Kristín Þórarinsdóttir

Kristín Þórarinsdóttir er systurdóttir Ásthildar K. Björnsdóttur, eiginkonu Steins Steinarr. Hún lauk BA námi í íslensku frá Háskóla Íslands vorið 2005 með ritgerð um Tímann og vatnið. Starfaði sem fjármálastjóri Fjölbrautaskóla Suðurlands í tæpan aldarfjórðung, en hætti störfum þar vorið 2011.

Siesta

Í dagsins önnum dreymdi mig
þinn djúpa frið, og svo varð nótt.
Ég sagði í hljóði: Sofðu rótt,
þeim svefni enginn rænir þig.

En samt var nafn þitt nálægt mér
og nóttin full af söngvaklið
svo oft, og þetta auða svið
bar ætíð svip af þér.

Og þungur gnýr sem hrynji höf
mitt hjarta lýstur enn eitt sinn:
Mín hljóða sorg og hlátur þinn,
sem hlutu sömu gröf.

Þetta ljóð Steins Steinarr er gott dæmi um þá snilld hans að segja mikið í fáum orðum og fanga með því hug og hjörtu lesenda.
Ástæða þess að ég hef lengi haldið upp á þetta litla ljóð er brotakennd saga á bak við ljóðið sem sjálfsagt hefur ekki verið mörgum kunn. Ljóðið birtist í ljóðabókinni Spor í sandi sem kom út 1940. Það er ort eftir fyrri sambandsslit Steins og Ásthildar Björnsdóttur, móðursystur minnar, sem síðar varð eiginkona hans. Í því ljósi skýrist heiti ljóðsins að mínum dómi. Ásthildur bjó ásamt systrum sínum tveim, Ingibjörgu og Þorbjörgu í lítilli risíbúð í Ingólfsstræti sem vinir þeirra systra kölluðu „Skjólið“ því þar áttu athvarf aðkomnir vinir og skólabræður og þar hittust Steinn og Ásthildur fyrst. Atvikin höguðu því svo, að Ásthildur sleit sambandi við Stein og erfiðir tímar fóru í hönd hjá þeim báðum. Ljóðið orti Steinn til Ásthildar eftir að hann fór vestur á Flateyri þar sem hann vann um tíma í síldarverksmiðjunni á Sólbakka. Allt myndmál ljóðsins tengist veru hans þar og „Þetta auða svið“ lýsir vel aðstæðum hans og einsemd á Flateyri.
Í fórum móður minnar var lengi bréf til hennar frá Steini sem hún brenndi því miður með öðrum gömlum bréfum áður en hún kvaddi. Það eina sem ég sá af þessu bréfi voru upphafsorð þess sem gleymast mér ekki: „Guð minn góður hvað það er gaman að þú skulir vera til“. Ég fékk ekki að lesa lengra. Seinna, þegar ég var að skrifa ritgerð um Tímann og vatnið í ljósi lífshlaups Steins rifjaðist upp fyrir mér þetta gamla bréf sem farið var forgörðum. Þá var Þorbjörg systir Ásthildar orðin ein til frásagnar. Ég spurði hana hvort hún hefði vitað um þetta bréf eða efni þess. Hún sagðist ekki hafa haft hugmynd um þetta bréf frá Steini en vissi að móðir mín hafði skrifaði honum þegar hann var á Sólbakka því hún fann til með honum eftir skilnaðinn við Ásthildi.
Ætla má því að Steinn hafi verið að svara bréfi hennar með bréfinu með þessari fallegu byrjun.
Vegna þessara vísbendinga um tilurð ljóðsins hefur það átt sérstakan sess í hug mér. En auðvitað les hver og einn ljóðið eins og það kemur til hans og til þess þarf enga vitneskju aðra en ljóðið sjálft.