Um skáldskap Steins
Í ævi Steins Steinarr persónugerast á öfgakenndan hátt samfélagslegar og hugmyndalegar umbreytingar íslensks samfélags á fyrri helmingi 20. aldar. Hann var kominn af bláfátæku bændafólki, en var undir lok ævi sinnar talinn helsta skáld módernismans hér á landi. Hann var í fararbroddi þeirra sem ruddu nútímanum braut í íslenskri ljóðagerð um miðja 20. öld en orti einnig í hefðbundnu formi. Steinn var baráttuskáld, hann braust til mennta og tókst ýmist á við fjandsamlega eða vinsamlega, en oft óskiljanlega, tilveru. Ljóð hans endurspegla pólitíska, trúarlega og tilvistarlega baráttu, sjónarhornið er sjálfhverft og niðurstaðan oft óræð. Ljóð Steins teljast nú sígild og mikilvægur þáttur í íslenskri bókmenntasögu. Sumir telja hann hafa verið undir áhrifum frá T.S. Eliot, einkum The Waste Land. Aðrir nefna áhrif frá súrrealisma.
Tíminn og vatnið
Tíminn og vatnið fól í sér stökkbreytingu í íslenskri ljóðlist og hafði víðtæk og varanleg áhrif. Ljóðin minna á abstraktmyndir, línur, liti og form en ekki hlutveruleika. Hvorki bölsýni né heimshryggð í klassískum skilningi vakir fyrir skáldinu í þessum ljóðum, miklu fremur tómleiki sem túlkaður er á æðrulausan hátt. Sjálfur sagði Steinn í miðnætursamtali við Matthías Johannessen að Tíminn og vatnið væri mjög misskilin eða óskilin bók. Hann hafi upphaflega hugsað þennan ljóðaflokk sem texta að ballett í nánum tengslum við ákveðnar helgisagnir og þjóðsögur. Þetta virðist enginn hafa gert sér ljóst og sennilega ekki heldur hann sjálfur.