Skáld lýðsins eða sjálfsins?
eftir Ástráð Eysteinsson – Birtist í Aldarminning Steins Steinarr — Lesbók Morgunblaðsins 2008
Orðaslóðir Steins Steinars liggja víða meðal þeirra sem numið hafa og notað íslenskt mál. Marga rekur vafalaust minni til fyrstu kynna af ljóðlínum skáldsins. Í mínu tilviki voru það líklega „Tindátarnir“ í bók sem mér var gefin með myndum Nínu Tryggvadóttur og texta Steins: „Það gerast stundum ævintýri / eftirtektarverð. / Eitt sinn voru tíu milljón / tindátar á ferð.“ Ég minnist þess einnig að kennari í þorpinu heima hélt upp á línurnar „Á Valhúsahæðinni / er verið að krossfesta mann“ og svo framvegis. Þessi gráglettna kímni lagðist strax vel í mann (þótt næmi hafi skort á broddinn í ljóðinu) og hið sama á við um það lunkna spaug sem felst í yfirlýsingunni: „Að sigra heiminn eins og að spila á spil“, sem mig minnir að hafa verið í skólaljóðabókinni bláu. Svei mér ef þar voru ekki líka frægustu línur skáldsins: „Tíminn er eins og vatnið, / og vatnið er kalt og djúpt / eins og vitund mín sjálfs.“ Vafalaust hafa þessar línur sokkið í vitundardjúp okkar skólabarnanna, þótt mig minni að við höfum verið hálfráðvillt andspænis þessari eðlisfræði og talið að þetta hlyti líka að vera einhverskonar spaug: er skáldið að spila með okkur?
Síðar meir áttu línurnar eftir að hlaðast upp, og það held ég sé reynsla margra. Uppreisnargjart ákall ungskáldsins: „Ég heilsa’ yður, öreiga æska“; ávarp borgarskáldsins: „Ó, þú, sem geymir öll mín gleymdu spor“; og línur sem löngum hafa borist til manns tónsettar og sungnar: „Ég byggði mér hús við hafið, / og hafið sagði: Ó Key“. Steinn er auðvitað mörg skáld í einum munni. Skáld hverfulleikans: „Ég var lítið barn / og ég lék mér við ströndina“; heimspekilegt skáld: „Ég geng í hring / í kringum allt sem er“; dulspekiskáld: „Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“; skáld tilvistarspekinnar: „Hæ! / Ég er maðurinn, / hinn eilífi maður / án takmarks og tilgangs.“ Og er Steinn ekki líka skáld sálrýninnar? „Ég svaf / ég svaf / í óvitund allra.“ Skyldi Steinn ekki þannig hafa einna fyrstur „þýtt“ réttilega á íslensku víðfrægt hugtak Freuds? „Óvitund“, sem yfirleitt er nefnd undirvitund eða dulvitund á íslensku, tekur til þess óminnis sem veldur því að veröldin er „íbjúgari“ en maður annars ætlar (svo gripið sé til eins hinna sérkennilegu eftirlætisorða Steins).
Og eftir því sem maður kynntist skáldskap Steins betur bættust við tónar í kímninni og kaldhæðninni: „Vort líf, / vort líf, Jón Pálsson, / er líkt og nóta fölsk.“ Svo mælir skáldið sem segir á öðrum stað: „Mitt stolt er að vera sonur þessarar þjóðar. / En þjóðin er ekki líkt því eins stolt af mér.“ En Steinn orti líka um blóm sem vex fyrir vestan „og veit ekki, að ég er til“, og hann á til tóna djúprar einlægni, sem meðal annars má finna ef maður kafar í Tímann og vatnið. Þar eru einar fegurstu línur tungumálsins um það að trega einhvern kærkominn sem er fjarri eða horfinn: „Og fjarlægð þín sefur / í faðmi mínum / í fyrsta sinn.“
Steinn hefur einnig verið nefndur trúarskáld. Kristján Karlsson lýkur kunnum formála sínum að ritsafni Steins með þessum orðum: „Trúaður eða trúlaus er hann í flokki hinna mestu trúarskálda vorra“ — en þessi niðurstaða skilur mann raunar eftir með vangaveltur um að kannski sé erfitt að sigla framhjá „trú“ í svo víðum skilningi. Og Steinn er líka skáld íhyglinnar: „Í kynlegum skugga / hjá krotaðri súlu / stóð ég kyrr og þögull / í dagsins áfjáðu önn“, eins og segir í ljóðinu „The National Bank of Iceland“, sem kannski er við hæfi að vísa til um þessar mundir.
En er svo komið að þjóðin sé stolt af þessu skáldi sínu? Hefur hún umfaðmað Stein sem skáld lýðs og láðs? Er jafnvel hægt að kalla hann þjóðskáld? Hér verður einungis staldrað agnarstund við þá umræðu sem þetta hugtak gæti hrundið af stað. Hannes Pétursson ræðir í bókinni Kvæðafylgsni (1979) um sögu orðsins „þjóðskáld“ sem táknaði í eina tíð „höfuðskáld, afburðaskáld“ — með hliðstæðum merkingarþunga og orðið „þjóðráð“. Síðar festist það, eins og Hannes segir, við „þá orðlistarmenn sem áhrifaríkast felldu í bragarskorður þjóðernisleg markmið Íslendinga og þjóðernislegar kenndir sem bærðust með almenningi“. Þetta voru auðvitað Bjarni, Jónas, Steingrímur, Matthías, Hannes Hafstein og Einar Ben — og Davíð Stefánsson hefur stundum fengið að fljóta með (ekki veit ég hvort Hulda hefur fengið aukaaðild að þessum mektuga karlaklúbbi). Hannes Pétursson telur að orðið „þjóðskáld“ hafi með tímanum fengið þriðju merkinguna sem „dregur dám af fremur silkihúfulegri hugmynd Englendinga um lárviðarskáld, þannig að uppi er á meðal vor eitt þjóðskáld í senn, gráhærður andans höfðingi sem yrkir við og við tyllidagakvæði handa Hinu opinbera“ (Kvæðafylgsni, bls. 7–8).
Ekki hafa menn þó viljað láta þetta hugtak með öllu fyrir róða og það hefur í seinni tíð verið haft við hönd í umræðu um m.a. Hannes Pétursson sjálfan og einnig um sagnaskáldið Halldór Laxness. Líklega er þá ekki síst treyst á hina upprunalegu merkingu orðsins, þó svo að þjóðernisstrengurinn sé einnig innan seilingar, og sennilega silkihúfan líka, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Er þá Guðbergur Bergsson ekki þjóðskáld? Kannski á sérstökum bekk með Steini Steinarr og Þórbergi Þórðarsyni?
Látum hér liggja milli hluta að nútímaskáld kunna að hafa illan bifur á hugtakinu „þjóðskáld“; sjá kannski fyrst og fremst í því silkihúfudúsk sem minnir þá á hirðfífl. Ég tel hinsvegar líklegt að margir hiki við að nefna Stein þjóðskáld sökum þess að hann yrki ekki með nógu víðtækum eða gagngerum hætti um landið, íbúa þess og sögu. Að þrátt fyrir þá breidd í skáldskap hans, sem vikið var að hér framar, sé hann skáld of takmarkaðs sjónarsviðs. Kristján Karlsson segir í áðurnefndum formála: „Steinn er skáld fyrstu persónu eintölu.“ Ekki er víst að allir skilji þessi orð jafnvíðum skilningi og Kristján sjálfur, sem bætir strax við: „Sú persóna er vitaskuld ekki alltaf né öll hann sjálfur; hún er líka að einhverju leyti persónugervingur samtímans“ (formáli að Kvæðasafni og greinum, 1964).
Þessi eintala ummyndast stöðugt í tvítölu og fleirtölu. Um eintöluna reynist liggja sá stígur, og jafnvel þjóðbraut eða veraldarvegur, sem öðrum býðst að feta um skáldskap Steins.
Kvæðið „Stökur“, sem birtist með þessari grein, er úr smiðju skálds sem alist hefur upp við hið hefðbundna bragog rímform og kann á því skilvirk tök. Í því samhengi, sem og í ljósi umræðu hér að framan, verður hið ófullkomna rím „lands“ og „manns“ harla merkingarbært — það þarf linmæli til að láta þetta ganga vel upp. Einnig vekur athygli hvernig Steinn „þyngir“ aðra línuna í báðum erindunum: „myrkum töfrum slungin örlög“ og „bar frá strönd þíns lands“; þær verða seigfljótandi og hindra að við rennum áreynslulaust gegnum erindin. Þetta gerir Steinn víðar og á ýmsan hátt, t.d. í Tímanum og vatninu, þar sem hann lætur brunandi póesíu hiksta í línum eins og þessum: „Og tunglskin hverfleikans / tollir við hendur mínar / eins og límkenndur vökvi / verðandinnar.“
Þessi vísvituðu og innbyggðu þyngsl eða „veikleiki“ í hinu hefðbundna ljóðformi „Staka“ tengist á sinn hátt þeim takmörkunum mannlegrar getu sem er um ort, hér raunar í annarri persónu eintölu. Takmörkunum sem samt koma ýmsu til leiðar: „Þín visna hönd, sem vann þér ei til matar, / skal velta þungum steini úr annars braut“, og allt sem glatast en lifði samt dulið og „þú leizt það seinna í hjarta annars manns“. Öðrum þræði er hér ort um þá gjöf sem ljóð eða viðlíka sköpun verður öðrum sem þiggja. Ljóðmælandinn gæti sjálfur verið slíkur þiggjandi, sem nýtur góðs af vanfærni viðmælandans og öllu sem honum glatast en verður lausnarorð á öðrum stað. En viðmælandinn og ljóðmælandinn gætu líka verið einn og sami maðurinn. Samkvæmt því er þetta ljóð einnig innri samræða sem snýst um það að vinna bug á veikleikum sínum, sigrast á þeim vanmætti sem kann að plaga mann, hið ytra eða innra, og snúa honum í styrk, ummynda hana í afl sem greiðir manni götu og glæðir eld í hjarta.
Svipaða „hreyfingu“ þykist ég sjá í ljóðinu „Óttusöng“, sem er úr Ferð án fyrirheits (1942) og einnig er endurbirt hér. Þar er að sjá sem skáldið snúi frá hinu hefðbundna ljóðformi — eiginlega í miðju ljóði — en við nánari athugun sést að það er fyrst og fremst rímið sem hér er látið lönd og leið. Eins og átti eftir að tíðkast í mörgum módernískum ljóðum sem ort voru af íslenskum lykilskáldum um og eftir miðja 20. öld er regluleg hrynjandi í samspili við ljóðstafi sem beitt er frjálslega en markvisst.
Hér er það hin djúpa nótt, drekkingarhylur sýnilegrar birtu, sem reynist eiga sitt eigið skin og fögnuð. Hún býr yfir ljósi og gleði sem hvergi eru til, að minnsta kosti ekki í þeim skilningi sem lýðum er ljósastur. En eru samt til.
Ástráður Eysteinsson
Ástráður Eysteinsson er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur starfað við Háskóla Íslands um árabil, fyrst sem stundakennari í almennri bókmenntafræði og ensku, síðan sem lektor og dósent í almennri bókmenntafræði og frá 1994 sem prófessor. Á námsárum sínum erlendis birti Ástráður fræðigreinar í íslenskum tímaritum og vann jafnframt að bókmenntaþýðingum á íslensku. Þeim hefur hann sinnt allar götur síðan og m.a. þýtt drjúgan hluta af höfundarverki Franz Kafka í samstarfi við Eystein Þorvaldsson.
Stökur
Og líf hvers manns, hve miklu sem hann glatar,
svo myrkum töfrum slungin örlög hlaut.
Þín visna hönd, sem vann þér ei til matar,
skal velta þungum steini úr annars braut.
Þín ást, þinn draumur, allt sem gleymsku huldist
og útsog tímans bar frá strönd þíns lands,
það lifði samt, hve lengi sem það duldist,
þú leizt það seinna í hjarta annars manns.
Óttusöngur
Hin djúpa nótt, sem drekkir augans ljósi
og strýkur burtu bros af rauðri vör,
á sjálf sitt eigið skin
og eigin fögnuð:
Bjarma þess ljóss, sem verður aldrei kveikt,
bros þeirrar gleði, sem er hvergi til.
Steinn Steinarr