft!
Þessu tilgangsleysi hefur Steinn játast í Ljóðum. Hann veit að áfram er siglt „í auðn og nótt“, og bókinni lýkur á Dimmum hlátri, kaldhæðniálegum óði um hinn eilífa mann „án takmarks og tilgangs“. Nokkur önnur ljóð, sem hér hafa ekki verið nefnd, eins og til að mynda Vögguvísa, Marmari, Landslag, Blóm, og Barn boða mikil tíðindi um framtíð skáldsins Steins Steinarr; þau eru undan fari margs þess óvenjulegasta, sem frá honum hefur komið. Myndvísi þeirra og hin rammgerða formbygging eru aðal kostir þeirra, heimur þeirra svo einkennandi að þau víkja ekki úr huga þess, sem einhvern tíma hefur numið galdur þeirra. Seinni bækur Steins koma okkur í kynni við mörg ljóð af sama tagi, og mun ég síðar í þessari umræðu minni um Stein, freistast til að skýra einkenni þeirra nánar. Áður en kemur að næstu bókum Steins, langar mig til að geta lítillega eins ljóðs úr Ljóðum. Það er Vor, sem segja má að hafi nokkra sérstöðu í skáldskap Steins. Það er að vísu skylt ljóðunum, sem ég nefndi hér á undan, en sjaldan fellur mál jafn vel að mynd hjá Steini og í þessu ljóði:
Tveir gulbrúnir fuglar
flugu yfir bláhvíta auðnina.
Tvö örlitil titrandi blóm
teygðu rauðgul höfuð sín
upp úr svartri moldinni.
Tvö fölleit, fátækleg börn
leiddust út hrjóstruga ströndina
og hvísluðu í feiminni undrun
út í flöktandi Ijósið:
Vor, vor!
Einhver segir líklega: Þetta er málverk. Já, rétt er það, gæti svarið verið, mikilfenglegusitu málverk eru líka oft bókmenntir. Hver er þess umkominn að segja til um takmörk listarinnar? Er ekki fögnuðurinn það sem mestu máli skiptir, sú hamingja, sem návist sannrar listar vekur?
Jóhann Hjálmarsson
Jóhann Hjálmarsson er fæddur 2. júlí 1939 í Reykjavík. Hann var bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins frá 1966 og leiklistargagnrýnandi sama dagblaðs 1967 til 1988. Jóhann hafði umsjón með bókmenntaþáttum á RÚV en frá 1990 var hann bókmenntagagnrýnandi að aðalstarfi þar til hann lét af störfum hjá Morgunblaðinu sumarið 2006. Jóhann hefur gefið út fjölda ljóðabóka og kom fyrsta bókin, Aungull í tímann, út árið 1956. Ljóð Jóhanns hafa verið þýdd á mörg tungumál og birst í safnritum víðs vegar um heiminn. Ljóðabókin Hljóðleikar (2000) var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2003. Jóhann hefur einnig þýtt ljóð fjölmargra erlendra höfunda.